Ekki hálfvitar, en hvað um umferðina?

DSCF3012Það er ekki ónýtt að Íslendingar fái vottorð hjá erlendum stjörnublaðamanni um að þeir séu ekki hálfvitar.

Fjarri er þó því að við séum alvitrir í umferðinni.

Lítið þið á þessa mynd sem var tekin á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Laugavegar/Suðurlandsbrautar í gær.

Myndin er tekin út um framrúðuna á bíl, sem við skulum segja að við séum í.

Við ætlum að beygja til vinstri niður Laugaveg eins og bílarnir fyrir framan okkur hægra megin.

Við sjáum grænt ljós loga framundan til hægri, hinum megin við Laugaveginn.

Umferðin upp Kringlumýrarbrautina er þung, - það er bíll við bíl. Oftast komast örfáir bílar til vinstri þegar gult og rautt ljós kviknar á móti bílunum sem koma á móti okkur.

En ekki þegar umferðin er þung. Þá ryðjast bílstjórarnir sem koma á móti okkur inn á gatnamótin þótt komið sé gult ljós og stappa sér svo fast saman að það er ekki smuga, jafnvel fyrir minnsta bíl á Íslandi að komast til vinstri.

Bílstjórunum sem búa til þessa teppu mátti vera það fullljóst að þeir græddu ekkert á því að þjappa sér svona þétt saman inni á gatnamótunum. Þeir lenda eftir sem áður í röð bíla sem silast rólega upp að næstu gatnamótum.

Bara ef þeir hefðu nú skilið eftir smá bil sem við gætum smeygt okkur í gegnum. En það gera þeir ekki. Þeir hugsa um ekkert nema sjálfa sig og græða þó ekkert á því.

Þeir yrðu alveg jafn fljótir eða seinir eftir að þeir eru komnir yfir gatnamótin, þótt þeir gæfu okkur örlítinn sjens.

Mér er kunnugt um að víða erlendis varðar það sektum að fara inn á gatnamót eins og hér tíðkast, þegar ljóst má vera að við það verði menn þar innlyksa og búi til óleysanlegan umferðarhnút.

Það fyndna við það sem við sjáum hér er að á morgun verða kannski bílstjórarnir sem við sjáum loka gatnamótunum í okkar stöðu og við hins vegar að koma upp Kringlumýrarbrautina.

Þá verðum við að sjálfsögðu bara í þeim sporum sem þeir eru á þessari mynd undir kjörorðinu úr laginu góða: "Á Íslandi við getum verið kóngar allir hreint."

Og þeir verða í okkar sporum, bölvandi hálfvitunum, sem loka gatnamótunum, í sand og ösku.

Hugarfarið hjá bílstjórunum, sem loka gatnamótunum er það sama og var í "gróðærinu": Ég hugsa bara um sjálfan mig og mitt frelsi, - varðar ekkert um þótt ég skerði réttindi og frelsi annarra og að allir tapi á þessari vitleysu á endanum.


mbl.is Íslendingar engir hálfvitar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Það gerir skyldleikaræktin.

Íslendingar eru allir náskyldir hver öðrum.

Í gær fæddist lamb með tvö höfuð.

Og bráðum sérðu hér tvíhöfða bílstjóra.

Þorsteinn Briem, 20.3.2009 kl. 12:43

2 identicon

óþolandi þegar þetta gerist, hvað er svona erfitt með að bíða.

Þessi gatnamót eru líka mjög slæm með að bílar á beygjuakreinum úr báðum áttum eru að fara yfir á rauðu þegar það er löngu komið grænt f. mig á leið í vesturátt.

Hef samt séð löggu þarna undanfarna mánuði síðdegis. Samt ekki nýlega. Ætli það sé ekki að fara að verða mánuður síðan ég var stöðugt að sjá löggu vakta svæðið ca. kl. 17 á hverjum virkum degi þarna þegar ég á leið um. Hún mætti alveg koma aftur

Ari (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 13:52

3 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Sæll Ómar. Þetta þekkist ekki hér í Danmörku. Hér fer enginn út á svæði gatnamótanna nema vera þess full viss að hann komist út af því svæði. Það svæði sem gatnamótin sjálf eru á er heilagt, þar stoppa menn ekki! Það væri fróðlegt að fá að vita hvað ökukennarar kenna á Íslandi hvað þetta varðar.

Birgir Þór Bragason, 20.3.2009 kl. 13:58

4 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Sammála ykkur, ég upplifi líka í Danmörku að þegar ég ek eftir aðalbraut og það kemur bíll þvert á hana að ég get í 98% tilfella treyst því að hann fer ekki fyrir mig, en hér get ég treyst því í 98% tilfella að bíllinn fer fyrir mig og hvort sem við erum að tala um þéttbýlisvegi eða þjóðvegi.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 20.3.2009 kl. 14:03

5 identicon

Já, mikið satt, svona er þetta líka oft á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar.  Yfirgangurinn er ótrúlegur og of fáir sem kunna að víkja.  Fólk fer af því það kemst og skítt með hina.

EE elle (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 15:29

6 identicon

Oft hef ég ekið um Stór-Reykjavíkursvæðið, en það var ekki fyrr en ég var búsettur þar um tíma vegna vinnu minnar að ég fór íhuga þessi mál.  Ég tek undir þessa grein þína Ómar og gæti sagt frá ennþá heimskulegri uppákomum en þetta.    Mér fannst ég hinsvegar alltaf öruggari í umferðinni þegar ég var á rútum en í mínum smáa fólksbíl.  Ekki veit ég ástæðuna fyrir því.  Ég fullyrði út frá minni reynslu að við gætum sparað stórar upphæðir í gatnagerð og fleiru, aðeins með því að breyta hugarfarinu örlítið.  En það er kannski of mikið á okkur lagt með því.

Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 15:40

7 Smámynd: Margrét Birna Auðunsdóttir

Orð í tíma töluð. Ég velti þessu oft fyrir mér þegar ég bjó í Vesturbænum og hjólaði til vinnu inni í Laugardal, þessi tilteknu gatnamót eru mjög slæm. Það var oft hálf ótrúlegt að sjá hvernig menn smeygðu sér yfir á "bleiku" og hindruðu þá sem biðu á beygjuakreininni á móti. Ég var líka einu sinni keyrð niður á þessum ljósum og einu sinni horfði ég á vörubíl svína fyrir strætisvagn svo að bílstjórinn kastaðist út - fótalaus. Það þarf að gera eitthvað virkilega róttækt til að breyta þessum hugsanagangi.

Margrét Birna Auðunsdóttir, 20.3.2009 kl. 16:22

8 identicon

Á sumum stöðum í London er það svæði á gatnamótum, sem ekki má fara inn á án þess að vera þess fullviss að maður komist lengra, sérstaklega merkt með einskonar rúðustrikamerkingu á götunni. Ég var einusinni í bíl sem drap á sér á svona svæði, á sjálfum Piccadilly Circus! Það var frekar lítil umferð miðað við hvar við vorum en bílstjórinn fékk móðursýkiskast og leið alveg afskaplega illa yfir þessu þó aðeins hafi verið um nokkrar sekúndur að ræða þangað til að bíllinn fór aftur í gang. Þetta virðist bara ekki vera innprentað í fólk hér, að það skipti máli að hefta ekki för annarra eða valda þeim óþægindum.

Gunnar Hrafn Jónsson (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 16:55

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég er að hugsa um að gera svolítið skemmtilegt. Á eftir bloggfærslum um eitthvað annað er ég að hugsa um að henda inn nokkrum myndum sem ég á af því hvernig bílum er lagt á Íslandi.

Ég á alveg helling af þessum myndum og aldeilis ótrúlega fjölbreyttum vegna þess að á örbílunum mínum tekst mér oft að smeygja mér inn í hálffull stæði þar sem bílstjórar stóru bílanna héldu að engir kæmust til þess að trufla þá í þeirri ætlun sinni að taka tvö stæði yfir sinn bíl.

Ómar Ragnarsson, 20.3.2009 kl. 17:58

10 identicon

Já, það var þarna sem blessaður strætóbílstjórinn missti báða fætur.  Man eftir þessu eins og gerst hafi í gær.

EE elle (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 18:00

11 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Ef umferðin er treg, set ég bara skemmtilega músík á og fer að syngja, græði ekkert á að barma mér!

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 20.3.2009 kl. 18:10

12 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ef um fyrirtækisbíl er að ræða er langbest að senda viðkomandi fyrirtæki línu í tölvupósti ásamt mynd af glæpnum.

Í dag sá ég að bíl frá fyrirtækinu Mílu hafði verið lagt á merkta gangbraut nokkrum sentímetrum frá horni Kirkjugarðsstígs og Suðurgötu hér í Reykjavík.

Slíkt er daglegt brauð en á engan veginn að líðast. Þessir ökumenn eiga að vera hundskammaðir af yfirmönnum sínum og reknir ef þeir láta sér ekki segjast.

Þorsteinn Briem, 20.3.2009 kl. 19:59

13 identicon

Þetta er tímabær ábending hjá þér, Ómar.  Þessi troðningur tefur oft verulega fyrir en skilar harla litlu þeim sem þannig aka. Í Bretlandi er lögfest regla um að ef gatnamót eru með gulmáluðum línum, málaðar þvers og kruss á ská yfir gatnamótin, þá má ekki aka inn á svæðið nema ökutækið komist út af því hinum megin. Einföld regla en virkar vel.

Jón Haukur Hauksson (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 20:18

14 Smámynd: Ólafur Als

Besta nýja Ísland sem ég gæti hugsað mér er að Íslendingar sýndu hver öðrum tillitssemi í umferðinni. Tek að vísu ekki undir refsigleði vinar míns, Steina Briem - hann á líklega eftir að heyra í Lóunni í dag.

Ólafur Als, 20.3.2009 kl. 20:54

15 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þegar glæpur hefur verið framinn á að sjálfsögðu að refsa fyrir glæpinn, Óli minn.

Glæpur og refsing, lög og viðurlög.

Skýrsla Endurreisnarnefndar Sjálfstæðisflokksins sem kom út í dag:

"Siðgæði og löghlýðni öðlist aukinn sess."

Þorsteinn Briem, 20.3.2009 kl. 21:19

16 Smámynd: Þorsteinn Briem

Og það lagast náttúrlega með því að biðja fólk fallega um að hætta að brjóta lögin.

Þorsteinn Briem, 20.3.2009 kl. 21:28

17 Smámynd: Ólafur Als

Má vera að þú aðhyllist borgaralega refsivendi, Steini? Byrjar ekki siðgæðið í uppeldinu - hjá okkur sjálfum? Veit það ekki fyrir víst - en veit þó að vonir mínar um aukna tillitssemi samlanda minna eru glópaóskir.

Ólafur Als, 20.3.2009 kl. 21:48

18 Smámynd: Þorsteinn Briem

Það er sjálfsagt að tilkynna um afbrot til lögreglunnar, jafnt brot á Umferðarlögum sem öðrum lögum, og aðstoða þannig lögregluna við að halda uppi lögum og reglu í landinu, Óli minn.

Einnig er sjálfsagt að láta vinnuveitendur vita af umferðarlagabrotum starfsmanna sinna, til dæmis Íslandspóst, þegar starfsmenn fyrirtækisins leggja í stæði fatlaðra við Kringluna og Hagkaup á Eiðistorgi, eins og ég hef séð suma þeirra gera og er með öllu ólíðandi.

Margir eru með myndavélar í farsímum sínum og geta því sent strax myndir af umferðarlagabroti í tölvupósti til fyrirtækis þess starfsmanns sem brotið hefur af sér, þar sem númerið á bílnum kemur fram. Og auðvelt er að fá netfang viðkomandi fyrirtækis með því að hringja í Upplýsingar.

Og viðurlög eru við umferðarlagabrotum.

Þorsteinn Briem, 20.3.2009 kl. 22:22

19 identicon

Kannski erum við hálfvitar, hvað sem erlenda blaðamanninum finnst!?

EE elle (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 22:51

20 Smámynd: Þorsteinn Briem

Glöggt er gests augað.

Þorsteinn Briem, 20.3.2009 kl. 23:22

21 identicon

Ok, satt segirðu Steini.  Það var líka akkúrat þannig sem ég fann voðalega fyrir hinni ´óvíkjandi´ hegðun og yfirganginum í landinu: Eftir að ég flutti aftur til landsins eftir langa fjarveru.  Það var sjock.  

EE elle (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 23:29

22 Smámynd: Þorsteinn Briem

Mademoiselle EE. Ég hef búið í Svíþjóð, Eistlandi og Rússlandi. Í öllum þessum löndum bera langflestir virðingu fyrir lögum og reglu en hérlendis veður stór hluti þjóðarinnar yfir allt og alla á skítugum skónum.

Þetta glæpahyski verður að stöðva með öllum tiltækum og löglegum ráðum.

Eitt sinn var ég í spásséritúr hér í Vesturbæ Reykjavíkur þegar einhver fábjáninn keyrir í drullupoll við gangstéttina og eys yfir mig drullunni. Ég næ honum á næstu umferðarljósum, opna dyrnar á skrjóðnum og kallgarmurinn varð svo skelfingu lostinn að hann skeit á sig í sætinu eftir lyktinni að dæma.

Og allt var það löglegt að sjálfsögðu.

Þorsteinn Briem, 21.3.2009 kl. 00:24

23 Smámynd: Hörður Þórðarson

Góð færsla hjá þér Ómar. Vonandi kemur heimska, skammsýni og tillitsleysi á borð við þetta ekki fyrir á fleiri sviðum í íslensku samfélagi...

Hörður Þórðarson, 21.3.2009 kl. 19:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband