"Að kópa við liðið til að... fókusera á tsjallendsið."

Ofangreind tilvitnun í ummæli í sjónvarpi fyrir nokkrum dögum, að vísu samsett úr tveimur setningum, gefa smá nasasjón af því, að enda þótt varast beri þjóðrembu í baráttunni fyrir íslenskunni er full ástæða til þess að halda vöku okkar í því að tungutak okkar verði ekki í líkingu við það ensk-íslenska hrognamál, sem æ oftar má heyra og lesa.   

Þrjú ensk orð bera ummælin hér að ofan uppi, "to cope with", "to focus on" og orðið "challenge." 

Íslenskan á fjölda orða, sem hefði verið hægt að nota í staðinn fyrir ensku orðin, til dæmis "...að ná tökum á liðinu til að...einbeita sér að áskoruninni/takmarkinu," -  en undir niðri liggur tilhneigingin til þess að geta ekki hugsað lengur á íslensku, heldur verða að grípa frekar til enskunnar. 

Selenski Úkraínuforseti minntist á þetta fyrirbæri í heimildarmynd um hann, að hann hefði fram eftir aldri talað rússnesku en ekki úkraínsku vegna þess að hann hefði verið fljótari að túlka hug sinn á rússnesku.


mbl.is Íslensku megi ekki nota til að útiloka fólk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakka þér fyrir þessa hugleiðingu um íslenskt mál, Ómar.

Íslenskan á góð orð eða orðasambönd um margt sem fólk kýs frekar að sletta. Það þarf ekki að segja þér, sem hefur lagt okkur til svo marga góða texta á íslenskri tungu. En þú ert að leggja til umræðunnar mikilvægar hugleiðingar og ábyrgðin er okkar allra!

Með bestu kveðju,

Jónína Sg.

Jónína Sigurgeirsdóttir (IP-tala skráð) 18.4.2022 kl. 09:03

2 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Það ætti ekki að taka undir orðræðu fjölmenningarsinna sem kalla það þjóðrembu að vilja viðhalda íslenzkunni. Það er hin eina sanna öfgastefna að vilja að Evrópusambandið, eða enskan fletji allt annað út, eða eitthvað annað þesslegt vald. 

Hvað með Frakka og Þjóðverja til dæmis? Þeir viðhalda strangri hreintungustefnu og komast upp með það, og eru hluti af ESB, og ekki það, heldur hreinlega kjarninn í ESB!

Þeir hafa talað inná sjónvarpsefni til margra ára eða áratuga, til að forða frá enskum áhrifum og engilsaxneskum. 

Sjálfstæðið hefur verið órjúfanlegur hluti af velmegun okkar þjóðar, stolti og heimsmynd. Án tungumálsins væri það að mestu leyti farið. Krónan er einnig hluti af þessu, þótt umdeild sé.

Að öðru leyti tek ég undir allt sem kemur fram í þessum pistli.

Ég trúi ekki að Íslendingar séu fljótari að hugsa á ensku en íslenzku. Er það vegna þess að börn alast upp við enskt sjónvarpsefni, heyra það mál meira en tal foreldra sinna?

Ég tel að það sé snobb í fólki að sletta ensku, rétt eins og það var snobb að sletta dönsku og latínu fyrr á öldum. 

Ingólfur Sigurðsson, 18.4.2022 kl. 12:35

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Tvö af þeim sem talað var niður til fyrir heimóttarlega afdalamennsku í formi verndar íslenskunnar voru Eiður heitinn Guðnason og Vigdís Finnbogadóttir. 

Bæði með mikla kunnáttu í erlendum málum. Allir ættu að vita um kunnáttu Vigdísar og Eiður var löggiltur enskuþýðandi með margfalt meiri kunnáttu í því máli en flestir þeir sem snobba mest fyrir því tungumáli. 

Ómar Ragnarsson, 18.4.2022 kl. 13:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband