GLEYMSKAN LEYNIST VÍÐA.

Sagan af manninum sem gleymdist í 50 ár í fangelsi minnir á það þegar Vilhjálmur frá Skáholti gleymdist inni á Kleppi í tíu mánuði eins og rifjað var upp í Kilju Egils Helgasonar í kvöld.  Sem betur fer var íslenska gleymskan  60 sinnum  styttri en sú á Shri Landka.  Myndin um Trabantinn í sjónvarpinu minnti á eina af bestu sögum af rassmótors-Skodanum sem ég kann, en þess má geta að ég notaði slíkan bíl af árgerð 1984 í rúmt ár á Kárahnjúkasvæðinu og dugði vel. 

Þegar ég ætlaði að koma honum í gegnum skoðun bað ég verkstæði á Egilsstöðum að setja á blað hvað þyrfti að gera við.

Þeir skoðuðu bílinn og skrifuð eitt orð sem svar við því hvað væri að bílnum:  ALLT !  

Hann er nú kominn á safnið á Ystafelli við hlið Ingimars-Skodans. En sagan er svona:

Einn dag á þeim tíma fyrir aldarfjórðungi sem Skoda var "international joke" eins og stendur í alfræðibók um bíla sem ég á, reyndist erfitt að koma nýinnfluttum Skoda í gang við höfnina og var hann loks dreginn á verkstæði í Kópavogi. Skoðun og mælingar gátu engan veginn upplýst hvers vegna bíllinn gekk ekki nema á broti af vélaraflinu.

Rakst þá inn þar gamall starfsmaður og spurði hvað væri um að vera. Honum var sagt það. Hann spurði í þaula um hvað hefði verið gert og að lokum um það hvort þjappan hefði verið mæld í vélinni.

Nei, var svarið, það er út í hött að gera það á nýjum bíl.

Sá gamli minnti þá hina nýrri starfsmenn á þá aðferð Sherlock Holmes að prófa alla möguleika þangað til sá ólíklegasti væri eftir, því að með slíkri útilokunaraðferð kæmi í ljós að þar lægi lausnin.

Með semingi var sóttur þjöppumælir og á fyrstu tveimur strokkunum mældist full þjappa. En síðan sýndi mælirinn ekki neitt. 

Hann er bilaður, sögðu menn.

Sækið þá annan mæli, bað sá gamli.

Aftur fór á sömu leið, - sá mælir bilaði líka.

Lyftið þið heddinu af, bað sá gamli.

Það ver gert og ótrúlega gleymska kom í ljós: Það hafði gleymst að setja tvo af fjórum stimplum í vélina! 

Þess má geta að nú má sjá í rannsóknum erlendra bílablaða að Skoda er komin á meðal þeirra efstu að gæðum og lítilli bilanatíðni, jafnvel upp fyrir móðurfyrirtækið Volkswagen.

Það breytir því ekki að ég ber sterkar taugar til gamla Skodans sem ég fékk nærri því gefins og notaði í ferðir um allt norðan- og austanvert landið, allt upp fyrir Kárahnjúka. Þetta var bíll með sérvisku og karakter rétt eins og Trabantinn.  


mbl.is Gleymdist í fangelsi í 50 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Minn fyrsti bíll var skoda oktavia ´65. Oktavían fór þó nokkuð marga hringi á rúntinum 1977. Stundum heyrðist á þeim árum að flottustu píurnar færu inní flottustu bílana. Gamla Hallærisplanið var aðal viðkomustaðurinn á rúntinum og þar lagði ég mínum kinnroðalaust við hliðina á Mustöngunum og camaróunum..... og hafði ekki yfir neinu að kvarta.

Gunnar Th. Gunnarsson, 17.1.2008 kl. 01:02

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í fyrrnefndri stóru bók minni um Skoda segir að gömlu Skodagæðin hafi haldið sér að mestu í eldri gerðunum eins og þeirri sem þú áttir, en allt hafi farið á verri veg þegar þeir komu fram með Skoda MB 1000 upp úr 1960 og gæðunum hafi hrakað upp frá því þangað til Volkswagen-verksmiðjurnar komu til skjalanna.

Og meðal annarra orða, Hallærisplanið. Nú þarf ég að blogga um það.  

Ómar Ragnarsson, 17.1.2008 kl. 11:54

3 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Frábærar sögur! Bestu þakkir! 

Þessir tveir stimplar í gamla Skodanum hafa þá verið sama og ekkert notaðir!

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 17.1.2008 kl. 11:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband