Snýr dæminu alltaf í hring og trúir á átakastjórnmál.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sér aðeins eina atburðarás framundan; sumarþing og síðar vetrarþing fram að kosningum vorið 2017. 

Hann gefur sér þær forsendur að það sé sama hvaða leið menn ætli að fara, stjórnarandstaðan muni alltaf beita málþófi til þess að eyðileggja málefnin fyrir ríkisstjórninni.

Hann kemur ekki auga á að í stórmálum hefur ósætti innan stjórnarflokkanna komið í veg fyrir framgang mála éins og húsnæðismálanna og afnáms verðtryggingarinnar.    

SDG hefur gert málþóf á Alþingi að meginatriðinu í sinni pólitík. 

Í merkilegri næturræðu þegar hann var í stjórnarandstöðu, sem kalla mætti Rakosi-ræðuna, af því að hann líkti þáverandi ráðamönnum við Rakosi, hinn illskeytta alræðisherra kommúnista í Ungverjalandi, sagði Sigmundur að ef samþykkt yrði ný stjórnarskrá fyrir þinglok 2013, myndi ríkisstjórnin, sem kæmi þar á eftir, láta gera nýja stjórnarskrá og gerólíka, og að þannig myndi þetta ganga sitt á hvað í framtíðinni kjörtímabil eftir kjörtímabil. 

Hótunin var skýr og stillt upp tveimur kostum: Enga nýja stjórnarskrá eða stjórnleysi og ringulreið. 

Núna gefur hann sér það að ef kosningadagur verði fyrirfram ákveðinn í október-nóvember í haust, muni stjórnarandstaðan, þvert ofan í það sem forseti Alþingis hefur lýst, fara í málþóf til að eyðileggja öll mál stjórnarinnar fyrir haustkosningarnar. 

SDG gefur ekkert fyrir þau orð forseta Alþingis að samstarf stjórnar og stjórnarandstöðu um afgreiðslu mál á síðsumarþinginu hafi gengið vel og lofi góðu. 

Sigmundir trúir nú, eins og fyrir þremur árum, staðfastlega á málþóf sem lykilatriði í íslenskum stjórnmálum og út á það ætlar hann að gera allt sem í hans valdi stendur til þess að tryggja pólitíska skálmöld fram á næsta vor.

Hann virðist ætla að koma inn í stjórnmálin eins og fíll í glervörubúð.

Nú reynir á innviði Framsóknarflokksins á aldar afmæli sínu að afstýra þeim vandræðum, sem endurkoman svonefnda virðist ætla að hafa í för með sér.  


mbl.is „Ætlar að snúa atburðarásinni við“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Kæra þjófagengi, deilið þið inn öllum íslenskum búvörum sem þið mögulega getið"?

Nú er svo komið að dreifingaraðili, nokkurs konar hugverkamafíósi, hvetur fólk feimnislaust til "að dreifa inn öllu íslensku efni sem þið mögulega getið." 

"Efnið" er fólgið í verðmætum, sem listamenn hafa framleitt með ærnum kostnaði, með vinnu við að semja tal og tónlist, útsetja það og taka flutninginn á því upp á mynd og hljóðspor, kaupa til þess stúdíótíma og upptökufólk, hanna og láta framleiða umbúðir með myndum, sem ljósmyndarar hafa eytt fjármuna og tíma í að taka, oftast með ferðakostnaði og kaupum á myndavélum og tölvum. 

"Efnið" er neysluvara, menningarneysluvara, verðmæti í krónum talið, rétt eins og búvörur eru neysluvara og verðmæti í verslunum.

Þetta er viðurkennt í löggjöf um höfundarrétt og kostaði Jón Leifs og fleiri menn mikla baráttu fyrir 60 árum að fá viðurkennt hér á landi.

En á örfáum árum hefur það viðgengist að sé um hugverk að ræða sé ekki aðeins farið um þau ræningjahöndum, heldur beinlínis hvatt til þess opinberlega. Og komist upp með það.

Að "deila inn" þýðir að sá sem hefur efnið undir höndum, er hvattur til þess að láta siðblindan dreifingaraðila hafa það svo að hann geti gert sem flestum höfundarréttarþjófum kleyft að hjálpa sér við að margfalda illa fengin verðmæti. 

Þetta er ígildi búðaþjófnaðar þar sem mafíósinn gengst upp í því að hafa sem flesta þjófa á sínum snærum í menningarlegu þjófagengi.

Og til að kóróna þetta athæfi er það einkum íslenskt efni, sem er skotmark, eins og vitnað er í hér áðan, og herhvötin í lokin er beinskeytt, - orðrétt: "...allt sem þið finnið, endilega setjið það inn á síðuna. Sýnið að við erum öll Pirates Yarr!!" 

Eftir sitja listamenn með milljóna króna tap af því að hafa verið svo barnalegir að halda, að þeir gætu framleitt kvikmyndir og hljómdiska til þess að þjóna menningu og eftirspurn landsmanna og haft til þess fjárhagslegt bolmagn að sinna köllun sinni, en síðan setið uppi með óselda vöru, af því að í gangi er herferð til "kæru notenda", sem eru beðnir um þetta: "...að deila inn öllu íslensku efni sem þið getið."  


mbl.is Hvattir til að deila íslensku efni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki brugðist við hækkun og stækkun.

Í frétt um hækkkun meðalhæðar fólks víða um lönd er ekki fjallað um þyngingu og stækkun fólks á þverveginn, enda skortir gögn í sentimetrum þótt vitað sé um þyngdaraukninguna. 

Þegar meðaljóninn og meðalgunnan stækka er það sjaldnast tekið með í reikninginn við hönnun hluta. 

Þannig voru þarþegaþotur okkar tíma og flugvélar flestar hannaðar fyrir 65 árum og það veldur æ fleiri farþegum óþægindum. Flugvélaframleiðendur eru tregir til að breikka flugvélaskrokkanna, því að bæði kostar það mikið fé og eykur þyngd, fyrirferð og loftmótstöðu vélanna sem aftur kostar aukna eldsneytiseyðslu. 

Þegar litlar flugvélar voru hannaðar var reiknað með að meðalþyngd farþega væri 75 kíló. Þetta er löngu orðið úrelt, en fyrir bragðið eru fjögurra sæta flugvélar flestar í raun aðeins þriggja sæta og stundum varla það. 

Mörkin á knattspyrnuvöllunum voru hönnuð með stærð og getu leikmana á 19. öld í huga. 

Með stækkun leikmanna og auknum krafti og snerpu hefur skoruðum mörkumm fækkað og það hefur gert úrslitin dauflegri og oft tilviljunarkenndari. 

Fyrir löngu er tímabært að stækka mörkin til samræmis við stækkun og eflingu leikmanna. 

En það myndi aftur á móti skemma fyrir samanburði á markaskorun fyrr og nú.

Það er helst að bifreiðaframleiðendur hafi brugðist við stækkun mannfólksins og meðalbíllinn nú er um 20 sentimetrum breiðari, 10 sentimetrum hærri og 30-50 sentimetrum lengri en fyrir nokkrum áratugum.

Það veldur því aftur á móti að bílastæðin eru höfð of mjó víðast hvar og það svo mjög sums staðar, að brýnt er að endurskoða það.  


mbl.is Íslenskir karlar þeir 9. hæstu í heimi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skjóta fyrst og spyrja svo; Hvesta, Helguvík, Nubo, Sólvellir o.s.frv.

Með reglulegu millibili koma upp stórmál, þar sem farið er af stað með miklum látum án þess að athuga neitt eðli málsins og afleiðingar. 

Fyrir átta árum kom allt í einu upp sú staða að sögn bæjarstjóra Vesturbyggðatr að það yrði 99% öruggt að  rússnesk risa olíuhreinsistöð með 500 manns í vinnu risi í Hvestudal við Arnarfjörð. 

Í ljós kom að það var rússneskt skúffufyrirtæki í Skotlandi með nokkur sterlingspund í ár í árlegri veltu, sem myndi gera þetta og "bjarga Vestfjörðum".

Engin olíuhreinsistöð hefur risið á Vesturlöndum í aldarfjórðung af því að enginn vill hafa svona mengunarskrímsli hjá sér. 

En hér var hlaupið upp til handa og fóta. 

Enn er í minni þegar nánast var búið að ganga frá því að Kínverjinn Huang Nubo keypti Grímsstaði á Fjöllum og reisti þar risahótel með golfvelli og öllu tilheyrandi.

Fyrirtækið sem ætlar að reisa risa sjúkrahús við Sólvelli í Mosfellsbæ er líka með stórfelldar áætlanir um fjárfestingar í íslenskum auðlindum og fleira. 

Allt á þetta sameiginlegt í því að ekkert er spurt um áhrifin af þessu né eðli mála. Nei, það á að skjóta fyrst og spyrja svo, í nýjasta tilfellinu eftir að tugmilljarða króna sjúkrahús er risið.

Engum dettur í hug að það gæti verið gagnlegt að kanna reynslu af svipuðu erlendis, ef hún er þá til. 

2007 var tekin fyrsta skóflustungan að risaálveri í Helguvík án þess að hafa gengið frá raforkusamningum, lagningu raflína og gerð vega og virkjanamannvirkja í alls tólf sveitarfélögum. 

Enn er í fullu gildi einróma viljayfirlýsing núverandi ríkisstjórnar frá fyrsta starfsdegi sínum um að þessi ósköp verði að veruleika. 

Mörg fleiri dæmi af svipuðu tagi má nefna um allt land. 

 

 


mbl.is Mótfallin byggingu sjúkrahúss í Mosfellsbæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. júlí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband