Elon Musk: Aldar gömul saga Henry Ford kemur upp í hugann.

Bilablaðamenn heimsins útnefndu Ford T bíl 20. aldarinnar um síðustu aldamót. 

Framleiðsla bílsins hófst 1908, en gernýting færibandatækni í verksmiðjunni skóp slíka byltingu, að fyrir einni öld var annar hver bíll í veröldinni af þessari gerð. 

Það auðveldaði þetta afrek, að Ford T var snilldarlega einfaldur en jafnframt aterkbyggður.  

Eftir 1923 hallaði hins vegar hratt undan fæti hjá Ford. Hann var kominn af léttasta skeiði, ofmat stöðu sína í harðnandi samkeppni og gerðist íhaldssamur með afbrigðum ef smíði V-8 vélarinnar er undanskilin. .  

Elon Musk er hins vegar á besta aldri og því líklegri til að viðhalda mestu velgengni nýliða í bandarískrar bílaframleiðslu í heila öld. 


mbl.is Tesla hefur framleitt 920.508 bíla á árinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Elon Musk er ekki bara að gera athyglisverða hluti í bílaframleiðslu heldur líka í geimferðaiðnaði með fyrirtæki sínu SpaceX.

Þar er unnið hörðum höndum að því að innleiða fjöldaframleiðslu við smíði geimflauga sem munu geta borið fólk á braut um Jörð og jafnvel lengra eins og til Tunglsins og svo þaðan (eða beint af braut um Jörð) til Mars.

Markmiðið er ekki aðeins að fjöldaframleiða geimflaugarnar heldur einnig að gera þær endurnýtanlegar, til að margfalda hagkvæmni þeirra og að lokum verði geimferðir jafn hversdagslegar og farþegaflug milli heimsálfa.

Eða eins og hann hefur sjálfur lýst því þá finnst honum þær aðferðir sem hafa hingað til verið lagðar til grundvallar geimferðum jafn vitlausar og ef hverri farþegaþotu væri hent á haugana eftir aðeins eina flugferð og svo þyrfti alltaf að smíða nýja fyrir næstu ferð.

Af hverju ekki að gera geimflaugarnar endurnýtanlegar og nógu áreiðanlegar til að nota þá sömu aftur og aftur, alveg eins og flugvélar og bíla?

SpaceX hefur strax náð árangri í þessa átt sem fyrir ekki svo mörgum árum hefði þótt undraverður. Fyrsta stig flaugarinnar sem ber annað stigið og farminn langleiðina á sporbaug getur svifið aftur til jarðar og lent heilu og höldnu tilbúið til endurnotkunar með lítilli fyrirhöfn. Hylkið ("umbúðirnar") utan af öðru stiginu geta líka fallið aftur til jarðar í fallhlíf og svo eru þær veiddar upp úr sjónum og endurnýttar. Ef farmurinn er farþegahylki getur það komið aftur til jarðar og verið endurnýtt. Einu hlutarnir sem er ekki enn hægt að endurnýta er hreyfillin á öðru stiginu og það sem honum fylgir eins og eldsneytistankar og annar tilheyrandi vélbúnaður.

Næsta kynslóð SpaceX geimflaugar sem kallast Starship er í þróun, en henni er ætlað að vera að öllu leyti endurnýtanleg. Hún samanstendur af tveimur stigum. Fyrra stigið er eins og risastór raketta ("booster") með 33 eldflaugahreyflum sem ber geimfarið langleiðina á sporbaug um Jörðu. Svo verður seinna stiginu, geimfarinu sjálfu, sleppt lausu og 6 hreyflar þess sjá um að koma því síðasta spölinn á sporbaug. Á meðan svífur fyrsta stigið aftur til jarðar og lendir rétt eins og fyrsta stig Falcon 9, nema ekki á eigin fótum heldur í stórum gripörmum á risastórum turni sem er búið að byggja á skotsvæðinu (það sparar nefnilega talsverða þyngd að sleppa því að skjóta lendingarfótum á loft). Svo þegar geimfarið sjálft hefur hringsólað sinn tíma kringum Jörðina getur það komið aftur inn í gufuhvolfið og svifið aftur til jarðar, bókstaflega þöndum vængjum. Reyndar eru vængirnir ekki eins og flugvélavængir, þeir eiga ekki að bera farið heldur stýra falli þess í gegnum lofthjúpinn. Svo þegar nálgast yfirborð Jarðar snýr það sér upp í loft með hreyflana á undan sér og kveikir á þeim til að hægja fallið og lenda mjúklega, líka í gripörmunum á risastóra turninum. Þetta ferðalag verður að langestu leyti framkvæmt með sjálfstýringu (autopilot).

Ef ég hefði lesið þetta sem ég var að skrifa hér að ofan fyrir 10-20 árum síðan hefði mér sjálfum þótt þetta líkjast mest vísindaskáldskap, en nú er þetta að nálgast að verða raunverulegt. Þegar hefur verið prófað og sannreynt að skjóta seinna stiginu (geimfarinu) upp 12-15 km hæð og láta það svífa aftur niður í næstum frjálsu falli og lenda svo mjúklega. Fyrstu tilraunirnar heppnuðust reyndar ekki svo mjúklega heldur enduðu með sprengingum en sú síðasta tókst prýðilega. Svo var gerð tilraun til að skjóta fyrsta stiginu með geimfarinu ofan á út í geim 28. apríl síðastliðinn. Vegna bilunar í nokkrum hreyflum fyrsta stigsins náði flaugin reyndar ekki nægu afli til að komast alla leið út í geim og endaði með því að byrja að snúast stjórnlaust eftir að hafa náð um 39 km hæð og var á endanum sundrað með fjarstýrðum sprengibúnaði til að afstýra því að það myndi hrapa til jarðar (öllu heldur í sjóinn) í heilu lagi þar sem það gæti valdið tjóni. SpaceX telur tilraunina hafa heppnast því markmið hennar var fyrst og fremst að komast á loft án þess að springa í loft upp á skotpallinum, sem tókst vissulega, en svo var allur annar árangur til viðbótar aðeins bónus við það. Við það má bæta að þetta er kraftmesta eldflaug sem hefur nokkurntíma verið skotið á loft.

Næsta tilraun til að skjóta slíku geimfari á braut um jörðu (eða því sem næst) er fyrirhuguð fljótlega, jafnvel eftir 1-2 mánuði samkvæmt Elon Musk en hann er þekktur fyrir bjartsýnar tímaáætlanir svo því ber að taka með fyrirvara. Seinna á þessu ári væri kannski raunhæfari ágiskun.

P.S. Ég biðst velvirðingar á löngum texta en mér finnst þetta bara svo áhugavert að þegar ég var byrjaður gat ég ekki hætt fyrr en ég var kominn að einhverskonar endapunkti þar sem við erum stödd í dag. :)

Guðmundur Ásgeirsson, 3.7.2023 kl. 20:06

2 identicon

Það vantar rafmagn fyrir þessi orkuskifti hér er ein góð hugmynd,en sennilega væri betra að hafa miðlunarlón og göng á berufjarðar eða Hamarsfjbrúnir og fallgöng þar

https://2veldi.files.wordpress.com/2023/06/fjallapower-16-allt.pdf

Rafmagn (IP-tala skráð) 4.7.2023 kl. 09:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband