Hér er texti auglýsingar, sem hlaut verðlaun á árlegri hátíð auglýsingastofa fyrir nokkrum árum. Hann felst í samtali, sem er svona:
"Er hægt að elska hjólbarða?"
"Nei."
"Jú!"
"Ha?"
"Jú, ef hann hefur bjargað lífi þínu."
"Já, þú meinar."
Mynstrið, lögunin, þrýstingurinn, mýktin og aldurinn eru meðal atriða, sem láta ekki mikið yfir sér, en komu vel í ljós í Silverstone kappakstrinum.
Þar voru það mýktin og aldurinn (slitið) sem skiptu mestu máli auk flókinnar úrvinnslu, sem af því leiddi. Mýktin skóp að vísu líklega aðeins betra grip á meðal mjúku dekki en hörðu, en á móti kom tímatap vegna slitsins.
Strax fyrir tæpri hálfri öld var svo komið málum í Monte Carlo rallinu og HM, að þeir bestu urðu að hafa allt að þúsund dekk meðferðis á vegum viðkomandi umboðs eða kostunaraðila, til þess að skipta eftir hverja sérleið og spila á mismunandi hjólbarðagerðir í hverri skiptingu.
Fyrstu árin í rallinu ók síðuhafi á sóluðum dekkjum til að spara peninga og geta skipt oftar.
En þegar farið var að kanna málið nánar, kom sú staðreynd upp, að með því að skipta yfir á bestu gerð Michelin hjólbarða, gæti það gefið ca eina sekúndu í plús á hvern ekinn kílómetra.
Það sýndist ekki skipta máli við fyrstu sýn, en þegar það var skoðað, að sérleiðir lengsta rallsins voru allt að 700 kílometra, var ágóðinn 700 sekúndur, eða meira en ellefu mínútur!
Reynslan sýndi líka, að flestir gerðu þau mistök að byrja á röngum stað við að endurbæta bílinn og gera hann öflugri.
Byrjuðu á vélinni, tóku því næst gírkassann og þar á eftir drifin stýrið og hemlana og enduðu á dekkjunum.
En þetta er hins vegar öfugt: Byrja á dekkjunum, því næst á stýrinu, drifunum og gírkassanum og enda á dekkjunum.
Ástæðan blasir við: Ef vélin er gerð miklu kraftmeiri, aukast líkurnar á því að driflínan þoli ekki hið aukna álag, auk þess sem betra stýri, gírhlutföll og dekk auka til muna nýtinguna á vélaraflinu, hvort sem það er mikið eða lítið.
Aðeins það eitt að hafa dekkin fremst á listanum, og setja sterkari gírkassa með betri gírhlutföllum í bílinn skapar bæði öryggi og betri árangur.
![]() |
Velheppnuð herfræði Verstappen |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
"En þetta er hins vegar öfugt: Byrja á dekkjunum, því næst á stýrinu, drifunum og gírkassanum og enda á dekkjunum. "
Er það sem sagt bjargföst skoðun þín að hvorki skuli endurbæta hemla né mótor?
Thorvaldur Sigurdsson (IP-tala skráð) 9.8.2020 kl. 21:53
Ókey, hemlarnir áttu að vera með. Auðvitað á að bæta mótor, en yfirleitt eru menn ekki það efnaðir að þeir geti byrjað á öllu jafnt. Ég segi hvergi, að það eigi ekki að endurbæta mótor, heldur aðeins að hafa þá aðgerð á hentugasta staðnum í forgangsröðinni.
Ómar Ragnarsson, 9.8.2020 kl. 23:55
Svo er til ein gerð dekkja sem kallast nagladekk og gagnast vel í vetrarfærð sérstaklega út á landi. Gætu mögulega hafa komið í veg fyrir alvarleg slys sem orðið hafa síðustu ár. En það er mikil umhyggja sem borin er fyrir malbiki.
El lado positivo (IP-tala skráð) 10.8.2020 kl. 17:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.