26.1.2009 | 13:08
Hvaða Steingrímur Steinþórsson er í spilunum ?
Tvennt athyglisvert gerðist eftir Alþingiskosningarnar haustið 1949. Þegar stjórnarmyndunarviðræður höfðu dregist á langinn og Ólafur Thors, forsætisráðherra starfsstjórnar sem var minnihlutastjórn flokksins, vildi rjúfa þing, neitaði forseti því.
Líklegast var það vegna þess að svo stutt var frá síðustu kosningum og ekki var hægt að sjá að neitt myndi breytast með nýjum kosningum. Sveinn Björnsson lét því Ólaf reyna til þrautar að ná lendingu um ríkisstjórn með hótun um utanþingsstjórn ella, og með því var settiur mikill þrýstingu á Ólaf sem var ávallt ósáttur við það að Sveinn Björnsson skyldi mynda utanþingsstjórn 1942.
Nðurstaðan varð myndun sterkrar ríkisstjórnar, og hvorki Ólafur né Hermann Jónasson leiddu þá stjórn, heldur Steingrímur Steinþórsson þingmaður og búnaðarmálastjóri.
Nú er því hægt að spyrja: Hver er sá Steingrímur Steinþórsson sem leynist úti í bæ og gæti hoggið á hnútinn nú ?
Er það Jón Baldvin? Varla.
Þingrofin 1931 og 1974 voru framkvæmd eftir að lengri tími hafði liðið heldur en leið 1949 á milli kosninga.
Þessi þingrof voru í raun brot á þingræðinu vegna þess að hugsanlega var hægt að mynda ríkistjórn sem hefði meirihluta þings á bak við sig, einkum 1974. Í fyrsta sinn á forsetaferli sínum þarf Ólafur Ragnar nú að nota alla sína miklu menntun og reynslu í stjórnmálum til þess að vera tilbúinn til þeirra réttustu aðgerða, sem hægt er af hans hálfu að grípa til.
Ásgeir Ásgeirsson réði miklu um myndun minnihlutastjórnar Alþýðuflokksins í desember 1958. Forsetinn getur ráðið býsna miklu ef svo ber undir.
P.S. Nú gerast atburðir svo hratt að þessi bloggpistill er að mestu orðinn úreltur á aðeins tíu mínútum. Og nú kemur í ljós að Jóhanna Sigurðardóttir hafi verið þessi Steingrímur Steinþórsson.
![]() |
Þurfum öfluga starfsstjórn" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.1.2009 | 12:33
Vafasamur "heiður" fyrir Geir.
Það er afar sjaldgæft að Íslendingar komist í fremstu röð á einhverju sviði í heiminum. Það fór um mann straumur þegar Kári Stefánsson var talinn einn af hundrað áhrifamestu mönnum í heiminum í læknavísindum.
Nú hefur Geir H. Haarde náð lengra en nokkur annar íslenskur stjórnmálamaður á sviði heimsstjórnmála og raunar er það með ólíkindum að Íslendingur kæmist þar í hópi hinna 25 ábyrgðarmestu ásamt forsetum Bandaríkjanna, forsætisráðherra Breta og helstu áhrifamanna í fjármálum heimsins.
Í ljósi þessa er beinlínis hlægilegt þegar maður sem er talinn vera í hópi þeirra sem bera ábyrgð á heilu heimshruni fjármála tregðast við að axla ábyrgð af þessu hér heima.
Meðal 25 helstu áhrifavalda sem ollu efnahagshruni heimsins er bandaríska þjóðin vegna lánafíkni hennar og er lánafíkn Breta líka nefnd í því samhengi.
Ætlli það verði ekki að teljast heppilegt að blaðamenn Guardian vissu ekki um það að íslenska þjóðin hefur sett heimsmet í lánafíkn undanfarin ár með fjórföldun skulda heimilanna í "gróðærinu" og þreföldun skulda fyrirtækjanna.
Það hefði líka verið ósanngjarnt að öll íslenska þjóðin fengi slíkan stimpil því að tugþúsundir Íslendinga ýmist gátu ekki eða vildu ekki taka þátt í dansinum um gullkálfinn.
![]() |
Geir Haarde sagður ábyrgur fyrir hruninu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
26.1.2009 | 09:42
Bjartar sumarnætur aftur á Íslandi.
Ég átti fund með nokkrum málsmetandi útlendingum um daginn og fór með þeim yfir sérstöðu Íslands gagnvart öllum öðrum löndum heims.
Ósnortin náttúruverðmæti Íslands skipa hinum eldvirka hluta landsins á bekk með 40 mestu náttúruundrum veraldar í vandaðri bók ferðamálasérfræðinga um 100 undur veraldar.
Í þeirri bók kemst Yellowstone þjóðgarðurinn í Bandaríkjum með sína tvær milljónir ferðamanna á ári ekki á blað, - Ísland er merkilegra.
Þetta vel menntaða háskólafólk hafði aldrei gert sér grein fyrir þessu né heldur að hvers kyns verðmætum hefði þegar verið fórnað og stæði til að fórna fyrir skammtímagróða á kostnað komandi kynslóða.
Ég var að heyra frá þeim aftur í gær og niðurstaða þeirra var einróma um björtustu vonina á Íslandi. Á ensku heitir það ecotourism, náttúruferðamennska.
Ef tilvera okkar snýst öll um peninga getum við á veturna selt það sama og Lapplendingar, sem fá fleiri ferðamenn til sín yfir veturinn en Íslendingar allt árið.
Lapplendingar selja fjögur atriði: Kulda, myrkur, þögn og ósnortna náttúru. Okkar náttúra tekur náttúru Lapplands langt fram.
Á sumrin seljum við þetta allt, nema að í staðinn fyrir myrkur koma bjartar sumarnætur. Það er í hendi okkar sjálfra hvort aftur verða bjartar sumarnætur á öllum sviðum á Íslandi.
![]() |
Bjartar sumarnætur að baki á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.1.2009 | 02:36
Óhugsandi að Davíð fari út ?
Engum íslenskum stjórnmálaflokki hefur tekist að lyfta helstu foringjum sínum, þeim sem lengst ríktu, í þvílíkar dýrðarhæðir í augum fylgismanna sinna en Sjálfstæðisflokkurinn. Þeir hafa verið nánast í guða tölu, Jón Þorláksson, Ólafur Thors, Bjarni Benediktsson og Davíð Oddsson.
Framsóknarmenn spörkuðu til dæmis úr formannssæti Jónasi frá Hriflu, stjórnmálamanni aldarinnar að mínu mati, stofnanda flokksins og helsta hugmyndasmiðinn að íslensku flokkakerfi.
Engum foringja flokksins var haldið annað eins afmæli og Davíð þegar hann var fimmtugur og stóð á hátindi ferils síns. Flugeldasýning við Perluna, eitt helsta merkinu um dýrðardaga hans í borgarstjórn.
Engu virðist nú skipta þótt kerfið sem hann kom á hér á landi í anda Thatcher og Reagans hafi sprungið í loft upp.
Það virðist óhugsandi að flokkurinn geti horfst í augu við þá staðreynd að tími Davíðs er liðinn, rétt eins og tími Jónasar frá Hriflu var liðinn 1944.
Í raun færist Samfylkingin mikið í fang ef hún ætlast til þess að Sjálfstæðisflokkurinn sparki manninum sem var dýrkaður eins og guð í flokknum. Ég á eftir að sjá að Geir Haarde fari þannig með læriföður sinn og átrúnaðargoð.
Ég nota orðið pólitík því að í Seðlabankanum hefur Davíð í raun verið í bullandi pólitík.
Davíð gaf í skyn í haust að hann "hefði eitthvað á" ráðamenn svo að ég noti algengt orðalag sem þrífst í kringum hann. Hann hefur kannski eitthvað á Geir eða Þorgerði, svipað og sagt er að hann hafi látið Jón Sigurðsson vita af í fyrra.
Hann vísaði í slíkt í frægri ræðu hjá Viðskiptaráði og gaf í skyn í dönsku blaði að hann myndi bara hella sér á fullu í pólitíkina ef hreyft yrði við honum í Seðlabankanum.
Ég veðja frekar á að Sjálfstæðisflokkurinn vilji sökkva með fyrrum guði sínum en rísa gegn honum. Slík meðferð á einu af goðum flokksins yrði dæmalaus. Ég óttast ég að þetta sé svona, því miður. Ekki bætir úr skák að Ingbjörg Sólrún vann sér til ævarandi óhelgi hjá Davíð fyrir að taka borgina og halda henni.
Er líklegt að sjálfstæðismenn láti eftir henni slíkan sigur yfir höfuðandstæðingi hennar ?
Ef þett er svona í pottinn búið og úrslitaatriði hjá Samfylkingunni að Davíð, víki mun stjórnin falla á næstu dögum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.1.2009 | 00:19
Þessvegna allt eins utanþingsstjórn.
Það fór ekki fram hjá neinum þegar Geir sagði að kosningar yrðu 9. maí og að þar með væri ræsirinn búinn að ræsa allt liðið. Björn Bjarnason hefur nú uppgötvað þetta.
Þennan tíma verður allt á fullu hjá núverandi þingflokkum við allt það sem kosningabaráttu fylgir auk allrar ringulreiðarinnar og hjaðningavíganna innan flokka og á milli flokka sem því fylgir.
Og þeir þurfa þar að auki að halda landsfundi sína. Hin "brýnu afgreiðslumál", sem Björn talar um, gæti vel mönnuð utanþingsstjórn allt eins sinnt til kosninga. Nóg er af hæfum einstaklingum utan þings til þess, meðal annars mönnum sem höfðu rétt fyrir sér allan tímann um hina röngu stjórnarstefnu.
Utanþingsstjórn Björns Þórðarsonar 1942-44 var aðeins skipuð fjórum ráðherrum og þeir sinntu öllum "brýnum afgreiðslumálum" á því tímabili sem sum hver voru engin smámál, svo sem sambandsslitin við Dani og stofnun lýðveldis á Íslandi auk þess að sigla Íslandi í gegnum ólgusjó heimsstyrjaldarinnar.
Sú stjórn settist að völdum í ástandi sem var ekki ólíkt því sem nú ríkir. Trúnaðarbrestur ríkti á milli stærstu flokkanna og forystumnanna þeirra og þess vegna gat þingið ekki myndað stjórn fyrr en haustið 1944.
![]() |
Upphaf á kosningabaráttunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.1.2009 | 19:17
Þingrofsrétturinn 1931 og 1974.
Tvisvar á síðustu öld notaði forsætisráðherra þingrofsréttinn, og í beinu framhaldi urðu kosningar. 1931 las Tryggvi Þórhallsson óvænt upp bréf frá kongungi um þingrof og í kjölfarið fylgdu mikil mótmæli, umrót og deilur um hvort þetta hefði verið löglegt.
Fræðimenn komust flestir að þeirri niðurstöðu síðar meir að þingrofið hefði staðist lög og þess vegna urðu engar deilur um lögmætið 1974 þegar Ólafur Jóhannesson rauf þing.
Hann sjálfur hafði sem prófessor og sérfræðingur í stjórnarfars- og stjórnskipunarrétti áður en hann varð ráðherra komist að þeirri niðurstöðu að það væri löglegt og ég man enn hvað umræður um það efni voru skemmtilegar og áhugarverðar í tímum hans í lagadeild Háskólans.
Deilurnar um þingrofið 1974 voru hins vegar fyrst og fremst um það hvort þetta hefði verið siðlegt, pólitískt séð.
Geir hefur sagt að það væri ábyrgðarlaust að hér skelli á stjórnarkreppa eða að landið verði stjórnlaust og í ljósi þeirra orða væri það einkennilegt ef hann ryfi þing án þess fyrst reyndi á það hvort hægt væri að mynda stjórn sem sæti fram að kosningum.
Hjó núna rétt í þessu eftir orðum Geirs í viðtali í Sjónvarpinu um það að Íslandshreyfingin hefði ekki fengið "nægan hljómgrunn 2007 til að koma inn þingmanni."
Þetta er í raun ónákvæmt og villandi orðalag. Rétt hefði verið að segja að hreyfingin hefði ekki fengið nægt fylgi til að koma að þremur þingmönnum, því að það er það lágmark sem sett er í ósanngjörnum kosningalögum um að framboð verði að fá til að komast á þing.
Íslandshreyfingin fékk nægt fylgi til að koma að tveimur þingmönnum, ef hinn hái atkvæðaþröskuldur gömlu flokkanna hefði ekki verið við líði.
![]() |
Útilokum ekki breytingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.1.2009 | 17:45
Kom Ingibjörgu á óvart. Borgað í sömu mynt.
Þegar Jón Sigurðsson upplýsir að afsögn Björgvins Sigurðssonar hafi ekki komið sér algerlega á óvart spyrja margir, hvers vegna það hafi komið Ingibjörgu Sólrúnu á óvart. Af hverju bar Björgin þessa ákvörðun sína ekki undir hana, formann flokksins,sem tilnefnt hafði Björgin í embættið ?
Ég spyr á móti: Var nokkur ástæða til þess að hann bæri þetta undir Ingibjörgu fyrst hún hafði ítrekað sniðgengið hann í fyrra varðandi mikilvæg efni í málaflokki hans og ekki treyst honum fyrir að vita um þau ?
Staða Björgvins sem ráðherra heyrir beint undir Geir og þangað bar Björgvini að snúa sér. Tæknilega séð var það rétt hjá honum. En í leiðinni gat Björgvin borgað Ingibjörgu í sömu mynt og jafnað leikana frá í fyrra.
Hún sýndi honum ekki trúnað þá og hann ekki henni nú.
![]() |
Jón Sigurðsson: Afsögn Björgvins kom ekki á óvart |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.1.2009 | 17:35
Fleiri hefðu átt að gera það sama og fyrr.
Björgvin G. Sigurðsson hefur nú, fyrstur allra ráðherra á Íslandi, tekið þá sjálfsögðu ákvörðun, sem tíðkast í öðrum löndum, að segja af sér embætti og axla pólitíska ábyrgð af störfum sínum.
Það er merkilegt að þetta skuli nú fyrst gerast nær 105 árum eftir að fyrsti ráðherrann tók við embætti en íslenskir ráðherrar hafa ætíð þumbast við og ekki hrokkið úr embætti nema að þeim hafi verið bolað burtu af þrýstingi innan eigin flokks eða eftir stjórnarskipti eða kosningar.
Þetta hættulega fordæmi hefur skaðað íslensk stjórnmál, því að hið sama á að gilda um ráðherra og til dæmis leikmenn í knattspyrnu, að þeim sé kippt út af ef sú staða kemur upp í leiknum að þeir standa sig ekki nógu vel eða falla illa inn í leik liðsins.
Ef hin sjálfsagða hefð erlendra stjórnmála um að fara út af og setjast á bekkinn og hleypa öðrum inn á til að efla leikinn hefði verið hér á landi hefði þetta ekki verið neitt stórmál hér frekar en að leikmaður fari út af og komi jafnvel síðar inná ef svo ber undir, búinn að læra af reynslunni og sanna sig.
Strax snemmsumars og síðan aftur í haust sniðgengu Geir og Ingibjörg Björgvin og leyndu hann grundvallaratriðum í hans eigin málaflokki. Með því sýndu þau honum í raun óafsakanlegt vantraust og gerðu honum erfiðara að átta sig á stöðunni eða gegna embætti sínu sem best.
Af þessum sökum hefðu þau átt að stíga til hliðar fyrst. En þetta veit á gott. Nú er afsagnarferillinn að færast upp frá lágt settum millistjórnendum í áttina að þeim sem mestu ábyrgina bera.
![]() |
Björgvin segir af sér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.1.2009 | 02:31
Einstakt fyrirbæri sem Björn má taka með.
Ég veit ekki hvort fólk áttar sig á því hve einstakur sá atburður var þegar hópur mótmælenda í appelsínugulum lit kom lögreglunni til varnar þegar að henni var sótt af upphlaups - og æsingamönnum.
Útlendingar, sem ég hef talað við, segja að slíkt gæti varla gerst í nokkru öðru landi.
Í París, Róm eða Brussel? Nei.
Þetta atvik er eitt af þeim sem mér þykir vænst um þessa dagana sem og afsökunarbeiðni Harðar Torfasonar.
Hvað snertir margumræddan þriðjudag, sem Björn gerir að umtalsefni, þætti mér gaman að sýna honum myndskeiðið sem ég tók í sundinu bak við húsið þar sem fyrstu piparúðaaðgerðir sérsveitar lögreglunnar voru vanhugsaðar og til þess eins að espa fólk upp.
Að öðru leyti verður að gefa lögreglunni og appelsínugulu mótmælendunum rós í hnappagatið fyrir margt sem þessir hópar hafa gert í ólgu undanfarinna daga, stundum í sameiningu. Við erum ekki í stríði við almenna lögreglumenn.
Með svona framkomu og ofbeldislausum fjöldaaðgerðum mun þeim fjölga sem fara niður á Austurvöll til að mótmæla. Og fjöldinn skapar aflið, ekki ofsinn, sem fælir fólk frá því að tjá sig.
Ég vona að atburðir komandi viku verði á þann veg að hægt verði með stolti að standa innan um þúsundirnar næsta laugardag.
Á sínum tíma var ég einn af þeim sem myndaði hring um Alþingishúsið þegar mótmælendur héldust þar í hendur. Þegar Björn Bjarnason kom út úr bíl sínum leist honum greinilega ekki á blikuna en þegar hann sá mig, breytti hann um stefnu og vildi komast í gegn milli mín og konu sem ég hélt í höndina á.
Konunni var heitt í hamsi og þrýsti hönd minni niður en ég streittist á móti til þess að Björn kæmist í gegn.
Niðurstaðan varð að Bjðrn komst í gegn en þurfti þó að hafa aðeins fyrir því með því að beygja sig. Þetta var atvik var eftirminnilegt.
![]() |
Segir þingmenn VG hafa veist að lögreglu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
25.1.2009 | 01:50
Skiljanlegt.
Kreppan birtist seinna á landsbyggðinni en í Reykjavík og landsbyggðarfólk er vanara atvinnumissi og lokun fyrirtækja en fólkið á suðvesturhorninu, sem hefur ekki þekkt neitt slíkt í líkum mæli og nú.
Meðan "gróðærið" ríkti með allt of háu gengi krónunnar bitnaði það á sjávarútvegsfyrirtækjum og þar með mun meira á landsbyggðinni en Reykjavík.
Lága gengið nú þýðir betri afkomu fyrir sjávarútveginn, sem að vísu glímir við gríðarlegar skuldir sem hann varð að taka á sig á mögru árum hágengisins þegar lánsfé var jafnaðgengilegt og kalt vatn.
Byggingariðnaður, fjármálastarfsemi og atvinnulífið allt blés út í risastóra blöðru hér syðra með tilheyrandi fjórföldun skuldasöfnunar heimila, þrefaldri skuldasöfnun fyrirtækja og byggingum, mannvirkjum, bíla- og tækjaflota langt umfram þarfir.
Nú hrynur þetta allt saman með brauki og bramli.
Fólkið á landsbyggðinni er vant því að lifa við þá óvissu að togarinn og kvótinn geti farið á morgun og fiskvinnslan lagst niður daginn eftir.
Nú fáum við, sem eigum heima á suðvesturhorninu, að finna fyrir því við hvað landsbyggðarfólkið hefur búið um áratuga skeið.
![]() |
Meiri biðlund á landsbyggðinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)