59 ára gömul draumsýn.

Ég hafði í nokkur ár verið með ákafa landafræðidellu þegar ég fór fyrst í sveit að Hvammi í Langadal, níu ára gamall. Eitt af því sem ég stundaði var að pæla í styttingu leiða og tveir stórir krókar á norðurleiðinni vöktu athygli mína.

Í fyrsta sinn sem ég fór upp í fjallið fyrir ofan Hvamm blasti stytt leið betur við en á nokkrum öðrum stað. Það var svo augljóst hve ný leið milli Stóru-Giljár og Fagraness í Langadal myndi verða hagfelld.

Við Fagranes er gamall ferjustaður, Mjósyndi, þar sem er Blanda er í öruggum farvegi. Brú þar myndi verða góð samgöngubót innan héraðs, vegna þess að hún kæmi mitt á milli núverandi Blöndubrúar og brúarinnar við Syðri-Löngumýri. 

Tvö atriði hafa breytt aðstæðum gagnvart Blönduósingum á síðustu árum. Vegurinn yfir Þverárfjall hefur tryggt þeim að umferð til Sauðárkróks fari í gegnum Blönduós.

Breyting á mörkum sveitarfélaga hefur valdið því að brúarstæðið við Fagranes yrði í sama sveitarfélagi og Blönduós og hægt að byggja þar upp sömu þjónustu við vegfarendur og nú er á Blönduósi. Eða þá nálægt Stóru-Giljá ef það þætti heppilegra.

Svipað er að segja um styttingu framhjá Varmahlíð í Skagafirði. Hægt yrði að byggja upp nýja þjónustu við vegfarendur hjá nýjum vegamótum við Arnarstapa.

Það munar um samtals 20 kílómetra styttingu hringvegarins. Það er helmingur af þeirri styttingu sem fékkst með Hvalfjarðargöngunum og myndi kosta mun minna á hvern græddan kílómetra en göngin kostuðu.

Styttingin myndi auka landumferðina milli Reykjavíkur og Akureyrar og verða að því leyti búbót fyrir allar þjónustustððvar á leiðinni.

Mér finnst merkilegast að draumsýn mín úr Hvammsfjalli fyrir 59 árum skuli enn vera draumsýn.  


mbl.is Kærðu skipulag í Skagafirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vangaveltur um tvennt. Í fyrsta lagi spyr maður sig hvort þjóðvegur eitt sé eingöngu til þess að hafa sem skemmsta leið milli Reykjavíkur og Akureyrar. Í öðru lagi hver eigi að bera kostnað af því að mannvirki í Varmahlíð verði einskis virði.  Mikil ferðaþjónusta hefur verið byggð upp á Blönduósi, sem er miðsvæðis á Norðurlandi vestra og því mikilvægur þjónustukjarni. Það skiptir talsverðu máli fyrir nýtingu þeirra fjárfestinga, hvort hringvegurinn liggur um eða nærri staðnum, eða bara þeir örfáu, sem leggja leið sína til Sauðárkróks fari þar um. Annars er 20/20 nefndin reyndar búin að ákveða að leggja héruðin milli Tröllaskaga og Holtavörðuheiðar niður, svo þetta skiptir sennilega engu.

Spurull (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 20:25

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Stytting leiða hefur líka í för með sér fækkun slysa

Gunnar Th. Gunnarsson, 10.10.2009 kl. 21:09

4 Smámynd: Þorsteinn H. Gunnarsson

Fremri Blöndubrú er í löndum Syðri-Löngumýrar og Brúarhlíðar, en ekki Ytri-Löngumýrar.

Svínavatnsleið býður upp á betra veður en er oft í utanverðum Langadal. Oft er öskrandi norðan manndrápsbylur þar, meðan mun betra veður er á Svínavatnsleið um Tinda og Bakása.

Aftur á móti er nýr vegur sóun á landi og ekki mjög aðkallandi mál, nema fyrir verktaka.

Það á að spara land undir vegi eins og kostur er alla vega gróin ræktanleg lönd á láglendi.

Þorsteinn H. Gunnarsson, 10.10.2009 kl. 22:30

5 identicon

Spurull.  Mér finnst eðlilegt að sveitarstjórnin á Blönduósi hafi með það að gera hvernig tenging þess staðar er háttað við hringveginn.  Lega hringvegarins á hins vegar að ráðast af landsstjórninni og hagkvæmni þess að stytta leiðina milli landshluta eins og hægt er og spara með því tíma og eldsneyti. 

Gísli Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 23:07

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Leiðrétti hér með villuna varðandi fremri Blöndubrú.

Illviðrakaflinn í Langadal nær ekki nema suður undir Fremstagil. Frá Fagranesi og fram að vegamótum við Ártún er allt annað og betra veður.

Mjög sviptivindasamt er norðan við ysta hluta Vatnsdalsfjalls og undir Reykjanibbu í hvassri suðvestan- og sunnanátt. Vegurinn um Bakása liggur 100 metrum hærra en vegur utar.

Vegagerð um Bakása mynd kalla á miklu lengri nýjan veg en leiðin utar og það er mun minna gagn að nýrri brú skammt utan við gömlu brúna við Syðri-Löngumýri en brú við Fagranes.

Hrakspárnar um að mannvirki í Varmahlíð verði einskis virði standast ekki. Varmahlíð verður eftir sem áður miðsvæðis í Skagafirði.

Mannvirkin í Helluþorpi á Suðurlandi urðu ekki einskis virði þegar vegurinn var færður suður fyrir þorpið.

Það yrði um sjö mínútna akstur frá vegamótum við Stóru-Giljá út á Blönduós fyrir þá sem þangað vilja fara.

Ég veit ekki betur en að Sauðárkrókur sé með blómlegt líf þótt þangað séu 25 kílómetrar frá hringveginum. Í nágrannalöndum okkar sér maður vel að þar ríkir ekki stefnan "skal inn í bæinn" sem ergir margan þann sem þarf að fara í umferðarteppu inni í Selfossbæ til að komast leiðar sinnar, án þess að stansa þar.

Ég gantaðist einu sinni með það við Hjálmar Jónsson þegar hann var alþingismaður hvort hann teldi það höfuðatriði að hringvegurinn um Húnavatnssýslur lægi við húnvetnskt þorp.

Hann kvað svo vera.

"Nægir eitt þorp?" spurði ég.

"Já", sagði hann.

"Þá er ég með lausn, þar sem við mætumst á miðri leið", sagði ég.

Við styttum hringveginn um 15 kílómetra framhjá Blönduósi en setjum í staðinn upp múr við Hvammtangavegamótin þannig að allir verði að aka út undir Hvammstanga og til baka aftur.

Það lengir leiðina um 1O kílómetra þannig að í heildina sparast 5 kílómetrar."

"Æ, þú ert ótugt" sagði Hjálmar og við hlógum báðir.

Ómar Ragnarsson, 10.10.2009 kl. 23:11

8 Smámynd: Þorsteinn H. Gunnarsson

Þegar ég nefndi Tinda og Bakása, á ég við veg sem kæmi milli Tinda og Kagaðarhóls niður hjá Holtastaðarreit og Gunnfríðarstöðum yfir í Fagranes. Þar erum við komnir yfir á Bakásum.

Aldrei talað um veg langsum eftir Bakásum. 

Með því að fara með veginn fyrir norðan túnið á Reykjum og þar austur væri vegurinn laus við SV veður af Svínadalsfjalli-Reykjanibbu.

Samkvæmt mínum bókum nær illviðrakaflinn í Langadal  að merkjum milli Fremstagils og Geitaskarðs skáhallt úr vörðu þar, sjónhendingu í klett í Langadalsfjalli og þar hafa gamlir menn sagt mér að oft væru rjúpur í illviðrum og oftast tófa ekki langt undan.

Þorsteinn H. Gunnarsson, 11.10.2009 kl. 00:14

10 identicon

Verslanir og hótel í Varmahlíð verða ekki mikil virði, þar eð þau eru aðallega rekin á grundvelli þjónustu við ferðafólk. Mann grunar að þarna liggi að baki að einhver eða einhverjir vilji ná til sín þeirri þjónustu, sem þar er keypt. Það þarf þá að koma fram.

Spurull (IP-tala skráð) 11.10.2009 kl. 08:41

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég gæti ímyndað mér að allt að 80% verslunar við hótel á Íslandi felist í því að aka nokkurn spöl út frá hringveginum.

Ómar Ragnarsson, 11.10.2009 kl. 08:48

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það virðist sem við séum þá nokkurn veginn sammála um leiðina, Þorsteinn, sem best væri að fara, ef menn tækju þá ákvörðun að stytta hringveginn í Austur-Húnavatnssýslu.

Ómar Ragnarsson, 11.10.2009 kl. 08:50

13 identicon

Hringvegurinn er fyrst og fremst til að þjóna daglegri umferð Íslendinga á ferð milli landshluta.  Helstu ferðamannastaðir Skagfirðinga eru Glaumbær, Vesturfarasetrið á Hofsósi, Hólar og flúðasiglingar á Jökulsá. Enginn þessara staða stendur við hringveginn.  Raunar liggur hrignvegurinn sjaldnast í gegnum vinsæla ferðamannastaði á Íslandi. 

Gísli Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 11.10.2009 kl. 10:29

14 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hringvegurinn er líka hin stóra slagæð flutninga á milli landshluta og stytting og bæting hans hefur því mikið fjárhagslegt gildi.

Ómar Ragnarsson, 11.10.2009 kl. 15:48

15 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Við þurfum ekki hringveginn hér á Reyðarfirði. Við höfum álverið

Gunnar Th. Gunnarsson, 11.10.2009 kl. 16:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband