Hið einfalda lifir lengst og best.

Trabantinn sem sagt er frá á mbl.is í dag er dæmi um kosti þess að hlutir séu einfaldir og ódýrir.

Það sem ekki er í bílnum nýjum bilar aldrei sagði Henry Ford á meðan hann tregðaðist við að setja vatns- og bensíndælur í bíla sína.

Þeir sem eiga Trabant þurfa að hafa kerti og platínur við hendina en ekki mikið meira, svo einfaldur er bíllinn og auðvelt að gera við þessa fáu hluti sem bila. 

Yfirbyggingin er úr pappaplasti og ryðgar ekki. Þar með þarf aðeins að passa grindina og annað sem er úr stáli.

180px-Trabant_1.1

Ef ég ætti kost á að krækja í Trabant yrði það Trabant 1991, sem mynd er af hér vinstra megin á síðunni. 

Síðasta framleiðsluárið var hann kominn með umhverfisvæna, sparneytna og trausta, vatnskælda fjórgengis Volkswagenvél og drifbúnað og gormafjöðrun þar að auki.

Hann mengaði því ekki þau býsn sem tvígengisvélin gerir. Hann þekkist einna best á því að loftinntakinu að framan hefur verið breytt og það fært til vinstri á bílnum, væntalega til að passa fyrir vatnskassann. 

Ég tek undir það sem sagt er um endingu þess sem er einfalt, lítið og ódýrt.

Ég ek að jafnaði á enn minni bílum en Trabant sem eru meira en 20 ára gamlir og duga vel.

Suma fékk ég gefins eða fyrir nokkra tugi þúsunda.

Þessir gömlu bílar eru hver með sína sérvisku og þurfa alúð og umhyggju.

51.árs gamall Prinz, sem ég á, var minnsti bíll landsins á sínum tíma og var þá gulur.

dsc00132_844185.jpg

Þessi er svartur og mér finnst hann tignarlegur.DSCF0229dscf0052.jpg

Hann er núna táknrænn fyrir það að á okkar tímum er hægt að vera virðulegur  þótt stærðinni sé ekki fyrir að fara.

Prinzinn er reyndar hreinn stássbíll, nánast mubla og því ekki til daglegs brúks nema síður sé.  

Rauði Súkku-Fox jeppinn, sem er minnsti jöklajeppi landsins, er 23ja ára gamall og kostaði aðeins nokkur hundruð þúsund krónur. 

Ég ætla á honum í jeppaferð á Snæfellsnes á laugardag og með Jöklarannsóknarfélaginu um Vatnajökul í lok maí.

Stóri jeppinn fyrir framan hann er líkast til 15 sinnum dýrari og kemst þó ekki nema brot af því sem sá litli kemst. 

Sá litli eyðir helmingi minna og verður orðinn fornbíll eftir tvö ár.

Ég ætti kannski að blogga sérstaklega um Súkkujeppana. Þeir eru alveg þess virði, ekki síður en rússnesku jepparnir GAZ, UAZ og Lada Niva (Sport á Íslandi).  


mbl.is Trabantinn lifði dauðann af
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Halldórsson

Sá gamlan Wartburg fyrir nokkrum árum í Danmörku  í eigu eldri borgara sem hugsaði vel um hann .Það var stóri bróðir Trabbans ef ég man rétt .Annars gleður mig meira að sjá gamla bíla vel við haldna en Flotta jeppa eða sportbíla .

Hörður Halldórsson, 7.5.2009 kl. 16:41

2 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Ég átti einu sinni Cherokee jeppa.  '88 módel.  Þegar ég átti hann þurfti ég ekki að hafa neitt við höndina svona framan af, þar til startarinn fór að vera með stæla eftir 4 ár.  Þá var gott að hafa hamar við hendina.

Ásgrímur Hartmannsson, 7.5.2009 kl. 16:42

3 identicon

Barðirðu hann til hlýðni með hamrinum ?

núll (IP-tala skráð) 7.5.2009 kl. 16:50

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gamli Willys klikkaði aldrei í sveitinni.

En stundum þurfti að snúa hann í gang.

Svona eins og gamlan framsóknarmann.

Þorsteinn Briem, 7.5.2009 kl. 16:55

5 identicon

Ég á 1987 módelið af Corollu. Henni hefur nú verið klappað svolítið í gegnum tíðina, enda lítur hún margfalt betur út en jafngamli Trabantinn. Corollan er að auki mun þægilegri bíll, sérstaklega er innréttingin íburðarmeiri, og á enn nokkur ár til góða.

Mér finnst skrítið að fjallað sé um Trabantinn eins og hann sé svo gamall að hann ætti alls ekki að vera til. Vissulega er bíll af slíkri gerð sjaldgæfur gripur, en margir af mínum bílum hafa verið "í kringum tvítugt" þegar ég hef eignast þá og með smá forsjá og alúð hafa þeir skilað mér hvert á land sem er.

Svo hef ég líka átt nýrri bíla, suma á lánum, og maður er alltaf svolítið með hugann við það hvað þeir kosta mikið og að þeir megi ekki rispast og hvað væri hægt að gera fyrir afborganirnar og þar frameftir götunum.

Síðast en ekki síst er það kostnaðarsamt ferli fyrir umhverfið að nýr bíll sé smíðaður en þeim eldri, sem enn er fullkomlega nothæfur, hent. Ég held því að gamlir bílar með sæmilega sparneytna vél séu meiri umhverfisvernd en margur hyggur.

Elín (IP-tala skráð) 7.5.2009 kl. 17:10

6 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Mikið svakalega er ég orðinn þreyttur á þessu snobbi niður á við.

Nú er allt flott sem er lélegt og ljótt. Trabant er ljótur bíll með tveggja strokka garðsláttuvél, sem er með 25 hestafla mótor.

Nei, Benzinn minn (C-Klasse), vesturþýsk, eða réttara sagt þýsk gæðaframleiðsla, er mun betri með sín 200 hestöfl en þessar tveggja strokka druslur frá Þýska alþýðulýðveldinu.

Ég ætti að vitað það eftir að hafa lært í Austur-þýskalandi og andað að mér menguninni úr þessum druslum í 2 ár. 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 7.5.2009 kl. 20:53

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Jamm, við höfum nú aldeilis orðið vör við afleiðingarnar af því, Guðbjörn minn.

Þorsteinn Briem, 7.5.2009 kl. 21:06

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Guðbjörn, vegna mengunarinnar af Trabantinum myndi ég aðeins vilja eiga Trabant 1991, eins og ég sagði hér að ofan, þar sem Vestur-Þjóðverjar lögðu til nýtísku vélar-og drifkram og fjöðrun og tel það ekkert "snobb niður á við."

Það er hins vegar engin hætta á því að Trabantar verði eins margir hér og í Austur-Þýskalandi á sinni tíð, heldur muni mengunin af þessum örfáu "druslum" engu skipta miðað við 150 þúsund aðra bíla í flota landsmanna.

Ég kann vel að meta þægilega og skemmtilega gæðabíla til síns brúks og játa að vera bílanautnamaður.

Ég minnist enn ánægjunnar af því að reynsluaka BMW 5-línunni splunkunýrri fyrir um 15 árum og sá lítið athugavert við það að slíkir bílar stæðu þeim til boða sem vildu frekar nota peninga sína í það en brennivín.

Í Kastlljósi nú rétt áðan kom fram að aðeins einn af hverjum tíu Íslendingum veit hvað það kostar að reka bíl og héldu margir að það kostaði aðeins fjórðung af því sem það kostar í raun.

Ég er með hugmyndir um nýtt kerfi skattlagningar á bíla sem byggist á því að þeir borgi sem nota.

Það er enginn sósíalismi heldur hreinn viðskiptakapítalismi.

Hliðstætt kerfi er í Japan.

Það á ekki að hafa í för með sér neina útrýmingu á stórum lúxusbílum, heldur eingöngu að miðast við not þeirra.

Af hverjum bíl á þá að borga gjald sem miðast við lengd, þ. e. það pláss sem hann tekur á dýru malbikinu.

Þeir sem það kjósa, geti fengið sér innsiglaða vegalengdarmæla og afslátt af gjaldinu, miðað við árlega akstursvegalengd ef þeir eiga lengri og stærri bíla.

Þetta myndi hvetja fólk til að eiga litla bíla til nota í borgar- og bæjasnattinu, sem er hagkvæmt að öllu leyti.

Orkuvandamál heimsins verða ekki leyst nema að minnka eftirspurnina eftir orkunni. Og þetta vandamál brennur nú æ heitar á mannkyninu.

Ómar Ragnarsson, 7.5.2009 kl. 21:17

9 identicon

Ómar, endilega bloggaðu um Suzuki jeppana. Þetta eru snilldar bílar. Suzuki Fox, Samurai og núna Jimny eru vanmetin torfærutröll. Ég man eftir að faðir minn átti einn gamlan Fox sem komst allt á meðan aðrir sátu fastir. Eini gallinn við hann var að hann var full léttur þannig að við lögðum ekki í straumþungar ár og svo fauk hann einu sinni útaf á leiðinni ofan af Hellisheiði. Annað en það, þá var hann tær snilld.  Núna er ég að spá í að fá mér einn Jimny svona til að hafa fjórhjóladrifsbíl þegar á þarf að halda. 

Sammála Ómari um að endurskoða skattlagningu bíla. Ættum að taka Japani okkur til fyrirmyndar, en þar varð til heill iðnaður í kringum svokallaða "kei cars".  

Mér finnst þetta ekkert snobb niður á við að aka um á ódýrum sparneytnum bílum. Bílar eru ein versta fjárfesting sem til er, falla hratt í verði og endast illa miðað við peningana sem fara í þá. Sérstaklega heimskulegt finnst mér að taka lán til að kaupa bíl og vorkenni ekkert þessu liði sem er að væla undan greiðslubyrði af bílalánum. Heimskulegt, ég undirstrika það. það er samt alltaf gaman að taka í stóran BMW eða Benz af og til, en það hvarflar ekki að mér að leggja eigin peninga í slík verkfæri, ánægjan af að aka svoleiðis drossíum er ekki það mikil fyrir mig. Kannski einhverja aðra.

Jonni (IP-tala skráð) 12.5.2009 kl. 13:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband