Eru náttúruverndarsjónarmið "gamaldags forneskja"?

Hún er orðin ansi langlíf síbyljan sem höfð er uppi um það að náttúruverndarsjónarmið séu "gamaldags forneskja."

Nú síðast var orðið forneskja notað í athugasemd við bloggpistil um mismunandi sjónarmið í náttúruverndar- og umhverfismálum.  

Ef menn ætla að dæma um þessi mál út frá sögunni, er orðið tímabært að þeir færi einhver rök fyrir ferli þeirra skoðanaskipta, sem hafa breytt viðhorfum í þessu efni á alþjóðavísu og meðal annars leitt til þess að árið 2002 lýsti þáverandi forsætisráðherra Noregs yfir því að tími stórra vatnsaflsvirkjana í Noregi væri liðinn. 

Þau ummæli voru ekki sögð út í loftið, því að áratugina á undan höfðu Norðmenn átt samskonar risaáætlun um virkjun vatnsafls á hálendi Noregs og Íslendingar öpuðu síðan eftir með svonefndri LSD áætlun um steypa öllum jökulsám á Norðausturhálendi Íslands í eina risavirkjun upp á 1500 megavatta vatnsaflsstöð í Fljótsdal.  

Í Noregi fór fram mikil rökræða um þeirra stórfelldu áform sem enduðu með sigri náttúruverndarfólks sem var svo alger, að það var ekki fyrr en eftir nokkrar Noregsferðir síðuhafa sem hann komst á snoðir um þessa rökræðu og niðurstöðu hennar, sem var endanlega negld með ummælum Kjell Magne Bondevik 2002. 

Þegar umræðan í Noregi er skoðuð vandlega og virkjanamál þar í landi skoðuð, kemur í ljós, að þeir hafa verið nokkrum áratugum á undan okkur í þessum málum. 

Það eru sem sagt hinar hrikalegu áætlanir um margfaldaðar virkjanir hér á landi sem eru hin raunverulega forneskja; - við erum einfaldlega langt á eftir. 

Og við erum enn lengra á eftir og með enn meiri forneskju en Bandaríkjamenn, sem afgreiddu hliðstæða umræðu fyrir meira en fimmtíu árum og hættu við fyrirhugaðar stórvirkjanir í sínu landi, sem voru hliðstæðar´Kárahnjúkavirkjun. 

Í þeirri rökræðu allri hafði náttúruverndarfólk afgerandi sigur og reyndust talsmenn nýrra og nútímalegra sjónarmiða, en virkjanafíklarnir hins vegar talsmenn afturhalds og forneskju. 

Þegar lesin eru rök hinna bandarísku ákafamanna um stórvirkjaniri þar í landi frá því fyrir 50 árum, sést átakanalega, hverjir eru "gamaldags" og "forneskjulegir" hér á landi núna. 

Ein besta bókin, sem skrifuð var á sínum tíma um þessi mál, hét "Cadillac desert" eftir Marc Reisner og ráðlegg ég hinum raunverulegu íslensku nátttröllum að byrja á því að lesa sér til í þeirri merku bók. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband