Að "hafa eitthvað á hann."

Þegar Davíð Oddsson var nær einvaldur til sjós og lands á hátindi valda sinna fyrir 4-8 árum dugði það trix best á "óþæga" að til þeirra var látið berast að óvinveittir menn "hefðu eitthvað á þá." Meira að segja gekk sú saga að Davíð hefði sagt við einn af skósveinum sínum þegar rætt var um "óþægan" mann sem lét sér ekki segjast: Farðu og finndu eitthvað á hann."

Á þessum árum virtist það nægja að menn óttuðust viðbrögð Davíðs í svipuðum stíl og viðbrögð hans við Þjóðhagsstofnun, Skipulagsstofnun, umboðsmann Alþingis og Sverri Hermannsson. Með tímanum varð þettta þannig að Davíð þurfti ekki lengur að standa á bak við þetta eða gefa neitt út sjálfur, - fylgismenn hans og flestir landsmenn virtust haga sér í samræmi við það sem menn héldu að foringinn vildi.

Þetta kemur mér í hug þegar Davíð gefur nú í skyn að "hann hafi eitthvað á þá", það er símtöl sem hann hafi undir höndum og gætu orðið ýmsum mönnum dýrkeypt að gerð yrðu opinber.

Þegar verið var að reyna að hræða mig frá því að gera myndina "Á meðan land byggist" barst það til mín í einkasamtölum að óvinveittir menn "hefðu það á mig" að ég hlyti að hafa fengið styrk til myndarinnar frá óæskilegum öflum því að það væri ekki hægt að gera svona mynd fyrir jafn litla upphæð.

Ferðir í 25 þjóðgarða og 18 virkjanir í í fimm löndum auk mynda,  sem teknar hefðu verið úr þyrlu fyrir milljónir króna, sýndu þetta.

Ég svaraði því til að öll gögn væru til um það hvernig myndin var fjármögnuð eingöngu með því að fórna eigum okkar hjóna og mætti meira að segja sjá í gögnum flugmálastjórnar og flugvirkja hvenær, hvert og hve mikið ég flaug TF-FRÚ vegna myndarinnar.

Nokkur myndskeið í myndinni, sem virtust vera teknar úr þyrlu og hefðu því átt að kosta milljónir króna, hefði ég sannanlega tekið sjálfur úr TF-FRÚ og væri tilbúinn að taka við ásökunum huldumanna úti í bæ og því sem slíku fylgdi.

Skemmst er frá því að segja að aldrei varð af því að þessum hótunum yrði fylgt eftir. 

Það minnti mig á orð Roosevelts Bandaríkjaforseta að það eina sem við þurfum að óttast er óttinn sjálfur.   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

Erum við ekki enn flest smeyk við þessa tegund af valdbeitingu?    Þöggunin og ofbeldið gufar ekki upp á einni nóttu þó bankarnir falli og risið lækki á fínaliðinu með milljarðana.  Meðan gjaldeyriskreppa ríkir og mikil óvissa er um atvinnu, tekjur og alla framtíð þá munu margir halda sig til hlés . . . . óttinn lifir lengi með okkur - - því miður

Benedikt Sigurðarson, 19.11.2008 kl. 20:28

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þetta er nú meiri þrælsóttinn! Það hefur semsagt verið þrælahald hér í 1100 ár!

Þorsteinn Briem, 19.11.2008 kl. 20:45

3 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Þjóðhagsstofnun er kannski skýrasta dæmið um stjórnunarhætti einvaldsins en dæmin eru mýmörg og eins og þú bendir á þá þurfti hann ekki orðið að etja rökkunum sínum á viðfangsefnin. Þeir vissu sitt hlutverk.

Ævar Rafn Kjartansson, 19.11.2008 kl. 21:11

4 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Þrælsótti almennings í þessu landi í bland við þótta ráðamanna er mesta mein Íslandssögunnar.

Það hefur oft farið lítið fyrir konungablóðinu sem svo vinsælt er að mæra á hátíðarstundum.

Greta Björg Úlfsdóttir, 19.11.2008 kl. 21:23

5 Smámynd: Óskar Þorkelsson

DO er með hugsunarhátt einræðisherra.. hann er hættulegur landi og þjóð !

Óskar Þorkelsson, 19.11.2008 kl. 21:28

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Svar til Bukollabaular: Aðferðin byggist á einkasamtölum undir trúnaði þar sem sagan um væntanlega aðför er sögð manni og jafnvel vitnað í aðra menn sem einnig vildu ekki láta nafns síns getið.

Í langflestum tilfellum þarf þetta samt ekki til, - enginn þorir að hegða sér öðruvísi en hann heldur að foringinn vilji.

Dæmi: Ég hélt í barnaskap mínum að einhver fyrirtæki myndu vilja vera kostunaraðilar myndarinnar "Á meðan land byggist". Ég fékk alls staðar neikvætt svar þangað til einn góður framkvæmdastjóri sagði við mig: "Þú ert að eyða tíma þínum til einskis því enginn mun voga sér að styrkja mynd sem þú gerir. Ég voga mér ekki að gera það vegna viðskiptaumhverfisins.

Ég verð að standa fyrir mínu gagnvart eigendum fyrirtækisins og aðeins styrkja það sem er 100% öruggt að sé gott fyrir ímynd fyrirtækisins. Farðu út og komdu aftur inn með myndina undir öðru nafni en þínu og þá skal ég styrkja hana eins og skot."

Niðurstaðan varð stysti og minnsti listi yfir kostunaraðila sem sést hefur í nokkurri íslenskri heimildarmynd. Nafngreindur einstaklingur styrkti hana um 400 þúsund og bílaumboð, sem hafði engu að tapa (hafði dirfst að lána "Græna hernum" og umhverfisráðuneytinu bíla) styrkti hana um 200 þúsund.

Þetta dekkaði ca 3% af kostnaðinum. Var þetta þó mynd sem hlaut tvær tilnefningar til Eddu-verðlauna og fékk aðra Edduna og þetta mun um ókomna tíð bera vitni um það ástand sem ríkti í þjóðfélaginu á þessum tíma.

Öllum umsóknum um styrk úr Kvikmyndasjóði Íslands var hafnað.

Ég gerði aðra mynd um málið fyrir erlendan markað, "In memoriam?" og fékk tvo styrki sem dekkuðu um fimmtung kostnaðar við þá mynd.   

Ómar Ragnarsson, 19.11.2008 kl. 23:24

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sá sem er þræll er fátækur maður, enda þótt hann sé með fullar hendur fjár.

Þorsteinn Briem, 19.11.2008 kl. 23:59

8 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Sammála þessu

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 20.11.2008 kl. 00:34

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður nafni.

Mikið er ég sammála þér og hafðu heiður fyrir myndina. 

En ég fatta ekki ósamkvæmina í þér.  Afhverju ertu þá svona hræddur við ESB.  Þú hefur tekið undir málflutning þeirra, sem segja að við verðum útskúfuð, jafnvel úr sjálfri siðmenningunni ef við þegjum ekki og borgum.  Þó veistu að ágreiningur um skuld þýðir ekki að þú viljir ekki borga.  Ágreiningur  þýðir að dómstólar eiga að skera úr um réttmæti skuldar og upphæð hennar.  Farir þú með mál þitt fyrir dómstóla þá ertu að lýsa því yfir að þú sættist á niðurstöðu hans en ekki að þú ætlir ekki að borga skuld þína.  Ávirðingar verða ekki sannar þó þær séu hafðar eftir forsætisráðherra Bretlands eða þá Jakobi Björnssyni sem þú þekkir betur.  Hótanir og handrukkum er alltaf vísbending um slæman málstað.  Það þekkir þú einning á þínum eigin ranni.

Þú hræðist að börn okkar munu ekki endurheimta æru sína ef foreldrar þeirra borgi ekki, jafnvel óútfylltan tékka.  Hvað hefur þú fyrir þér í þessu.  Frændi minn vinnur á mælingaskipi í Norðursjó og hann sagði mér í gær að Bretarnir um borð skammist sín fyrir gjörðir ríkisstjórnar sinnar.  Og Norðmennirnir skilja ekkert í að okkur skuli ekki vera hjálpað í neyð okkar.  Kanski önnur viðbrögð en þú þekkir nafni en samstarfsmenn frænda míns þekkja hann af góðu einu og þeir hlustuðu á hans hlið á málinu.  Telur þú að við eigum að vera hrædd vegna þess að það hafi orðið snögg þurrð á góðviljuðu fólki í Evrópu?

Jakobína Ólafsdóttir segir í mjög góðri grein í Morgunblaðinu í dag að fólk taki áhættu á viðskiptum sínum og beri á þeim ábyrgð.  Síðan segir hún: 

"En hvað með börnin mín, hafa þau völd , valkosti og upplýsingar í þessu samhengi.  Vissu þau að Hollendingurinn var að fara að gera vonda fjárfestingu og höfðu þau þann valkost eða vald til þess að stöðva hann.?  Nei.  Afhverju bera þau þá ábyrgð?  Hvers vegna eru þau bótaskyld?" 

Hvert sækir þessi furðulega hugmynd um ábyrgð barna minna lögmæti sitt?  Jú, stjórnvöld hafa ákveðið að taka þetta fyrirbæri, þ.e.a.s. börnin mín og Hollendinginn sem vildi góða ávöxtun, og troða þeim inn í regluverk.  Þetta regluverk skapar "réttlæti" sem engin fordæmi eru fyrir.

Hvað þýðir þetta fyrir börnin okkar?  Geta atburðir verið að gerast hvar sem í heiminum og þau dregin til ábyrgðar með því að spyrða þau við atburðinn í regluverki?  

Með því að gefa þessarri framkvæmd réttmæti er verið að skapa samfélag meðal þjóðanna þar sem einstaklingar eru rúnir allri vernd.  Sakleysið er svívirt."

Betur er ekki hægt að orða það nafni afhverju þú átt ekki að vera hræddur við kúgun því ef þú heldur áfram að vera það, þá stuðlar þú að svo mörgu slæmu sem mun henda börnin okkar.  En ekki bara þau heldur líka sjúklinga, aldraða og öryrkja.  Þessir hópar hafa í sig og á vegna þess að meðal annars er hér velferðarkerfi.  Í dag er því ógnað þrátt fyrir að afleiðingar nauðungarsamninganna er ekki komnar fram í fjárgreiðslum ríkisins til erlendra kröfuhafa einkafyrirtækja.  Kona mín er með krónískan sjúkdóm og hún þarf mánaðarlega vissan skammt af sjúkravörum sem fram af þessu hefur verið greiddur af ríkinu.  Ekki fullur mánaðarskammtur kostar hana núna í nóvember 12 þúsund og hún má búa sig undir tvöfalda þá upphæð vegna  næsta skammts. Aðstandandi langveiks sjúklings fékk ábendingu frá Tryggingarstofnun að búa sig undir stóraukinn lyfjakostnað því að mikil hætta væri á að þau lentu undir niðurskurðinum.  Menn spara ekki 50 milljarða í heilbrigðiskerfinu án þess að það komi ekki niður á einhverjum.  Á sama tíma tvöfaldast innflutt lyf í verði vegna falls krónunnar.  Hvað ætlar þú að segja við þetta fólk.  Kjósið mig og verið bjartsýn en ég er svo hræddur við álitshnekkinn úti að ég verð að styðja þessar fjárkröfur.  Svo tala þeir í Bandaríkjunum að 3 milljónir manna munu verða atvinnulausar ef Alríkisstjórnin láti bílaverksmiðjunnar fara á hausinn.  Þá verða fleiri gjaldþrota einstaklingar til í heiminum.  Verður þessu fólki líka útskúfað úr samfélagi þjóðanna?

Jæja hvað sem öðru líður þá virði ég rétt þinn til að vera hræddur.  Þú varst ekki hræddur þegar þú stóðst því sem næst einn á móti stóriðjuliðinu.  Sú gjörð mun halda á lofti nafni þínu um ókomna framtíð.  Ég óska þér alls hins besta í þínu daglega amstri og ég hlakka mikið til að sjá mynd þína um Kárahnjúka.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 20.11.2008 kl. 01:44

10 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þegar þú sérð lag, þá  mæli ég með að þú hlaðir þessari mynd inná google video svo sem flestir fái að sjá og kallir á frjáls framlög fólks til að hjálpa við að greiða hana upp. Við myndum birta hana á bloggum vítt og breitt.  Ég meina þá eftir að þú hefur fengið þær opinberu sýningar, sem þú getur fengið. Það er verðugt að halda áfram að dengja járnið og þetta er ein leiðin.

Jón Steinar Ragnarsson, 20.11.2008 kl. 08:04

11 identicon

Snilldar spurningar Ómar Geirsson og vel sett fram, segir allt sem segja þarf, takk.

(IP-tala skráð) 20.11.2008 kl. 08:58

12 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Ómar G.,

"Aðstandandi langveiks sjúklings fékk ábendingu frá Tryggingarstofnun að búa sig undir stóraukinn lyfjakostnað því að mikil hætta væri á að þau lentu undir niðurskurðinum."

Þetta finnst mér mjög fróðlegt að heyra. Þetta er nefnilega nokkuð sem ég hef velt fyrir mér undanfarið hvort muni ekki gerast á næsta ári. Ég er nefnilega í þeirri aðstöðu að hafa fengið fokdýrt lyf frítt frá ríkinu og óttast að svo muni ekki verða áfram. Lyfið kostar ríkið 850 krónur á dag, eða u.þ.b. 25.000 á mánuði, það er viðbúið að ég verði látin borga að minnsta kosti hluta af því í framtíðinni. Og lyfið mun augljóslega einnig hækka í verði vegna falls krónunnar. Ég held það blasi við að ég muni ekki fá lyfið mitt frítt áfram, eins og ástandið er og mun verða á næsta ári, að minnsta kosti mikil bjartsýni að ætla að svo verðir.

Þar er við að bæta að ríkið hefur verið með, að mínu mati, mjög ósanngjarna skiptingu á því hverjir fengu ókeypis lyf og hverjir ekki. Slíkt virðist alfarið hafa oltið á því hversu duglegir viðkomandi sérfræðingar í hverjum sjúkdómi hafi verið við að berjast fyrir sjúklinga sína.

Greta Björg Úlfsdóttir, 20.11.2008 kl. 10:07

13 identicon

Ég er alveg sammála nafna mínum Ragnarssyni hér að ofan

Ómar settu myndina á YouTube og óskaðu eftir framlögum, ég skal styrkja hana og ég er viss um að aðrir munu gera það líka

Jón Ingólfsson (IP-tala skráð) 20.11.2008 kl. 10:22

14 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ljótt er að heyra.

Jenný Anna Baldursdóttir, 20.11.2008 kl. 10:23

15 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Óþverra aðfarir !

Jónína Dúadóttir, 20.11.2008 kl. 12:34

16 identicon

Oft hef ég verið ósammála Ómar, en er nú algerlega sammála þér. Þessi stjórnunaraðferð "að hafa eitthvað á hann" hefur tíðkast ótrúlega lengi hjá DO og hann komist upp með þar sem hann á svo marga hliðholla aðdáendur.

Sjáið bara það sem Kjartan Gunnars segir. "Hefði betur hlustað á Davíð", skelfur eins og lítið barn sem því miður býr við heimilisofbeldi. Ofbeldi fólgið í "að hafa eitthvað á þann sem hlýðir ekki".

Gísli (IP-tala skráð) 20.11.2008 kl. 12:52

17 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Eini munurinn á þeirri aðferð sem hér er lýst og fjárkúgun er sú að í þessu tilviki kemur þjónkun við kúgarann í staðinn fyrir peninga.

Greta Björg Úlfsdóttir, 20.11.2008 kl. 13:01

18 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Fjárkúgun er sem kunnugt er refisvert athæfi að lögum.

Greta Björg Úlfsdóttir, 20.11.2008 kl. 13:02

19 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Gréta.

Hef þetta eftir fyrstu hendi um lyfin.  Hvort þetta séu óþarfar áhyggjur hjá starfsmanni Tryggingarstofnunar veit ég ekki en eitthvað veldur þessum áhyggjum.  Og þessi mál þarf að ræða án þess að persónugera þau með einstaka dæmum.  Eins og í tilviki konu minnar þá hefur innflytjandinn hamlað gegn gengishækkunum allt þetta ár og núna er bara stíflan brostin.  Á sama tíma er sú upphæð sem til ráðstöfunar er í þessa niðurgreiðslu frosin þ.e. hún fylgir ekki gengishækkunum.  Síðan þarf að spara 50 milljarða á þessu ári í ríkisrekstri þannig að það eina sem er öruggt að framlag ríkisins lækkar að nafnverði og hvað þá raunverði.  

Ég vona að grein Jakobínu hræri upp í Íslendskum mæðrum og ömmum og þær gefi körlunum sínum ærlegt tiltal.  Við lifum nefnilega ekki á tímum Íslendingasagnanna þar sem allt snérist um heiður og sæmd.  Í dag eiga málin aðeins að snúast um eitt og það er eins og gamall maður niður á þingi sagði í morgunn.  "Að slá skjaldborg um hag heimilana og atvinnufyrirtækja".  Allt sæmdartal má bíða betri tíma og vonandi verður hægt að endurheimta æru Íslensku þjóðarinnar á komandi árum.  En það má aldrei verða á kostnað barna okkar.   Gerum við þeim kleyft að lifa mannsæmandi lífi þá mun þau sjálf vera fullfær að takast á við það verkefni.

Kveðja að austan

Ómar Geirsson, 20.11.2008 kl. 13:58

20 Smámynd: Sævar Einarsson

Davíð er ennþá forsætisráðherra ef enginn hefur fattað það, Geir er staðgengill hans og gerir það sem Davíð segir honum að gera.

Sævar Einarsson, 20.11.2008 kl. 18:55

21 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Er ekki kominn tími á að þjarma að Davíð með álvöru spurningum, vil til dæmis fá skýringar á því afhverju hann var kallaður á Bilderberg fundi 1991 og aftur fyrir 4 árum. ...og ég vil sjá í augun á honum þegar hann svarar og að sálfræðingur greini líkamstjáninguna.

Georg P Sveinbjörnsson, 21.11.2008 kl. 04:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband