Hvað vill sjónvarpsneytandinn?

Þegar Stöð tvö var sett á stofn sá ég ekki að rými væri fyrir tvær sjónvarpsstöðvar í svo litlu samfélagi sem Ísland er. Þetta reyndst rangt og nú eru tvö atriði efst í huga mér varðandi þjónustu á sjónvarpsmarkaði.

1. Samkeppni. Að því leyti til eru tilvera Stöðvar tvö og Skjás eins nauðsynleg, - einnig tilvist tveggja öflugra fréttastofa á sjónvarpsmarkaðnum. 

2. Tilvist RUV. Í sveiflum markaðsþjóðfélagsins er mikilvægt að tryggt sé að til sé sjónvarpsstöð sem ekki verði lögð niður af markaðsástæðum. Það yrði slæmt ef menn sætu allt í einu upp með engan slíkan miðil, sem hefði skyldur við þjóðina um óhlutdræga miðlun upplýsinga og skoðana. 

Frá sjónarhóli neytenda er mikilvægt að sjónvarpsstöðvarnar fari ekki á taugum varðandi ýmsa þjónustu sem þarf tíma til að sanna sig. Á tímabili var tæpt að tíufréttir Sjónvarpsins ættu tilverurétt, en það var vegna þess að þær voru í upphafi afskiptar í samanburði við fyrri fréttirnar.

Það var á skjön við reynslu nágrannaþjóða svo sem Breta, þar sem fréttir á þessum tíma kvölds fá góðan hljómgrunn. Ég hef reyndar talið alla tíð að tíufréttirnar eigi að losa sig við það að "helst-fréttir" fyrri fréttatímans komi þar inn eins og einhverir halaklipptir aðskotahlutir aftarlega í fréttatímanum.

Ég held að leitun sé að sjónvarpsfréttatíma erlendis þar sem þetta er gert. Ég tel að ef einhver frétt sé langstærsta frétt dagsins, eigi hún að vera fyrsta frétt klukkan tíu eins og klukkan sjö.

Stöð tvö þarf auðvitað  að huga að fjárhagsstöðu sinni og þá kanna að vera freistandi að slá hádegisfréttatímann af. Það teldi ég vera slæmt fyrir neytendur og ég hvet ráðamenn Stöðvar tvö til að fara ekki á taugum því að það tekur tíma fyrir svona fréttatíma að sækja í sig veðrið og sanna sig, jafnvel nokkur ár.

Eins og er er það hið besta mál fyrir neytendur að Stöð tvö veiti sína fréttaþjónustu í hádeginu og Sjónvarpið síðla kvölds.  

Dagskrárstjórarnir komust að samkomulagi um tímasetningar á helstu leiknu þáttum sínum og það er til hagsbóta fyrir neytendur, alveg eins og það er í þágu neytenda að báðir aðalfréttatímar stöðvanna séu ekki á sama tíma.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pétur Kristinsson

Ég er sammála þér í flestu þarna að ofan nema þegar kemur að seinni fréttum sjónvarps. Fyrir þá sem eru að vinna lengi að þá er oft mjög gott að fá upprifjun á helstu fréttum kvöldsins enda tekur þessi upptalning aðeins örskotsstund.

Maður getur ekki alltaf notað RÚV+ þar sem að aðrir fjölskyldumeðlimir eru búnir að horfa á fréttir á réttum tíma og ekki vill maður neyða þá til þess að horfa á sama efnið aftur.

Pétur Kristinsson, 23.9.2008 kl. 16:53

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þú misskilur mig, held ég. Tökum dæmi: Segjum að í sjöfréttatímanum séu 14 fréttir, þar af sex "helst"fréttir.

Eins og þetta er núna er búinn til tíufréttatími sem er ca. sex "nýjar" fréttir (flestar þeirra oftast fréttir sem ekki komust að klukkan sjö) - og síðan er tæpt afar stuttlega á helst-fréttunum klukkan sjö.

Slíkt veit ég ekki að sé gert nokkurs staðar annars staðar á byggðu bóli.

Ég vil breyta þessu þannig að séu til dæmis tvær af sex helst-fréttum kl.sjö merkilegustu fréttir dagsins, þá verði þær fremst eða mjög framarlega í tíufréttatímanum, oft aðeins styttri en klukkan sjö, en unnar upp á nýtt með eftirfylgni og kannski fundið nýtt sjónarhorn.

Síðan er hugsanlegt að tvær af þeim fjórum helstfréttum, sem voru klukkan sjö en eru ekki mjög merkilegar, verði fluttar í styttri mynd með hugsanlegri eftirfylgni.

Við þetta bætast síðan fréttir sem voru ekki klukkan sjö, annað hvort splunkunýjar eða þá vegna þess að þær komust ekki að klukkan sjö og voru geymdar til klukkan tíu.

Þá sitja kannski eftir tvær fréttir, sem voru helst-fréttir klukkan sjö en eru minnst fréttnæmar, - stundum voru þær bara léttar fréttir í lokin til að ljúka sjö fréttatímanum á jákvæðum og léttum nótum og varla þess eðlis að þurfi að draga þær í mýflugumynd inn í tíufréttatímann.

Mér myndi hugnast betur ein stutt ný og létt frétt sem endaði tíufréttatímann.

Ef þetta er gert svona lítur tíufréttatíminn út eins og fullburðugur fréttatími þar sem mest áhersla er lögð á stærstu fréttirnar sem þá er völ á þótt sumar þeirra kunni að vera þær sömu og voru þremur tímum fyrr.

Alvörufréttatími, - ekki fréttatími með afgöngum frá síðdeginu sem burðarás.

Ómar Ragnarsson, 24.9.2008 kl. 01:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband