"Manstu gömlu jólin?" Bestu jóla- og nýárskveðjur.

Í textanum "Er liða fer að jólum..." er viljandi minnst á þær skuggahliðar jólanna sem felast í hrollköldu skammdeginu og orðinu jólakvíði.

Þetta eru línur eins og "drungi í desember..", - "mykrið er svo magnað..." - "Þótt margir  finni´ei frið / og fari við gæfuna´á mis..." sem teflt er gegn öðrum línum sem benda á það sem lá að baki jólunum að fornu, bæði í heiðnum og kristnum sið: 

Að vinna gegn myrkri og kulda hávetrarins með því að gera sér glaðan dag, njóta þeirrar staðreyndar að sólargangur fari að lengjast og sól að hækka á lofti og vinna á móti skammdeginu með því fylla loftið af ljósum eftir bestu getu og skapa "líflegan ys og þys...". 

Á facebook-síðu minni er að finna lagið "Manstu gömlu jólin" sem Ragnar Bjarnason söng inn á lítinn disk fyrir tólf árum í miðju Hruninu, sem gefinn var út í tilefni af þeim hremmingum, sem þá gengu yfir. 

Lagið hefur ekki verið flutt á ljósvakamiðlum svo vitað sé en er viðeigandi nú, ekki síst vegna þess að árið 2020 er dánarár þess mikla vinar míns í meira en 60 ár og hans er sárt saknað. 

Ljóðið við lagið "Manstu gömlu jólin" á að minna á þau gildi jólanna sem vísa til nægjusemi og æðruleysis, og SÁÁ álfarnir tveir því táknrænir í hinni einföldu leikmynd og upptöku myndar og hljóðs úr diskaspilaranum.   

Jóla- og nýárskveðjur þessarar bloggsíðu eru því fólgnar í textanum, sem hér birtist, og þess ber merki í síðustu setningunni, að haustið 2008 vissi enginn um að réttum 12 árum síðar yrði skæður heimsfaraldur helsta einkenni mannheima.  

MANSTU GÖMLU JÓLIN?

 

Manstu gömlu jólin; mjúkan, hvítan snjó?

Manstu, hvað við vorum glöð og áttum alltaf nóg. 

Það var margt svo einfalt, sem gladdi okkar geð

er gjafirnar við tókum upp við gamla jólatréð. 

 

Þá áttum við stundir, sem aldrei gleymi ég,

en ævinlega lýsa mér um lífs míns grýtta veg. 

Það er ekki´allt fengið keypt dýrum dómum hér

en dýrmætara er að kunna´að gefa´af sjálfum sér. 

 

Ég bið að gömlu jólin birtist mér á ný, 

og besta jólagjöfin verði´að falla faðm þinn í. 

 

 

 


mbl.is Jólavaktin hátíðleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband