Kjósa um málið.

Skiptar skoðanir um ESB hafa haldið stjórnmálum Íslands of lengi í gíslingu. Þetta er stórmál og það á að kjósa sérstaklega um stórmál. En það hefur ekki verið gert á lýðveldistímanum. Hvað er svona voðalegt við að þjóðin kjósi um stærstu mál sín?

Menn segja að það skorti upplýsingar og þess vegna geti þjóðin ekki myndað sér skoðun. En hverjum er það að kenna að það skortir upplýsingar? Jú, þeim sömu og segja að það skorti upplýsingar.

Menn segja að ekki megi kjósa um stórmál samhliða alþingiskosningum af því að stór mál skyggi á hin málin. Þetta var notað sem röksemd gegn því að kjósa um Kárahnjúkavirkjun 2003. Það mátti ekki skyggja á litlu kjördæmapotsmálin þingmannanna.

Menn segja að það sé oft erfitt að orða spurninguna sem kjósendur eigi að svara. En það er ekkert erfitt í þeim stóru málum sem hefði mátt kjósa um sérstaklega á lýðveldistímanum. Annað hvort áttum við að fara inn í NATÓ eða ekki. Annað hvort áttum við að samþykkja eða hafna EFTA-samningnum. Annað hvort áttum við að ganga inn í EES eða ekki. Annað hvort áttum við að byggja Kárahnjúkavirkjun eða hætta við hana. Annað hvort áttum við að samþykkja fjölmiðlalögin eða hafna þeim.

Ég var orðinn svo pólitískur í hugsun árið 1949 að ég var fylgjandi því að við gengjum í NATÓ og hef ekki skipt um skoðun síðan. Margir segja að það hefði verið fellt í þjóðaratkvæði og að þess vegna hefðum við ekki átt að kjósa sérstaklega um það. Þá það. ÞJóðin hefði fengið að ráða og raunar efast ég um að NATÓ-aðild hefði verið felld eftir ítarlega og góða umræðu. Í kosningum síðar sama ár fengu flokkarnir sem vildu ganga í NATÓ yfirgnæfandi meirihluta á þingi.

Það má ekki dragast lengur að þjóðin sjálf ákveði sérstaklega hvert halda skuli í ESB-málinu. Þess vegna mætti kjósa um það á útmánuðum hvort við eigum að ganga til viðræðna. Ef það er fellt er málið dautt í bili. Ef það er samþykkt verður gengið til samninga og þá verður aftur þjóðaratkvæði um hann,

Það á að kjósa sérstaklega um stórmál og líka sérstaklega um hvern einasta frambjóðanda. Í kjörklefanum.


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í öllu lýðræði er hætta á því að fólk "kjósi sér í óhag." Lýðræðið er hræðilegur gallagripur en það hefur ekkert skárra verið fundið upp.

Aðeins þrisvar í sögu alþingiskosninga á Íslandi hefur í raun verið kosið á milli tveggja kosta.

1908 var í raun kosið um uppkast að sambandslögum Íslands og Danmerkur og þingmennirnir sem stóðu að því stráféllu. Miðað við það að með því að fella frumvarpið var hafnað endurbótum á sambandinu mætti ætla að fólk hafi "kosið sér í óhag."

Þegar upp var staðið bauðst betri kostur tíu árum síðar þannig að sumir halda því fram með gildum rökum að það hafi verið til góðs að uppkastið var fellt 1908. Aðrir eru að vísu ekki sammála þessu og telja að sambandslögin 1918 hefðu hvort eð er verið sett.

1927 féll ríkisstjórn Íhaldsflokksins og stjórnarandstaðan tók við. Ég held að fáir geti haldið því fram að fólkið hafi "kosið sér í óhag" þótt ýmislegt hafi verið athugavert við stjórnarhætti Jónasar frá Hriflu.

1971 féll Viðreisnarstjórnin og stjórnarandstaðan tók við. Landhelgismálið réði þar miklu um og í hönd fóru tvö þorskastríð. Þótt vinstri stjórninni 1971-74 hafi orðið mislagðar hendur í efnahagsmálum held ég að fólk hafi ekki "kosið sér í óhag" 1971.

Ómar Ragnarsson, 30.11.2008 kl. 14:50

2 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Það á ekki bara að kjósa Esb

það á að velja á Dollars, ESB aðilda eða krónunar á áfram en raunvrlega snýst þetta um gjaleyrismál

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 30.11.2008 kl. 16:05

3 identicon

Ég er að vísu þeirrar skoðunar að mál eins og ESB aðild sem er eingöngu efnahagslegt mál, er alls ekki til að kjósa um. Lýðræði er alls ekki heilagt og ber aðeins að nota þegar á að taka tilfinningalegar ákvarðanir en ekki ákvarðanir sem eiga að byggjast á rannsóknum fagmanna. Þetta er mál sem að almenningur hefur ekki þekkingu á og getur ekki setti sig inn í en ákvörðun Geirs H Haarde um að setja af stað rannsókn innan sjálfstæðisflokksins til að endurmeta esb afstöðu þeirra tel ég vera styrkleikamerki um að þeir séu ekki fastir við ákveðna skoðun heldur tilbúinir til að meta sína afstöðu þegar við á.

Svo má auðvitað líta á það þannig að ef kosning ætti að fara fram um þetta mál í dag og niðurstaðan yrði sú að við gengjum ekki í esb yrði líklegast kosið aftur um þetta seinna t.d eftir 10 ár. Svo gengi þetta líklega svona þar til við værum komin inn í esb og þá er ekki auðveldlega aftur snúið. Hins vegar er að tilfinningalegt atriði fyrir mig að við höldum sjálfstæði okkar og ef við göngum inn í esb þá er það farið að miklu leiti.

Axel (IP-tala skráð) 30.11.2008 kl. 16:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband