Ekkert vetrarhlé náttúruspjallanna.

Var að koma til Akureyrar frá Kárahnjúkum á leið suður með gamla skrjóðinn sem ég hef notað til að draga Örkina. Því hefur verið frestað, hugsanlega til næsta sumars, að drekkja sjö ferkílómetrum fagurs lands undir Kelduárlón.

Það lón og Hraunaveita öll, með fjórum stíflum, þar af tveimur meðal þeirra stærstu á landinu, auk sjö kílómetra löngum jarðgöngum, mun ekki framleiða eitt einasta kílóvatt vegna þess að hlýnun loftslags gerir óþarfa þessa veitu með drekkingu lands og uppþurrkun fjölda fossa.

Sigling Arkarinnar frestast þar með.

En þar með verður ekki hlé á náttúruspjöllum fyrir álverin. Ég fór fyrir rælni upp að Leirhnjúki og viti menn, - er ekki verið þar á fullu skammt frá Leirhnjúki og ferðamannaplaninu við hann að bora borholu, þá fyrstu af mörgum sem á að bora í norður frá þessari borholu í landi, sem hallar á móti Leirhnjúki og nefnist Vítismór.

Þar með er hafin eyðilegging svæðis, sem tekur sjálfri Öskju fram að verðmæti sem staður, þar sem geimfarar vilja æfa sig og hægt er að sýna sköpun jarðar betur en á nokkrum öðrum stað á jörðinni.

Svörin sem ég fæ eru þau að á skipulagi hreppsins sé þetta skilgreint iðnaðarsvæði. Ekki minnist ég þess að mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram. Hafi svo verið er það hörmulegt hneyksli og skömm og farið leynt.

Ég hef farið margar ferðir um þetta svæði í sumar til að taka ljósmyndir og kvikmyndir fyrir heimildarkvikmynd um svæðið, eina af fimm myndum sem ég hef í smíðum vegna hernaðar vélaherdeilda stóriðjunnar gegn náttúrgersemum Íslands.

Myndin um Gjástykki-Leirhnjúk er fremst í forgangsröðinni en hvernig ég ætla að klára þessar myndir veit ég ekki. Nógir peningar eru til til að halda vélaherdeildunum gangandi en engir til að veita upplýsingar um hernaðinn gegn landinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Pálsson

Sæll Ómar

Ég skrifaði athugasemd við ofangreint blogg á minni eigin síðu:

http://bjarnipalsson.blog.is

Kveðja, Bjarni Pálsson, verkefnisstjóri djúpborunarverkefnisins fyrir Landsvirkjun.

Bjarni Pálsson, 26.11.2008 kl. 15:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband