Ömmi frændi er hugsjónamaður.

Ég hef áður sagt frá því hér á blogginu að Ögmundur Jónasson hafi fengið viðurnefnið Ömmi frændi þegar hann var formaður starfsmannafélags RUV. Það var ekki út í bláinn; - hann lagði sig fram í starfi sínu, gerði sömu kröfur til sjálfs sín og annarra og var greinilega kominn í þetta af þeirri hugsjón að láta gott af sér leiða.

Gjörðir hans nú eru dæmigerðar fyrir "Ömma frænda". Hann er mikill hugsjónamaður og reynir að standa við það eftir fremstu getu.

Það geta verið bæði góðar og slæmar hliðar að vera mikill hugsjónamaður. Góðu hliðarnar reynir Ögmundur að sýna en sagan sýnir líka að hættan við háar og ofurgöfugar hugsjónir getur verið of mikil forræðishyggja og að leiðast út í slæmar aðgerðir með þeirri afsökun að tilgangurinn helgi meðalið.

Við Ögmundur erum ekki á sama stað í hægra-vinstra litrófi stjórnmálanna. En ég deili þó mörgum af skoðunum hans þótt að sumu leyti séu niðurstöður okkar ekki fengnar á sömu forsendum.

Ég geri þá kröfu til allra hugmyndakerfa að þau taki með í reikninginn mannlegt eðli og mannlegan breyskleika.
Stíf hugmyndakerfi yst til hægri og vinstri hafa reynst dýrkeypt þótt hreinir hugsjónamenn innan þessa kerfa hafi reynt eftir fremsta megni að fylgja eftir hugsjónum sínum á sem heiðarlegastan og flekklausasta hátt.


mbl.is Ögmundur fær ekki ráðherralaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sælir Ómar mér langar sem einstaklingur sem starfar fyrir lýdvarpid 100.5 að biðja þig afsökunar fyrir hönd okkar sem erum að vinna þarna á framkomuni sem var í dagskrá lýðvarpsins núna um daginn þegar ástþór talaði við þig þetta á ekki heima í útvarpi og ég vona að þú látir þetta atvik ekki mála svartan blett á okkur sem eru að vinna þarna.

Kveðja Okkar land.

Starfsmaður á Lýðvarpinu (IP-tala skráð) 25.3.2009 kl. 21:44

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Blessaður vertu, þetta haggaði mér ekki og þú þarft ekki að biðja mig afsökunar sem starfsmaður sem ert að vinna vinnuna þína vel og samviskusamlega.

Ég erfi þetta ekkert við Ástþór og hef ekkert talað um þetta við neinn. Það er gott mál að hreyfa við hlutum, halda úti útvarpi og koma með nýjar hugmyndir. Ég virði Ástþór fyrir það.

Ég þekki Ástþór frá fornu fari og ég er ekki einn af þeim sem óskar þess að menn séu eitthvað öðruvísi en þeir eru, heldur reyni að taka hverjum manni á þeim jafnréttisgrundvelli að öll erum við sköpuð með kosti og galla sem við eigum misjafnlega gott með að glíma við.

Þess vegna má bera bestu kveðjur frá mér til Ástþórs og annarra á Lýðvarpinu.

Ómar Ragnarsson, 25.3.2009 kl. 23:55

3 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Sæll Ómar

Ég sat með Ögmundi í þrjú ár í stjórn BSRB og þetta er einhver besta lýsing sem ég hef heyrt á Ögmundi. Hann er mannvinur og vill öllum vel. Það sem fæstir vita er að hann ber mikla virðingu fyrir skoðunum annarra og það sýndi hann vel á stjórnarfundum BSRB, því við vorum nokkrir sjálfstæðismenn þar.

Ég deili hins vegar sömu áhyggjum og þú, varðandi ófullkomleika mannsins, sem hefur líklega sjaldan birst okkur betur en á undanförnum 6-7 árum, þ.e.a.s. eftir einkavæðingu bankanna árið 2002-2003. 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 26.3.2009 kl. 09:07

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Aldrei hryggur og aldrei glaður,
hann Ömmi er hugsjónamaður,
hann því bara hugsar um eitt,
hvort hann kemst í nógu feitt.

Þorsteinn Briem, 26.3.2009 kl. 10:30

5 Smámynd: Jakob Þór Haraldsson

Vissulega er Ögmundur "mannvinur og vill öllum vel" & hann hefur alltaf verið í "stjórnmálum út frá hugsjón..!"  Sem betur fer eigum við örfá slíka stjórnmálamenn, vildi óska að það væri fleiri á Alþingi sem hefðu sama heiðarleika í verki eins og félagi Ögmundur.

kv. Heilbrigð skynsemi

Jakob Þór Haraldsson, 26.3.2009 kl. 11:09

6 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Sammála, Jakob. Ögmundur er einn af þeim á þingi sem er heiðarlegur í gegn.

Úrsúla Jünemann, 26.3.2009 kl. 12:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband