"Guantanamoklúbburinn."

Fyrir ellefu árum uppgötvaði síðuhafi að hér á landi væri til hópur fólks, sem ætti það sameignlegt að hafa verið rænt svefni í allt að þrjá mánuði samfellt. 

Ástæðan er svonefndur lifrarbrestur eða stíflugula, sem orsakast af því, að lifrin missir getu sína til úrvinnslu næringar, og þessi "brestur" stafar af völdum ofnæmis fyrir ákveðnum tegundum sýklayfja. 

Allir líkamsvefir sjúklingsins verða gulir, meira að segja hvítan í augunum, af völdum óunninna úrgangsefna, sem lifrin ræður ekki við. 

Það efni, sem lifrin ræður verst við að vinna úr, er fita, og á meðan á þessu ástandi stendur, verður sjúklingurinn að hætta allri neyslu fitu. 

Það eitt út af fyrir sig, að neyta engrar fitu, hefur síðan afleiðingar, því að fita í fæðu er nauðsynleg. 

Sjúklingurinn horast og missir mátt. 

Hér á landi er hópur fólks, sem hefur gengið í gegnum þá lífsreynslu að geta ekki sofið svo gagn sé að í allt að þremur mánuðum vegna ofsakláðans sem fylgir lifrarbrestinum. 

Engin notkun verkjalyfja eða deyfilyfja stoðar til þess að lina úr þjáningunum vegna kláðans, því að lifrin þolir ekki lyfin. 

Enda myndi þar að auki myndast hætta á að til yrði óviðráðanleg lyfjafíkn. 

Meðan á þessu ástandi stendur er sjúklingurinn í móki og óráði á köflum og missir stjórn á hugsunum sínum án þess þó að geta sofið. 

Eina leiðin til að slá örlítið á hinn skelfilega og óviðráðanlega kláða er að fara annað hvort í sjóðheitt eða ískalt bað, en í hvorugu baðinu er minnsti möguleiki á að festa neinn svefn af augljósum ástæðum. 

Síðuhafi varð að hvílast í hallandi stól frammi í stofu mestalla þrjá mánuðina, því að hann hélst ekki við liggjandi í rúmi.  

Lyfið, sem hann hafði ofnæmi fyrir, var hið sterka sýklalyf Augmentin og á meðan á lifrarbrestinum stóð kynntist hann nokkrum einstaklingum, sem höfðu upplifað það sama, og gat fengið hjá þeim góð ráð. 

Gaf Hanna María Karlsdóttir leikkona góð ráð og andlegan styrk í þeim efnum, en við upphaf veikindanna lékum við í söngleiknum Ást í Borgarleikhúsinu og Hanna María var á undan læknunum að koma með rétta sjúkdómsgreiningu. 

Lokastig svona lifrarbrests, ef hann læknast ekki, er að vera fluttur á geðveikrahæli. 

Í lok þriggja mánaða hjá síðuhafa hafði hann lést um 16 kíló og misst 40% af blóði sínu. 

Og var nokkrum skondnum sögum ríkari af fáránlegu rugli í óráði ofsakláðans. 

Vitað er að í illræmdum fangelsum erlendis er það "vinsæl" pyntingaraðferð að ræna fangana svefni þangað til þeir missa vitið að lokum og játa hvað sem er. Þess vegna stofnaði síðuhafi óformlega Íslandsdeild alþjóðlegs klúbbs lifrarbrestssjúklinga sem heitir í huga hans Guantanamoklúbburinn. 

Einn í klubbnum fékk síðar lifrarkrabba, sem tók hann. Var kannski í áhættuhópi aukaverkana. 

Elsti meðlimur klúbbsins sagðist hafa verið örfáum dögum frá því að verða fluttur á Klepp þegar loksins bráði af honum á síðustu stundu. 

Fyrsta skiptið sem sjúklingurinn getur sofnað í þrjár klukkstundir líða seint úr minni, og ekki síður þegar tvisvar sinnum þrjár stundir renna upp nokkrum dögum síðar. 

En ógleymanlegastur verður júnídagurinn 2008 þegar fyrsta nóttin með þrisvar sinnum þriggja stunda djúpan svefni var að baki og hægt var að aka þjáningarlaust í sumaryl og logni undir heiðskírum himni á litla opna blæjubílnum. 

Slík augnablik opna augun fyrir því hve mikils virði hver ævidagur okkar er, og hvað lítið getur þurft til að njóta þess að vera til og kunna að þakka fyrir hverja ævistund. 

 


mbl.is Fólk með kæfisvefn sefur „ekkert“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heyrðu. Þó það sé nú annað mál. Ég er búinn að finna hann Steina Briem. Hann er hjá honum ómari Geirs. Viltu ekki fá hann aftur? Ja, þú segir bara til.undecided

Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 12.2.2019 kl. 09:41

2 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Góð grein en örugglega leið lífsreynsla.

Svefnparturinn er viðurstyggilegur og þar lenti ég í atviki sem ég sjálfur náði mér úr, eftir að stóla á svefnpillur í nokkra mánuði.

Sleppa öllu próteinu eftir c. 14.00. Skilja eftir pláss eftir kvöldmáltí' og enda máltíðir 21:00 til 22:öö með einum bolla af Honneynut eða venjulegt Cherrios með ýmist jarðaberja AB smá sætt eða Mjólk ásamt meðal stórum banana. (Ekki kornflakes) Hafa samt smá tillfinningu fyrir að maður sé saddur og um 24 er þetta orðið af besta svefnmeðali.

Þetta eru létt kolvetni sem maginn ræður vel við.

Ég næ venjulega djúpa svefninum en ef ég vakna upp þá sofna ég fljótt aftur.

Kv V

Valdimar Samúelsson, 12.2.2019 kl. 17:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband