Skemmtileg samtök.

Ég er ekki félagi í mörgum samtökum en er svo heppinn að hafa verið félagi í nokkrum sem hafa verið sérlega skemmtileg. Má þar nefna Hrekkjalómafélagið í Vestmannaeyjum og Sniglana sem dæmi.

Ég var ástríðuhjólreiðamaður á sínum tíma en hljóp yfir vélhjólastigið og fékk mér vélhjól með vængjum, eins manns vélknúið fis með tvígengisvél af gerðinni Challenger, sem fékk nafnið "Skaftið" og varð uppistaðan í bókinni "Fólk og firnindi," með undirtitlinum "Stiklað á Skaftinu".

Margir af Sniglunum, sem ég þekki, hafa skemmtileg uppnefni og má þar nefna þá Hjört líklegan og Steina Tótu.

Þess má geta sem dæmi um skemmtilega nýyrðasmíði Sniglanna að mig minnir að hjól á borð við það, sem sést á myndinni með frétt mbl.is af 25 ára afmælinu, - svona hjól séu kölluð "aparólur."

Einhvern tíma gerði ég lag og texta með heitinu "Með hraða snigilsins" sem fór inn á einn af diskunum sem Sniglarnir gáfu út. Hef nú gleymt bæði lagi og texta. .

Steini Tótu, kallaði fis, sem hann átti, "Taufaxa". Út á tvígengis- og hjólaástríðu mína varð ég félagi í Sniglunum og er Snigill númer 200.

Þegar ég nauðlenti Skaftinu þrívegis á 15 mínútum undir Eyjafjöllum fyrir tæpum áratug, hringdi ég auðvitað í tvígengisgúrúinn Steina Tótu og fékk leiðbeiningar í málinu. Á endanum fór Skaftið inn á Byggðasafnið í Skógum og hangir þar síðan yfir höfðum safngesta.

Ég sendi Sniglunum bestu afmæliskveðjur og er stoltur og ánægður að fá að vera í Bifhjólasamtökum lýðveldisins.


mbl.is Sniglarnir 25 ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband