30.11.2008 | 23:51
Ekki að klappa með kattarrófunni.
![]() |
Aðför að fréttastofunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.11.2008 | 23:39
Ekki slaka á !
Ég sá hluta af leik Chelsea og Arsenal í dag. Þar var leikmönnum skipt út af og inn á til að styrkja liðin. Ef annað hvort þessara liða fer að förlast flugið og tapa oft, mikið og lengi, er þjálfunum skipt út af. Þetta er ekki spurning um sökudólga eða refsivert athæfi, heldur spurning um að mannskapurinn nái sem bestum árangri.
Þetta er gert tii að forðast ófarir og niðurlægingu. Ekkert slíkt virðist í gangi í mestu hrakförum íslenskrar þjóðar í manna minnum. Allir spila inni á eins og ekkert hafi í skorist og enginn þarf að fara eða tekur í mál að fara út af.
Þess vegna er nauðsynlegt að slaka ekki á hjá þeim grasrótarhreyfingum utan þings sem nú láta að sér kveða.
Borgarahreyfingin er ein þeirra og ein þeirra heitir reyndar Íslandshreyfingin - lifandi land.
Ekki slaka á 1. desember! Bæði stofnun Auðlindar á morgun og þjóðfundir Borgarahreyfingarinnar eru atburðir sem verða að takast vel.
![]() |
|
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.11.2008 | 23:17
Rikki í meira en 60 ár!
Ég var aðeins sex ára gamall þegar Ríkarður Jónsson varð eitt átrúnaðargoðum mínum. Pabbi var útnefndur efnilegasti knattspyrnumaðurinn hjá Fram 1939 en hætti að spila fótbolta. Hélt samt alltaf mikilli tryggð við Fram og skráði mig inn í félagið nokkrum mánuði fyrir fæðingu.
Á síðari hluta fimmta áratugarins spilaði Ríkarður Jónsson fyrir Fram vegna fjarveru sinnar af skaganum. Í þá daga var langt upp á Skaga, meira en 110 km akstur eftir krókóttum og mjóum malarvegum. Hinn kornungi Rikki sló í gegn hjá Fram meðan hann spilaði fyrir félagið mitt.
Þegar hann fór að spila með gullaldarliði Skagans og þjálfa það óx aðdáunin enn á honum. Helsti kostur Rikka voru fjölbreyttari hæfileikar sem knattspyrnumanns en nokkur annar Íslendingur, að Albert Guðmundssyni einum undanskildum, bjói yfir.
Donni hafði frábæra knatttækni, Þórður Þórðarsson hafði einstakan líkamsstyrk,hraða og skotfestu og skoraði flest mörk sum sumrin, en Ríkarður hafði þetta allt plús einstaka yfirsýn og stöðuskyn og frábæra skallatækni.
Gullaldarlið Skagamanna átti hug þúsunda Reykvíkinga þeirra á meðal minn hug og hjarta. Rikki innleiddi byltingu í íslenska knattspyrnu.
Hæst reis dýrð Ríkarðs í Svíaleiknum þegar silfurþjóðin tapaði á Melavellinum 29. júlí 1951 og Ríkarður skoraði fimm mörk sem öll voru í raun lögleg þótt eitt þeirra væri ranglega dæmt ólöglegt.
Í Kalmar 1954 áttu Íslendingar í fullu tré við sænska silfurliðið á heimavelli þess. Íslendingar töpuðu að vísu með eins marks mun en fengu einróma lof sænsku pressunnar. Ríkarður var sagður einn af bestu knattpyrnumönnum Evrópu.
Ég var í sveit og sá ekki Svíaleikina en hlustaði þeim mun betur á útvarpslýsingar Sigga Sig.
Minnisstæðastur er mér Ríkarður þegar hann skoraði sigurmarkið gegn Norðmönnum á Laugardalsvelli með frábærum skalla.
Þetta var svo dramatískt. Örn Steinsen komst upp hægri kantinn og gaf á Rikka sem kom á ferðinni vinstra megin, stökk hæst allra og skallaði óverjandi í markið. En viti menn! Dómarinn dæmdi markið af og taldi ranglega að um ólöglega bakhrindingu Ríkarðs hefði verið að ræða.
Allt varð vitlaust á vellinum en þeir félagar Örn og Rikki lögðu ekki árar í bát. Skömm síðar óð Örn aftur upp hægri kantinn og gaf langa og hnitmiðaða sendingu yfir á vinstri vallarhelminginn þar sem Rikki stökk aftur upp alveg eins og í fyrra skiptið, hærra en aðrir, og skallað enn fallegar í markið!
Og nú var ómögulegt að sjá nokkuð athugavert og markið var dæmt gilt.
Já, það vafðist ekki fyrir mér að hnoða saman textanum "Skagamenn skoruðu mörkin" með minningarnar ljóslifandi af þeim flottustu sem Rikki skoraði. Sá á skilið heiður og sóma!
![]() |
Ríkharður heiðursborgari |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.11.2008 | 14:24
Prófraun fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Ef það er rétt að 200 flokksfélög eigi aðild að landsfundum Sjálfstæðisflokksins mætti ætla að á þeim fundum blómstraði lýðræðið. Ég hef fylgst óbeint með þessum fundum í 60 ár. Fyrst var það í gegnum foreldra mína, sem sóttu þessa fundi alla þeirra tíð, og frá 1959 hef ég auk þess skemmt á flestum fundanna og hitt margt landsfundarfólk í tengslum við það.
Sumrin 1959 og 1960 vann ég á skrifstofu flokksins þann tíma sem ég skemmti á héraðsmótum hans, því að héraðsmótin tóku mikinn tíma og komu í veg fyrir að ég gæti haft aðra vinnu.
Kona mín hefur verið landsfundarfulltrúi í áratugi og var varaborgarfulltrúi í sextán ár. Ég hef alla tíð átt vinskap og samskipti við fjölmarga góða og gegna Sjálfstæðismenn. Aldrei hef ég þó verið félagi í flokknum og aldrei skilgreint mig pólitískt sem Sjálfstæðismann, heldur kosið fleiri en einn og fleiri en tvo í kosningum.
Ég held að ég geti því sagt af nokkurri afspurn og reynslu að 200 félaga lýðræðið hafi ekki virkað nema að hluta til á þessum fundum og því miður alls ekki á stundum í stærstu málum þjóðarinnar. Agavald forystu flokksins hefur oft fengið að ráða og aldrei eins svakalega og á síðari hluta valdatíma Davíðs.
Dæmi: Þótt skoðanakannanir sýndu að helmingur þeirra sem kjósa myndu flokkinn væri á móti Kárahnjúkavirkjun þorðu landsfundarmenn ekki annað en að hrekja Ólaf F. Magnússon úr ræðustóli og niðurlægja hann þegar hann bar upp hóflega orðaða tillögu í málinu.
Í kvótamálinu var valtað yfir þá í sjávarútvegsnefnd fundarins sem vildu ekki þýðast flokkslínuna í einu og öllu.
Á valdatíma Davíðs hefði verið óhugsandi að taka aðra afstöðu en gegn öllu ESB-tali. Komandi landsfundur verður prófraun fyrir flokkinn. Þá mun koma í ljós hvort búið sé að leika hann svo hart að nauðsynlegar breytingar innan hans til aukins lýðræðis verði endanlega kistulagðar.
![]() |
Teflt á tvær hættur með Evrópuumræðunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.11.2008 | 14:05
Kjósa um málið.
Skiptar skoðanir um ESB hafa haldið stjórnmálum Íslands of lengi í gíslingu. Þetta er stórmál og það á að kjósa sérstaklega um stórmál. En það hefur ekki verið gert á lýðveldistímanum. Hvað er svona voðalegt við að þjóðin kjósi um stærstu mál sín?
Menn segja að það skorti upplýsingar og þess vegna geti þjóðin ekki myndað sér skoðun. En hverjum er það að kenna að það skortir upplýsingar? Jú, þeim sömu og segja að það skorti upplýsingar.
Menn segja að ekki megi kjósa um stórmál samhliða alþingiskosningum af því að stór mál skyggi á hin málin. Þetta var notað sem röksemd gegn því að kjósa um Kárahnjúkavirkjun 2003. Það mátti ekki skyggja á litlu kjördæmapotsmálin þingmannanna.
Menn segja að það sé oft erfitt að orða spurninguna sem kjósendur eigi að svara. En það er ekkert erfitt í þeim stóru málum sem hefði mátt kjósa um sérstaklega á lýðveldistímanum. Annað hvort áttum við að fara inn í NATÓ eða ekki. Annað hvort áttum við að samþykkja eða hafna EFTA-samningnum. Annað hvort áttum við að ganga inn í EES eða ekki. Annað hvort áttum við að byggja Kárahnjúkavirkjun eða hætta við hana. Annað hvort áttum við að samþykkja fjölmiðlalögin eða hafna þeim.
Ég var orðinn svo pólitískur í hugsun árið 1949 að ég var fylgjandi því að við gengjum í NATÓ og hef ekki skipt um skoðun síðan. Margir segja að það hefði verið fellt í þjóðaratkvæði og að þess vegna hefðum við ekki átt að kjósa sérstaklega um það. Þá það. ÞJóðin hefði fengið að ráða og raunar efast ég um að NATÓ-aðild hefði verið felld eftir ítarlega og góða umræðu. Í kosningum síðar sama ár fengu flokkarnir sem vildu ganga í NATÓ yfirgnæfandi meirihluta á þingi.
Það má ekki dragast lengur að þjóðin sjálf ákveði sérstaklega hvert halda skuli í ESB-málinu. Þess vegna mætti kjósa um það á útmánuðum hvort við eigum að ganga til viðræðna. Ef það er fellt er málið dautt í bili. Ef það er samþykkt verður gengið til samninga og þá verður aftur þjóðaratkvæði um hann,
Það á að kjósa sérstaklega um stórmál og líka sérstaklega um hvern einasta frambjóðanda. Í kjörklefanum.
![]() |
|
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.11.2008 | 22:52
Hrakningar og strönd í skerjagarði krónunnar.
Eftir að LÍU hefur nú gefist upp á fjótandi eða sökkvandi krónu virðist forsætisráðherra loksins vera að sjá að áframhaldandi hrakningar á sökkvandi krónu getur ekki verið framtíðarsýn Íslendinga. Hefði mátt viðurkenna það fyrr.
Hörmingarsaga krónunnar hefur verið stanslaus síðan hún var losuð úr samfloti við dönsku krónuna árið 1922.
Þótt hún væri stækkuð hundraðfalt árið 1981 stefnir danska krónan í að verða þrjátíu sinnum verðmeiri en sú íslenska en það þýðir í raun að íslenska krónan hefur fallið 3000-falt (100x30) á 86 árum miðað við þá dönsku.
Í framhaldi af því að losa íslensku krónuna frá þeirri dönsku kom gengishækkun sem hafði svipuð áhrif og of há staða krónunnar 2004-2008, með mikilli framkvæmdagleði sem byggðist þá að hluta til á óraunhæfri skráningu.
Þegar kreppan skall á með tilheyrandi gjaldeyrishöftum 1931 varð krónan að einu helsta vandamáli íslenskrar hagstjórnar næstu 77 ár.
Þjóðstjórnin neyddist til að fella hana 1939 og hún var síðan aftur felld 1950 og búið til aldeilis fáránlegt kerfi margfaldrar skráningar með svonefndum bátagjaldeyri og sífellt flóknara kerfi hafta og spillingar sem viðreisnarstjórninni tókst að afnema án þess að höftin og mismununin hyrfu alveg.
Viðreisnarstjórnin felldi krónuna um 13% árið 1961 og aftur tvívegis árið 1967. Þá söng ég undir lagi úr söngleiknum Mary Poppins: "Fella gengið hrika ganta gríðar yndislega!"
Svonefnt "Bronkó-æði" 1966 sem stóð í meira en áratug stafaði af því að hér var haldið uppi kerfi mismununar í tollum og aðflutningsgjöldum á bílum.
Raunar hefur það kerfi aldrei verið afnumið samanber stórfelld fríðindi varðandi pallbíla sem hinir allsráðandi verktakar hafa viðhaldið.
Loksins hillir þó vonandi undir það að í stað hrakninga og stranda í skerjagarði krónunnar verði loks tekin ákveðin stefna í stað þess að láta reka á reiðanum.
![]() |
Allt opið í gjaldeyrismálum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
29.11.2008 | 16:05
Firring.
Geir H. Haarde var fjármálaráðherra og síðan forsætisráðherra allar götur frá 1999. Hann jók á í samvinnu við Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson það gerspillta kerfi sjálfltökustjórnmála, sem birtist á ótal vegu, ekki síst í sölu bankanna.
Hann gerði að vísu einn góðan hlut, lét ríkissjóð borga erlendar skuldir sínar. En hann spilaði með í því að þenja ríkisbáknið meira og hærra en þekkst hefur í sögunni, studdi upphaf þenslunnar með stóriðjuæðinu, húsnæðismálasprengingunni og síðar brjálæðislegri skuldasöfnun þjóðarbúsins erlendis í takt við ranga skráningu krónunnar sem bauð þjóðinni til veislu.
Hann var í stuttu máli einn af þremur aðalarktitektum kerfis kolrangrar og ábyrgðarlausrar efnahagsstefnu sem gat ekki endað nema með hruni.
Því er það hámark firringarinnar þegar Geir telur sig ekki bera neina persónulega ábyrgð. Og ver höfuðarkitektinn Davíð Oddsson með kjafti og klóm.
![]() |
Geir: Tel mig ekki persónulega ábyrgan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
29.11.2008 | 15:50
Skaðlegur ósveigjanleiki.
Fundahöldin í haust eiga engin fordæmi hvað snertir þrautseigju fundarmanna enda tilefnið einstakt. En ráðamenn þjóðarinnar spila sennilega heima hjá sér plötuna með Halla og Ladda og synga: "Látum sem ekkert C".
Aðeins tvisvar á lýðveldistímanum hafa ráðherrar orðið að segja af sér og þá af miklu minna tilefni en nú.
Raunar held ég að nær engir muni eftir tilefninu í síðara skiptið.
Kann að vera að ráðamenn nú kalli líti á óbilgirni sína sem staðfestu en í ljósi tilefnisins til vantrausts á þeim getur þetta ekki flokkast undir neitt annað en skaðlegan ósveigjanleika. Kröfurnar á fundunum hafa verið margar en svo er að sjá sem ekki eigi að verða við einni einustu.
Þúsundum fólks er sagt upp störfum en þeir sem ábyrgð bera sitja sem fastast. Hver sú persóna sem nú hefur misst vinnuna getur tekið það áfall á þann hátt að það sé verið að "persónugera" gagnvart henni. En þegar rætt er um að ráðamenn víki má víst alls ekki "persónugera."
Ef mótmælafundirnir og andófið minnkar eru send röng skilaboð til ráðamanna og þeim leyft að styrkjast í þeirri trú að þeir komist upp með hvað sem er og geti sloppið með því að þumbast nógu lengi við.
Þetta er hættuleg afstaða og þegar kemur fram á útmánuði á ástandið vafalaust eftir að verða enn verra en það er nú. Þúsundir fólks, sem hefur misst allt sitt, finnst að það hafi engu að tapa og er því tilbúnara í aðgerðir en ella.
Minna má á orð Ingjalds í Hergilsey, þegar hann ákvað að berjast og fórna lífi sínu fyrir Gísla Súrsson gegn ofurefli höfðingjanna. Á þeim tíma var staða manna metin eftir fatnaði. Ingjaldur var fátækur eyjabóndi, stóð á Vaðsteinabergi í slitnum og lélegum fötum og sagði: "Ek hefi vond klæði og hryggir mig eigi þótt eg slíti þeim eigi gerr." Hann hafði engu að tapa og orð hans lifa.
Reynslan sýnir að slíkir eru oft tilbúnir í rótttækar aðgerðir en aðrir. Ef upp úr síður bera þeir sem þverskallast við kalli tímans mikla ábyrgð og var varla á hana bætandi.
![]() |
Kaupmenn þrauka fram yfir jól |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.11.2008 | 01:40
Slæmar fréttir fyrir fréttirnar.
Það er hægt að taka undir það með Óðni Jónssyni að á þeim tímum þegar aldrei hefur verið þörf á öflugri frétta- og blaðamennsku skuli niðurskurður í fjölmiðlum bitna mest einmitt á þeirri starfsemi sem helst er undirstaða lýðræðis og réttlætis.
Undanfarin ár hefur komið vel í ljós hvernig græðgisæðið blindaði jafnt fjölmiðla sem aðra. Enginn fréttamiðill eða fjölmiðlamaður þóttist maður með mönnum nema að einblína á glæsifréttir og æsifréttir úr viðskiptalífinu, sem stundum tóku alla athyglina í heilu fréttatímunum.
Ég hef áður í bloggpistlum lýst því hvernig þetta fréttamat valtaði yfir mikilvægari málefni.
Einmitt núna, þegar menn eru að átta sig á því sem fór úrskeiðis og vilja gera betur, kemur kreppan, sem meðal annars stafaði af ónógri upplýsingagjöf, og kæfir þetta í fæðingu. Já, nú má segja það sem sagt var fyrir einni og hálfri öld að "Íslands óhamingju verður allt að vopni."
![]() |
Kemur á versta tíma |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.11.2008 | 18:37
Munnar manna eða dýra?
Í ágætri frétt hjá RUV í kvöld var mikið rætt um munna, sem kæmu við sögu í smalamennsku. Aldrei var þó upplýst hvort þetta væri munnar manna, hesta, kinda eða hunda. Ég heyrði ekki upphaf fréttarinnar en fljótlega kom í ljós að rætt var um framkvæmdir á Vestfjörðum, nánar tiltekið jarðgöng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar.
Varla verða þessi göng þó notuð til að reka fé í gegnum þau heldur virðist sá misskilningur á ferð að munna á jarðgöngum eigi að kallað gagnamunna. Þegar þetta er endurtekið sjö til átta sinnum í sömu fréttinni gefur það þessari málleysu aukinn trúverðugleika.
Hið rétta orð er "gangamunnar", ekki "gangnamunnar". Smalamenn eru gangnamenn en bormenn í jarðgöngum gangamenn eða gangagerðarmenn.
Orðið göng beygist svona: Göng um göng frá göngum til ganga.
Orðið göngur beygist svona: Göngur um göngur frá göngum til gangna. Punktur.
Bloggar | Breytt 29.11.2008 kl. 01:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)