12.2.2023 | 20:23
Fróðlegt að bera ný bensínverkföll saman við verkföllin frá og með 1955.
1955 voru ekki nema um tíu þúsund bílar í bílar í bílaflotanum hér á landi, en núna eru þeir tuttugu sinnum fleiri. Verkfall, sem stððvar eldsneytisflutninga nú mun því auglóslega geta haft miklu meiri áhrif en þá.
1955 var háð sex vikna allsherjarverkfall með tilheyrandi flutningabanni til og frá Reykjavík og var aðalleiðum út frá Reykjavík lokað með ðflugri verkfallsvörslu.
Ungur og vörpulegur maður, Guðmundur J. Guðmundsson varð þjóðþekktur sem aðal verkfallsvörður Verkamannafélagsins Dagsbrúnar við Geitháls og mættust þar stálin stinn, en varslan hélt.
Næsta stóra verkamannaverkfallið var 1961 og var síðuhafi þá nýbúinn að fá bílpróf.
Faðir minn var þá vörubílstjóri og minnist ég þess að hafa farið eina ferð upp í Borgarfjörð á bílnum til þess að hamsra bensín.
Rafbílar eru enn það lítill hluti bílaflotans, að bensínverkfall mun líklega hafa miklu meiri áhrif nú en fyrir 60 til 70 árum.
Verkfallið 1955 leystist með aðkomu ríkisvaldsins varðandi lífeyrisréttindi launafólks í viðbót við launahækkun.
1961 var samið um 13 prósenta launahækkun, en strax í kjölfarið felldi Viðreisnarstjórnin gengi krónunnar um 13 prósent!
1963 undir lok valdatíðar Ólafs Thors munaði hársbreidd að Alþíngi samþykkti lög á stórt verkfall, en 1964 hafði Bjarni Benediktsson komist í persónulegt vinfengi við Eðvarð Sigurðsson formann Dagsbrúnar og úr varð svokallað Júnísamkomulag um lausn launamála með félagslegum umbótum.
Aftur var gert svipað samkomulag 1965 og voru þessi málalok upphafið að uppbyggingu í húsnæðismálum í Breiholtinu.
![]() |
Íslenskt samfélag mun lamast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.2.2023 | 09:21
Finnst þeim hundraðfaldur vöxtur virkilega ekki nóg?
Áður hefur verið rakið hér á síðunnni að síðan 1914 hefur sjókvíaeldið fimmfaldast hér á landi, en að samt hafi verið gefnar út yfirlýsingar um að tífalda þann hraða, þannig að 2034 verði framleidd meira en 400 þúsund tonn í stað 4 þúund 2014.
Þegar svört skýrsla um þetta hefur nú verið birt hefði mátt halda að hinir nýju laxasægreifar myndu kannski eitthvað slá af kröfum sínum um trylltan veldisvöxt, sem er svo yfirgengilegur að almenningur verður hálf daufur við að heyra þessar fáránlegu tölur.
Nei, birtist þá ekki talsmaður þeirra í útvarpsfréttum og kvartar sáran yfir því að vöxturinn sé alltof hægur og að það þurfi að slá í klárinn!
![]() |
Hugnast ekki ógnin af sjókvíaeldi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.2.2023 | 18:59
Eini staðurinn þar sem flekaskil liggja frá hafi á land.
Þótt uppplýst sé að skjálftar séu algengir undan Reykjanestá án þess að þeir séu undanfari eldgoss er líklega best að bera ákveðna virðingu fyrir öllum umbrotum, sem verða á þessu svæði.
Jarðeldarnir í Fagranesfjalli komu eftir um áttahundruð ára langt eldgosahlé, þar sem oft höfðu komið skjálftahrinur án þess kvika kæmist upp á yfirborðið.
Þó virtist sem gos yrði á hafsbotni undan Reykjanesi á svipuðum tíma og Skaftáreldar hófust 1783 án þess að það væri nóg til að mynda eyju í það skiptið.
Undir Íslandi og Hawaieyjum eru tveir stærstu möttulstrókar heims, og á Reykjanesi, sem er ysti hluti Reykjanesskagans liggja flekaskilin milli Ameríkuflekans og Evrasíuflekans frá suðvestri til norðvesturs á þann hátt, að sagt hefur verið að flekaskilin "gangi á land" á þessu svæði, og sé hvergi að lita hliðstæðu þess í veröldinni.
Miðað við atburði síðustu missera á Reykjanesskaga er því ástæða til að bera virðingu fyrir gildi þessa eldvirka svæðis bæði á skaganum sjálfum og í hafinu yst við hann.
![]() |
Jörð skelfur yst á Reykjanesskaga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.2.2023 | 08:18
21. öldin: Stórfjölgun aldraðra, vaxandi heilbrigðiskerfi.
Því fyrr sem stjórnmálamenn skilja ofangreindan nýjan veruleika, því betra. Því að þeir sjálfir, ráðamennirnir eiga eftir að eldast þegar þar að kemur.
Innifaldar í þessu eru framfarir í lyfjaframleiðslu og aðgerðum, sem kosta útgjöld.
Í tengslum við það mætti vel fara að huga að því að auka val aldraðra á sveigjanlegum starfslokum til að nýta starfslöngun þeirra og starfsgetu.
![]() |
Þurfa að gera 200 aðgerðir í ár |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.2.2023 | 21:50
Vaxandi taugatitringur yfir dularfullum fyrirbærum í lofthelgi.
Á stríðstímum þegar vaxandi þensla ríkir á milli þjóða, vex tortryggni og ótti við hið óþekkta oft á þann hátt, að "óttinn einn verður að atriði sem verður að óttast sérstaklega" eins og Roosevelt Bandaríkjaforseti mun hafa orðað það ef rétt er munað.
Kínverskir loftbelgir og nú minni en torkennilegur hlutur yfir Alaska eru dæmi um þetta.
Þekktasta dæmið er frá þeim tíma sem Kalda stríðið hámarki í byrjun valdatíma Ronalds Reagans og vaktmaður í ratsjármiðstöð Rússa sá nokkur flugskeyti yfir Kyrrahafi, sem stefndu á Rússland.
Hann óttaðist að þetta sýndi kjarnorkueldflaugar í árás á Sovétríkin en fannst þetta samt sérkennilegt og gæti allt eins stafað af bilun í ratsjárkerfinu.
Hann hallaðist frekar að hinu síðarnefnda og óttaðist, að ef hann léti aðeins yfirmenn sína vita, yrði stórhætta á því að þeir myndu senda á loft kjarnorkueldflaugar til þess að tapa ekki frumkvæðinu í hugsanlegu kjarnorkustríði.
Til allrar hamingju tók hann síðari kostinn og í ljós kom, að um bilun í aðvörunarkerfinu var að ræða.
Nú ríkir stríð í Úkraínu sem hefur ekki enn stigmagnast til fulls, en gæti gert það; og það sem verra er; það gæti orðið tiltölulega lítið atriði, sem gæti hleypt öllu í enn meira bál og brand en þegar logar þarna eystra.
Er full ástæða til að hlusta á talsmann Sameinuðu þjóðanna þegar hann varar við því, hve tæpt ástandið er og aldrei hafi það verið tæpara en nú eftir að Seinni heimsstyrjöldinni lauk.
![]() |
Óþekktur hlutur skotinn niður yfir Alaska |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.2.2023 | 14:02
Er flug með loftbelg toppurinn?
Alllöngu fyrir flug Wrightbræðra í loftfari, sem var þyngra en loft 1903 höfðu menn flogið í loftbelgjum, sem gátu lyft sér frá jörðu í krafti þess að þeir voru léttari en loftið, sem þeir flugu í.
Þegar komið var fram á 20. öldina þróuðu Þjóðverjar nógu stóra loftbelgi til þess að þeir gætu borið sprengiefni og gert loftárásir.
Lofttegundir á borð við helíum, sem eru léttari en andrúmsloftið, gátu lyft risastórum loftbelgjum, sem voru svo stórir, að hægt var að varpa sprengjum úr þeim, og í lok Fyrri heimsstyrjaldarinnar voru gerðar fyrstu nútíma loftárásirnar bæði úr Zeppelin belgjum og Gotha sprengjuflugvélum, sem vörpuðu sprengjum yfir suðausturhluta Englands.
Á milli heimsstyrjaldanna þróuðust bæði flugvélar og loftbelgir hratt, og 1937 var svo komið að hægt var að fljúga reglubundið yfir Atlantshafið á Zeppelin, og flaug eitt slíkt risa loftfar yfir Reykjavík á leið yfir hafið.
En öld loftskipanna lauk sviplega 1937 þegar loftskipið Hindenburg fórst í eldi við Lakehurst í Bandaríkjunumm.
Síðan þá hefur þróun loftbelgja greinst í tvennt; annars vegar belgir sem haldast á lofti fyrir lyftikraft léttra lofttegunda inni í þeim, en hins vegar belgir, sem eru opnir að neðan og með hangandi farþegakörfu.
Belgurinn fær lyftikraftinn frá gasknúnum hitara, sem blæs léttu, heitu lofti upp í belginn í gegnum opið neðan á honum, en í stað lárétts skrúfukrafts, sem knýr belgi á borð við Zeppelin, er belgurinn látinn berast með vindinum.
Og þar erum við komin að aðalmuninum á svona loftfari og öðrum svipuðum, getunni til að svífa gersamlega hljóðlaust ef slökkt er á gasknúnu loftdælunni.
Síðuhafi hefur prófað flesta tegundir flugs, en tvær flugferðir bera af hvað snertir þá einstæðu upplifun að geta staðið eða setið í farþegakörfunni og líða algerlega hljóðlaust í flugferð, því að vegna þess að belgurinn berst með vindinum, er alltaf logn í körfunni.
Í svifflugu í afllausu svifi heyrist alltaf gnauð vegna hraða flugunnar gegnum loftið, og enda þótt hljóðlítið sé þegar hangið er í opinni fallhlíf, er kyrrðin ekki eins alger og þegar staðið er í körfu loftbelgs sem helst á lofti fyrir krafti innilokaðs heits lofts.
1986 var svifið afllaust á þennan hátt meðfram Bústaðavegi alla leið austur í Blesugróf og hægt að spjalla við fólk, sem var í sólbaði á svölum húsanna. Heit hafgola inn Fossvogsdalinn sá um að bera lofbelginn svona langa leið og hjálpa til að halda honum á lofti.
![]() |
Eiga fátt sameiginlegt með kínverska loftbelgnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.2.2023 | 19:17
Minnir á orðræðuna þegar Sigmundur fór ekki til Parísar.
Yfirbragðið á umræðunni í Alþingi, sem greint er frá í viðtengdri frétt á mbl.is, um viðveru eða öllu heldur fjarveru ríkisstjórnarinnar, minnir dálítið á það, þegar þjóðarleiðtogar heims flykktust til Parísar fyrir átta árum til þess að sýna Frökkum samhug eftir mikil hryðjuverk í París í höfuðstöðvum blaðsins Charlie Hebdu.
Íslendingum stóð til boða að senda okkar mann, en þáverandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sá sér ekki fært að fara og bar við tímaskorti, enda ómissandi og önnum kafinn hér heima.
Þá varð þessi vísa til:
Forystu Íslands féllust hendur;
til Frakklandi var því enginn sendur.
Héðan fór enginn yfir hafið,
því enginn er betri´en Sigmundur Davíð.
![]() |
Talaði um málþóf og uppskar hlátur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.2.2023 | 13:59
Hrikalegt vanmat Þjóðverja 1941-42. Hvað nú?
Þótt Pútín sé að bera saman ólíka heri og stjórnendur með þýskum skriðdrekum núna og árin 1941 til 1942, er eitt sameiginlegt atriði hugsanlega: Vanmat Þjóðverja á stærð og getu rússneska hersins.
Í upptðku, sem varðveist hefur af samtali Hitlers og Mannerheims leiðtoga Finna 1943, lýsir Hitler því, að eftir að Þjóðverjar höfðu fyrstu fimm mánuði sóknar sinnar inn í Sovétríkin talið Rauða herinn gersigraðan eftir að hann hefði misst milljónir manna og stóran hluta vígbúnaðar síns og iðnaðarframleiðslu auk kornakranna í Úkraínu, væri stríðið unnið.
Þá hefði engan órað fyrir því að Rússum hefði tekist það kraftaverk að flytja hergagnaverksmiðjur sínar í heilu lagi meira en þúsund kílómetra austur fyrir Úralfjðll, og því gætu þeir framleitt 3000 flugvélar á ári og alls 84 þúsund T-34 skriðreka, auk þess að kalla til margra milljóna varalið og öflugar og vel búnar hersveitir yfir endilanga Síberíu.
En á grundvelli þessa hefðu Rússar stöðvað innrásarherinn aðeins 19 kílómetra frá Kreml og unnið orrustuna um Moskvu.
Úkraínustríðið hefur að vísu byrjað með hrakförum Rússa eins og stríðið 1941, en spurningin er hvort sterk föðurlandsskírskotun nú, líkt og 1941, muni ráð úrslitum um eflingu rússneska hersins að því marki að herða stríðið og draga það á langinn. Þýsku Leopard skriðdrekarnir eru að vísu góðir, en Pútín reynir að minna landa sína á það, þegar þýskir Panther skriðdrekar fóru síðast fram í landi þeirra 1941.
![]() |
Óskar eftir orrustuþotum frá Evrópuþjóðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.2.2023 | 00:18
Alger sérstaða Íslands í Evrópu hvað varðar millilandaflug.
Á meginlandi Evrópu eru ótal stórir millilandaflugvellir, sem hægt er að velja úr sem varaflugvelli ef þörf er á.
Víða er hægt að hefja flug og velja úr mörgum völlum, sem eru í innan við hálfrar stundar flug í burtu.
Ísland hefur hins vegar algera sérstöðu varðandi það, að frá Keflavík til Glasgow, sem er sá völlur handan hafsins, sem næst er, eru rúmlega 1300 kílómetrar, eða hátt í tveggja stunda flug.
Ef fullhlaðin þota missir afl á öðrum hreyflinum eftir flugtak á Keflavíkurflugvelli, ef verðurskilyrði á vellinum eru það léleg, að ekki er hægt að lenda þótt hægt sé að hefja sig til flugs.
Í slíku tilfelli er hæpið að fara til Akureyrar á einum hreyfli vegna fjöllóts landslags og vandasams aðflugs.
Þá getur komið sér vel að geta lent sem fyrst á Reykjavíkurflugvelli, sem er aðeins í fimm mínútna fjarlægð.
Flugvallafæðin á Íslandi, vegalengdin yfir hafið, skortur á innviðum og flughlaðsrými á Egilsstöðum og fjallaþrengsli á Akureyri þýðir sérstöðu Íslands, sem mörgum virðist um megn að skilja.
![]() |
Flaug alla leið frá Evrópu en sneri við yfir Hveragerði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.2.2023 | 23:13
Kerrur voru lykillinn að Grænlandsjökli 1999.
Í maí 1999 var í fyrsta sinn ekið á jöklabreyttum jeppum þvert yfir Grænlandsjökul og til baka.
Hitta þurfti á ákveðna meðalstærð jeppanna, og fljótlega fannst lausnin, miðað við þau dekk, sem þá voru á boðstólum, 44 tommu dekk á 15 tommu felgum.
Fljótlega fannst út, að jepparnir, sem voru af Toyota Landcruiser gerð, mættu ekki verða of þungir, og að það kom betur út í heildina að þeir drægju hver um sig kerru, sem væri líka á 44 tommu dekkjum.
Að vísu þurfti auka dráttarafl til þess, en á móti kom, að kerrurnar fylgdu sjálkrafa troðinni slóð, en ef þunganum á byrði þeirra hefði verið komið fyrir á jeppunum sjálfum, hefðu dekkin sokkið meira niður á jeppunum sjálfum og akstursgetan því orðið minni.
Þungi rafhlaðna er líkast til tíu sinnum meiri en þungi eldsneytis með sömu orku. Þar að auki hefur eldsneyti þann kost að það léttist niður í næstum ekki neitt við notkun, en rafhlöðurnar eru jafn þungar allan tímann, sem orkan er að fara úr þeim.
Það bíður því mikið púsluspil hönnuða rafknúinna jöklajeppa, sem nálgast getu eldsneytisknúinna jeppa til jöklaferða.
En raforkan og önnur endurnýjanleg orka eiga vafalaust enn eftir þróunarferil, sem smám saman getur opnað fyrir jöklaferðir á rafknúnum jeppum, að minnsta kosti á styttri jöklaleiðum.
Í Grímsvötnum eru bæði jarðvarmi og möguleikar á sólarorkuveri sem hægt er að byggja drauma um rafjeppaferðir þangað á.
![]() |
Sýna Nissan Ariya 39 tommu breyttan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)