"Að standa þétt að baki..." getur verið afdrifaríkt.

Ljóst virðist að rússneska þotan, sem skotin var niður nálægt landamærum Sýrlands og Tyrklands, skall til jarðar 4,5 kílómetra frá landamærunum á sýrlensku landi.

Á þeim myndskeiðum sem birst hafa fellur þotan nær lóðrétt til jarðar.

Myndskeiðið sýnir að vísu ekki aðdragandann og þar með ekki hvort hún fór áður yfir á tyrkneskt yfirráðasvæði, en úrlslitum hlýtur að ráða, hvar hún var þegar skotið hæfði hana.

Flugmennirnir hafa augljóslega farið háskalega nærri landamærunum, en á hinn bóginn er það ekki staða, sem hægt er að "standa þétt að baki" ef hún var skotin niður utan landamæra Tyrklands.

Það er ekki góður bjölluhljómur í yfirlýsingunni um að bandalagsríki NATO "standi þétt að baki Tyrkjum" ef málstaðurinn er vafasamur.

Hljómurinn er ekki þægilegur vegna þess að í aðdraganda Fyrri heimsstyrjaldarinnar stóðu andsstæðar fylkingar ríkja "þétt að baki" hver annarri.

Þjóðverjar "stóðu þétt að baki" Austurríkismanna í þeirra aðgerðum og þrýstu á um harðari viðbrögð þeirra, eggjuðu þá til harðra aðgerða.

Rússar "stóðu þétt að baki Serbum" gagnvart Miðveldunum, og Frakkar "stóðu þétt að baki Rússum" þegar þeir gripu til hervæðingar.

Þriggja aldarfjórðunga loforð Breta gagnvart Belgíumönnum varð til þess að þeir "stóðu þétt að baki" Belgum.

Það er höfuðnauðsyn að atburðarásin nú verði ekki í sama dúr og í júlí og byrjun ágúst 1914.


mbl.is Mikil samstaða innan NATO
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svipað og fyrir austan.

Það sem gerðist á Austurlandi á tímum byggingar Kárahnjúkavirkjunar er um margt að endurtaka sig vegna framkvæmda í Þingeyjarsýslum, þótt ekki séu framkvæmdirnar eins tröllslegar og eystra.

Fyrirfram var talað um það að 80% vinnuaflsins vegna Kárahnjúkavirkjunar myndi verða innlent en 20% erlent. Þetta varð öfugt.

Tölur um þetta liggja ekki fyrir enn vegna framkvæmda í Þingeyjarsýslum, en umfang undirverktakastarfsemi með erlendu vinnuafli blasir við.

Til lítils er að kvarta yfir þessu og kveina. Fordæmið lá fyrir og menn fengu það sem þeir máttu vita að þeir fengju.


mbl.is Löglegt en pirrandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Latakia er 70 kílómetra frá landamærunum að Tyrklandi.

Vladimir Putin segir að herþotur Rússa hafi verið í aðgerðum "á svæðinu umhverfis Latakia."

Latakia er í 70 kílómetra fjarlægð frá tyrknesku landamærunum  og því er eitthvað í þessum máli sem gengur ekki alveg upp.

Putin segir aðgerðirnar norður af Latakia lið í því að hindra uppreisnarmenn til að komast til Rússlands.

Siglingaleiðin frá Latakia til Rússlands er hins vegar 1500 kílómetra löng.

Það þarf að skýra þetta mál og upplýsa betur.


mbl.is „Rýtingur í bakið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leikur að eldi á ystu nöf.

Að minnsta kosti fjórar þjóðir senda nú herþotur sínar til að gera árásir í Sýrlandi, Rússar, Frakkar, Bandaríkjamenn og Tyrkir.

Írakar og stjórnvöld í Sýrlandi eru einnig með heri á svæðinu og ekki langt undan fylgjast Ísraelsmenn með og hafa viðbúnað.

Hvort sem rússneska herþotan, sem Tyrkir skutu niður, var inni í lofthelgi Tyrklands eða ekki, var hún sannanlega alveg á mörkum þess.

Það eru alltof margir að skara eld að eigin köku á alltof litlu svæði, og líkurnar á óviðráðanlegu flækjustigi ef eitthvað ber út af, eru alltof miklar til þess að þetta geti gengið.

Í Kóreustyrjöldinni 1950-53 var staðan líka eldfim eftir að Bandaríkjamenn fóru það langt í norður, að Kínverjar fóru að senda menn í stríðið og Rússar sendu herþotur frá Mansjúríu til að berjast við bandarískar herþotur.

Litlu munaði að kjarnorkustríð og þriðja heimsstyrjöldin brystu á. Truman forseti rak Douglas McArthur hershöfðingja eftir að þeir urðu ósammála um það hve langt ætti að ganga.

Flækjustigið var þó mun minna en það er núna í Sýrlandi. Þar eru alltof margir að leika sér að eldi fram á ystu nöf.

 


mbl.is Rússnesk herflugvél skotin niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. nóvember 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband