Enn eitt stríðið sem enginn vildi.

Sagan geymir styrjaldir sem hófust án þess að nokkur vildi það. Deila Íslendinga og Breta virðist gott dæmi um það. Allt fram að 3. október draga Bretar lappirnar við að koma Icesave reikningunum undir breska lögsögu og átta sig engan veginn á alvöru málsins, enda virðast Íslendingar tregir til að játa hana til fulls.

Þá fyrst, og hugsanlega of seint, átta bresk stjórnvöld sig á því að mun skárri kostur sé að láta skaðabætur vegna tapsins lenda á öllum breskum skattborgurum i heild og verða þar með lítil upphæð hjá hverjum og einum heldur en að 300 þúsund innlánseigendur geri allt vitlaust vegna taps síns.

Boð eru látin berast til Íslendinga um að landa þessu með flýtimeðferð á fimm dögum. Sjálfur yfirmaður breska fjármálaeftirlitsins er kallaður út yfir helgi til að vinna að þessu. En íslensk yfirvöld klúðra tækifærinu og Darling fjármálaráðherra verður æfur yfir skilningsleysi þeirra þegar hann reynir í viðtalinu fræga við Árna Mathiesen að koma honum í skilning um hve hroðalegar afleiðingar þetta muni hafa fyrir orðspor og hagi Íslendinga.

Í kjölfarið sjá hundruð milljóna sjónvarpsáhorfenda erlendis margspiluð ummæli seðlabankastjóra Íslands: "Við borgum ekki" og orðspori Íslands, heiðri og viðskiptavild er sturtað niður í klósettið. Eins og þetta var spilað í erlendu sjónvarpi jafngilti þetta striðsyfirlýsingu þótt því væri ætlað að sefa íslenska sjónvarpsáhorfendur.

Nú er deilan orðin að stríði sem stefnir í það að verða miklu harðara og alvarlegra en menn óraði fyrir. Hún gæti stigmagnast á óviðráðanlegan hátt eins og kjarnorkustríð. Það væri hörmulegt. Klúðrið dagana 3.- 7. október má ekki endurtaka sig.

Nokkurra daga atburðarás leiddi til fyrri heimsstyrjaldarinnar, styrjaldar sem góður vilji hefði geta komið í veg fyrir, - en menn misstu stjórn á atburðarásinni. Það og atburðarásin 3. - 7. október s.l. er víti til varnaðar.


mbl.is Uggandi um afgreiðslu umsóknar hjá IMF
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Það er alveg klárt að því þyngri byrgðar sem lagðar verða á okkur, þeim mun fleira fólk mun yfirgefa landið sem aftur leiðir til þess að við munum eiga erfiðara með að standa í skilum.

Þóra Guðmundsdóttir, 6.11.2008 kl. 10:02

2 identicon

Sammála þér Þóra.

Það eru 801 einstaklingar skráðir atvinnulausir á Suðurnesjum í dag. Í þessum tölum er ekki fólkið sem fékk uppsagarbréfið um sl. mánaðarmót sem voru um 300 manns. Hvað á þetta fólk að gera fyrir börnin sín ??  Mitt svar er að yfirgefa landið sem fyrst og flytja til Norðurlandanna. Ég þekki til nú þegar um nokkrar fjöldskyldur sem eru að gera klárt mennirnir fóru á undan og eru byrjaðir að að vinna í Noregi og samhliða því eru þeir að undirbúa flóttan fyrir konu og börn.

Baldvin Nielsen, Reykjanesbæ

P.S. Á Suðurnesjum eru um 19 þúsund manns svo atvinnuleysið er orðið mjög skuggalegt á Suðurnesjum!!  

B.N. (IP-tala skráð) 6.11.2008 kl. 12:22

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Tonkin flói 1964

Falklandseyjar 1982

S-Ossetía 2008-sumar

Reykjavík 2008-haust

... ?

Guðmundur Ásgeirsson, 6.11.2008 kl. 13:32

4 Smámynd: Baldvin Jónsson

Bendi á bloggið mitt í dag um viðbrögðin og sorgarferlið.

Er ekki kominn tími á aðgerðir?  Er ekki kominn tími á að setja fram aðgerðaráætlun fyrir hreyfinguna litlu? Við bíðum ansi mörg eftir kallinu núna trúi ég.

Svo ég taki bút úr blogginu hjá mér:

"Mig langar til þess að hætta þessu þrasi og tuði. Mig langar til þess að gerendurnir biðjist bara afsökunar og að hinir geti þá hætt að safa í sökudólga brennuna. Mig langar til þess að fá skýrar réttar upplýsingar um hver staða mála raunverulega er.

Mig langar til þess að fara að horfa fram á veginn og einbeita mér að uppbyggingar starfinu sem framundan er."

Baldvin Jónsson, 6.11.2008 kl. 15:18

5 identicon

Nýjustu tölur um atvinnuleysið á Suðurnesjum 828 manns.

Baldvin Nielsen Reykjanesbæ

B.N. (IP-tala skráð) 6.11.2008 kl. 18:56

6 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Datt í hug að fleiri vildu þakka Færeyingum!  :)

 http://faroe.auglysing.is/

Baldur Gautur Baldursson, 6.11.2008 kl. 19:22

7 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Ég vona Ómars vegna að hann sé ekki að leggja til að hróflað verði við Davíð Oddssyni og gerast með því hryðjuverkamaður. Miðþyngdaráhersla Alþingis og ríkisstjórnar í núverandi stöðu er; staða hans verði trygg hvað sem einstaka þingmenn eða ráðherrar segja. Það er borgaraleg skilda okkar að styðja stjórnvöld í þessu eina máli sem nú er á dagskrá stjórnvalda, og er sístætt.

Fái Alþingi og ríkisstjórn ekki frið í þessu máli er alls óvíst um að ný lög um friðun héra komist á dagskrá þingsins en þau lög nr. 23/1914 voru felld úr gildi fyrir óskiljanleg mistök.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 6.11.2008 kl. 21:42

8 identicon

Ég er sammála þér , Ómar, að Íslendingar hafi hreinlega ekki áttað sig á hve hratt yrði að bregðast við og hve ástandið væri í raun slæmt. Svo hélt ég að hægt yrði að semja um skuldir þó málaferli væru að fara af stað, einfaldlega með því að geta þess neðanmáls. Á meðan ekki er búið að ganga frá láninu frá Alþjóðabankanum, þá lítum við Íslendingar ekki vel út gagnvart heiminum. Ég hef alltaf verið stolt af landi mínu og þjóð. Mér þætti það mjög miður ef staðan er orðin þannig, bæði innanlands og erlendis að maður skammist sín fyrir að vera Íslendingur. Það er hægt að halda reisn í erfiðleikum, taka á málum af "karlmennsku", bera höfuðið hátt þó móti blási, en mér finnst öll meðferð hins opinbera hér á öllum málum sem snerta kreppuna á Íslandi þvílíkt laumuspil að það er aðeins ávísun á að fólk sé niðurlútt, óöruggt, hrætt. Það vantar afgerandi forystumann þessarar þjóðar sem tekur skeleggur á málum, stappar stáli í þjóðina og ber höfuðið hátt gagnvart erlendum lánadrottnum.

Nína S (IP-tala skráð) 6.11.2008 kl. 22:05

9 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Býð mig fram ef einhver vill...

Guðmundur Ásgeirsson, 6.11.2008 kl. 23:43

10 identicon

Það er ömurlegt að lesa, bæði hér og annarsstaðar að fólk ætli að leggja á flótta með skottið á milli fótanna. Erfiðleikar eru hluti af lífiunu sjálfu eins og velgengnin. Það er ekki sjálfgefið að velgengni sé eilíf.

Aldrei skal ég verða svo lélegur Íslendingur að ég leggi á flótta við svona aðstæður. Jafnvel ekki þó ég þyrfti að lifa á hrossaketi árum saman.

Fjöldi Íslendinga hefur fjármagnað sinn óhófslífsstíl með erlendum lánum og hlutabréfagambli undanfarin ár. Fer svo í fýlu  og leggur á flótta þegar veizlan er búin

Og kennir svo öðrum um.   Satt að segja vorkenni ég þessu liði ekki neitt.

Kári S. Lárusson (IP-tala skráð) 6.11.2008 kl. 23:51

11 identicon

 Stundum er ég lengi að kveikja, Ómar, en áðan þegar ég hlustaði á Veru Lynn syngja um White Cliffs of Dover með Spitfire flugvélasýningunni. Þá allt í einu fattaði ég hvað þú ert í raun og veru að fara. Jú, við vitum að í styrjöldinni voru margar borgir í mörgum löndum lagðar í rúst og fjárhagur margra ríkja fór gersamlega í rúst. Samt tókst þeim að byggja allt upp aftur. En það stríð sem herjar á friðarins þjóð, Íslendinga, er af öðrum toga. Og það er þetta peningastríð þar sem "hermennirnir", "skæruliðarnir", "leyniskytturnar", "uppljóstrararnir" og "hreinsunarmennirnir" æða að okkur úr öllum áttum. Þá er ekki nema von að við óskum eftir styrkri stjórn, kannski ekki rödd Churcills, heldur þurfum við forysturödd, ákveðna, sterka, sannfærða, sigurvissa, sem getur stappað stáli í fólk, sagt fóli hvað er að gerast,. Þetta mun koma fram í næstu kosningum, sá flokkur sem hefur rödd sem er kjarnyrðus, sterkust, mest sannfærandi, sem talar til fólks sem jafningja, sá flokkur sigrar glæsilega.

Við erum í stríði, teygjum okkur þá eftir stríðsöxinni eða sverðinu (andans sverði), vígbúumst til varnar þjóðarstolti okkar, stöndum stolt og keik, með trú á Íslandi, alltaf.Alltaf. Sama hvað á dynur. Sýnum kjark og skiptum út þeim sem hafa ekki haft dug í sér til að koma fram við okkur af heilindum. Við getum það.

Já, Ómar það er stríð sem við báðum ekki um. 

Nína S (IP-tala skráð) 7.11.2008 kl. 00:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband