Valdaöflin fara sínu fram og herða sóknina.

Á sama tíma og yfirburða stuðningur er í skoðanakönnununum við stofnun miðhálendisþjóðgarðs herða valdaöflin sókn sína í virkjanir á hálendinu.Hálendið hjarta landsins

Sjá má yfirlit yfir þetta á vefsíðu Landverndar "Hjarta landsins" og á "Náttúrukortinu" hjá Framtíðarlandinu. 

Herfræðilega byggist virkjanasóknin á svipaðri aðferð og notuð var í Seinni heimsstyrjöldinni undir heitinu "blitzkrieg" eða "leifturstríð".

Hún fólst í því að bruna sem hraðast um langan veg og hertaka mikilvægustu staðina fyrst þannig að landssvæðið, sem ná átti valdi yfir, var bútað í sundur og síðan hægt að klára dæmið í rólegheitum á eftir.Aldeyjarfoss

Þegar litið er á áform um "mannvirkjabelti" þvert yfir hálendið auk virkjana við Langjökul, tangarsókn um Sprengisandsleið, annars vegar úr suðri til Skrokköldu og hins vegar úr norðri suður af Aldeyjarfossi og Hrafnabjörgum, blasir hinn einbeitti brotavilji gagnvart íslenskri náttúru og verðmætum hennar, þótt ekki væri nema bara þetta. 

En þá eru ótalin áform í tugatali, sem sýnd eru nokkur dæmi um á yfirlitinu hér að ofan. Skaftá

Þegar þessum áformum er andæft er talað um "öfgafólk" og í nýlegri grein í Morgunblaðinu var fullyrt að "allir vissu" að á miðhálendinu væri ekkert annað að sjá en urð, grjót, sand, mela, og rofabörð, rétt eins og gróðurvinjar á borð við Þjórsárver og hinn hálfgróna Krókdal, sem á að sökkva í miðlunarlón væru ekki til. 

Að ekki sé nú nefnt að 40 ferkólómetrar af grónu landi fóru undir lón Blönduvirkjunar og ríflega það undir lón Kárahnjúkavirkjunar.Gljúfurleitar-foss

Þess má geta, að í mati á umhverfisáhrifum Búlandsvirkjunar, sem tekur Skaftá í burtu á því svæði sem horft er yfir á myndinni, er ekki minnst einu orði á fimm fallega fossa, sem eru í ánni fyrir ofan Skaftárdal.

Þeir eru einfaldlega ekki til samkvæmt skýrslunni.

Og í áratug var ekki við það komandi að fjölmiðlar minntust á stórfossana þrjá, sem Norðlingaölduveit myndi þurrka upp.

Neðstur þeirra er Gljúfurleitarfoss sem er á myndinni hér við hliðina.  

Í skoðanakönnuninni 2011 um miðhálendið og skoðanakönnun 2002 um Kárahnjúkavirkjun kom sú merkilega staðreynd fram að stærsti flokkspólitíski hópurinn hvað höfðatölu snerti, sem var andvígur virkjanaáformum, voru þeir sem sögðust ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn! 

Hins vegar skilar þetta sér engan veginn á landsfundi flokksins, enda eru þar aðeins innan við 2 prósent af þeim sem kjósa flokkinn, 98 prósent eru fjarverandi þann fund sem "flokkseigendafélagið" fræga hefur löngum stjórnað eins og leikbrúðum í þeim málum, sem hún telur sér henta að hafa töglin og hagldirnar. 

Það er engin tilviljun að þessi valdaöfl hatist við beint lýðræði og bætt lýðræði og stjórnarhætti í nýrri stjórnarskrá. 

 


mbl.is Yfir 60% styðja þjóðgarð á miðhálendinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tæknin og sjálfvirknin stundum of mikil?

Í flugslysasögu síðustu áratuga má finna fjölmörg atvik þar sem hin gríðarlega tölvustýrða sjálfvirkni átti þátt í slysum. Stundum má segja, að því flóknari og fullkomnari sem sjálfvirknin er, því erfiðara getur verið að greiða úr vandamálum, sem tengjast henni og koma upp.

Til eru dæmi um að flugmennirnir sjálfir fylgdust ekki nóg vel með hvað sjálfstýringin var að gera og upplýsa þá um hvað væri í gangi, þannig að þeir urðu ruglaðir og ringuleið örvæntingar skapaðist í stjórnklefanum.

Einn Íslendingur hefur farist í slíku flugslysi með AF 447 á Suður-Atlantshafi fyrir nokkrum árum.

Dæmi eru um að flugmennirnir héldu ranglega að sjálfstýringin stjórnaði vélarinni þegar svo var ekki, til dæmis þegar stór farþegaþota flaug niður í Everglades-fenin í Flórída vegna þess að flugmennirnir tóku ekki eftir því í hvað stefndi.

Í nýjustu þotunum er sjálfvirknin orðin svo flókin og upplýsingagjöfin svo yfirgengileg að það eitt getur valdið vandræðum og krafist ítrustu færni og hugarró afburða flugmanna.

Dæmi um það er þegar smávægilegur galli í einum af hreyflum Airbus 380, ein gölluð leiðsla, olli sprengingu sem skaddaði væng hennar.

Airbus 380 er stærsta farþegaþota heims og upplýsingaflóðið og aðvörunarljós og -hljóðin voru svo flókin og mörg, að það eitt hefði getað valdið því að flugstjórarnir hefðu orðið ringlaðir og gert afdrifarík mistök í örvæntingu. 

Þegar tölvustýrð sjálfvirkni er talin vera þáttur í slysi er það oft svo, að flugmennirnir gerðu mistökin sem úrslitum réði.  

Þessi atvik eru ekki bundin við vélar eins framleiðanda farþegaflugvéla umfram aðra eins og sjá má fullyrt um hér á blogginu, heldur er tölvustýrð sjálfvirkni og upplýsingagjöf öryggisatriði sem enginn flugvélaframleiðandi kemst hjá að bjóða upp á.

Öryggisatrðið sem getur valdið slysum? Já, öryggisatriði. Slysatölur síðustu áratuga sýna sívaxandi öryggi og feiknarlega fækkun slysa, þannig að það er hættulegra að fara út í daglega umferð á jörðu niðri en að fljúga með farþegaflugvélum. 


mbl.is Bent á svipað atvik hjá Lufthansa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tíðindi ef læknar yrðu ósammála alþjóða heilbrigðismálastofnuninni.

Þótt ég hafi alla tíð verið bindindismaður á hin leyfilegu fíkniefni áfengi og tóbak þótti mér bjórbannið fræga ekki ganga upp í framkvæmd og vera orðið óframkvæmanlegt í ljósi sívaxandi alþjóðlega samskipta.

Öðru máli gegnir um það hvar leyfilegt er að selja áfengi því að það er misjafnt eftir löndum, hvaða reglur gilda um það.

Lengi vel var streist gegn öllum takmörkunum á reykingum og maður horfði upp á vini sína drepna af óbeinum reykingum svo að maður orði nú bara það fyrirbæri hreint út.

Andóf tóbaksframleiðenda áratugum saman var ljót saga, en í baráttunni gegn tóbakinu hefur loks náðst árangur með því að setja skorður við reykingum.

Það er viðurkenndi staðreynd, byggð á fjölmörgum rannsóknum, meðal annars á vegum alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar og reynslu allra þeirra, sem standa að aðstoð við áfengissjúklinga, að því aðgengilegra sem áfengi og önnur fíkniefni eru, því meiri er neyslan og þar fleiri eiga á hættu að verða háður henni  og þeim mun meira mun hver þeirra neyta.

Engan þarf því að undra þótt íslenskir læknar andæfi enn einu áhlaupinu til þess að koma áfenginu inn í matvöruverslanirnar.

Jafnvel þótt flytjendur frumvarpsins um þetta tækist að finna rök fyrir þeirri ótrúlegu fullyrðingu sinni, að það sé hagkvæmara fjárhagslega að Bónus og allar hinar verslanirnar láti hillur sínar svigna á bestu stöðunum innanbúðar af víninu í stað þess að halda því áfram innan vínbúða ríkisins, örlar ekki á því að leggja kostnaðarmat á það, hvað útgjöld heilbrigðiskerfisins og þjóðfélagsins alls vegna vaxandi áfengisböls myndi kosta.

Það er í rauninni stórmerkileg þessi áratuga langa þráhyggja varðandi fyrirgreiðsluna við áfengið, sem virðist engan enda ætla að taka.    


mbl.is „Okkur varð öllum illa við“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. mars 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband