Brekkusöngur á Alþingi.

Mér sýnist ljóst eftir umræður um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Alþingi í kvöld að það þarf ekki að vera leiðinlegt fyrir þingmenn að vera þar alveg fram á kjördag.

Árni Johnsen kom nefnilega stemningu í partíið nú rétt í þessu með því að upphefja hálfgerðan brekkusöng í ræðustóli þegar hann söng af gefnu tilefni og sem rök í málinu hástöfum "Laugardagskvöldið á Gili." Verst var að hann skyldi ekki hafa gítarinn með sér í pontuna en kannski gerir hann það seinna.

Ég veit ekki hvort fyrr hefur verið sungið úr ræðustóli Alþingis og væri gaman ef einhver gæti upplýst mig um það.

Ef Árna tekst að ná þarna upp stemningu með gítarspili og söng gæti svo farið að þingmenn þyrftu að vara sig á því að gleyma ekki kosningunum þegar þar að kemur.

Ég vil taka það skýrt fram að þessi frásögn mín er ekki aprílgabb, enda dagurinn í þann mund að heyra fortíðinni til. Að þessari skemmtilegu uppákomu eru áreiðanlega einhver vitni sem voru með opið fyrir sjónvarp frá þinginu þegar þetta gerðist.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þetta er reyndar aprílgabb, því Árni Johnsen hefur aldrei sungið.

Og ef hann mætir með gítarinn í ræðustól Alþingis verður honum stungið í steininn.

Aftur.

Þorsteinn Briem, 2.4.2009 kl. 01:40

2 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Ómar þó ég hafi nú aldrei verið aðdáandi Árna Johnsen hvorki sem söngvara, gítarleikara eða stjórnmálamanns, finnst mér við hæfi að Árni söngli smástúf úr lagið á Alþingi. Eins og þú veist er Íslandshreyfingin gengin í hamingjusæng með Samfylkingunni. Síðan þá hafa raunstýrivextir náð 22% sem er að mér skilst heimsmet. Er það gert til þess að efla atvinnustigið í landinu eða bæta hag heimilanna, eða hvort tveggja?

Sigurður Þorsteinsson, 2.4.2009 kl. 08:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband