Snöfurmannlegt hjá Davíð.

Eitt af eftirminnilegustu augnablikum frétta síðustu aldar var þegar Bobby Fisher lék slíkum leik í fyrri hluta einvígis hans og Spasskís, að allir skákskýrendurnir urðu kjaftstopp. 

Fisher hafði sýnt slíka eindæma dynti í aðdraganda einvígisins og í því sjálfu, að mörgum datt helst í hug að nú væri hann alveg búinn að tapa sér endanlega. 

Þegar búið var að leika skákina áfram kom skyndilega í ljós, að þessi leikur Fishers var eitthvað, sem engum hafði dottið í hug fyrr; eitt af hinum mörgu snilldarbrögðum sem setti hann skör hærra en alla þáverandi bestu skákmenn heims. 

Ofarnefnd skák varð vendipunktur í einvíginu. Spasskí klappaði fyrir frammistöðunni. Öllum mátti vera ljóst að gáfnavísitala Fishers skipaði honum á bekk með mestu snillingum aldarinnar, eins ótrúlega sem það hljómaði miðað við það hve galinn hann gat verið þegar tilfinningarnar fóru með hann í gönur. 

Þessir dyntir og hatursorðræða hans í garð gyðinga ollu því að þakkir Bandaríkjamanna til handa þessa landa þeirra, sem nær einn og óstuddur hafði af eigin rammleik ráðist inn í ein helgustu vé heimskommúnismans, skáklistina, og haft þar frækinn sigur; urðu þær að fara að hundelta hann fyrir vafasamar sakir í Júgóslavíu.  

Páll Magnússon segir í viðtali að Davíð Oddssyni, þáverandi forsætisráðherra, sem á þessum tíma stóð á hátindi valdaferils síns, sé það að þakka, að Íslendingar veittu Fisher landvistarleyfi hér á landi. 

Davíð lagði líka ákveðið lóð á vogarskálar í öðru máli, þegar hann sagði á þingi að Guðmundar- og Geirfinnsmálið hefði verið dómsmorð. 

Það má vel orða það svo að í þessum tveimur málum hafi hann risið upp fyrir flatneskjuna og megi þetta í minnum hafa. 

Hvað um það; útlendingum finnst það merkilegt þegar þeir koma að leiði Fishers og síðan að leiði Jóns Arasonar og sona hans í Skálholti, að sjá einhvern fræknasta Bandríkjamann síðustu aldar hafa fengið að leggjast til hvíldar í friði á Íslandi, og að í Skálholti sé yfirskrift grafar síðasta kaþólska biskupsins yfir þjóðkirkjunni að þar hvíli Jón Arason biskup og synir hans (!?!)

 


mbl.is Neitaði að fljúga með konu við stýrið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Daníel Sigurðsson

„Þetta var nákvæmlega það sem Fischer gerði, hann lærði rússnesku vegna þess að hann taldi Sovétmenn alltaf vera að svindla á sér”, er haft eftir Páli segir þú.

Sjálfur segist Fischer hafa lært rússnesku til að geta lesið rússneskar skjákbækur og tímarit um skák, sem er miklu trúlegra enda ekki nema brot af þessum bókmenntum þýtt á önnur tungumál.

Daníel Sigurðsson, 16.4.2021 kl. 12:44

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður nafni.

Það er nefnilega það sem Davíð gerði, hann hóf sig yfir flatneskjuna.

Mér er sérstaklega minnistætt þessi orð hans um Guðmundar og Geirfinnsmálið, hann var í þeirri stöðu að hann þurfti ekki að gera neitt slíkt, en réttlætiskennd hans gat ekki þagað.  En þá einmitt þögðu eiginlega allir, var það ekki á þeim dimma tíma sem Sævar missti endanlega vonina.

En mig langar líka að minnast á viðbrögð Davíðs eftir snjóflóðin fyrir vestan, hann gerði tvennt, hann hvað það skýrt að byggðirnar ættu sér tilverurétt þrátt fyrir eyðingu flóðanna, þær yrðu endurbyggðar og tjón bætt, og hann kom snjóflóðavörnum í góðan farveg með stofnun Ofanflóðasjóðs. 

Hann gerði ekki það þriðja, að tala án þess að koma nokkru í verk annað en einhverja málamiðlun eða innantóman sýndarleik sem er svo algengur seinni áratugina í íslenskum stjórnmálum. 

Það eru nefnilega svona mál sem reyna manninn, og þarna stóð Davíð sig, og því ber að halda til haga, óháð flokkum því þetta hefur ekkert með flokkspóltík að gera, heldur að það sé styrkur til staðar í íslenskum leiðtogum að gera það sem þarf að gera.

Að hefja sig upp yfir flatneskjuna.

Svona eins og þú hefur gert í landvernd þinni nafni minn.

Það er bara svo.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 16.4.2021 kl. 12:57

3 identicon

Fisher var sjálfum sér verstur. Hann vildi frekar deyja kvalafullum dauða heldur en að láta gera á sér læknisaðgerð sem líklega hefði bjargað lífi hans.

Kannski mun ákvörðunin um að veita Bobby Fisher hæli hér á landi til þess að halda nafni Davíðs Oddssonar lengst á lofti.

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 16.4.2021 kl. 17:56

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Hörður.

Ef spádómur þinn gengur eftir, þá er bæði illa komið fyrir þessari þjóð, sem og sagnfræðingum hennar.

Nafni minn rakti annað tilvik, ég rakti svo það þriðja.

Get bætt við því fjórða, að á baki allra stjórnmálamanna til vinstri, sem vildu vel, þá endaði þeirra viðleitni alltaf í kjaftæði gegn raunveruleikanum.

Verðbólgan fór úr böndum, ef menn vildi það ekki beint, þá fengu menn fjármálaráðherra eins og Ólaf Ragnar, sem vissulega var skynsamur, enda vitsmunavera, en það sem hann gerði var næstum því allt úr ranni samtaka atvinnurekanda.

Davíð með Friðrik, og seinna meir Geir, sem fjármálaráðherra, gerði upp lífeyri ríkisstarfsmann, í A hluta og B hluta.

Í A hluta var það fólk, sem fölsun kjarasamninga skilaði sultargrunnlaunum, en yfirborganir og allar aðrar greiðslur, sem hækkuðu launin svo ríkið hefði einhverja í vinnu, og fékk heildarlaun sín metin til lífeyris.

Í dag, er móðir mín 88 ára gömul, pabbi gamli féll frá fyrir nokkrum árum síðan, mamma erfði þennan A-hluta rétt.

Ef þau höfðu til hnífs og skeiðar, þann tíma sem þau voru vinnandi sem opinberir starfsmenn, þá var það ekki vegna þess að við bræður notuðum litlar skeiðar, heldur vegna aukavinnu, sameiginleg reynsla allra ríkisstarfsmann, af hverju heldur þú til dæmis að nafni minn hafi fjármagnað fréttamennsku sína með þeirri skemmtun sem kennd var við Sumargleði??, en fram að Davíð, þá var það aðeins dauðinn og skelin.

Þess vegna segi ég þér Hörður, vegna þess að ég veit þetta, að aldrei í  allri sögu íslenskra kjarabaráttu, hefur stærra skref verið stigið, en Davíð steig, með stuðningi Friðriks og Geirs.

Illa er komið fyrir þjóðinni þegar Bobby er það eina sem hún man.

Slíkt er úrkynjun, hvort sem vísað er í döngun hans að mæta fólkinu sem hafði hag af að þagga niður réttarmorðið kennt við Geirfinn, Ofanflóðasjóð, eða lífeyrisréttindi vinnandi fólks, sem vann hjá ríkinu, en þurfti endalaust að sætta sig við fölsun launavísutölunnar.

Feisum þetta Hörður, þó við séum ekki til hægri.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 16.4.2021 kl. 21:39

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í pistli mínum hef ég það hvergi eftir Páli að Fisher hefði lært rússnesku vegna þess að hann teldi að Sovétmenn væru að svindla á sér.

Ómar Ragnarsson, 17.4.2021 kl. 00:44

6 identicon

Ómar Geirsson.

Ekki ætla ég að gera lítið úr verðbólgudraugnum og hlut Davíðs í baráttunni  gegn honum, ég man þá tíma, enda jafnaldri móður þinnar.

En ég held að skáksnillingurinn, sérvitringurinn og útlaginn á Íslandi, Bobby Fisher, muni vera í minnum hafður löngu eftir að menn hafa gleymt verðbólgu á þar á síðari hluta 20. aldar.

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 17.4.2021 kl. 11:36

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Ja ég var nú eiginlega að tala um lífeyri ríkisstarfsmanna, hvernig alltí einu með einu pennastriki fékk harðduglegt vinnandi fólk öruggar tekjur í ellinni.

En ég skil pointið hjá þér Hörður.

Sjálfsagt er það svona sem lifir lengst.

Sem og landvættir, minning þeirra mun lifa minningu samferðafólks þeirra.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 17.4.2021 kl. 12:21

8 identicon

Sæll Ómar.

Samkvæmt helgri bók kynni það að vera nauðsynlegt
til þess að fullnægja öllu réttlæti að láta
þeirra Guðmundar Þórarinssonar og Kára Stefánssonar
getið í þessu sambandi; að þeir njóti þess sannmælis
án þess að nokkuð sé þar frá öðrum tekið.

Aukinheldur vann Kári sér það til frægðar að vera sá eini
í víðri veröld sem hafði tök á Bobby, þorði hann ekki annað
en að hlíta þeirri spámannlegu yfirsýn og vitsmunum(!)

Húsari. (IP-tala skráð) 18.4.2021 kl. 12:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband