18.11.2019 | 21:13
Stórt skref í einstæðu landnámi með gæðastimpli Guðs.
Mannkynssagan er morandi af þjóðflutningum og landnámi, þar sem einna hæst ber þjóðflutningana miklu, sem urðu samfara hruni Rómaveldis, og hið víðfeðma landnám hvítra manna í Ameríku og Suður-Afríku.
Þessi tvö landnám skorti þó það, að þau hefðu heilagan gæðastimpil heilla trúarbragða sem væri undirstaða þeirra.
Að því leyti hefur það landnám, sem lesa má um Í Gamla testamentinu, landnám Gyðinga á "fyrirheitna landinu", algera sérstöðu, þegar litið er yfir hina löngu sögu þess.
Gyðingar náðu í árdaga hinu fyrirheitna landi á sitt vald um hríð, en voru síðan reknir þaðan með valdi fyrir næstum tvö þúsund árum.
En áfram lifðu trúarbrögðin og hin sundraða þjóð, sem átti trúarbrögðin sem grundvöll draumsins um "Landið helga", sem Guð hefði lofað þeim.
Zíonistar sóttu því mjög í að flytja til hins forna Gyðingalands á 20. öldinni, sem þá gekk undir heitinu Palestína.
Ein af hugmyndunum, sem fram komu til að sefa landnámsþorsta Zíonista um aldamótin 1900, var að gefa þeim Uganda, en ekkert varð af því.
Eftir hið hrikalega þjóðarmorð á Gyðingum í Seinni heimsstyrjöldinni ríkti alþjóðleg samúð með Gyðingum og vilji til að bæta fyrir það eftir föngum.
Þá ríkti hernaðarástand í Palestínu, þar sem Gyðingar töldu þann tilgang göfugan og Guði þóknanlegan að ná landinu á sitt vald. Svo heilagur tilgangur helgaði flest meðöl, þar á meðal hryðjuverk.
Fulltrúi Sameinuðu þjóðanna, Folke Bernadotte, var drepinn, en Sameinuðu þjóðirnar lögðu blessun sína yfir stofnun Ísraelsríkis, sem stóðst hernaðarárás Araba, sem hófst á fyrsta degi Ísraelsríkis.
Aftur réðust Arabaþjóðir á Ísrael 1967 í svonefndu sex daga stríði, þar sem Ísraelsmenn höfðu betur og hernámu meðal annars Vesturbakka Jórdanár.
Í hönd fór eitt stutt stríð 1973 og ástand, sem var markað mjög af hryðjuverkum Araba.
Í rúm 50 ár hafa Ísraelsmenn beitt hernáminu og fleiri aðferðum til þess að sækja í átt að takmarkinu, sem þeir telja að Guð hafi lofað þeim í árdaga, að ráða algerlega yfir Landinu helga.
Hluta þessa landnáms var lýst nokkuð vel í bandaríska sjónvarpsþættinum 60 mínútum fyrir um aldarfjórðungi, en það felst í því, að þegar arabískur húseigandi fellur frá, ná Ísraelsmenn tangarhaldi á eigninni.
Þetta er seinleg aðferð en það liggur ekkkert á að ná hinu heilaga takmarki.
Um hernumda svæðið frá 1967 hafa risið og rísa enn svonefndar landnemabyggðir Ísraelsmanna, sem miða að sama takmarki.
Reistur hefur verið Apartheid múr á milli þjóðanna tveggja.
Hernámið sjálft og landnámabyggðirnar hafa í meira en hálfa öld verið taldar ólöglegar að alþjóðlögum en ályktanir Sameinuðu þjóðanna þar að lútandi hafa Ísraelsmenn virt að vettugi.
En nú hefur stjórn Trumps veitt Ísraelsmönnum tvö mikilvæg trompspil á hendi: Að Jerúsalem verði viðurkennd höfuðborg Ísraels og að landnemabyggðirnar verði hér eftir álitin í samræmi við alþjóðalög.
Síðari viðurkenningin hlýtur að teljast afar mikilvæg, því að með henni er landnámið í augum Zíonista orðið jafn gilt að Guðs og manna lögum.
Landnemabyggðir fari ekki gegn alþjóðalögum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta er nú reyndar ekki alveg einstakt. Eftir seinni heimsstyrjöldina voru a.m.k. 12 milljónir Þjóðverja reknir úr heimkynnum sínum og nýir íbúar fluttu þangað í staðinn.
T.d. má segja að Pólland hafi verið "flutt" nokkur hundruð km vestur á bóginn. Einnig hófu Rússar "landnám" þar sem áður var Königsberg.
Sumir munu eflaust segja að þetta hafi verið mátulegt á Þjóðverja eftir alla þá glæpi sem þeir höfðu framið í stríðinu. En því fer fjarri að allir hafi verið stríðsglæpamenn sem hraktir voru alslausir frá heimilum sínum.
Ekki má heldur gleyma þeim hundruð þúsundum Gyðinga sem hrökluðust alslausir burt frá Arabalöndum. Gyðingar höfðu búið í Alexandríu frá stofnun þeirrar borgar og í Mesópótamíu frá herleiðingunni til Babílon. Nú er varla nokkur Gyðingur þar lengur.
Brottflæmdir Þjóðverjar og Gyðingar fengu bestu móttökur sem hægt var að veita þeim í nýjum heimkynnum og hafa fest þar rætur.
Fyrir rúmum hundrað árum var Palestína o.fl. nágrannalönd héruð í Sýrlandi, það var þá tyrkneskt skattland. Ekki var brottflæmdum Palestínumönnum, sem þangað komu, þó tekið sem frændum eða samlöndum, heldur voru þeir settir í flóttamannabúðir. Margir hverjir hafa mátt hýrast þar á kostnað SÞ, sumir allt að í 70 ár.
Hörður Þormar (IP-tala skráð) 18.11.2019 kl. 23:56
Takk, Hörður, fyrir þetta, sem alltof sjaldan er fjallað um. Ég hef heyrt töluna 14 milljónir nefndar varðandi fólksflutningana í lok Seinni heimsstyrjaldarinnar.
Ómar Ragnarsson, 19.11.2019 kl. 01:18
Ómar. Þarna ferð þú ekki alveg rétt mneð sögu átaka Ísraela og Araba þegar þú heldur því fram að það hafi verið Arabar sem réðust á Ísraela árið 1948 og 1967. Í báðum tilfellum voru það Ísraelar sem voru árásaraðilinn.
Mjög fljótlega eftir samþykkt Sameinuðu þjóðanna á skiptingu Palestínum eða strax í desember 1947 hófu stofnendur Ísraelsríkis það er hryðjuverkasveitir Síonista eins og Irgun, Stern og Haganah að fara þorp úr þorpi og hrekja arabíska íbúa þar á brott og drepa þá sem neituðu að fara. Þá þegar var þetta stríð hafið. Þegar síðan Arabaríkin urðu aðilar að því stríði við stofnun Ísraels höfðu þessar þjóðernishreinsanir hryðjuverkasveita Síonista sem voru stofnendur Ísraels hrakið um 300.000 Araba á brott frá heimilum sínum og stríðið sem stofnendur Ísraels hófu staðið yfir um það bil hálft ár. Á endanum höfðu hryðjuverkasveitir Síonista og síðan Ísraelsher sölsað undir sig um helming þess lands sem SÞ höfðu ætlað Palestínumönnum og hrakið um 750.000 Araba á brott frá heimilum sínum eða um 85% palestínskra íbúa þess svæðis sem Ísraelar höfðu sölsað undir sig. Þetta hernám er alveg jafn ólöglegt og hernámið í sex daga stríðinu.
Það voru líka Ísraelar sem voru árásaraðilinn í sex daga stríðinu. Þeir vilja reyndar halda því fram að með því hafi þeir verið að verja sig því árás Arabaríkjanna hafi verið yfirvofandi. Það er hins vegar fátt sem bendir til þess að svo hafi verið. Þeir nota orð sem leiðtogar þessara ríkja notuðu en þau voru fyrst og fremst til heimabrúks til að viðhalda völdum heima fyrir. Staðreyndin er sú að Ísraelar voru búnir að auka verulega við herafla sinn og búnir að flytja mikið lið að landamærunum við Sýrland. Auk þess höfðu borist upplýsingar frá sovéskum njósnurum sem sögðu Ísraela vera að undirbúa árás á Sýrland. Egyptar og Sýrlendingar brugðust við þessari ógn með því að endurnýja sáttmála sinn sem var á þá leið að árás á annað þessara ríkja jafngilti árás á þau bæði. Þetta er í raun álíka varnarsáttmáli og NATO byggir á. Þegar á leið bættust Jórdanir inn í þetta varnarsamkomulag. Gallinn var hins vegar sá að eftir Súes deiluna voru friðargæsluliðar SÞ við landamærin við Ísrael og það gerði Egyptum erfitt fyrir að standa við sinn hlut ef Ísraelar réðust á Sýrland og þeir vissu að Ísraelar gerðu sér grein fyrir því. Þess vegna ákváðu Egyptar að vísa þessum friðargæsluliðum úr landi og færa herlið að landamærunum til að sýna Ísraelum fram á að þeir meintu það að þeir myndu ráðast inn í Ísrael ef þeir réðust á Sýrland. Þetta hafa Ísraelar hins vegar notað til að sannfæra auðtrúa fólk um að Egyptar hafi með þessu verið að undirbúa árás á sig og því hafi þeir þurft að bregðast við. Sú skýring heldur hins vegar ekki vatni enda var sá fjöldi hermanna sem fluttir voru til landamæranna ekki nægur til að eiga möguleika á vel heppnaðir innrás í Ísrael en gæti hins vegar velgt þeim undir uggum ef þeir væri líka í stríði við Sýrland.
Það er því ekkert sem bendir til þess að árás Arabaríkja á Ísrael hafi verið yfirvofandi og því ljóst að það voru Ísraelar sem voru árásaraðilinn í sex daga stríðinu árið 1967. Það er hins vegar rétt hjá þér að það voru Arabaríkin sem réðust á Ísrael árið 1973. Það er eina stríðið sem háð hefur verið milli Ísraela og Arabaríkja þar sem Arabaríkin voru árásaraðilinn. Það má hins vegar alveg færa rök fyrir því að þetta stríð hafi í raun verið áframhald sex daga stríðsins með sex ára vopnahléi því það var háð til að ná aftur því landi sem Ísraelar hernámu í sex daga stríðinu og höfðu neitað að skila aftur.
Saga deilu Ísraela og Araba er fyrst og fremst saga yfirgangs Ísraela og árása þeirra á Araba með tilheyrandi hernámi þjóðernishreinsunum og landráni. Það er rangnefni að tala um landnemabyggður. Þetta eru ólöglegar landtökubyggðir eða landránsbyggðir. Það er ekki verið að nema ónumið land með þessum byggðum heldur verið að ræna landi annarra með tilheyrandi þjóðernishreinsunum.
Sigurður M Grétarsson, 19.11.2019 kl. 18:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.