Skjálftar á Suðurlandi, tæp 3 stig og rúm 4 stig.

Fyrir nokkrum mínútum riðu yfir tveir jarðskjálftar á Suðurlandi, annar við vesturenda Hestfjalls en hinn skammt suðvestur af Hveragerði.

Annar var tæp 3 stig en hinn rúm 4 stig en ekki er hægt að sjá á grafinu á vedur.is hvor er stærri.

Man ekki eftir þetta stórum skjálfta síðustu árin á þessu svæði.  

 

P. S.  Nú er svo að sjá að stór skjálfti hafi líka orðið við Þjórsá norður af Holtum og röð mkinni skjálfta í suður þar frá. Og í kvöld hefur áfram verið fyrir norðan skjálftahrina í norður-suður- línu um Herðbreiðartögl í átt að Upptyppingum.   


Hver forðaði verkfallinu hvert ?

Orðalagið "að forða einhverju.." er rökrétt og auðskilið, - lýtur svipuðum lögmálum og orðalagið "að "bjarga einhverju."  

Það þýðir að "einhverju er forðað eitthvað" eða að einhverju er forðað frá einhverju." Dæmi:

"Móðirin forðaði barninu í skjól undan ofviðrinu".

Björgunarmenn forðuðu konunni frá bráðum bana."

Setningarnar geta líka falið í sér neitun:

"Ekki tókst að forða fyrirtækinu frá gjaldþroti."  

Nú sér maður þessa fyrirsögn: "Ekki tókst að forða verkfalli".

Þá vakna spurningar:

Frá hverju tókst ekki að forða verkfallinu? 

Hvert átti að forða verkfallinu?

Hverjum tókst ekki að forða verkfallinu og hvert tókst honum ekki að forða því?

Auðvelt hefði verið að komast hjá rökleysunni með því að segja einfaldlega: "Ekki tókst að forðast verkfallið." 

Hnignandi málkennd má stundum afsaka með því að tungumálið verði að fá að þróast í stað þess að staðna um of.

En öðru máli gegnir þegar það, sem sagt er, er rökleysa eða bull.    

 


mbl.is Ekki tókst að koma í veg fyrir verkfall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóriðjutrúin blómstrar sem aldrei fyrr.

"Orkufrekur iðnaður" byggist á mestu hugsanlegri orkunotkun eins og heitið ber með sér.

Þeir sem trúa á eftirsókn eftir sölu á raforku til orkufreks iðnaðar hafa eðli málsins samkvæmt sóst eftir fjárfestingu stóriðjufyrirtækja eða annarra fyrirtækja, sem svelgja í sig sem allra mesta orku og í viðtali við bæjarstjórann á Blönduósi kemur fram að tæpan aldarfjórðung hafi sveitarstjórnarmenn þar um slóðir einmitt hamast við það árangurslaust að laða til sín "orkufrekan iðnað".. 

Eftirsóknin eftir stóriðju eða þungaiðnaði hefur verið svo mikil, að fyrir nokkrum árum var varpað fram hugmynd um "litla stóriðju" til að "bjarga þjóðinni". Svona álíka og að tala um "léttan þungaiðnað".

Í aðdraganda kosninganna 2007 varpaði ég fram hugmyndinni um gagnaver, sem höfðu þann kost fram yfir stóriðjuna að gefa af sér miklu fleiri og betri störf en stóriðjan. Áltrúarmenn töldu þetta af og frá og hamast enn við sömu hugmynd og þá, að reisa risaálver í Helguvík.

Gagnaver á Blönduósi getur nýtt sér ýmsa kosti sem sá staður býður upp á. Blönduvirkjun framleiðir tiltöllulega græna orku og svalt loftslag er kostur fyrir gagnaver. Ísland er þjóðfélag með ágætlega menntaða þjóð og fleira jákvætt má tína til.

En ókostirnir vega þungt, svo sem fjarlægðin frá Reykjavík og alþjóðaflugvelli. Það er ekki tilviljun að Reykjnesbær þyki fýsilegur kostur fyrir gagnaver. Og nú fréttist að ívilnanir til gagnavera kunni að verða dregnar til baka og að Ísland skrapi botninn meðal þjóða í nettengingu við önnur lönd.

Fáir landshlutar hafa brennt sig jafn illa á virkjanaframkvæmdatrúnni og Norðurland vestra. Blönduvirkjun átti að "bjarga byggðunum" og skapa mikla möguleika til uppbyggingar á orkufrekum iðnaði.

Reyndin varð sú að ásamt Vestfjörðum sker Norðurland vestra sig úr meðal byggða landins hvað varðar fólksfækkun síðasta aldarfjórðung. Hinir mörgu sem fengu vinnu og verkefni vegna virkjanaframkvæmda urðu atvinnulausir þegar framkvæmdunum lauk eða fluttu í burtu.

Byggðirnar misstu af heilum áratug við það að byggja upp "eitthvað annað" af því virkjanframkvæmdirnar ruddu öllu öðru í burtu. Skjótfenginn gróði fyrir sumar en bakslagið því meira.

Fyrir fimm árum sagði bæjarstjórinn í Vesturbyggð að 99,9% líkur væru á því að reist yrði risaolíhreinsistöð á einum fegursta stað á Vestfjörðum sem myndi "bjarga Vestfjörðum".

Ekkert hefur frést af þessu bjargræði siðan.

Þegar álver tók til starfa í Straumsvík 1970 var því lofað að stórfelldur afleiddur áliðnaður með úrvinnslu úr áli og framleiðslu fjölbreyttra álafurða myndi fylgja í kjölfarið. 44 árum síðar er löngu ljóst að þessar vonir byggðust á hreinum barnaskap og að verið var að selja stóriðjuhugmyndina á fölskum forsendum hvað þetta varðaði. 

Framleiðslan á flestum slíkum vörum byggist á hagkvæmni stærðarinnar og örþjóðin Íslendingar á litla möguleika í því efni.

Að sjálfsögðu eiga allar byggðir landsins að viðhalda vöku sinni varðandi afkomu sína og framtíðarmöguleika.

En þegar þess er gætt að aðeins 0,8% af þjóðarinnar vinnur við stóriðju en 99,2% við "eitthvað annað" er augljóslega eitthvað bogið við það ef 99,2% athyglinnar beinist að stóriðjunni en 0,8% að einhverju öðru þegar leitað er að möguleikum til tekna og atvinnusköpunar.   

 

 

 

  


mbl.is Áhugi á gagnaverum enn til staðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjö ára árangurslaust blogg um mengandi orku og rányrkju.

Ef ég man rétt, fjallaði fyrsti bloggpistillinn á þessari bloggsíðu fyrir sjö árum um þá staðreynd, að orkan, sem við erum að pranga inn á umheiminn sem hreinni og endurnýjanlegri orku, er hvorugt, en samt við erum enn að hamast við það.  

Á þessum sjö árum hafa birst um meira en sex þúsund pistlar hér á síðunni og í þeim þeirra, sem hafa fjallað um þetta fyrsta viðfangsefni síðunnar, hefur myndin af "hreinu og endurnýjanlegu" orkunni fengið á sig æ svartari mynd en samtímis hefur verið hertur síbyljusöngurinn um grænu, hreinu og endurnýjanlegu orkuna, sem Íslendingar hafa kyrjað næstum allir sem einn, allt frá forsetanum og ráðherrunum niður í auman lífeyrisþega eins og mig.

Nýjasta staðreyndin er sú, að aðeins ein virkjun, Heillisheiðarvirkjun, framleiðir meira af mengandi lofttegundum en stærstu álver. Meira en 85% af orkunni, sem leyst er úr læðingi, fer óbeisluð út í loftið.

Orka virkjunarinnar er þegar byrjuð að dvína, enda var ekki gert ráð fyrir því í forsendum hennar að hún entist í meira en 50 ár.

Slíkt er ekki sjálfbær þróun, heldur heitir það rányrkja á íslensku, stunduð á kostnað komandi kynslóða; -  í ofanálag er orkan seld á gjafverði til mest bruðlandi orkusvelgja, sem finnanlegir eru, og til að kóróna ruglið, erum við Íslendingar búnir að setja hæsta gæðastimpil og nánast trúarlegan geislabaug í kringum töfraorðið: "orkufrekur iðnaður" !

Þótt sjö ára blekkingaleikur okkar með "græna orku" sé enn í fullum gangi og hundruð bloggpistla minna um þetta efni hríni ekki á síbyljusöngnum, hljóta þau sannindi að koma í ljós og koma okkur í koll, þótt síðar verði, að enda þótt það sé hægt að blekkja suma stundum en ekki hægt að blekkja alla alltaf.  

 


mbl.is Ísland hættir að vera grænt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. maí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband