Ekkert nýtt í umhverfismálum.

Nýkjörinn formaður Framsókinarflokksins virðist ekki hafa neitt nýtt að boða í umhverfismálum annað en gömlu frasana um að "virkja í sátt við náttúruna", en það er nákvæmlega það sem flokkurinn hefur talið sig vera að gera undanfarinn áratug, - Kárahnjúkavirkjun meðtalin.

Sigmundur Davíð lagði meira að segja áherslu á að vinna vegna áætlana um nýs verksmiðjurekstrar gengi of hægt. Nefndi að vísu dæmi um verksmiðjurekstur, sem hefði verið mun skárri en álver en að öðru leyti gerði hann ekki undantekningar, til dæmis varðandi óánægju flokksfólks hans á norðausturlandi vegna mats á umhverfisáhrifum virkjana vegna álvers á Bakka.

Sigmundur sagði að Framsóknarflokkuriknn legði áherslu á landgræðslu og skógrækt en hvergi örlar á nýrri sýn varðandi beit á afréttum landsins, sem sumir hafa ekki verið beitarhæfir.

Þegar Steingrímur Hermannsson varð landbúnaðarráðherra fyrir þrjátíu árum lagði hann til að beit afrétta yrði löguð eftir ástandi þeirra og bændum hjálpað til þess. Hann segir í ævisðögu sinni að bændasamtökin og landsbyggðarþingmenn hafi strax beitt öllu afli sínu til að kæfa þessar skynsamlegu hugmyndir í fæðingu.

Ekki er hægt að sjá annað en að Framsóiknarflokkurinn verði áfram flokkur kvóta og ósjálfbærrar orkunýtingar með tilheyrandi náttúruspjöllum.

Hugsanlega verður til lítils að skipta í andlit í forystunni ef hinir nýju forystumenn verða fangar gömlu hagsmunanna sem ráða ferðinni í flokknum.

P. S. Nú sé ég og heyri í Kastljósi að Sigmundur Davíð er eindreginn fylgjandi risaálverunum í Helguvík og á Bakka og segir þau hafa lítil umhverfisáhrif. Mikið vildi ég óska að hann kynnti sér eðli virkjananna, umfang og spjöll af þeirra völdum jafn vel og hann hefur kynnt sér húsafriðunarmál.


mbl.is Vill færa flokkinn frá hægri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í Moðhausaflokki misklíð,
í miðjumoð fæddur Davíð,
eyrnastór Birkir og óblíð,
hún Eygló ekkert smáfríð.

Þorsteinn Briem, 19.1.2009 kl. 19:43

2 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Mestu umhverfisspjöll landsins hafa verið unnin af náttúrunni sjálfri.Bæði hvað varðar eldgos, frost og jökulvötn svo að eitthvað sé upp talið.Mesta umhverfisverndin og uppygging hefur verið að stjórna rensli jökulvatna.Þar hafa Framsóknarmenn farið fremstir í flokki.Við höfum reynt að stjórna náttúrunni til hagsbóta fyrir fólkið í landinu.Við eigum að stjórna náttúrunni en ekki hún okkur.Þú áttir að bjóða þig fram sem formann Framsóknarflokksins Ómar.Þú hefðir fengið fleiri atkvæði en þig grunar.

Sigurgeir Jónsson, 19.1.2009 kl. 21:53

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sigurgeir. Það er mikill misskilningur að ekki sé hægt að græða á neinu nema það sé manngert. Því er einmitt öfugt farið. Við græðum einmitt mest á því sem ekki er manngert, til dæmis hafinu í kringum landið og náttúru landsins.

Ekki þætti nú til dæmis gáfulegt að leggja heila laxveiðiá í steypustokk og við höfum miklar gjaldeyristekjur af laxveiði hér. England er aftur á móti svo þéttbýlt að breyttir árfarvegir valda þar miklum flóðum og tjóni á manngerðum hlutum.

Hálf milljón erlendra ferðamanna kom hingað í fyrra og fyrst og fremst til að sjá náttúruna. Þeir eyddu hér alls um fimmtíu milljörðum króna, flestir þeirra dvelja mjög skamman tíma í Reykjavík og dreifa því árlega tugum milljarða króna um allt landið á viku til tíu dögum, að meðaltali.

En að sjálfsögðu þurfum við á manngerðum hlutum að halda, til dæmis húsum, fiskiskipum, höfnum, samgöngutækjum og þokkalega góðum vegum til að komast á milli staða.

Þorsteinn Briem, 19.1.2009 kl. 22:36

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður nafni.

Hann gat ekki annað í þeim flokki í dag.  En hann gaf Íslandi von með því að vitna í Eysteini gamla, sem ennþá grætur í gröf sinni útaf Kárahnjúkahörmungunum.

Sigmundur er vitur og hann stofnar ekki til deilna um það sem skiptir ekki máli í núinu.  Það verður ekkert af þessum álverum næstum árin.  Í það fyrsta verðum við mjög heppin ef erlendir bankar hirði ekki virkjanir okkur uppí skuldir því í þeim hamförum sem núna ganga yfir hið vestræna bankakerfi þá er enginn að standa í endurfjármögnun, hvað þá nýlánum.  Ríkisaðstoð t.d breta og Bandaríkjamanna til bankanna fór í að greiða skuldir þeirra en ekki í endurfjármögnun útí atvinnulífið.  Næsta aðstoð mun gera það líka og þá munu allir helstu bankar verða fjármagnaðir og atvinnulíkið látið ganga fyrir á kostnað skulda.  Þá gæti t.d verið gaman fyrir Íslending að fara til Bretlands og tala við vanskilamennina þar.  Segja t.d "sælir þjáningarbræður"

Hin ástæða þess að ekki verða reistar nýjar álverksmiðjur er mjög einföld.  Það er verið að loka álverksmiðjum, ekki opna nýjar.  Meira að segja Jón Gunnarsson mun fatta þetta eftir nokkra mánuði.  Það bætir ekki úr skák í áliðnaðinum að mikið var um skuldsettar yfirtökur síðustu árin.  Stöndug fyrirtæki hurfu í skuldsettan bræðing, sem núna er á hausnum.  Alcan og Alcoa verða ekki til í núverandi mynd í árslok 2009, nema til komi það kraftaverk að það má enginn vera að því að gera þau upp.  Verkefni stjórnenda þeirra er að greiða skuldir, ekki að reisa nýjar verksmiðjur handa markaði sem er ekki til staðar.  

Þegar póstskipin koma í vor með nýjustu fréttir af stöðu heimsmála, þá ræðir enginn um ál á Bakka eða í Helguvík,  heldur verður spurt með angist í hjarta "Hvenær kemur að okkur".  Þessvegna er Sigmundur ekki að stofna til deilna um álver, hann vill að þjóðin leggist á eitt að bjarga sjálfri sér eða er það ekki það sem björgun heimila og fyrirtækja snýst um. 

Þess vegna vildi ég ráðleggja þér heilt nafni og það er að taka upp samstarf við Sigmund.  Það er skylda hvers Íslending að taka undir með drengnum og krefjast tafarlausra aðgerða í þágu heimila og fyrirtækja.  

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 19.1.2009 kl. 23:33

5 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Svona fínn landsfundur á vegum Framsóknarflokksins kostar skildinginn og hver skyldi borga? Varla bændur á landsbyggðinni sem hafa það flestir virkilega skítt.

Hrægammarnir eru á næstu grösum sem fyrr og ekki verður langt þangað til að Framsóknarflokkurinn er í sama spillingarskítnum og verið hefur.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 20.1.2009 kl. 10:41

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég þekki Sigmund Davíð bara af góðu einu en veit að hann er fangi þeirra fyrir austan og norðan sem gerðust Guðfeður hans og er þegar orðinn það slyngur í stjórnmálum að ætla sér ekki allt of mikið.

Hann á hins vegar mikið eftir til að kynna sér umhverfismálin eins vel og byggingar í borgum. 

Og reynslan sýnir að niðursveiflur, t.d. 1992-1995, nota stóriðjusinnar til að undirbúa því betur svo hraða leiftursókn þegar færi gefst, að andvaraleysi andófsmanna verður þeim að fótakefli. 

Ómar Ragnarsson, 20.1.2009 kl. 21:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband