Hliðstæða Íslamska ríkisins.

Ódæði og illmennska Íslamska ríkisins vekja ótta og undrun hjá heimsbyggðinni sakir hryllings og algerrar eyðingarfýsnar sem birtist í gerðum þessara manna.

Komið hefur fram að fólk frá Norðulöndunum í þessum liðssveitum sé ekki barnanna best.

Það á ekki að koma á óvart þegar menn leiða hugann að framferði norræna fylgjenda nasista í Seinni heimsstyrjöldinni.

Enda þótt þýskum hermönnum væri gefið skotleyfi að vild að hvern sem var í Rússlandi í hernaði nasista þar á þeim forsendum að Sovétmenn hefðu ekki gerst aðilar að Genfarsáttmálanum, sagði mér kona, sem ég hitti í febrúar 2006 í bænum Demyansks í Valdaihæðum á milli Moskvu og Sankti Pétursborgar og upplifði hernám Þjóðverja þar veturinn 1941-42, að þýsku hermennirnir hefðu hvorki hagað sér betur né verr en búast mátti við á meðan á hernáminu stóð, heldur hefði almenningi stafað miklu meiri hætta af Finnunum, sem börðust við hlið Þjóðverja og hefðu valdið ógn og skelfingu fyrir villimennsku sína og miskunnarleysi.   

Það virðist engu skipta þótt menningarlegar og tæknilegar framfarir og bylting upplýsingaraldar fari um heiminn, - sífellt skjóta upp kollinum skelfilegar hreyfingar hrotta og mannleysa, sem drepa milljónir eins og Rauðu Kmerarnir gerðu á sínum tíma og trylltir Íslamistar stefna greinilega að að gera auk hrottalegrar eyðileggingar á dýrgripum og fornminjum.   


mbl.is Ódæða Rauðra khmera minnst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afgerandi munur á lipurð.

Nútíma bílar hafa þann stóra kost fram yfir hvers kyns hjól, reiðhjól eða vélhjól, að hægt er að víkja þeim örsnöggt til hliðar án þess að þeir velti, en maður á hjóli ræður ekki yfir nema broti af þeim  möguleika, einfaldlega vegna þess að hann getur ekki tekið skarpa beygju nema halla sér fyrst til þeirrar hliðar sem hann ætlar að beygja. 

Þetta virðist oft gleymast, ekki aðeins hjá bílstjórum, heldur líka hjá þeim sem hanna og gera vegi og viðhalda þeim. 

Dekk hjóla eru yfirleitt mjög þunn og þola ekki hvassar brúnir. 

Þótt hjóla- og göngustígar hafi tekið framförum í Reykjavík blandast hjólreiðar á reiðhjólum víða saman við aðra umferð og vélhjólin eru í almennri gatnaumferð. 

Þegar skyndilega birtist djúp og hvöss hola framundan við vegarbrún og ökumaður neyðist til að sveigja snögglega til hliðar og veldur þá árekstrarhættu við önnur farartæki. 

Og hjólreiðamaður sem neyðist til að sveigja skyndilega framhjá holu getur sett sig í bráða hættu. 

Ástand gatnakerfisins verður með engu móti afsakað með óvenju miklum umhleypingum og misjöfnu veðri í vetur því að slíkt veðurlag er einfaldlega íslenskt og hefur komið´undanfarna vetur.

Ástæðan er margra ára vanræksla sem er að skila sér í óviðundani ástandi gatna og vega.

Til þess að spara til skamms tíma er notuð miklu lakara efni í göturnar en í nágrannalöndunum og það hefnir sín auðvitað.  


mbl.is Stórhættulegt fyrir hjólreiðafólk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Göturnar og slysið við Hólsselskíl, þveröfugt við ameríska ástandið.

Skaðabótaréttur virðist vera vandmeðfarið svið í lögfræði. Fyrir rúmum 30 árum dundi yfir Bandaríkin hrina skaðabótamála, þar sem moldríkir Bandaríkjamenn fengu færustu lögfræðinga til þess að teygja atriði í bandarískum skaðabótarétti upp í slíkar himinvíddir skaðabótaatriða og fjárhæða þegar milljarðamæringar áttu í hlut, að heil framleiðslugrein, framleiðsla lítilla flugvéla, hrundi. 

Ef fólk hélt til dæmis garðpartíu eða teiti, þar sem gestir gátu gengið út á sundlaugarbarm og hrasað, var vissara að útbúa skriflega yfirlýsingu, sem hver gestur undirritaði áður en hann kom í teitið þess efnis að hann gerði sér grein fyrir aðstæðum og hagaði sér í hvívetna algerlega á eigin ábyrgð. 

Á Íslandi virðist þveröfugt vera uppi á teningnum. Gott dæmi um það var stórslys þegar rúta lenti á brúarstólpa á Hólsselskíl á Hólsfjöllum seint á níunda áratugnum með þeim afleiðingum að rútan valt ofan í ána og fjöldi ferðamanna slasaðist. 

Bílstjórinn var einn dæmdur fyrir þetta atvik fyrir það að hafa ekið að brúnni of hratt, miðað við breidd brúarinnar. 

Samt var það svo, að hvítri merkingu á úthallandi brúarstólpunum hafði ekki verið haldið við, heldur hafði aur og veðrun máð innri helming hennar af, þannig að tilsýndar sýndust stólpar lóðréttir en ekki hallandi út, og brúin sýndist um 70 sentimetrum breiðari en hún raunverulega var. 

Vegagerðin slapp alveg í þessu tilfelli og þannig virðist það ævinlega vera varðandi vega- og gatnamannvirki hér á landi eins og ótal dæmi úr Reykjavík í vetur bera vitni um. 

Ekkert tillit er tekið til þeirrar þróunar hjólbarða á bílum, að þeir verða æ breiðari og lægri, svo að aðeins fáir sentimetrar eru frá götu upp í felgu, þróun sem bílkaupendur frá engu ráðið um, enda gert ráð fyrir að nær allur akstur bílanna sé á pottþéttum vegum og götum sem ökumenn geti treyst.  


mbl.is Lenda í holum en fá engar bætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andstæða við Jackson og Madonnu. 200 faldur árangur.

Á níunda áratugnum og fram eftir þeim tíunda gnæfðu tvö nöfn yfir önnur í poppheiminum, Michael Jackson og Madonna, - hann stundum kallaður "konungur poppsins"."

Um þau öðrum fremur mátti nota ensku sletturnar "pródúseruð" og "hæpuð upp," bæði um allt umfang, prjál og tækni tónleikanna og alls annars, sem þau þurftu að taka þátt í til þess að halda veldi sínu, auglýsingamennskuna í kringum þau og hina stýrðu uppskrúfuðu aðdáun milljónanna, sem lifðu og hrærðust í áðdáuninni á þessum mjög svo dáðu listamönnum.

En um þau gilti að það að það sem fer upp, hlýtur um síðir að koma niður og að öll yfirbyggingin yfir veldi þeirra kallaði á algera andstæðu.

Þess vegna kom að því, að ekki var hægt að komast lengra í umfanginu og að það var að myndast ákall eða tómarúm sem kallaði á einhverja alveg nýja rödd, alveg nýja, einfalda og frumlega list.

Og inn í þetta tómarúm steig Björk til að svara þessari þörf á hárréttum tíma.

Auðvitað er hefur orðið vaxandi umstang í kringum tónleika hennar og listsköpun eftir því sem frægð hennar hefur vaxið, en tilfinningin, sem fylgdi Jackson og Madonnu, að þau væru að miklu leyti tilbúin en ekki ekta, er enn víðsfjarri Björk.

Hún þorir að vera hún sjálf, hafa sínar skoðanir og setja þær fram, og það er hennar stærsti kostur, nokkuð sem er næsta fágætt á vorum tímum.

Björk, eins og Kári Stefánsson, eru stundum eins og of stór fyrir okkar litla og oft þröngsýna og smásálarlega samfélag.

Bæði hafa komist á lista 100 áhrifamestu, hún á almennan mælikvarða og hann á mælikvarða læknavísindanna.

Hjá þjóð sem er aðeins tuttugu þúsundasti hluti mannkyns, er það bara býsna mikið að eiga Íslendinga á tveimur listum yfir 100 áhrifamestu einstaklinga heimsins.

Við getum verið stolt af því, vegna þess að þetta er 200 sinnum meiri árangur en búast hefði mátt við, miðað við höfðatölu okkar.     

 

 

 

 


mbl.is Björk meðal 100 áhrifamestu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. apríl 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband