Loftslagshlýnun miðast við alla jörðina, - ekki smá hluta í rúmi og tíma.

Umræðan um hlýnun loftslags á jörðinni hefur að stærstum hluta falist í fáfengilegum ályktunum út af einstökum atriðum á einstaka stöðum eða afmörkuðum tímabilum, allt niður í örfáa daga og smáhluti eða staði. 

Mörg dæmi um þetta eru gráthlægileg.  

Þingmaður gekk inn til þingfundar á Bandaríkjaþingi með snjóbolta í hendi og kastaði honum inn í salinn sem sönnunarmerki þess að loftslag á jörðinni færi kólnandi en ekki hlýnandi. 

Íslendingar rýndi í hitatölur frá Stórhöfða síðustu ár og sagði í blaðagrein, að þær sýndu kólnun en ekki hlýnun á Íslandi. Ekki lét þessi greinarhöfundur þó þess getið, hvernig þessar hitatölur stemmdu við mikla rýrnun íslenskra jökla á sama tímabili.  

Þegar einstaka kuldaköst eða hlýindakaflar koma hér á landi skylmast kuldatrúarmenn og hitatrúarmenn með þessum mjög svo afmörkuðu atriðum, sem eru agnar ögn af lofthjúpi jarðar og segja hver um sig ekkert um heildarmyndina sem verið er að fjalla um.

Nóvember var með methita en desember með metkulda. 

Í flestum tölvulíkönum um þróun loftslags út þessa öld er því spáð, að á tveimur til þremur svæðum á jörðinni verði ekki hlýnun heldur jafnvel lítils háttar kólnun. 

Eitt þessara svæða er fyrir suðvestan Ísland. Viðfangsefnið varðandi lofthjúp jarðar er svo flókið, að líkurnar fyrir hvert svæði geta verið margar. 


mbl.is Verður 71 árs kuldamet slegið?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Magnússon

og hvað?  Hvað ertu að reyna að segja með þessum pistli? Þú ert e.t.v. sammála mér, að það séu engin óyggjandi rök, sem sýni fram á marktæka hlýnun á jörðinni af mannavöldum?

Jón Magnússon, 29.12.2022 kl. 20:28

2 identicon

Það er ekki hægt að sanna neinar eðlisfræðikenningar þó að hægt sé að færa fram sterk rök fyrir þeim. Þetta á m.a. við um kenningar Einsteins. Hins vegar á að vera  hægt að afsanna slíkar kenningar, séu þær rangar. Það er ekki hægt að sanna kenningu um væntanlega loftslagsvá af mannavöldum þó að sterk rök styðji hana. En það hefur heldur ekki tekist að afsanna hana. Á meðan svo er, þá ber öllum þjóðum heims skylda til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til koma í veg fyrir hana. Það gildir líka fyrir okkur Íslendinga enda þótt okkar hlutur sé óverulegur.

Það er of mikið í húfi.

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 29.12.2022 kl. 23:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband