Úlfur! Úlfur! Eyjafjallajökull: Svo gaus hann allt í einu!

Á rúmlega ellefu ára tímabili bentu eldfjallafræðingar á að íbúar í nágrenni Eyjafjallajökuls þyrftu að hafa varann á vegna jarðhræringa og annarra mælinga, sem gætu verið aðdragandi að gosi. TF-FRÚ Hvolsvelli 10.5.2010 Eldgos.

Að vísu voru engar mælingar til á þeim tíma sem fjallið gaus síðast, á fjórða tug 19. aldar, en jarðvísindamenn fengu því samt til leiðar komið að gerð var almannavarnaáætlun og haldnir íbúafundir. 

Fram til 2010 líktist ástandið þó helst sögunni af því þegar kallað var "úlfur! Úlfur! án þess að úlfurinn kæmi, svo að fólk var farið að halda, að úlfurinn væri hugarburður. 

En svo kom úlfurinn allt í einu. Eldvörp. Grindavík í fjarska.

Svipað gerðist í aðdraganda Eyjafjallajökulsgossins 2010. 

Og úlfurinn varð miklu stærri en nokkurn hafði órað fyrir, því að hann setti allt millilandaflug í Evrópu og á Atlantshafi úr skorðum og hafði áhrif á farþegaflug um allan heim. 

Nú stendur yfir stærsta jarðskjálftahrina í sögu mælinga á Reykjanesskaga. 

Vitað er að eldstöðvar á því svæði, sem skjálftar hafa fundist nú, skipta mörgum tugum, og að kvikusöfnun, að vísu frekar róleg, er beint undir svæði, þar sem tíu kílómetra gígaröðin Eldvörp er örfáa kílómetra suðvestur af Bláa lóninu. 

Á efri loftmyndinni sést hluti Eldvarpa, og það glyttir í Grindavík, Staðarhverfi og ströndina fjær. Þarna undir, örlítið til vinstri á myndinni, er kvikuhólf með landrisi, og hraun gæti runnið alla leið til sjávar á ný vestan við Grindavík. 

Á vetrarmyndinni er horft yfir Eldvörpin til norðausturs með Svartsengi fjær og svæði kvikuhólfsins hægra megin á myndinni. Eldvörp syðrihl.horf til na

Vitað er að jarðskjálftar yfir 6 stig hafa orðið á svæðinu, og vísindamenn hvetja fólk að vera viðbúið slíkum skjálftum. 

Einnig er vitað að fyrir um 7-800 árum urðu eldgos á Reykjanesskaga á meira en aldar löngu tímabili. 

Að því mun augljóslega koma, þótt síðar verði, að skaginn færist í slíkan ham, rétt eins og vitað var að það væri að koma tími á nýja Mývatnselda 1975 eftir mælingar, sem sýndu að það svæði væri að vakna. 

1975 var samt haldið áfram með Kröfluvirkjun í anda sögunnar "Úlfur! Úlfur og allt í einu gaus við Leirhnjúk, öllum að óvörum. 

Aðeins mikið happ réði því að eldgosahrinan 1975-84 með 14 hrinum og 9 eldgosum eyðilegði ekki virkjunina. 

Svo vel vill til, að Keflavíkurflugvöllur getur enn haft Reykjavíkurflugvöll sem varaflugvöll og að auðvelt er að endurbæta Reykjavíkurflugvöll á tiltölulega einfaldan og ódýran hátt til að auka flugöryggið hér á landi. 

En á sama tíma virðist ætlunin að halda áfram með fyrirætlanir um nýjan hundruða milljarða flugvöll ofan á miklu brunahrauni sem fyrrum rann í eldgosahrinu á Reykjanesskaga! 

 


mbl.is Reykjanesskagi að vakna eftir margra alda dvala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það skyldi þó aldrei vera að það færi að gjósa ofan í allt annað. "Íslands óhamingju verður allt að vopni."

Þorsteinn Siglaugsson, 12.4.2020 kl. 14:04

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Á Íslandi verður eldgos á 4-5 ára fresti að meðaltali. Á þessu ári verða fimm ár frá síðasta gosi, 9 ár frá síðasta gosi í virkustu eldstöðinni, Grímsvötnum, sem hafa gosið þrisvar á síðustu 24 árum. Hekla er kominn á tíma, eins og kallað er, og Öræfajökull hefur rumskað við sér án goss, svipað og gerðist 10 árum fyrir gosið í Eyjafjallajökli. Katla er óráðin gáta og virkni að aukast á Reykjanesskaga. Bárðarbunga skelfur á nokkurra vikna fresti. Líkurnar á gosi á þessu ári í einhverri af þessum eldstöðvum eru jafnmiklar og líkurnar á því að það gjósi hvergi fyrir næstu áramót. 

Ómar Ragnarsson, 12.4.2020 kl. 15:05

3 identicon

Væri ekki einmitt upplagt að það gysi núna á Reykjanesskaga á meðan allt flug og ferðamennska liggur niðri hvort sem er?yell

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 12.4.2020 kl. 15:12

4 identicon

Sófaspámenn ókyrrast þegar náttúran fylgir ekki töflureiknum og vel úthugsuðum uppskriftum. Meðaltöl og eldfjöll sem ekki kunna á dagatöl vekja áhuga hjá grínistum með léttan jarðfræðiáhuga. Meðaltölin segja samt ekki frá mannsöldrunum sem liðið hafa án eldgosa á landinu. Og Grindvíkingar sitja rólegir í enn einni skjálftahrinunni og láta sér fátt um finnast, enda ekki nýtt fyrir þeim þó mælingar áður hafi ekki verið merkilegar og smá hristingur ekki bókunar virði.

Vagn (IP-tala skráð) 12.4.2020 kl. 16:18

5 Smámynd: Halldór Jónsson

Það þarf Dag B. Eggertsson, HoluHjálmar og Þórdísi Lóu til að heimta að ríkið byggi Hvassahraunsflugvöll ofan á þessari gígaröð. Meira en meðalvitleysingum gæti ekki dottið slíkt í hug. 

Halldór Jónsson, 12.4.2020 kl. 17:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband