Að skrúfa fyrir kranann?

Helgi Felixson hitti naglann á höfuðið í lok frumsýningar kvikmyndar sinnar, þegar hann benti bíógestum á það fjármagn sem gerð þessrar einu kvikmmyndar, "Guð blessi Ísland," færir til landsins.

Helgi var í óvenju góðri aðstöðu, því að um tjaldið höfðu runnið nöfn þeirra erlendu stofnana og fyrirtækja sem höfðu styrkt þessa mynd, en stuðningur Kvikmyndamiðstöðvar Íslands er í flestum tilfellum mikilvægur grundvöllur þess að hægt sé að fara af stað með svona kvikmyndagerð.

Það þarf að huga að því við niðurskurð hvort hann kalli á stórfellt tekjutap og það jafnvel tap á því sem þjóðin þarf mest á að halda núna, erlendum gjaldeyri.  

Er verið að skrúfa fyrir kranann?  Og hvers vegna margfalt meiri niðurskurð á þessu sviði en öðrum?  

Í sjö ár hef ég kynnst kjörum kvikmyndagerðarmanna hér á landi og orðað það svo í hálfkæringi, að sjaldan hafi ég kynnst mönnum með jafn ríka sjálfspíningarhvöt.

Með því hef ég átt við þann hluta þeirrar hvatar sem drífur kvikmyndagerðarmenn áfram við sína listsköpun sem snýr að fjármögnun myndanna og kjörum kvikmyndargerðarmannanna sjálfra.

Á fundi kvikmyndargerðarmanna fyrir nokkrum árum lýsti Ari Kristinsson því sem ójöfnuði að kvikmyndagerðarmenn ætluðust ekki til þess að hafa nein laun fyrir að vinna að list sinni og skömmuðust sín jafnvel hálfpartinn fyrir það ef hagnaður væri af myndum þeirra. 

Aðrar stéttir virtust ekki haldnar þessari hugsun heldur telja eðilegt að menn hefðu laun fyrir vinnu sína.

Fólk má vel segja að ekki sé að marka orð mín af því að ég sé kvikmyndagerðarmaður. Enginn hafi beðið mig um að vera það. Ég fer hins vegar aðeins fram á það að ofangreindur pistill sé dæmdur eftir innihaldi hans en ekki því hver skrifaði hann.     


mbl.is Vill endurskoða fjárveitingar til kvikmyndagerðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umhugsunarefni.

Það vill svo til að ég er nýkominn úr tveimur ferðum ferðum til Ólafsfjarðar þar sem leiðin lá í gegnum Ólafsfjarðargöng. Á skemmtun þar nyrðra var heiðursgestur Valdimar Steingrímsson, sem forðum gat sér frægð fyrir að ryðja hinn stórhættulega veg um Ólafsfjarðarmúla. p1010378_920095.jpg

P1010374

Þótti mikil mildi að Valdimar slapp oftar en einu sinni naumlega úr hættulegum aðstæðum á þeim vegi.

 Þess vegna er það nöturlegt ef svipuð hætta getur skapast í mannvirkinu sem átti að bægja hættu frá á leiðinni til bæjarins.

Ég hefði ekki viljað verða undir hruni úr göngunum á minnsta bíl landsins þegar ég var á leið í gegnum göngin. Hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum ef slíkt hefði gerst.

Þetta atvik hlýtur að kalla á reglubundnar rannsóknir á jarðgöngum landins,  einkum þeim eldri, líkt og tíðkast um lyftur í húsum. 

Læt fylgja með myndir af "Litla gul" í þessari ferð norður, þar sem hann fór í hjólför hins gamla "Litla guls" fyrir hartnær hálfri öld.  

Máttarvöldin voru svo vinsamleg að gefa mér og þeim litla hið versta ferðaveður á Öxnadalsheiði og síðasta áfanganum til Ólafsfjarðar, eins og til þess að líkja eftir akstursaðstæðum fyrir hálfri öld, sem voru auðvitað miklu verri á krókóttum og mjóum malarvegum en þau eru nú. 

(Þess skal getið að litla myndin hér fyrir neðan fór inn vegna tæknilegra mistaka sem ég réði ekki við) 

  

 

 

P1010374
mbl.is Hrun í Ólafsfjarðargöngum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikið lagt á Steingrím.

Steingrímur J. Sigfússon er afar öflugur stjórnmálamaður, einn hinn öflugasti sem þjóðin á um þessar mundir.

Hann þarf að bera meiri byrðar í núverandi stjórnarsamstarfi en aðrir, bæði sem ráðherra eins erfiðasta málaflokksins og ekki síður sem formaður Vinstri grænna.

Hann hefur verið afar duglegur í sínum vandasömu verkum sem virðast þó verða æ vandasamari með hverjum deginum. 

Í kvöld og næstu daga mun mæða mikið á honum við að sigla um ólgusjó, þar sem svo virðist sem mál öll, stjórnarsamstarfið og úrlausn viðfangsefna þjóðarinnar skerist í einum átakapunkti á herðum Steingríms.

Kannski hefur aldrei reynt eins mikið á hann og nú þegar ágreiningur meðal flokksmanna hans er orðinn að erfiðasta viðfangsefni hans ofan á allt annað.  

 


mbl.is Búist við löngum fundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Beið keppnin ósigur ?

Það eru alltaf sömu málleysurnar sem lifa góðu lífi í fjölmiðlum ár eftir ár. Það vekur furðu því þær eru ekki svo margar.

Ein þeirra skýtur enn einu sinni upp kollinum í frétt mbl.is af söfnuninni fyrir Grensásdeild og raunar hefur hún líka skotið upp kollinum hjá þulum í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og víðar.

Sagt er í frétt mbl.is að tveir menn hafi sigrað keppnina, - "þeir sigruðu keppnina."

Af því hlýtur að leiða að keppnin hafi beðið ósigur fyrir þessum mönnum.  

Málvillur eru hvimleiðar en leiðinlegastar eru þær sem fela í sér rökvillur líka.

Ef maður sigrar einhvern, þá bíður mótaðilinn ósigur fyrir manni.  

Þetta getur ekki verið einfaldara: Mennirnir sigruðu í keppninni, þeir urðu hlutskarpastir í keppninni. Keppnin sjálf beið ekki ósigur fyrir þeim.   


mbl.is 864.000 söfnuðust fyrir Grensásdeild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ó, það voru indæl stríð.

Fyrir 43 árum var sýndur í Þjóðleikhúsinu söngleikurinn "Ó, þetta er indælt stríð." Í því var fjallað á beinskeyttan hátt um hinn nöturlega veruleika styrjalda, - meðal annars það hvernig sumir gátu hagnast á stríði. 

Í 66 ár högnuðust Íslendingar gríðarlega efnahagslega á stríði þótt við færðum miklar mannfórnir á sjónum í heimsstyrjöldinni síðari. 

Sú styrjöld veitti hins vegar þvílíku fjármagni inn í þjóðarbúskapinn hér, að 10. maí 1940 markaði meiri þáttaskil í sögu þjóðarinnar og hag hennar á síðustu öld en nokkur annar dagur. 

Flugvallalaust land fékk skyndilega tvo stóra flugvelli að gjöf og annað var eftir því. Þrátt fyrir að við værum eina þjóðin sem hafði grætt peningalega á stríðinu fengum við meiri Marshallhjálp miðað við fólksfjölda en nokkur önnur þjóð. 

Bandamenn samþykktu stofnun lýðveldis.  

Í hönd fór Kalda stríðið þar sem það voru ríkir hagsmunir fyrir stórveldin og nágrannaþjóðir okkar að hér væri aðstaða fyrir herlið.

Við nýttum okkur þessa aðstöðu vel, gátum farið í fjögur þorskastríð við Breta og spilað á veru okkar í NATÓ til að halda þeim á mottunni svo að þeir gátu aldrei nýtt sér aflsmuninn sem fólst í fallbyssum herskpa þeirra.

Í fyrsta þorskastríðinu 1952 var að vísu ekki beitt hefðbundnum vopnum heldur efnahaglegum. Þá sáu Rússar sér hag í því að koma okkur til hjálpar, eyðilögðu með því efnahagslegan vopnabúnað Breta, sem þeir beittu gegn okkur, og höfðu áreiðanlega lúmskt gaman af.

Við fengum sérkjör varðandi flug til Bandaríkjanna og ýmsa aðra fyrirgreiðslu. 

Þegar Kalda stríðinu lauk hvarf þessi aðstaða okkar en íslenskir ráðamenn áttuðu sig ekki á því.

Nú er liðinn sá tími sem það skipti gríðarlegu máli fyrir nágrannaþjóðir okkar að hafa okkur góða.

Lán, sem við þurfum til að komast yfir erfiðasta hjalla hrunsins verða ekki gefins, hvorki hjá AGS né öðrum.

Enn eru þeir til sem sakna Kalda stríðsins og þeirrar aðstöðu sem það veitti okkur á ýmsum sviðum.

En sá tími er liðinn og ég held að það hafi ekki verið hollt fyrir okkur hvernig við höguðum okkur og högum okkur reyndar enn þegar við ætlum að ganga á rétt milljóna Íslendinga, sem eiga eftir að byggja þetta land með því að eyðileggja á skammsýnan hátt mestu verðmæti landsins í lengd og bráð.

Nú verðum við að horfast í augu við þann nöturlega veruleika að við höfum ekki lengur sérstöðuna sem Heimsstyrjöldin og Kalda stríðið gáfu okkur.

Innst inni hugsa kannski margir: Ó, það voru indæl stríð. En framundan er barátta þar sem við verðum að meta stöðu okkar kalt og spila úr því eftir bestu getu.

Umheimurinn var í efnahagslegu fíkniefnapartíi þar sem okkur þótti gaman að geta svallað með þeim stóru og svelgdist á í græðgisfíkninni.

Drykkurinn var eitraður og við vorum flutt á gjörgæsludeild AGS og alþjóðasamfélagsins þar sem ekkert fæst ókeypis, heldur verður að dæla upp ólyfjaninni. Við fórum verst út úr svallinu líkt og þegar þeir minnstu troðast á flóttanum þegar kviknar í húsinu.

Það er svosem ekki alvont, því að það er byrjun á þeirri efnahagslegu fíkniefnameðferð, sem við verðum að fara í með utanaðkomandi aðstoð, þótt okkur þyki það slæmt. Það hlaut að koma að því að við vöknuðum upp við vondan draum.

Við verðum að vega og meta vel hvernig nauðsynleg aðstoð verði veitt okkur svo að okkur farnist sem best.

Við erum hluti af alþjóðasamfélaginu og getum ekki gert þetta ein, annars hefðum við hafnað lánum frá Færeyingum og Pólverjum, sem hafa sýnt okkur hverjir bestu vinir okkar eru í raun.  

 

 

 

 


mbl.is Höfum ekkert við AGS að gera
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kominn tími til.

Það var kominn tími til að orð í líkingu við afsökunarbeiðni forsætisráðherra í dag yrðu sögð. Þótt fyrr hefði verið.

Afsökunarbeiðni felur ekki aðeins í sér að biðja sér griða. Hún þýðir játningu á því að hafa gert mistök eða gert rangt.

Hún verður líka að fela í sér iðrun og yfirbót. Þess vegna er það oft svo erfitt að biðja afsökunar. 

Afsökun og fyrirgefning eru eitt af grundvallaratriðum kristinnar trúar og þróaðrar siðferðisvitundar, sem ber í sér kærleika og velvilja.

Ég var að koma af frumsýningu á mynd Helga Felixsonar, "Guð blessi Ísland"  og tek ofan fyrir honum og samstarfólki hans. 

Ef einhvern tíma var þörf á svona heimildarmyndagerð á Íslandi var það á þessu ári, sem liðið er frá hruninu.

Helgi fer þá ágætu leið að segja söguna að mestu í gegnum þrjár persónur, Evu Hauksdóttur, Sturlu Jónsson og Dúna Geirsson.

Í myndinni úir og grúir af minnisverðum myndskeiðum og Helga tekst að laða fram hið mannlega, jafnt í hversdagslífinu sem í mögnuðum atburðum búsáhaldabyltingarinnar.

Við sjáum fólk í nýju ljósi í samskiptum þess við sína nánustu.  

Fyrsta myndskeiðið af Geir Haarde þögulum áður en hann byrjar að tala í myndavélina er afar sterkt. Maður fær samúð með honum sem manneskju, finnur hvað honum er mikið niðri fyrir og hugsi yfir því sem á honum og öllum hefur dunið.  

Þetta upphafsmyndskeið gefur tóninn.

Ýmis ummæli í myndinni eru minnisverð svo sem þegar Björgólfur Thor Björgólfsson segir að það sé misskilingur þegar fólk spyr, hvert allir þessir peningar hafi farið, rétt eins og þeir hafi farið af einni hönd yfir á aðra. 

"Peningarnir fóru ekki neitt", segir Björgólfur, - "peningarnir hurfu bara."

Jón Ásgeir Jóhannesson lýsir því ágætlega hvernig hinir íslensku útrásarvíkingar voru komnir inn í samfélag skæðustu peningamanna heimsins og drógu dám af þeim.

Hann segir að hrunið hafi aldrei þurft að verða en í þeim ummælum tel ég hann vera ósamkvæman sjálfum sér.

Hinir íslensku nýliðar fengu glýju í augun í því alþjóðlega umhverfi blindrar gróðahyggju og áhættufíknar, sem þeir soguðust inn í.

Þetta gat aldrei endað nema með hruni. Ef það er rétt hjá Björgólfi að peningarnir hafi horfið, voru þeir að mestu leyti aldrei til og slík blekking gat aldrei endað nema á einn veg.   

 

 

  


mbl.is Biður þjóðina afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mestur hluti Skerjafjarðar er eftir.

Framtak Garðabæjar er stórt skref í rétta átt varðandi verndun Skerjafjarðar og annarra náttúruverðmæta á höfuðborgarsvæðinu. Margir góðir Garðbæingar hafa lagt þessu lið um árabil og má þar nefna Ólaf G. Einarsson, fyrrverandi bæjarstjóra, ráðherra og forseta Alþingis.

Nú er að sjá hvert framhaldið verður hvað snertir mestallan Skerjafjörð, svæði sem liggja í lögsögu Álftaness, Kópavogs, Reykjavíkur og Seltjarnarness.

Í ráðherratíð Sivjar Friðleifsdóttur var lagður grunnur að því að allur Skerjafjörður yrði friðaður.  

Ein af náttúrperlum fjarðarins eru Löngusker, en þar sem selir og fuglar eiga sérstæðan griðareit.

Ein af hugmyndum um Reykjavíkurflugvöll hefur verið sú að byggja flugvöll á skerjunum.

Mér hefur fundist sú hugmynd mjög óraunhæf. Halda menn virkilega að íbúarnir í öllum sveitarfélögunum við Skerjafjörð muni samþykkja Löngusker sem flugvallarstæði?

Í öðru lagi er þessi hugmynd líka slæm, jafnvel þótt menn samþykktu að gera uppfyllingu á skerjunum.

 

Flugvöllur á Lönguskerjum byggist á því að fara út í þrjú verkefni: 

1. Byggður flugvöllur á Lönguskerjum.

2. Rifinn flugvöllur í Vatnsmýri. (Aðeins 30% hans er þó í Vatnsmýri)

3. Reist íbúðabyggð í Vatnsmýri.

 

En ef menn vilja hafa flugvöll á Skerjafjarðarsvæðinu, hvers vegna er þá dæmið ekki leyst með því að fara út í aðeins eitt verkefni í stað þriggja:

 1. Reist íbúðabyggð á Lönguskerjum.  Málið dautt.

 

Ég fæ meðal annars þau andmæli að það sé svo mikið saltrok á Lönguskerjum. Einmitt það. Er betra að saltrokið leiki um flugvélarnar ?

Niðurstaða mín: Leyfið þið Skerjafirði að vera í friði sem og Reykjavíkurflugvelli með lagfæringum sem gera hann bæði betri, færa hann fjær miðborg Reykjavíkur og afleggja flug yfir Kársnes. Get bloggað um það síðar.   


mbl.is Gálgahraun og Skerjafjörður formlega friðlýst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórkostlegur Íslendingur.

Baltasar Kormákur er einn merkasti Íslendingur samtímans. Hann er ekki fyrirferðarmikill í fjölmiðlum eða slær um sig, heldurmaður sem lætur verkin tala.

Árangur hans segir meira en mörg orð um það hvað í honum býr.

Það eru svona menn sem við þurfum á að halda nú þegar kreppir að.


mbl.is Stærsta verkefnið til þessa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aftur 1958, 1974, 1979 eða 1989 ?

Staðan núna hjá stjórnarmeirihlutanum varðandi Icesave-málið minnir um margt á ástandið, sem ríkti hjá þremur fyrri vinstri stjórnum á liðinni öld, árin 1958, 1974 og 1979.

Snemmsumars 1958 nötraði vinstri stjórn vegna ágreinings um landhelgismálið, sem var stórmál þess árs.

Þegar stjórninni tókst að sigla í gegnum þennan ólgusjó vonuðu vafalaust margir fylgismenn hennar að framundan væri lygnari sjór. En um haustið sprakk hún út af ágreiningi um aðgerðir í efnahagsmálum.

Veturinn 1973-74 fóru að koma brestir í samstarfið í vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar. Bjarni Guðnason varð fyrstur til að segja sig frá borði og vonuðu velunnarar stjórnarinnar að fleiri fylgdu ekki á eftir.

Erfitt er að bera saman brottför Bjarna þá og Ögmundar nú, því Ögmundur segist styðja stjórnina þrátt fyrir brotthvarf sitt úr ríkisstjórn.  

En það fór á aðra lund, því að Björn Jónsson og Hannibal Valdimarsson sögðu sig frá stjórninni og Ólafur Jóhannesson rauf þing með miklum hvelli og var hart um það deilt.

Ástandið á útmánuðum 1979 svipaði um flest til ástandsins nú. Allt frá myndun stjórnarinnar haustið 1978 hafði stjórnarsamstarfið verið mjög erfitt með ótal fundum, þar sem ráðherrarnir tókust á um málin.

Ólafi Jóhannessyni tókst að binda enda á þetta ástand á útmánuðum með setningu svonefndra Ólafslaga, sem leiddi í lög verðtryggingu lána, sem að vísu batt enda á gríðarlegt óréttlæti gagnvart sparifjárieigendum og lánveitendum en kom af stað ástandi, sem er sérstaklega erfitt við að etja nú.

Nú virtist sem ríkisstjórnin sigldi lygnan sjó, en um haustið var haldinn fundur hjá Alþýðuflokksmönnum í Reykjavík, sem svipaði um margt fundi Samfylkingarinnar síðastliðið haust, þar sem örlög þáverandi ríkisstjórnar hennar með Sjálfstæðisflokksins voru í raun ráðin.

Fundurinn 1979 kom eins og þruma úr heiðskíru lofti og vinstri stjórnin sprakk með háum hvelli.

1989 var hér enn vinstri stjórn og virtist að því leyti til valtari en þær fyrri, að hún mátti ekki við því að missa eitt einasta atkvæði á þingi og gat lent í minnilhuta í þingnefndum.

En hún vann öll hlutkestin og fyrir einstaka stjórnunarhæfileika Steingríms Hermannssonar tókst henni að stija út allt kjörtímabilið, fyrst allra vinstri stjórna. 

Á síðari hluta valdatíma þessarar ríkisstjórnar stóðu fimm aðilar að henni, Framsóknarflokkurinn, Alþýðubandalagið, Alþýðuflokkurinn, Borgaraflokkurinn og Stefán Valgeirsson og því spáðu margir því að hún hlyti að springa vegna þess að reynslan sýndi, að því fleiri sem flokkarnir væru, sem stæðu að ríkisstjórn.

Vitnuðu menn þá til þriggja flokka stjórna sem sátu 1947-49, 1971-74, 1978-79 og 1987-88 og sprungu allar þrátt fyrir ríflegan þingmeirihluta.

Einnig hefði engri fyrri vinstri stjórn hafði tekist að sitja fram að kosningum.  

Allt þetta afsannaði þessi ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar og þess vegna er ástandið núna svo spennandi, þrátt fyrir allt.   

 


mbl.is Hétu öll stuðningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögbrot?

Mér skilst að reglur um Fálkaorðuna séu á þann veg að hver orða fyrir sig sé um eilífð eign íslenska ríkisins.

Þeir sem er sæmdir orðunni undirgangast þá skyldu að skila henni aftur við dauða sinn. Getur líklega orðið snúið fyrir hina látnu og erfitt fyrir íslenska ríkið að ganga að þeim og krefja þá um orðuna. 

Gaman væri að fá skýringu á því hvernig Fálkaorða getur gengið kaupum og sölum fyrir dágóðan skilding eins og greint er frá í frétt á mbl.is.

Hlýtur það ekki að vera lögbrot?  


mbl.is Fálkaorða seld fyrir nær hálfa milljón
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband