Þremur árum eftir sniðgöngu 1939 unnu hinir sniðgengnu stórsigur.

Hve lengi getur ástand sniðgöngu gegn einum flokki á þingi staðið? Um alla framtíð eða í stuttan tíma? 

Í ljósi þessara spurninga getur verið áhugavert að íhuga, hvernig málin skipuðust eftir þorri þingmanna, 46 af 49, hófu að sniðganga þingmenn sem þar sátu og voru þá komir í flokk sem bar heitið Sameiningarflokkur alþýðu - sósíalistaflokkurinn.

Kommúnistaflokkur Íslands þótt afar hallur undir Stalín og kommúnistastjórnina í Moskvu. 

Hann vann mjög í samræmi við "línuna frá Kreml" á meðan hann var við lýði frá 1930 til 1938 og fylgið var eins stafs tala í prósentum þessi ár. 

Í kosningunum 1937 fékk flokkurinn þrjá þingmenn kosna. Stríðshætta fór þá vaxandi í Evrópu og Stalín, sem áður hafði gefið þá línu að sósíaldemókratar væru svikarar við málstað alþýðunnar og því óalandi og óferjandi, sneri við blaðinu og hvatti til samstöðu með vinstri flokkum gegn uppgangi fasista og nasista í Evrópu. 

1938 leiddi þetta til þess hér á landi, að Alþýðuflokkurinn klofnaði og vinstri armur hans undir forystu Héðins Valdimarssonar sameinaðist Kommúnistaflokknum í nýjum flokki, "Sameiningarflokki alþýðu - sósíalistaflokknum." 

Stalín gerði að vísu griðasáttmála við Hitler í ágúst 1939, en reyndi samt að tryggja stöðu sína á sínu áhrifasvæði, með því að seilast til valda í þeim ríkjum, sem á því svæði voru. 

Finnar höfnuðu kröfum Rússa, sem beindust meðal annars að því að færa landamærin næst Leningrad til svo að hernaðarleg staða Rússa styrktist og þá réðist rússneskur her á Finna til þess að knýja fram kröfurnar. 

Gömlu kommarnir réttlættu þessa árás, en það varð til þess að Héðinn Valdimarsson sleit sig lausan úr samstarfinu. 

Kommaþingmennirnir þrír fengu miklar ákúrur fyrir þjónkun sína við Stalín og var staða þeirra vafalaust afar bág hjá þorra almennings þótt engar væru skoðanakannanir þá til að sannreyna það. 

En tíminn er oft fljótur að líða í pólitík. 

Í júní 1941 rauf Hitler griðasamninginn við Stalín, öxulríkin, að Japönum frátöldum, réðust á Sovétríkin og allt hið pólitíska landlag riðlaðist. 

Bretar og síðar Bandaríkjamenn í árslok, urðu nánir bandamenn Sovétmanna og þess gætti um allan heim. 

Hér heima gerðu andstæðingar Framsóknarmanna bandalag um að breyta kjördæmaskipaninni og haldnar voru tvennar kosingar 1942. 

Í þeim varð Sósíalistaflokkurinn stærri en Alþýðuflokkurinn og "Finnagaldurinn" frá 1939 var grafinn og gleymdur. 

1944 myndaði Ólafur Thors síðan Nýsköpunarstjórn Sjálfstæðisflokks, Sósíalistaflokks og Alþýðuflokks og endurreisn "gömlu komanna" varð þar með fullkomnuð. 

Þó ekki lengi, því að síðla árs 1946 slitnaði upp úr samstarfinu, og enn voru það utanríkismálin, í þetta sinn Kalda stríðið, sem ollu straumhvörfunum. 

ö

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Sögðu virðingu Alþingis vera misboðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband