Klúðrið að koma sér í svona stöðu.

Ég hef áður sagt frá þeim viðbrögðum erlendis sem orð seðlabankastjóra höfðu á viðkvæmasta stigi þess klúðurs sem við erum komin í. Viðbrögðin voru reiði hundruð milljóna manna sem sáu þennan viðtalsbút í sjónvarpsfréttum yfir því að mismuna ætti sparifjáreigendum eftir þjóðerni hvað varðaði uppgjör í þeim efnum. Í fyrsta skipti á ævinni varð ég fyrir lítilsvirðingu á erlendri grund fyrir þjóðerni mitt.

Á grundvelli þessa, símtalsins fræga við fjármálaráðherra Breta (sem ætti að birta) og hugsanlegra fleiri atriða skapaðist tylliástæða fyrir fráleitlega hörðum viðbrögðum Breta. Enn liggur heiður þjóðarinnar í svaðinu víða um lönd eftir þá árás og Ásta Möller hefur lýst því vel hve erfitt er að upplýsa um það fyrir jafnvel þingmönnum erlendis.

Ef haldið hefði verið öðruvísi á málum, fengnir strax fulltrúar Breta til landsins eða haldnir fundir erlendis án skaðlegra yfirlýsinga í fjölmiðlum fyrir fram, hefði miklu fremur fengist skaplegri lausn en sú sem nú virðist ætla að dynja á okkur í skjóli þrýstings utan frá eftir að erlendir ráðamenn hafa gengið of langt í bræði sinni og eiga erfiðara með að bakka eða fallast á sanngjarna lausn.

Þar með blasir við hættan á "Versalasamningum" þar sem óframkvæmaleg lausn leiðir meiri vandræði af sér en átti að leysa.  

Hvað snertir ummæli Valgerðar Sverrisdóttur finnst mér vandséð hvernig Framsókn ætlar að komast frá kosningum þar sem hennar þáttur síðasta áratug í græðginni á kostnað afkomendanna mun blasa við. 

En ljóst er að uppgjör verður að fara fram, - nýir tímar með nýjum gildum hafa haldið innreið sína.   


mbl.is Stjórnmálin biðu hnekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

En hvað um fjórða valdið svokallaða? Ber það enga ábyrgð á neinu? Því hefur tekist á undraskömmum tíma að gera mig vitlausan. Ég fór t.d. út í búð áðan og keypti tvo pakka af tekexi í staðinn fyrir einn eins og ég er vanur. Á leiðinni út úr búðinni hugsaði ég með mér hvort það gæti verið að ég væri orðinn helmingi vitlausari í dag en ég var í gær. Ef svo er skiptir það svo sem ekki miklu máli hvað mig varðar. Það var ekki úr svo háum söðli að detta hvort sem var.

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 22.10.2008 kl. 15:45

2 Smámynd: Ívar Pálsson

Seðlabankastjóri sá tölurnar og að það væri deginum ljósara að Íslendingar gætu ekki greitt þessar þúsundir milljarða króna. Hann sagði það því hreint út. Það kemur hvellur þegar blaðra springur, óháð því hvernig maður segir frá því. En ríkisstjórnin ákvað að velta þessu fram og til baka þar til hægt var að klína allri skuld bankanna á okkur.

Nú er spurningin, mun Alþingi staðfesta allar álögurnar, þegar upp er staðið, eða einungis fyrstu 600 til 1000 milljarðana? Er ekki eins gott að hafna þessu strax og hafa þá „grætt“ofurfúlgur?

Ívar Pálsson, 22.10.2008 kl. 16:17

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hvað með að láta útrásarvíkingana skila til baka,-ekki bara víkingaskipinu- heldur ránsfengnum líka?

Á íslenska þjóðin engin veð í heimsfrægum lystisnekkjum og íbúðum sem kosta andvirði Bakkafjöruhafnar, og ætli lystisnekkja Jóns Ásgeirs og þeirra hjónanna væri sniðug ferja milli lands og Eyja? Mætti nota þyrlu Magnúsar Kr. til að skjótast með póstinn og annað smáræði?

Er ekki tímabært að fara með dágóðan hóp fjármálamanna í skoðunarferðir á Kvíabryggju til að kynna sér aðstæður?

Árni Gunnarsson, 22.10.2008 kl. 16:57

4 identicon

Gott að lesa þetta Ómar. Það verður mikill léttir þegar við vitum loksins hvar við stöndum. Þessi biðtími er erfiður.  En þegar við vitum loksins hvað það er sem við skuldum í raun og veru og hvað er framundan, þá er hægt að leggja línur um framhaldið. Auk þess legg ég til að Framsóknarflokkurinn verði lagður niður.

Nína S (IP-tala skráð) 22.10.2008 kl. 21:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband