Ánægjuleg stund á Reykjavíkurflugvelli.

Það var viðeigandi í dag að það færi svo, vegna veðurs um síðustu helgi, að uppstigningardagur skyldi verða fyrir valinu fyrir árlegan flugdag, svo dásamleg sem sú tilfinng er að "stíga upp" í átt til himins.

Það leit ekki vel út fram yfir hádegi með veðrið, en það rættist úr því að stundin úti á flugvelli var einstaklega ánægjuleg.

Ég hafði að vísu lofað mér austur á Hvolsvöll um hádegið en komst þó á flugsýninguna klukkan 13:40 og tókst það ætlunarverk mitt, að taka kvikmynd af hinum 86 ára gamla flugkappa Magnúsi Norðdal að brillera.

Þegar hann framkvæmir hið einstæða sýningaratriði sitt í listflugi á Yak-55, sem felur í sér að fara í svonefnt Lomcowack, sem er tékkneskt listflugsatriði og ekki keppt í á listflugsmótum, er það hugsanlega einstakt á heimsvísu að svo gamall maður skuli geta gert þetta yfirleitt, að ekki sé talað um á hve glæsilegan hátt það er gert.

Þess vegna reyndi ég að festa þetta á filmu í dag auk þess sem það var ánægjulegt að hitta fjölda fólks á öllum aldri og af öllum stigum og spjalla við það. 

Ég hef líklega ekki verið með flugvél á flugsýningu hér fyrir sunnan í meira en 25 ár, en viðvera flugvélarinnar ein gefur tækifæri til beinna og meira spjalls um flugið og dásemdir þess en ella.

Vísa á ljósmynd af stemningunni á flugsýningunni á facebook-síðu minni.    


mbl.is Margmenni á Reykjavíkurflugvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góður andi á starfsmannafundi Tryggingarstofnunar.

Það var ánægjulegt að vera viðstaddur starfsmannafund Tryggingarstofnunar í gærmorgun, ekki aðeins vegna þess tilefnis að trú og góð starfskona, Björg Hulda Sölvadóttir, var heiðruð fyrir hálfrar aldar farsælt starf, heldur ekki síður vegna þess að í máli þeirra sem töluðu kom fram að mikið væri lagt upp úr því að bæta starfsanda, þjónustu og andrúmsloft hjá stofnuninni.

Fram komu meðal annars þær upplýsingar að í könnun á áliti viðskiptavina hinna ýmsu stofnana og fyrirtækja fyrir nokkrum árum hafi Tryggingastofnun lent neðarlega á blaði, fyrir neðan meðallag.

Það ætti kannski ekki að koma á óvart, því að flestir sem þurfa þangað að leita, gera það vegna þess að þeir standa höllum fæti í þjóðfélaginu, svo sem vegna fötlunar og aldurs.

En þessu hefur tekist að snúa við á siðustu árum og upplýst var nú væri Tryggingastofnun vel fyrir ofan meðallagið.   


mbl.is Hálfa öld í Tryggingastofnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Everest, Ásbyrgi - Skógafoss.

Everest, hæsta fjall heim, gnæfir enn upp í himinhvolfið með ósnerta útsýn til sín úr öllum áttum. Engum hefur enn dottið í hug, enda ekki framkvæmanlegt, að setja í alla dali umhverfis fjallið svo risastór og viðfeðm hótel, að engin leið verði að eiga leið að fjallinu eða framhjá því til að fá útsýn til þess ótruflaða, nema að sjá hótelið fyrst og helst að kaupa sér herbergi í því til að njóta útsýnis til fjallsins.

Frá norðausturhorni Íslands suður til Vatnajökuls og þaðan ótruflað í suðvestur til Suðurjökla og niður á sandana sunnan við þau liggur ósnortin og einstæð náttúra Íslands, eitt af örfáum helstu undrum veraldar.

Inni í þessi svæði er keðja ótal náttúruundra, allt frá Ásbyrgi, Jökulsárgljúfri og Dettifossi í norðri, um Herðubreið, Öskju, Kverkfjöll, Vatnajökul, Grímsvötn, Lakagíga og Fjallabak yfir Mýrdalsjökuls niður um Skógafoss.

Nú er búið að ákveða að í stað þess að ferðafólk sem fer framhjá Skógafossi og sér hann ótruflaðan af mannvirkjum frá hringveginum skuli hér eftir sæta því að í forgrunni á þeim örstutta kafla, þar sem fossinn blasir beint við, skuli rísa stærðar hótel með tilheyrandi þyrpingu af byggingum, sem byrgja muni sýn til fossins.

Það er til þess að besta útsýnið til fossins verði í höndum hinna útvöldu, sem geta keypt sér gistingu í þessu hóteli.

Nefna má marga hliðstæða staði í heiminum, þar sem mönnum dettur ekki svona lagað í hug.

En á Íslandi er þetta gert. Nú er að rísa hár turn við Frakkastíg í Reykjavík sem eyðileggja á allt útsýni hundraða þúsunda heimamanna og ferðamanna, sem hafa getað horft niður stíginn með óhindrað útsýni yfir Kollafjörð og Esjuna.

Íbúðir hinna útvöldu í turninum, sem munu troða sér með búsetu þar fram fyrir almúgann til að njóta þess útsýnis, sem rænt var af honum, munu seljast á margra milljóna hærra verði hver, turneigendum til ágóða.

Ég er á leið austur á Hvolsvöll að hitta ferskt ungt fólk, sem ætlar í sérframboð vegna þess, að áformin við Skógafoss fyllti mælinn í huga þess varðandi eftirlátssemi við þá sem vilja troða sér fram fyrir almenning til að geta selt herbergi eða íbúðir á uppsprengdu verði.

Ég hlakka til að hitta þetta fólk þótt tilefnið sé dapurlegt.  


mbl.is Fyrsti Færeyingurinn á toppi Everest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. maí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband