Sundruð þjóð?

Allt frá lokum Seinni heimsstyrjaldar hafa blossað upp í átök í Grikklandi. Í kjölfar stríðsins hófst borgarastyrjöld þegar kommúnistar reyndu að ná þar völdum líkt og gerðist norðar í austurhluta Evrópu. 

En Stalín og Churchill höfðu samið um það að Grikkland lenti á áhrifasvæði Breta, Búlgaría, Ungverjaland, Tékkóslóvakía, Austur-Þýskaland og Pólland á áhrifasvæði Sovétmanna, en Júgóslavía og Austurríki yrðu á mörkunum og hlutlaus.

Stalín stóð við sitt og kommúnistar töpuðu í Grikklandi.

Klofningur var þó áfram og herforingjar tóku síðar einræðisvöld á árunum 1967-74.

Lýðræðisöflum tókst að varpa herforingjum af sér og síðan gekk Grikkland í ESB árið 1981.

Nú verður athyglisvert að sjá hvað gerist í ólgusjó viðburða þessara daga.

Þjóðin virðist klofin. Að minnsta kosti sýnast flokkadrættir í uppsiglingu. Það er ekki nýtt í þessu landi, þar sem er vagga lýðræðisins.  

Samt liggur fyrir að svipað óréttlæti er í gangi varðandi rukkun á skuldum og hefur verið í gangi um allan heim. Í stað þess að lánardrottnar taki áhættuna af lánum til jafns við skuldara er allt regluverk fjármálakerfis heimsins á þá lund að það verði að skuldararnir einir verði að taka á sig tjónið, sem forsendubrestur eða önnur atvik geta valdið þegar greiðslugeta bregst.

Víst fóru Grikkir ógætilega í fjármálum sínum þegar hið alþjóðlega fjármálakerfi blés upp falska dýrðarmynd af gulli og grænum skógum lánveitinga langt umfram greiðslugetu skuldaranna.

En fjármálastofnanirnar áttu sjálfar mestan þátt í bólunni, annars hefði hún aldrei orðið svona stór og þeir aldrei veitt þessi stóru lán.

Þess vegna verða báðir aðilar málsins að viðurkenna sameiginlega ábyrgð og leysa málið í samræmi við það.  


mbl.is Skuldahlutfallið 118% árið 2030
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætlar þetta aldrei að lagast?

Fyrir 36 árum fórum við Guðmundur Jónasson um nokkrar leiðir á sunnlenska hálendinu til að fjalla um umgengni fólks þar. Hún var í einu orði sagt svakaleg. Spólför um viðkvæman mosagróður þar sem getur tekið hátt í öld að sporin afmáist. 

Þau urðu til fyrir allt að 70 árum og sjást enn. 

Draslið, sem fólk henti frá sér, var yfirgengilegt. 

Sjónvarpið endursýndi þáttinn tvisvar, enda full ástæða til að fjalla um málið og nýta upplýsingarmiðil til að ástandið héldi ekki áframm að versna. 

Nú heyri ég fréttir af því að ólöglegur akstur utan vega sé að færast í vöxt og að ekki sé hægt að kenna útlendingum um það allt, þótt einhverjir þeirra séu sekir um þetta, heldur er það svo í mörgum tilfellum að þeir hafa séð landið auglýst sem himnaríki fyrir utanvegaakstur. 

Það er til lítils að afsaka þetta með því að um unglingaglöp sé að ræða. 

Svonefnd unglingavandamál eru nefnilega oftast í raun foreldravandamál, það að foreldrarnir hafa vanrækt uppeldið. 

Ætlar þetta aldrei að lagast heldur jafnvel versna? 

 


mbl.is „Sjaldan séð jafnmikinn viðbjóð“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

25 risaálver?

Á undanförnum vikum hefur mátt sjá í blöðum lofgreinar um stóriðjustefnuna, þar sem tíunduð hafa verið þau beinu störf og tengdu störf, sem hefur verið hægt að skrifa samtals á áliðnaðinn.  Var gumað mikið af á hátt í tvö þúsund störf í álverunum sjálfum og öðru eins í tengdum störfum. 

En þrátt fyrir þessar tölur er aðeins um að ræða um 1% af vinnuafli þjóðarinnar hvað varðar beintu störfin og um 2% ef miðað er við samtals bein störf og tengd störf. 

Ekki hafa sést slíkar dýrðaróðsgreinar varðandi ferðaþjónustuna, sem ekki einasta skapar margfalt fleiri störf, heldur er hægt að skrifa nær alla fjölgun vinnandi fólks síðustu árin á hana og uppganginn í henni. 

Það er verið að tala um allt að tíu þúsund ný störf, en það er álíka margt fólk og fengi vinnu í 25 risaálverum eða álíka margt fólk og fengi vinnu samanlagt í tengslum við álverin, ef bætt yrði við tengdum störfum, sem ævinlega er viðkvæðið þegar talað er um álverin en yfirleitt ekki nefnt varðandi aðrar atvinnugreinar.

Slík tvöföldun er hæpin því að þetta fyrirbæri á við allar atvinnugreinar og ef þær krefðust allar svona útreiknings myndu þær samanlegt skapa næstum hálfa milljón starfa hjá 330 þúsund manna þjóð!  


mbl.is Flestir í ferðaþjónustu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær ætla menn að hætta þessu?

Um miðja síðustu öld kom það hvað eftir annað fyrir, að deilur um rjúpuna voru það mál sem tók einna mestan tímann í umræðum á Alþingi. 

Ég held að enginn muni lengur hvers vegna þetta var svona, hvernig var deilt um rjúpuna eða hvernig þetta fór á endanum, nema að það er staðreynd að rjúpan hefur verið veidd á hverju hausti áratugum saman, mismunandi mikið þó. 

Erfitt er að hafa tölu á því hve oft hafa verið borin fram frumvörp um að setja vínsölu í búðirnar og taka hana frá Ríkinu. 

En aldrei breytist neitt í þeim málum, sem betur fer. 

Nú er kvartað yfir því að fá þingmannafrumvörp fáist rædd en mikið væri nú gott ef þetta eilífðar vonlausa frumvarp hætti að flækjast fyrir mönnum á þingi og menn hættu þessu einhvern tíma. 


mbl.is Frumvarp um vín í búðir ekki afgreitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. júní 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband