19.1.2008 | 01:18
NÝRUN BERA OFURHEILANN OFURLIÐI.
Kannski var Bobby Fisher mesti skáksnillingur sögunnar. Á leiðinni til þess að fá að tefla við Boris Spasskí vann hann bestu skákmenn heims með fáheyrðum yfirburðum, m. a. einn allra snjallasta skákmann Sovétríkjanna, Taimanov, 6-0 og einnig Bent Larsen með sömu yfirburðum. Ógleymanlegt var hvernig engu máli skipti fyrir hann þótt hann gæfi Spasskí forskot í upphafi einvígis þeirra með því að byrja það á 0-2, og koma ekki að skákborðinu í annarri skákinni. Andvörp áhorfenda í Laugardalshöllinni yfir sumum snilldarleikjum hans í einvíginu verða mér ógleymanleg.
Magnús Pálsson, bróðir Sæma, sagði mér í dag að Fisher hefði ekki aðeins verið mikill bókaormur og ótrúlega fróður á mörgum sviðum, heldur hefði hann verið undrafljótur að lesa þykka doðranta og muna efni þeirra.
Minni hans á skákbyrjanir og skákir var næstum ómennsk. En eins og margir snillingar vantaði í ýmsa þætti persónuleikans og til dæmis er ekki hægt að sjá mikla skynsemi í því að afneita nútíma læknavísindum. Það dró hann til dauða um aldur fram.
Bobby Fisher var dásamleg viðbót við þjóð sem hefur átt Reyni Pétur, Jón Pál, Kjarval, Sölva Helgason, Björk, Gísla á Uppsölum, Kvískerjabræður og Einar Ben. Ég held að það hafi verið Íslendingum til sóma að taka að sér og aumka sig yfir þennan óstýriláta, skrýtna og sérvitra snilling og bæta honum í ótrúlega fjölskrúðugt liftróf eyjarskeggana á Klakanum.
Tvívegis í sögu Bandaríkjanna skipuðust mál á þann veg að augu bandarísku þjóðarinnar og vestrænna lýðræðisþjóða hvíldu á einstaklingum sem áttu í höggi við stolt stórvelda með alræðisþjóðskipulagi.
Í fyrra skiptið var það Joe Louis í hnefaleikahringnum andspænis fulltrúa "ubermensch"hins aríska kynþáttar Hitlers og seinna skiptið Bobby Fisher einn og einmana andspænis fulltrúa hinnar stórkostlegu skákmaskínu sem Sovétríkin höfðu byggt upp kerfisbundið áratugum saman.
Í bæði skiptin var það einstaklingurinn sem sigraði með yfirburðum. Þegar Fisher er allur held ég að gott sé fyrir Bandaríkjamenn að meta þetta afrek hans að verðleikum sem dæmi um það hverju einstaklingurinn getur áorkað, - og skipa honum, þrátt fyrir alla sérviskuna og ýmsar ógeðfelldar yfirlýsingar, á þann stall sem honum ber meðal mestu afreksmanna ameríkumanna.
![]() |
Dánarorsök Fischers var nýrnabilun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.1.2008 | 21:55
SUNDAGÖNG VANREIKNUÐ ?
Við mat á kostnaði við framkvæmdir gleymast oft kostnaðarliðir eða hagræði af framkvæmdunum. Þegar Vegagerðin gefur það upp að Sundagöng kosti 9 milljörðum meira en brýr og braut ofanjarðar er ekki tekið með í reikninginn hugsanlegt hagræði af göngum umfram brýr og brautir. Hefur það verið reiknað út hve miklu minna það svæði á yfirborði jarðar fer undir brautina ef göng eru valin en ef brýr og brautir eru valdar?
Gaman væri að sjá slíka útreikninga því að mig grunar að upphæðin 9 milljarðar kunni að lækka verulega við það að horfa á dæmið allt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
17.1.2008 | 20:42
GRÝLA EKKI DAUÐ?
Um hver jól er sungið: "Nú er hún gamla Grýla dauð / gafst hún upp á rólunum." Samt er hún lifandi jól eftir jól. Sama virðist eiga við um Svía-Grýluna sem allir sungu um að væri dauð hér um árið þegar við slógum þá út í frægum leik. Hún er sprelllifandi í kvöld og stóri Leppalúðinn hennar Svía-Grýlu er Svensson, sem er á við restina af liðinu.
Svía-Grýlan hjálpar Leppalúðanum með því að koma Íslendingum í þá stöðu að skjóta þannig að Svensson er mættur á staðinn. Stórkostleg ofurmarkvarðahefð Svía naut sín hjá þeim í kvöld, því miður fyrir Íslendinga.
![]() |
Svíar sigruðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.1.2008 | 20:38
GAMLA GRÝLA EKKI DAUÐ ?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.1.2008 | 14:07
DAVÍÐ ODDSSON SEXTUGUR.
Einn allra merkasti, litríkasti og áhrifamesti stjórnmálamaður í sögu íslenska lýðveldisins er sextugur í dag og honum eru fluttar árnaðaróskir. Í fjölmennu afmælisteiti í ráðhúsinu í dag fór afmælisbarnið hreint á kostum í þau skipti sem það tók til máls og reif upp stemninguna. Svo skemmtilega vill til að þegar ég var að grauta í gömlum blöðum í tilefni af 50 ára afmæli mínu í skemmtikraftabransanum, sem verður í lok þessa árs, fann ég vísur um Davíð á einum af landsfundum Sjálfstæðisflokksins á tíunda áratugnum. Allir í salnum tóku undir viðlagið sem var undir laginu Davy Crockett. Áður en ég held lengra vil ég taka það fram að í skrifum mínum um umdeildar embættisveitingar að undanförnu hef ég eingöngu haldið mig við hið faglega svið þeirra og þær sjálfar en ekki persónurnar sem í hlut eiga aðrar en ráðherrana og nefndina sem fjallaði um umsækjendur um héraðsdómarastöðuna. Ég veit um mikla mannkosti þess sem ráðinn hefur verið héraðsdómari nú og hef minnst á það áður. Ég hef einnig bent á með dæmum hvernig það hefur að ósekju bitnað á mörgum sem hafa verið ráðnir hvernig þeir hafa komið inn í röð af umdeilanlegum ráðningum, sem hafa vakið tortryggni, en lögunum um ráðningar í dómskerfinu er einmitt ætlað að draga úr tortryggni almennings og auka traust hans. Framtíðin á eftir að leiða í ljós hve vel heppnaðar mannarráðningarnar nú reynast. Í því efni er ekkert gefið fyrirfram og ég hef áður bent á það sem dæmi að Pálmi Hannesson reyndist einhver virtasti og merkasti rektor Menntaskólans í Reykjavík þótt allt yrði vitlaust þegar Jónas frá Hriflu réði hann í stað margfalt reyndari kennara. Ég get tekið undir það með Einari Kárasyni að sífelldar nafnbirtingar og myndbirtingar fjölmiðla hafa ekki alltaf verið málefnalegar í þessu máli. Þegar fjölmiðill fjallar um embættisveitingu ráðherra á að birta mynd af honum einum.
Nóg um það og víkjum aftur að vísunum um Davíð Oddsson. Af tæknilegum orsökum sem ég ræð ekki við í augnablikinu vill kerfið ekki gefa mér greinaskil í fyrstu vísunum. Þær voru börn síns tíma en hljómuðu svona:
DAVÍÐ ODDSSON.
Hann fæddist í Reykjavík og frægð sér vann
Furðusmíð snemma þótti hann
og brátt átti af vinum hið besta safn
en sá besti og erfiðasti var Hrafn.
Davíð! Davíð Oddsson! Dugmikill alla tíð.
Davíð! Davíð Oddsson! Dásamleg furðusmíð.
Í ástamálum varð hann ákafur
er ástríður hans vakti Ástríður.
Hann gerði mikið með Matthildi
en meira þó með Ástríði.
Davíð! Davíð Oddsson! Davíð við Tjörnina.
Davíð! Davíð Oddsson! Og Bergþórugötuna.
Flestum í orðheppni af hann bar,
var afburða fljótur að taka af skar.
Sú virðing hefur við hann fest
að vera "the fastest gun in the west."
Davíð! Davíð Oddsson! Hann náði borginni.
Davíð! Davíð Oddsson! Og ruslaði upp ráðhúsi.
Albert heimtaði að hann héldi sig frá
stuttbuxnadeildinni í flokknum þá.
Þá svaraði Davíð og sagði með hægð:
"Þú sjálfur á stuttbuxum hlaust þína frægð."
Davíð! Davíð Oddsson! Stjórnaði ótal ár.
Davíð! Davíð Oddsson! Með krúttlegt og krullað hár.
Hann fann upp aðferð sem þykir þjál
um það hvernig best er að afgreiða mál.
Við Friðrik Sophusson hann setti´hana fram:
"Svona gera menn ekki! Skamm!"
Davíð! Davíð Oddsson! Varði blaðburðarbörn.
Davíð! Davíð Oddsson! Þótt flokksmerkið væri örn.
Ennþá í fullu fjöri hann er
en fer samt í kúra til að létta á sér
og hárskerar á það hafa bent
að hár hans þurfi senn permanent.
Davíð! Davíð Oddsson! Skorar og skýtur fast.
Davíð! Davíð Oddsson! Með hárið á tvist og bast.
Þegar við verðum báðir fallnir frá
fjörugt ég held að okkur verði hjá,
fyrir handan allt hresst við og bætt
og himnaríki einkavætt.
Davíð! Davíð Oddsson! Drjúgt verður þá um mál.
Davíð! Davíð Oddsson! Drukkin Bermúdaskál.
Davíð! Davíð Oddsson! King of the lone prairie.
Davíð! Davíð Oddsson! Kóngur á Íslandi.
Þess má geta að þegar Hrafn Gunnlaugsson færði Davíð góða gjöf á stórafmæli Davíðs sagði Davíð um Hrafn að hann væri nánasti, besti og erfiðasti vinur sinn og uppskar mikinn hlátur. Þegar Reykjavík varð 200 ára árið 1986 stóð borgin fyrir mikill veislu í Lækjargötu með ógnarlangri afmælistertu og heyrðust þá raddir um það að hér væri bruðlað. Rétt er að vekja athygli á spádómi í syrpunni hér að neðan sem rættist fimm árum síðar og að geta þess að skrifstofa borgarstjóra var þá uppi í Reykjavíkurapóteki við horn Austurstrætis og Póshússtrætis. Síðasta lagið í syrpunni var lag Bjartmars Guðlaugssonar um fúlan á móti.
DAVÍÐ REYKJAVÍK.
Hver gengur þarna eftir Austurstræti
með ilmandi og hrokkið hár
og djarfan svip og ögn af yfirlæti
svo ótrúlega íhaldsblár?
Ó, það er Bubbi kóngur borgarfrík.
Það er hann Davíð Reykjavík
sem gengur þarna eftir Austurstræti
og ætlar upp á efstu brík
og því er eins og vaxi hérna gleði rík
og kæti.
Hann var einu sinni lítill
en er orðinn gróflega stór.
Hann var einu sinni magur.
Hann var einu sinni mjór.
Hann var eitt sinn fyndinn trúður
á öllum jólaböllunum
en nú arkar hann um með bumbu
og forsætisráðherra í maganum.
Hvað getur Davíð gert að því þótt hann sé sætur
og geri kjósendurna vitlausa í sér?
Hvað getur Davíð gert ef Össur greyið grætur
og glápir rauðum augum á hann hvert sem hann fer?
Hvað getur Davíð gert að því þótt borgin eigi
sitt afmæli og eyði fé í hopp og hí
en dagheimilin bíði´og gamla fólkið þreyi?
Hvað getur hann Davíð, aumingja Davíð gert að því?
Hann sér allt.
Hann er allt.
Er helmingi fyndnari en fúll á móti.
Býr til þrumu tertu og grauta.
Vertu ekki að þrasa og tauta.
Haltu kjafti!
Fáðu´þér fleiri tertubita
þótt því fylgi síðan skita
og haltu kjafti !
Þegar deilt var um ráðhúsbygginguna var því haldið fram að fuglalíf myndi stórskaðast við Tjörnina og bílakjallarinn fyllast af vatni og leðju. Einn helsti gagnrýnandinn var Flosi Ólafsson. Ég minnist þess að Davíð hafði sjálfur gaman af hraðri syrpu sem ég söng um þetta mál á þeim tíma, svo hljóðandi:
RÁÐHÚSBRAGUR.
Gæsamamma gekk af stað
með gæsabörnin smáu, -
upp á bakkann ætlaði
að éta grösin lágu.
Þá kom Davíð, krunk, krunk krá
með kolsvart hár í framan
og éta vildi unga smá
og ofsa fannst honum gaman.
Það á að gefa bra-bra brauð
að bíta í á jólunum -
Komdu til mín, komdu til mín, komdu til mín, bra-bra.
Farðu frá mér, Flosi, frá mér, Flosi, þú ert ga-ga -
Nú andasuðið ekki á við hlýðum
en okkar ráðhús hér á floti smíðum -
Hér rís hús langt út í vatnið.
Hér rís hús með stjórastól.
Hér rís hús, sem Dabbi byggði
undir vatni á lágum hól.
Nú skal segja, nú skal segja
hvernig ráðhúsið á að vera:
Fljóta´í drullu, fljóta´í drullu
og svo snúa því þar í hring.
Það verður allt á floti alls staðar,
ekkert nema Tjörn en segðu mér.
Bráðum kemur bílageymslan.
Bleytan fer að hlakka til.
Allir fá þá eitthvað rennblautt,
í það minnsta djúpan hyl.
Við heilsum öllum bílunum og hlæjum:
Kaggar mínir, komið þið sælir,
hvað er það sem niðar?
Áðan heyrði ég eitthvað væl
hvað kafaranum miðar.
En litlu andaraularnir
allir kjósa D. Áfram kjósa D.
Höfuð hneigja í djúpið
og láta sem ekkert sé.
Höfuð hneigja í djúpið
og láta sem ekkert sé.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.1.2008 | 12:17
HALLÆRISPLANIÐ OG FLÓTTAMANNALEIÐIN.
Þessi tvö "örnefni" alþýðunnar upp úr miðri síðustu öld voru einhver hin skemmtilegustu á þeirri tíð ásamt Klambratúni. Þau sögðu öll merka sögu en þótti auðvitað ekki nógu fín, - nafninu á Klambratúni var breytt í Miklatún sem var eitthvert hallærislegasta nafn sem ég gat hugsað mér, lýsti skoplegri minnimáttarkennd enda túnið eitt minnsta tún landsins.
Síðan var Hallærisplaninu breytt í Ingólfstorg og sennilega munu einhverjir gangast í því að Flóttamannaleiðin, sem er vegurinn frá Vífilsstöðum yfir á Kaldárselsveg, verði afmáð.
Á bak við nafnið Hallærisplanið er sú saga að eftir að Hótel Íslands brann 1944 myndaðist autt plan á gatnamótum Austurstrætis og Aðalstrætis sem varð að aðal "húkk"stað borgarinnar, miðpunkti samskipta ungs fólks. Þá varð þetta dásamlega nafn til sem sagði allt sem segja þurfti. Menn hengu niðri á Hallærisplani þangað til þeir komust á fast, en þá hurfu þeir þaðan.
Ég er með tillögu sem tekur mið af því sem gert hefur verið við brunarústirnar á horni Lækjargötu og Austurstrætis, en þar er nú frábær myndasýning sem sýnir þróun þess svæðis.
Á sunnanverðu Ingólfstorgi verði sett upp skilti með nafninu "Hallærisplanið" og fyrir neðan það útskýringar með myndum, sem sýnir hvaða hluti Ingólfstorgs hét þessu nafni í munni fólks og hvers vegna.
Flóttamannaleiðin fékk það nafn þegar Bretar létu íslenska verkamenn leggja þennan veg á þeim tíma 1940-41 þegar Bretar voru á flótta á Balkanskaga og misstu Singapúr í verstu ósigri hernaðarsögu sinnar. Höfðu Íslendingar á orði að vegurinn væri lagður til þess að Bretar gætu flúið frá Reykjavík þegar Þjóðverjarnir kæmu.
Á mínum sokkabandsárum fékk þetta nafn nýja merkingu sem fólst í því að þetta væri hentug akstursleið ölvaðra ökumanna fram hjá því svæði þar sem lögreglan væri helst á ferð. Einnig hentug leið til að stinga af eða hrista af sér eftirför af ýmsum ástæðum.
Ég myndi vilja sjá að í endanlegu skipulagi þessa svæðis verði Flóttamannaleiðin látin halda sér eins og hægt væri og fengi opinberlega þetta nafn með tilheyrandi nafnskiltum og útskýringaskiltum með myndum.
Það er ekki aðeins skemmtilegt fyrir hina eldri að halda til haga sögulegum minjum. Ungu fólki finnst skemmtilegt að heyra sögur sem tengjast ungu fólki fyrri tíma.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.1.2008 | 00:37
GLEYMSKAN LEYNIST VÍÐA.
Sagan af manninum sem gleymdist í 50 ár í fangelsi minnir á það þegar Vilhjálmur frá Skáholti gleymdist inni á Kleppi í tíu mánuði eins og rifjað var upp í Kilju Egils Helgasonar í kvöld. Sem betur fer var íslenska gleymskan 60 sinnum styttri en sú á Shri Landka. Myndin um Trabantinn í sjónvarpinu minnti á eina af bestu sögum af rassmótors-Skodanum sem ég kann, en þess má geta að ég notaði slíkan bíl af árgerð 1984 í rúmt ár á Kárahnjúkasvæðinu og dugði vel.
Þegar ég ætlaði að koma honum í gegnum skoðun bað ég verkstæði á Egilsstöðum að setja á blað hvað þyrfti að gera við.
Þeir skoðuðu bílinn og skrifuð eitt orð sem svar við því hvað væri að bílnum: ALLT !
Hann er nú kominn á safnið á Ystafelli við hlið Ingimars-Skodans. En sagan er svona:
Einn dag á þeim tíma fyrir aldarfjórðungi sem Skoda var "international joke" eins og stendur í alfræðibók um bíla sem ég á, reyndist erfitt að koma nýinnfluttum Skoda í gang við höfnina og var hann loks dreginn á verkstæði í Kópavogi. Skoðun og mælingar gátu engan veginn upplýst hvers vegna bíllinn gekk ekki nema á broti af vélaraflinu.
Rakst þá inn þar gamall starfsmaður og spurði hvað væri um að vera. Honum var sagt það. Hann spurði í þaula um hvað hefði verið gert og að lokum um það hvort þjappan hefði verið mæld í vélinni.
Nei, var svarið, það er út í hött að gera það á nýjum bíl.
Sá gamli minnti þá hina nýrri starfsmenn á þá aðferð Sherlock Holmes að prófa alla möguleika þangað til sá ólíklegasti væri eftir, því að með slíkri útilokunaraðferð kæmi í ljós að þar lægi lausnin.
Með semingi var sóttur þjöppumælir og á fyrstu tveimur strokkunum mældist full þjappa. En síðan sýndi mælirinn ekki neitt.
Hann er bilaður, sögðu menn.
Sækið þá annan mæli, bað sá gamli.
Aftur fór á sömu leið, - sá mælir bilaði líka.
Lyftið þið heddinu af, bað sá gamli.
Það ver gert og ótrúlega gleymska kom í ljós: Það hafði gleymst að setja tvo af fjórum stimplum í vélina!
Þess má geta að nú má sjá í rannsóknum erlendra bílablaða að Skoda er komin á meðal þeirra efstu að gæðum og lítilli bilanatíðni, jafnvel upp fyrir móðurfyrirtækið Volkswagen.
Það breytir því ekki að ég ber sterkar taugar til gamla Skodans sem ég fékk nærri því gefins og notaði í ferðir um allt norðan- og austanvert landið, allt upp fyrir Kárahnjúka. Þetta var bíll með sérvisku og karakter rétt eins og Trabantinn.
![]() |
Gleymdist í fangelsi í 50 ár |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.1.2008 | 13:50
HEILDARHLÝNUNIN MARKTÆKUST.
Þeir sem andmæla því að gróðurhúsaáhrif valdi hlýnun á jörðinni eru fljótir að grípa einstakar fréttir um kulda hér og kulda þar, kuldamet o.s.frv. En þá ber þess að gæta að í öllum athugunum vísindamanna hefur komið fram að heildarhlýnun geti leitt til kólnunar á afmörkuðum svæðum. Gríðarlegur gangur heitra lægða norður eftir N-Atlantshafi undanfarna mánuði hefur fært norðurhéruðum Skandinavíu rigningar og hlýindi og borið mikinn raka yfir Bretlandseyjar og norðanvert meginland Evrópu.
Þetta viðvarandi djúpa og víðáttumikla lægðakerfi hefur hins vegar valdið því að stöðugir kaldir straumar hafa komið úr norðri og farið suður með vesturströnd Grænlands.
Ég hef áður tekið sem dæmi að oft valda mestu hlýindin á Barðaströnd því að sumarlagi, að hlýtt loft stígur upp af ströndinni og í staðinn leggur svalt loft af Grænlandshafi inn firðina í Vesturbyggð svo að þessir miklu góðviðrisdagar á Barðaströnd færa íbúum Vesturbyggðar hrollkalda innlögn eins og hún er kölluð vestra.
Og því hlýrra sem er á Barðaströndinni, því ákafari verður þessi kaldi strekkingur inn firðina og kemur fyrr á morgnana en ella.
Fyrir tíu árum höfðu vísindamenn áhyggjur af því að hringekja hafstrauma sem liggur um Atlantshaf og Indlandshaf kynni að truflast ef of mikið af ís bráðnaði á skömmum tíma í Íshafinu. Það gæti jafnvel valdið breytingu í öfuga átt, mikilli kólnun á Norður-Atlantshafi.
Mjög erfitt hefur verið að sanna slíkar kenningar um svona flókið fyrirbæri. Hitt virðast menn vera nokkuð sammála um að of hraðar breytingar á hita lofthjúpsins geti valdið ófyrirsjáanlegum sveiflum á mismunandi svæðum. Þess vegna eigi mannkynið ekki að rugga bátnum of harkalega heldur að fara að öllu með gát.
Aðeins með því að taka meðalhitann á allri jörðinni yfir lengra tímabil en nokkur ár er hægt að sjá hvort um hlýnun lofthjúpsins sé að ræða. Ef sú er raunin segja kuldar hér og þar okkur ekkert annað en það að hraðar heildarbreytingar geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar og því eigi að forðast þær.
![]() |
Kaldasti vetur á Grænlandi í tíu ár |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (37)
16.1.2008 | 00:47
"...MISBEITIR STÓRLEGA..."
Meginatriði ráðningar Árna Mathiesens má koma niður í þessi tvö ofanrituðu orð. Í lögunum um þetta stendur að "ráðherra teljist sekur samkvæmt lögum þessum ef hann misbeitir stórlega valdi sínu, þótt hann hafi ekki beinlínis farið út fyrir embættistakmörk sín". Vörn Árna byggist á því að hann hafi ekki farið út fyrir embætistakmörkin en það er ekki nóg. Hann verður að sanna að hann hafi ekki misbeitt valdi sínu stórlega. En þá er komið að því að meta hvað sé "stórleg misbeiting".
Um það snýst deilan.
Tökum hliðstætt dæmi. Á fyrri hluta síðustu aldar tíðkaðist það í Vopnafirði að eftir grunnskólapróf fékk einn nemandi styrk til framhaldsnáms hjá sveitarfélaginu. Sem dæmi má nefna að Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur fékk slíkan styrk.
Setjum sem svo að fjórir nemendur hafi lokið grunnskólaprófi í Vopnafirði eitt árið og þrír nemendur hafi verið efstir og nokkuð jafnir, allir með yfir 9,0 í meðaleinkunn, eða ágætiseinkunn. Fjórði nemandinn, sonur alþingismannsins, hafi staðist prófið en verið með aðra einkunn, segjum 7,0, sem nægði þó til að hann héldi áfram námi ef foreldrar hans hefðu til þess getu. Hann væri sem sé hæfur til framhaldsnáms en samkvæmt einkunnunum virtust hinir þrír samt vera miklu hæfari.
Hreppsnefndin hafi síðan ákveðið að styrkja son alþingismannsins til framhaldsnáms. Hefði verið hægt að segja að hún hefði "misbeitt stórlega" valdi sínu?
Ég hygg að svo sé.
Hreppsnefndin hefði getað réttlætt valið með því að segja að einkunnir í skóla væru ekki einhlítur mælikvarði á getu fólks og nefnt sem dæmi menn sem hefðu orðið forsætisráðherrar þótt þeir hefðu rétt skriðið á stúdentsprófi. Ekki væri vitað annað en að þeir hefðu staðið sig frábærlega í starfi.
Hreppsnefndin hefði líka getað sagt að það væri óréttlátt að láta son alþingismannsins líða fyrir það að vera sonur föður síns og sífelldar ábendingar um það væru mjög óréttlátar að öllu leyti.
Hreppsnefndin hefði getað vísað til þess að oft áður hefði hún orðið að meta hver væri hæfastur til framhaldsnáms og standa að vali á ýmsum sviðum og að hún hefði til þess vald og væri beinlínis skylt að ákveða þetta eftir bestu samvisku og mati, sem ekki gæti eingöngu byggst á einkunum.
Það væri ekki einhlítt að sá sem hefði hæstu einkunnina hlyti styrkinn.
Sonur alþingismannsins væri búinn ágætum kostum sem ekki kæmu fram í námsárangri hans og hefði til dæmis staðið sig vel í tónlistarnámi, leiklist og félagslífi, og samið sögur, en slíkt gæti gagnast mjög vel síðar meir.
Skólanefndin hefði mótmælt þessu og sagt að hér væri gróflega vegið að hæfni hennar til að meta námsárangur nemenda og hæfileika til framhaldsnáms.
Og eftir situr álitamálið: Hvað er "grófleg misbeiting"?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
15.1.2008 | 19:59
BJÖRK ATHYGLISSJÚK?
Fróðlegt viðtal var við föður Bjarkar Guðmundsdóttur í Íslandi í dag nú í kvöld. Hann vitnaði í fréttir þess efnis að "árás" hennar á ljósmyndara á Nýja-Sjálandi væri til merkis um athyglissýki hennar. Einnig hefði verið sagt að nýleg "árás"Britneyjar Spears á ljósmyndara væri til merkis um að hún væri athyglissjúk. Þetta minnir á það þegar sagt var um Björk Guðmundsdóttur á sínum tíma þegar hún mótmælti Kárahnjúkavirkjun að það sýndi að hún væri haldin athyglissýki.
Með öðrum orðum: Kona sem er fræg meðal milljarða manna reynir á sjúklegan hátt að vekja athygli á sér hjá 300 þúsund manna þjóð, 0,005% mannkyns. Þetta eru sömu mannfjöldahlutföll og að maður sem væri frægur á Íslandi og vildi hafa áhrif á ákveðið mál á Grímsstöðum á Fjöllum væri talinn athyglissjúkur ef hann tjáði sig þar á bæ um málið.
Spyrja hefði mátt á móti á sínum tíma: Þarf manneskja sem er fræg um allan heim á því að halda að vekja á sér athygli á því útskeri sem Ísland er? Ég þekki sjálfur vel til aðstæðna Bjarkar þegar hún er hér heima og allt það sem hún þarf að gera til þess að losna við þessa margumtöluðu athygli, sem sagt er að hún sækist eftir á sjúklegan hátt.
Björk er ekki ein um að verða fyrir grófri ásókn hér heima. Ég hef heyrt lýsingar á því hvernig Eiður Smári Guðjohnsen hefur lent hér heima í kröppum dansi í hatramlegri ásókn um hábjarta daga um helgar og skemmst er að minnast árása á hann og Hannes Þ. Sigurðsson knattspyrnumann í miðborg Reykjavíkur þar sem bloggað var eftirá um það að þeir Eiður og Hannes gætu sjálfum sé um kennt, - þeir ættu ekki að vera á "fylleríi" í miðborginni !
Samkvæmt þessu bloggi getur hver sá sem er "að flækjast" niðri í miðborg að næturþeli sjálfum sér um kennt ef ráðist er hann og honum hrint í götuna eða hann margbeinbrotinn !
Nú eru liðin tólf ár frá síðustu "árás" Bjarkar Guðmundsdóttur á ljósmyndara. Ég set "árás" innan gæsalappa því að enginn talar um árásir paparazzi á þá, sem þeir sækja svo ákaft á, að dæmdur væri á þá margfaldur ruðningur ef þeir væru í handboltaleik.
Þeir sem smjatta á því að Björk sé ekki geðlaus ættu að kynna sér í hverju það er fólgið að standast stöðuga ásókn ljósmyndara sem víla ekki fyrir sér að stjaka og hrinda fólki stanslaust og ryðjast eins og mannýg naut inn að skotmörkum sínum.
Athyglisvert er að faðir Bjarkar upplýsti að hvergi fengju Björk og hennar líkar betri frið en í stórborginni New York.
Þótt Björk hafi loksins þrotið þolinmæðina eftir tólf ára áreiti held ég ekki að það sé hvorki merki um athyglissýki hennar né árasarhneigð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)