1945 - 60 urðu Þjóðverjar að stunda mikla naumhyggju á alla lund.

Þeir, sem eru orðnir yfir áttrætt, muna enn þá daga þegar skortur og skammtanir þrengdu að fólki fyrstu árin eftir stríð.

Fyrir þetta fólk hljómar hvatning til sparnaðar og minni orkueyðslu vegna nauðsynlegs samdráttar á notkun á rússneskri olíu og gasi jafnvel sem kunnuglegt stef, til dæmis í Þýskalandi.

Þýskaland var illa leikið eftir Seinni heimsstyrjöldina, borgirnar í rústum og framleiðslan í lamasessi.

Þjóðverjar urðu að fara dæmalaust sparlega með fé, og til dæmis spruttu upp bílar, sem kallaðir voru "Bubble cars" og seldust vel, svo sem BMW Isetta, sem var tveggja sæta örbíll sem núna hefur verið gerð eftirlíking af, knúinn rafmagni, með heitið Microlino. BMW Isetta

Hefur áður verið greint frá honum hér á síðunni. 

Hagkvæmnin fólst í minimalisma af hæstu gráðu; BMW Isetta var aðeins 2,28 m á lengd og hægt að leggja fjórum slíkum bílum hlið við hlið þversum innan bílastæðis, því að einu dyrnar á krílinu voru á framhliðinni og stigið út úr bílnum beint upp á stéttina! 

Þyngdin aðeins 340 kíló og eyðslan 3,7 lítrar á hundraðið og samt náði kvikindið 85 km hraða. 

Með eindæma hagsýni, aðhaldi og naumhyggju tókst þjóðinni að hrinda af stað efnahagsuppgangi, sem var svo einstakur, að fyrirbærið fékk heitið "Þýska efnahagsundrið". Lloyd LT 600

Tákn þess á götum borganna urðu Volkswagen vestan megin við járntjaldið, en Trabant austan megin. 

Af því að fjallað var um VW Rúgbrauðið hér í gærkvöldi, er fróðlegt að sjá hve langt hægt var að teyma naumhyggjuna á árunum 1950-60 og nýta með því framúrstefnulegar hugmyndir. 

Bílaframleiðandinn Lloyd í Bremen framleiddi framhjóladrifna bíla, sem voru aðeins minni en Trabant og með 600 cc 20 hestafla tvígengisvél.

Sjálfstæð en höst fjöðrun var á öllum hjólum, tvær þverfjaðrir að framan, en "swing"öxlar og venjulegar langfjaðrir að aftan.   

En á tímabili 1950-60 var framleiddur aldeilis kostulegur bíll, sem í útliti líkist helst því sem Volkswagen Transporter varð 40 árum síðar, þótt þessi Lloyd bíll væri miklu, miklu minni. 

Hér er sýnd mynd af lengri gerðinni, sem var með furðu góðu rými, þótt bíllinn væri svo mjór, að breiddin nægði aðeins fyrir tvo í hverri þeirra þriggja sæta"raða" sem voru í bílnum. 

Meira að segja rými fyrir farangur allra aftast gott aðgengi að því um afturdyr. 

Þessi lengri gerð var aðeins 4,05 m á lengd og 1,48 á breidd og þyngdin aðeins 735 kíló. Sem sagt, álíka langur og Yaris! 

Bíllinn var svona léttur af því að notað var undraefni, sem er léttara miðað við styrk en ál, og nefnist krossviður / bitar úr tré !  

Vegna smæðar vélarinnar náði bíllinn samt aðeins 85 km hámarkshraða. 

En frumhugmyndin, framdrif, vélin að framan til þess að ná fram hámarks hagkvæmni í opnu rými með lágu flötu gólfi sem næði alla leið aftur að afturdyrnum. Og hjólhafið 2,85 m, þannig að hjólin væru úti í hornum bílsins. Ekki sentimetri til spillis! 

Takið eftir því hve örþunn hurðin að framan er, og má vel giska að olnbogabreiddin inni í bilnum sé minnst 1,30 m.  

 


mbl.is Þjóðverjar hvattir til að spara orkugjafa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birgir Loftsson

Góð grein. Takk fyrir. Tókst að fræða mig um hluti sem ég vissi ekki af. 

Birgir Loftsson, 17.4.2022 kl. 00:29

2 Smámynd: Theódór Norðkvist

Já, áhugaverður fróðleikur takk fyrir. Nú gildir aðhaldið ef við eigum að geta svelt ófreskjuna í Kreml út úr Úkraínu og hrekja flóttann alla leið til Haag (stríðsglæpadómstólsins). Engar fleiri jeppaferðir upp á jökul, Ómar minn.wink

Theódór Norðkvist, 17.4.2022 kl. 00:41

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Jeppaferð án jarðefnaeldsneytis hlýtur að verða takmark, jafnvel þótt stutt sé. 

Ómar Ragnarsson, 17.4.2022 kl. 10:18

4 identicon

Erfitt var að komast úr Isettunni ef einhver lagði þétt að henni að framan.

Auðvelt væri að létta bíla í dag ef þeir væru ekki útbúnir fyrir hraða

og þægindi sem aðeins þekktist í kappaksursbílum og dýrustu lúxusbílum

hér áður fyrr.

magnús marísson (IP-tala skráð) 17.4.2022 kl. 11:42

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Microlino vantar það sama og Isettuna vantaði í den: Vörn gagnvart árekstrum með höggi beint á framhurðina.  Tærnar á þeim sem sitja í bílnum eru alveg við þröskuldinn, þannig að beyglist þröskuldurinn við högg kostar það ökklabrot. 

Stærsti kostur svona hönnunar er jafnframt versti ókosturinn.  

Ómar Ragnarsson, 17.4.2022 kl. 14:13

6 Smámynd: Theódór Norðkvist

Tek undir með þér Ómar, vonandi næst það takmark sem fyrst.

Theódór Norðkvist, 17.4.2022 kl. 17:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband