Marktæk stórminnkun.

Dönsku herforingjaráðskortin voru fágætt afrek á sínum tíma, hugsanlega einnig á heimsvísu. 

Þegar litið er á nýjustu gervitunglamyndina af Snæfellsjökli og hún borin saman við aldar gamalt kort Dananna, er hin mikli stærðarmunur allt of mikill til þess að hægt sé að véfengja það að jöklarnir fari minnkandi.Snæfellsj. NASA

Hins vegar er harðsnúinn hópur manna með Bandaríkjaforseta sem átrúnaðargoð, sem lætur sér ekki nægja að þræta fyrir það að menn eigi með starfsemi sinni á jörðinni þátt í breytingu lofthjúps og sjávar, heldur þræta þessir menn líka fyrir það að loftslag á jörðinni fari kólnandi, heldur sé um hið gagnstæða að ræða. 

Af þessum sökum hefur síðuhafi stundum notað heitið kuldatrúarmenn í þessu sambandi. 

Einn þeirra gerði sér lítið fyrir og mældi sjálfur íslensku jöklana að sögn; hefur fullyrt að þeir fari hækkandi og stækkandi og að Grænlandsjökull hækki og stækki líka. 

Skoðanabróðir hans hefur skrifað pistil þar sem hann sakar þá um lygar, sem haldi því fram að Okjökull hafi horfið eftir að hafa sést frá hluta hringvegarins. Dánarvottorðið hafi verið hugarburður einn og lygar. 

Þennan áburð má Oddur Sigurðsson jarðfræðingur, sem hefur fylgst náið og samfellt með íslensku jöklunu í marga áratugi og mælt þá ár frá ári, þola og er dæmdur ómerkingur og falsari í bloggpistlinum. 

Að ekki sé minnst á aðra jöklafræðinga, svo sem Helga Björnsson, sem hefur að baki ævistarf í þessu efni. 

Það er töff að fara að dæmi Bandaríkjaforseta, sem byrjaði feril sinn í Hvíta húsinu með því að dæma vísindasamfélagið óhæft og mæla með því að óhæfir vísindamenn yrðu reknir, en aðrir "alvöru" vísindamenn ráðnir í staðinn, sem kæmust að "réttum" niðurstöðum. 

Síðuhafi er nógu gamall til að muna eftir því að á góðviðrisdögum fyrr á árum sást Okjökull af þjóðveginum á stórum kafla milli Hrútafjarðar og Norðurárdals, og sást aftur á öðrum kafla norðan Borgarness. 

En nú eru slíkir vitnisburðir kallaðar lygar af kuldatrúarmönnum. 


mbl.is Snæfellsjökull hefur rýrnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Uppnefnin "kuldatrúarmenn" og "loftslagsafneitunarsinnar" eru strámenn búnir til af söfnuðinum sem trúir á veðurfar af mannavöldum.

Enginn afneitar því að jöklar fari minnkandi, nema kannski örfáir sérvitringar sem trúa því sjálfsagt líka að jörðin sé flöt og heimurinn hafi verið skapaður á sex dögum fyrir rúmum 4000 árum síðan.

Margt skynsamt fólk er meðvitað um að uppi á himninum birtist reglulega stór gul kúla sem geislar frá sér gríðarlegri orku, sem lofthjúpur jarðar verður fyrir áhrifum af og það hefur því áhrif á andrúmsloftið. Orkan sem þannig skellur á lofthjúp jarðar á klukkustund er meiri en öll orkunotkun mannkyns á heilu ári. Þetta eru vísindalegar staðreyndir sem söfnuður manngerðs veðurfars er í fullkominni afneitun um.

Hvort er hættulegra? Veðurfarsbreytingar sem slíkar, eða að mannkyn greini orsakir og eðli þeirra rangt og eyði því kröftum sínum í röng viðbrögð við þeim og verði þar af leiðandi illa eða óundirbúið fyrir óhjákvæmilegar afleiðingar þeirra? Ef þú stendur við rætur fjallshlíðar og stórt snjóflóð æðir niður hlíðina í átt að þér, hvort er þá skynsamlegra að hefja byggingu snjóflóðavarnarmannvirkja, eða reyna strax að forða þér úr stefnu flóðsins og vera viðbúinn að synda með því ef það heppnast ekki?

Að hafa efasemdir um orsakir veðurfarsbreytinga og viðbrögð við þeim, er ekki það sama og að afneita tilvist þeirra. Nema í hugum þeirra sem trúa í blindni á veðurfar af mannavöldum og afneita öllum öðrum hugsanlegum áhrifaþáttum, þar á meðal sjálfum aflvaka lífs á jörðinni, sólinni.

Guðmundur Ásgeirsson, 11.10.2019 kl. 14:44

2 identicon

Bullukollur, þessi Guðmundur Ásgeirsson. Laganemi!

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 11.10.2019 kl. 15:00

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Takk fyrir málefnalegt framlag til umræðunnar, Haukur.

Guðmundur Ásgeirsson, 11.10.2019 kl. 15:09

4 Smámynd: Hallgrímur Hrafn Gíslason

Nú hefur líklega verið hlýrra á jörðinni fyrir og nokkurhundruð ár eftir Kristburð og eins um landnám Íslands og ein 400 ár eftir landnám,Ekki var það af völdum mannkyns eins og nú er boðað þegar hitinn er að nálgast landnámshitann sem var kaldari en hitinn um Kristburð.

Hallgrímur Hrafn Gíslason, 11.10.2019 kl. 16:44

5 identicon

Málefnaleg umræða um nokkuð sem laganeminn hefur ekkert vit á? Nei, takk. Gæti hinsvegar sent þér slóðir (links) í alvöru greinar um málið. Á þýsku og ensku. 

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 11.10.2019 kl. 16:44

6 identicon

Er þetta ekki það sem kallað er að "rífast um keisarans skegg"?

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 11.10.2019 kl. 17:20

7 identicon

Fyrir fólk sem heldur að jöklar og veður taki ekki breytingum nema maðurinn eigi þar stóran hlut að máli er þetta hræðileg uppgötvun. Það fólk á samúð mína alla. Væntanlega vill það nú að við fórnum einhverju til að friða veðurguðina eins og færustu sérfræðingar hafa ráðlagt við þessar aðstæður í þúsundir ára.

Vagn (IP-tala skráð) 13.10.2019 kl. 01:16

8 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það er nú einu sinni þannig, að það hefur verið sýnt fram á að útblástur af völdum manna hefur veruleg áhrif á hitastig á jörðinni. Vísindalegu rökin eru ekki alveg einföld og menn þurfa að kynna sér þetta vel til að skilja það.

Hins vegar er stór hópur einstaklinga sem virðast hafa gert það að markmiði sínu í lífinu að reyna að gera þessar niðurstöður ótrúverðugar. Þeir höfða til fólks sem er ekki vel að sér og hefur lítinn áhuga á að kynna sér staðreyndir. Slíka aðila er auðvelt að sannfæra með allskyns falsrökum og áróðri.

Þorsteinn Siglaugsson, 13.10.2019 kl. 10:23

9 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Haukur Kristinsson.

Ég veit ekki hvort við þekkjumst eða hvaðan þú hefur þá vitneskju að ég sé laganemi (sem er alveg rétt). Þess vegna veit ég ekki hvort það er það eina sem þú veist um mig, eða hvort þú kjósir viljandi að undanskilja þá staðreynd um mig að þó ég leggi núna stund á laganám er ég líka kerfisfræðingur með bakgrunn af eðlisfræðibraut og var ávallt sterkur í raungreinum í öllu námi. Ekki að það sé neitt úrslitaatriði um heilbrigða skynsemi, en ég kann að minnsta kosti ágætlega skil á einföldum grundvallaratriðum eins og þeim að sólin geislar í sífellu frá sér gríðarlegri orku sem skellur svo á lofthjúp og segulsviði jarðar og hefur þannig áhrif á jörðina.

Hér er t.d. ágæt síða hjá háskólanum í Calgary þar sem er sýnt með útreikningum hversu mikil orka frá sólinni skellur á jörðinni.

Solar energy to the Earth - Energy Education

Á einni klst. er það meiri orka en allt mannkyn notar á ári.

En Haukur, verður þú ekki að gera sömu kröfur til þín sjálfs og þú gerir til annarra? Vísaðu okkur endilega á traustar heimildir sem hrekja þá staðreynd að gríðarleg orka í formi geislunar frá sólinni skelli sífellt á jörðinni og útskýra um leið hvernig líf getur þrifist á jörðinni án þeirrar orku? Hvaða ferli annað en ljóstillífun viljið þið sólarorku-afneitunarsinnar meina að búi þar að baki?

Guðmundur Ásgeirsson, 13.10.2019 kl. 15:57

10 identicon

Sæll, Guðmundur. Sólarorkuafneitunarsinnar. Hvað áttu eiginlega við? Slíkir vitleysingar eru vonandi ekki til. Þér til fróðleiks; á hverri sekúndu brennir sólin 400 milljón tonnum af vetni (hydrogen)og léttist við það um 1.5 milljón tonn. Sólin væri hinsvegar ekki okkar orkugjafi, mundi ekki skína, gæti ekki einn Up quark breyst í Down quark. En við það breytist róteind (proton) í nifteind (neutron) og kjarnasamruni gerist. Það vill nú svo til að ég er með doktorsgráðu í eðlis-efnafræði (physical-chemistry).

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 13.10.2019 kl. 17:41

11 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Haukur Kristinsson, doktor í eðlis-efnafræði.

Þú semsagt viðurkennir að sólin hafi áhrif á lotfhjúp jarðar?

Eða hvað þýðir þetta síðasta innlegga þitt annars?

Guðmundur Ásgeirsson, 15.10.2019 kl. 01:23

12 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Engin svör Haukur? Hvar eru tenglarnir á heimildirnar sem áttu að hrekja það að sólin hefði áhrif á jörðina? Týndust þeir á flatjörðinni?

Guðmundur Ásgeirsson, 16.10.2019 kl. 00:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband