Hvað var "ónákvæmt"? Fallnir í stríðinu?

Undrandi sendiherrar erlendra ríkja segja að forseti Íslands hafi sagt á hádegisverðarfundi með þeim að vegna þess að nágrannar Íslendinga hefðu brugðist þeim, gætu þeir snúið sér annað og boðið Rússum aðstöðu á Keflavíkurflugvelli.

Skrifstofa forsetans upplýsir eð ekkert sé til í því sem einn sendiherrann hafi skráð hjá sér á minnisblað að forsetinn hafi tengt saman hugsanlega lánveitingu Rússa til Íslendinga og fyrrum herstöð Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli. Fréttir erlendra fjölmiðla af þessu séu "ónákvæmar". Síðan klykkt út með því að forsetinn muni ekki tjá sig um efni þeirra umræðna, sem hann átti við hina erlendu sendimenn.

Enn er komið upp mál þar sem almenning skortir upplýsingar. Forsetinn er eini embættismaður þjóðarinnar sem er kosinn beint af henni. Þjóðin á beinan aðgang að forsetanum og milliliðir þurfa því ekki að flækjast fyrir í samskiptum hans við þjóðina.

Þrátt fyri einhverjar venjur um það að upplýsa ekki um það sem fram fer á fundum hans með fulltrúum erlendra ríkja verður forsetinn að mínum dómi að upplýsa okkur, sem kusum hann, um það hvernig hann heldur á málum okkar allra gagnvart nágrannaþjóðum okkar.

Hvað var "ónákvæmt" í frásögnum erlendrar fjölmiðla?

Og fyrst farið er að tala um venjur má nefna að sú hefð hefur myndast að forsetinn verði að taka tillit til ríkisstjórnar hverju sinni þegar um er að ræða t. d. bein viðfangsefni utanríkisráðherrans. Utanríkisráðherrann hlýtur að krefja forsetann um réttar upplýsingar um það sem fór fram á hádegisverðarfundinum.

Nema að forsetinn hafi verið að túlka stefnu ríkisstjórnarinnar. Er þetta stefna hennar, Ingibjörg Sólrún?

Í minnisblaði norska sendiherrans segir að forsetinn hafi sagt að Íslendingar hefðu misst fleiri menn hlutfallslega í stríðinu en Bretar. Það var vegna fiskflutninga Íslendinga til Bretlands. Hverjar eru staðreyndirnar? Bretar misstu 264.443 menn, minnsta kosti fjórum sinnum fleiri hlutfallslega en Íslendingar. Er þetta "ónákvæmnin"?

Eða er það rangt að forsetinn hafi sagt þetta og tengt með því saman fjárhagsleg vandræði þessara tveggja þjóða nú og mannfall í mesta hildarleik sögunnar? Er "ónákvæmni" í þeirri frásögn? Tengdi forsetinn þetta saman í ræðu sinni?

Ég bloggaði um það að í besta falli væri það brandari eða hálfkæringur að tengja aðstoð Rússa við herstöð þeim til handa. En fréttir í fjölmiðlum um ummæli sjálfs forsetans í þessa veru eru ekki brandari. Það mál þarf að hreinsa upp allra okkar vegna. Að minnsta kosti vil ég fá að vita hvað eini embættismaðurinn, sem nú starfar og ég hef kosið, hefur sagt er fyrir mína hönd við nágranna mína.


mbl.is Fréttir af ummælum forseta ónákvæmar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ráðamenn lýsa yfir að upplýsingagjöf þurfi að vera greið en þegja svo allir sem einn þunnu hljóði. Þá sjaldan herrarnir tjá sig rekur hvert klúðrið annað "Foot in mouth-disease" heitir þetta á ensku.

Óskandi væri að við fengjum að vita hvað er á seyði, hver staðan er og hvaða möguleikar eru fyrir hendi í henni. Hver er stefnan? Maður fær á tilfinninguna að þessir menn viti hreinlega ekkert í sinn haus, og því er kannski ágætt að þeir þegi. En ef við eigum að sigrast á stöðunni þurfum við eitthvað allt annað en nú virðist í boði.

Og hvar eru íslensku fjölmiðlarnir? Stjórnmálamenn komast upp með að biðjast undan viðtölum og engar fréttir er að hafa. Einu fréttir okkar af stöðu mála eru úr erlendum fjölmiðlum, Financial Times o.s.frv. Þetta ástand er óþolandi.

Reynir (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 13:21

2 identicon

Sæll Ómar

Þú gerir nú fullmikið úr því að við höfum kosið forsetann. Við erum reyndar nógu gamlir til þess að hafa tekið þátt í kosningunum 1996 en síðan hefur Alþingi verið kosið þrisvar. Það má halda því fram að forseti sé kosinn fjórða hvert ár og svo er það að forminu en raunverulegar forstetakosningar hafa ekki farið fram hér nema 1952, 1968, 1980 og 1999, - æviráðinn ef vill.

Skúli (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 14:13

3 Smámynd: Snorri Hansson

Jú forsetinn hefur misst sig svolítið í þessari samkomu þeirra sem ekkert mega seigja.

Ég styð forsetann heils hugar.

Við íslendingar erum í úlfakreppu. Margar þjóðir sem við höfum haldið vera vinsamlegar hafa snúið við okkur baki.

Ríkisstjórnin seigir ekkert,gerir ekkert. Gerir ekki einu sinni svo lítið að seigja okkur sannleikann. Þá er mjög hætt við því að sum okkar missi sig svolítið.

Forsetinn er einn af okkur.

Snorri Hansson, 12.11.2008 kl. 14:42

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hann er ekki bara einn af okkur, hann einn er fulltrúi okkar allra hinna. Og hversu vel stöndum við gagnvart Rússum þótt ég vilji helst ekki tala um þá spekúlasjón? Er það rétt sem heyrst hefur að þeir hafi tengt lánið við það að við borguðum tap sem menn þar í landi urðu fyrir í bankahruni okkar?

Að þess vegna heyrist lítið um þetta rússamál? Hvaða spil höfum við raunverulega á hendi?

Ómar Ragnarsson, 12.11.2008 kl. 15:07

5 identicon

Sæll, Ómar

Ég er sammála þér um að enn er komið upp mál sem okkur vantar upplýsingar um. Við, þjóðin, erum enn einu sinni að spyrja og spyrja aftur en fáum ekki svör, svo við þurfum að giska á hlutina eða lesa um þá í erlendum fjölmiðlum. Eins og þetta mál með forsetann, hvað sagði hann eiginlega? Hverju eigum við að trúa?  Er það rétt að.... o.s.frv. Við vitum það ekki í raun og þetta ástand er orðið meira en óþolandi.  

Nína S (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 16:24

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Bretar hernámu Ísland í Seinni heimsstyrjöldinni. Þeir komu ekki hingað í spásséritúr í boði Íslendinga.

En fjöldinn allur af íslenskum sjómönnum lét lífið við transportasjónir á íslenskum fiski til Bretlands í styrjöldinni til að halda lífi í þeirri bjánalegu þjóð sem þar býr. Frönskurnar tókst þeim hins vegar að rækta sjálfir á milli þess sem þeir fengu þýska kúlu í kollinn.

Ef norski ambassadorinn hefur nóterað spekúlasjónir bóndans á Bessastöðum um hlutfallslegt mannfall Breta og Íslendinga í Seinni heimsstyrjöldinni hefur hann trúlega svamlað dágóða stund í rauðvínsflöskunni og orðinn vel rauðvínsleginn.

Við vitum ekki hvað okkar president hafði hér nákvæmlega í huga. Var hann til að mynda að bera saman mannfall í röðum breskra sjóliða annars vegar og íslenskra sjómanna hins vegar? Eða þá heildarmannfall Breta og Íslendinga í styrjöldinni, þegar Þjóðverjar sendu hvern Kínverjann af öðrum yfir Ermarsundið en við fengum nánast enga slíka innsýn í þýska menningu hérlendis?

Þjóðverjar sökktu mörgum íslenskum skipum í Seinni heimsstyrjöldinni og það var ekki út af óvild í garð Íslendinga, síður en svo. Við vorum svo gott sem hreinræktaðir aríar og sendum Gyðinga í ofninn í Þýskalandi. Þjóðverjunum var aftur á móti uppsigað við Breta, líklega vegna þess að þeir höfðu sagt Þjóðverjum stríð á hendur og það meira að segja án þess að hafa nokkra burði til að sigra þá sjálfir í styrjöld.

Við vorum hlutlausir í styrjöldinni en hernumdir af Bretum og fjöldi Íslendinga féll við að gefa þeim að éta í stríðinu. En þrátt fyrir það komu þeir hingað með herskip í þorskastríðunum og nú leggja þeir undir sig íslenska banka.

http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=3976

Þorsteinn Briem, 12.11.2008 kl. 16:29

7 identicon

Má ég benda á að hroki er ein af aðalástæðunum fyrir að við stöndum í þessum sporum í dag. Er ekki nóg komið!

Thor Svensson (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 16:39

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Thor.

Hvað höfum við gert ólöglegt í þessu máli gagnvart Bretunum?!

Höfum við lagt undir okkur breska banka með ólögmætum hætti? Nei!

Hafa Bretar lagt undir sig íslenska banka með ólögmætum hætti? Já!

Bretar sýna okkur Íslendingum hroka í þessu máli en ekki öfugt!

Þorsteinn Briem, 12.11.2008 kl. 17:01

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Svo öllu sé til skila haldið var það ekki eingöngu af góðsemi okkar við Breta sem við sendum þeim mat í stríðinu heldur var það líka til þess að fá gjaldreyristekjur fyrir fiskinn sem hlóðust upp svo að í stríðslok áttum við digra sjóði til að fjármagna endurnýjun togaraflotans og frystihúsanna og kaupa okkur fleiri bíla á tveimur árum en fluttir höfðu verið inn í 33 ár þar á undan.

Bretar, á svipaðan hátt, voru ekki aðeins að berjast fyrir lýðræðinu gegn villimannlegasta alræði, sem sagan þekkir, heldur líka fyrir því að halda heimsveldi sínu sem þeir höfðu komið upp með hervaldi til að efnast sjálfir mest.

Svo að litið sé á jákvæðu hliðar þess sem Bretar og Íslendingar aðhöfðust í stríðinu þá var bein stríðsþáttaka þeirra og óbein þátttaka okkar liður í einni af fáum styrjöldum í sögunni sem var réttlætanlegt.

Þess vegna er ég stoltur af því að hafa átt tengaföður sem sigldi hvern einasta túr sem skip hans fór til Englands á stríðsárunum og lagði þannig líf sitt að veði fyrir þjóð sína.

Hann var í afleysingu fyrir annan mann þegar hann fórst eftir stríðið og fórnaði þá lífi sínu fyrir yngri mann, sem hann vildi láta bjarga á undan sér.

Það er mikils virði fyrir börnin mín að hafa átt slíkan afa.

Ómar Ragnarsson, 12.11.2008 kl. 17:04

10 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hvaða hrokakjaftæði er þetta eiginlega?!

Við Íslendingar sýnum engum þjóðum hroka í þessu máli! Við förum hér að lögum og alþjóðasamningum, eins og færustu íslensku lögfræðingar hafa sýnt fram á, en Bretar geta ekki sagt slíkt hið sama. E basta!

Það eru því Bretar, sem sýna okkur Íslendingum hroka í þessu máli, en ekki öfugt!

(Hvað er langt síðan norski og danski herinn hefur unnið stríð?! Og sá sænski lokaði sig inni í sænskum herbúðum í Seinni heimsstyrjöldinni, segja Svíarnir sjálfir.)

Þorsteinn Briem, 12.11.2008 kl. 18:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband