29.10.2008 | 18:41
Afneitun á fullu.
Ef málið væri ekki jafn grafalvarlegt og það þer væri broslegt að fylgjast með því hvernig Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin reyna að sverja af sér ábyrgð á mistökum og axarsköftum í stjórnarfarinu undanfarin ár, - flokkar sem hafa keppst um hylli Sjálfstæðisflokksins eftir ballið á kosninganótt.
Ekki þarf að fjölyrða um þátt Framsóknarflokksins í því að kynda þenslubálið allt frá 2002 í húsnæðiskerfinu og með stóriðju- og virkjanaframkvæmdum sem hvort tveggja var keyrt áfram í stundargróðabrjálæði af algeru tillitsleysi við hagsmuni komandi kynslóða.
Hlutur Samfylkingarinnar er ekki betri. Strax árið 2002 tók flokkurinn upp þá stefnu að sýna Sjálfstæðisflokknum fram á að hún væri "stjórntæk" með því að meirihluti þingmanna SF studdi Káralhnjúkavirkjun og leikið var tveimur skjöldum í stóriðjumálum.
Í héraði studdi Samfylkingarfólk álversframkvæmdir og eins miklar virkjanaframkvæmdir og hægt var að komast yfir. Ráðamenn átu ofan í sig loforð fyrir kosningar um að breyta fyrirkomulaginu við ákvarðanir sem gátu falið í sér afdrifaríkar og neikvæðar afleiðingar varðandi varðveisluna á mestu verðmætum landsins, sem felast í náttúru þess.
Fagra Ísland var kokgleypt eftir kosningarnar og samstaðan við Sjálfstæðismenn var í raun algjör um eins öflugt áframhald stóriðjustefnunnar og mögulegt væri.
Ofan á þetta bætist ábyrgð Samfylkingarinnar á hinum mikla hrunadansi í efnahagsmálum sem stiginn var með vaxandi þunga þar til allt hrundi.
Ekki benda á mig | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það hefur verið ömurlegt að horfa upp á gjörði þessa fólks og eins að horfa upp á umkomuleysi þess nú. Það á ekki virðingu skilið.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 29.10.2008 kl. 20:25
"Snúðu í austur, snúðu í vestur og bentu á þann sem þér þykir bestur!"
Þorsteinn Briem, 29.10.2008 kl. 21:33
Omar, hernig heldur thu ad astandid a islandi væri i dag, ef ad engin storida væri. Ekki hafa verid frettir af uppsøgnum i alverum, ætli einmitt alver og IJ verdi ekki traustustu og øruggustu vinnustadir landsins a næstu arum.
Anton Þór Harðarson, 30.10.2008 kl. 08:32
Í álverunum vinnur 0,7 % af vinnuafli landsmanna. Jafnvel þótt menn margfaldi það með fjórum til að finna út tengd störf (sem er hægt að gera í öllum atvinnugreinum) er þetta innan við 3% af vinnuaflinu.
Ef ekki hefði verið farið eins geyst í stóriðjunni og fjárfest bara lítið brot af því t. d. í ferðaþjónustunni, þá værum við betur búnir í henni með UNESCO-stimpil á Brúarjökli og einstæðum sköpunarverkum hans og vaxandi ferðamannastraum vegna rétt skráðs gengis krónunnar.
Ómar Ragnarsson, 30.10.2008 kl. 13:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.