Samfelld stórsókn stóriðjustefnunnar. Ævintýralegar tölur í síbylju.

Þegar stóriðjustefnan nam land hér á landi fyrir hálfri öld fólst hún í því að reist var álver í Straumsvík með 33 þúsund tonna ársframleiðslu á áli og 200 megavött voru virkjuð í Þjórsá við Búrfell. 

Heitið STÓRiðja var þá notað um þessar risatölur. 

Eftir sókn stóriðjustefnunnar eru þessar fyrrum stóru tölur smámunir einir´samanburði við tölurnar, sem nú eru nefndar viku eftir viku í stórfréttum um nýjustu stóriðjustefnuna, sem verði að taka upp ef ekki eigi illa að fara í lífi jarðarbúa allra. 

Nefnt er að nú þurfi viðbótar fimm Kárahnjúkavirkjanir sem lágmark í sívaxandi virkjanaþorsta. 

Hver þessara virkjana yrði hátt í þrisvar sinnum stærri en Búrfellsvirkjun var 1970, eða um 3500 megavött samtals samanborið við 200 árið 1970. 

Lágmarksstærð fyrir álver er minnst 350 þúsund tonn á ári, en það er níu sinnum meira en álverið í Straumsvík framleiddi í upphafi, og með því að reisa fimm svona lágmarks risaálver, er samtals um að ræða viðbót við núverandi álframleiðslu sem svarar 1750 þúsund tonnum. 

Ef þetta verði ekki gert muni dynja yfir afturför hér á landi sem nemur mörgum áratugum aftur í tímann auk hruns í efnahaglífi jarðarbúa. 

Þessi síðasta staðhæfing er borin fram blákalt þótt tölurnar sýni, að enda þótt öll orka Íslands yrði virkjuð í botn, myndi sú orka samtals nema um 0,2 prósentum af örkuþörf Evrópu allrar. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessi frétt var á RÚV og mjög stílfærð. Þær  viðbótar virkjanir sem þarf til að orkuskiptin nái í gegn samsvara þremur kárahnjúkavirkjunum. Þá er miðað við núverandi notkun og enga viðbótar stóriðju, enda eru engar áætlanir um þær. Þarna vantar að hleðsla rafmagnsbíla er mest á nóttunni sem nýtir umframorkuna. Og uppfærsla á núverandi virkjunum mun einnig bæta við orku. Síðan má nefna varmadæluna sem er nánast ónýtt hér. Og ýmsir fleiri þættir sem spara rafmagn. Í sambandi við Álverin þá var uppi sú staða fyrir um ári að Straumsvíkur álverinu yrði lokað. Það hefði orðið stór skellur vegna þess að það eru þúsundir sem eiga atvinnu sínu undir þessu álveri. Í dag er staðan sú að álverð hefur snarhækkað í heiminum vegna þess kínverjar geta ekki framleitt meira. Ég tel þessvegna að stóriðjustefnan hafi verið gæfuspor . En Gagnaverin eru algjörlega óþörf og það á ekki að eyða meiri orku í þau.

Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 22.6.2022 kl. 10:36

2 identicon

Þér er eitthvað að förlast í stærðfræði Ómar:
,,Hver þessara virkjana yrði hátt í þrisvar sinnum stærri en Búrfellsvirkjun var 1970, eða um 3500 megavött samtals samanborið við 200 árið 1970."

Hver virkjun hátt í þrisvar sinnum stærri en 200 er þá allt að 600. Þó það væri þrefaldað, þá er það ekki nema 1800.
Ef þú vilt meina að hver virkjun yrði 200x3=600 stærri en 200 og bætir 200 við, þá er það 800. Þrjár virkjanir 2.400. Það vantar enn upp á.

Nonni (IP-tala skráð) 22.6.2022 kl. 12:40

3 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Íslendingar geta verið sjálfum sér nógir með orku. Það höfum við framyfir margar þjóðir sem er merkilegt. Jafnvel þarf ekki að virkja meira til þess, aðeins láta stóriðjuna fá minna. 

Evrópa öll þarf að endurskilgreina orkuþörf og tækni, eins og heimsbyggðin, mannkynið þarf að hverfa til einfaldari lifnaðarhátta, fara til sveitanna og lifa þannig lífi. Vel að merkja er það einnig hollara, miklu hollara, og er lausn á umhverfisvandamálum. 

Það er sagt að þetta sé gamaldags boðskapur, en hann er lausn á þessum vandamálum. 

Takið eftir fólkinu sem talar um að það losni undan streitu og lífsstílssjúkdómum á landsbyggðinni. Mannkynið gat lifað án plasts og mengunar í þúsundir ára og ætti að geta það enn. 

Rifjum upp umræðuna um gerviþarfir. Vissulega er margt í tækninni mjög til bóta og þar eru lausnir á umhverfisvandamálum, en sífelld krafa um hagvöxt og að allir fylgi sömu braut, sama græðgi og borgarmenning, þetta er ekki endilega rétta lausnin á vandamálum.

Ingólfur Sigurðsson, 22.6.2022 kl. 13:06

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Tölur og annað efni þessa pistils í smáatriðum er ekki aðalatriðið heldur sá stórfelldi veldisvöxtur sem stóriðjustefnan er hluti af. 

Bara sú staðreynd að nútíma álver þurfi helst að vera tíu sinnum stærra en fyrsta álverið í Straumsvík var, er glöggt dæmi um þá firringu sem hin heilaga hagvaxtartrú og skefjalausa neyslukrafa okkar tíma felur í sér.  

Ómar Ragnarsson, 22.6.2022 kl. 13:18

5 identicon

Að sjálfsögðu draga rangar tölur úr trúverðugleika pistilsins. Að fara rétt með tölur skiptir höfuðmáli til að sýna fram á fáráðnleika virkjanabrjálæðisins. Annað finnst mér og eflaust öðrum, innantómt blaður.
Mér finnst þú eigir að reikna upp á nýtt og leiðrétta pistilinn í samræmi.

Nonni (IP-tala skráð) 22.6.2022 kl. 15:43

6 identicon

"Nefnt er að nú þurfi viðbótar fimm Kárahnjúkavirkjanir sem lágmark í sívaxandi virkjanaþorsta."  eða það sem sagt var og átt við: Að nú þurfi að virkja sem samsvarar fimm Kárahnjúkavirkjunum sem lágmark til að standa við loforð um minni losun og orkuskiptin. Það getur verið vindorka, vatnsorka, jarðorka, virkjun hafstrauma o.s.frv." Smá munur á, en nægur til að gera málflutning andstæðinga raforkuframleiðslu úr öðru en kolum, olíu, kjarnorku o.s. frv. frekar máttlítinn og aumingjalegan.

Vagn (IP-tala skráð) 22.6.2022 kl. 19:57

7 identicon

Held það væri verðugara verkefni að beita sér gegn þessum gagnaverum sem hafa það hlutverk að grafa eftir rafmynt.  Skapa fá störf og skila engum raunverulegum verðmætum.  Spákaupmenn í gróðrabralli.  Álverin skapa þó störf og framleiða ál sem er mun vistvænni en járn eða stál.

Bjarni (IP-tala skráð) 24.6.2022 kl. 22:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband