Hvað er pólitík?

Spilling og sérhagsmunagæsla hafa komið vondu orði á pólitík og orðið til þess að fæla fólk frá þátttöku í henni. Ekkert er hættulegra lýðræðinu og þess vegna er stóraukinn pólitískur áhugi þessar vikurnar af hinu góða.

En vegna þess hve orðið hefur fengið neikvæða merkingu hyllast margir til að segjast ekki vera pólitískir þótt þeiri séu í raun þrælpólitískir. Fundirnir á Austurvelli eru pólitískir eins og ályktanir og ræður á þeim bera glöggt vitni um.

Það er ekki hægt að stunda knattspyrnu án þess að spyrna boltanum og leika honum inn í mark andstæðinganna eftir ákveðnum reglum. Ákveðinn fjöldi leikmanna má vera inni á vellinum og einn þeirra er markmaður. Það er hins vegar hægt að stunda íþróttir á ódrengilegan hátt, beita bolabrögðum og koma óorði á þær.

Stjórnmál snúast um að skipa málum þjóðfélagsins á sem bestan hátt. Menn skipa sér í hópa, félög, flokka og fylkingar í samræmi við meginskoðanir þótt þær kunni að vera skiptar um áherslur og einstök málefni. Það er ekki bæði hægt að halda og sleppa eins og marga dreymir um, annað hvort eru menn í pólitík eða ekki, eru inni á knattspyrnuvellinum að spila eða ekki.

Ævinlega verða menn þó að fara eftir sannfæringu sinni og leitast við að vera heiðarlegir og hreinskiptnir. Þingmenn vinna eið að þessu og þannig hefur Kristinn H. Gunnarsson líklega metið afstöðu sína, þótt aðrir séu honum ósammála.

Gallinn við ástandið núna er að auðheyrt er að fólk hefur vantrú á þingflokkunum, jafnt í stjórn sem stjórnarandstöðu. Sjálfstæðisflokkurinn er í sárum og klofinn um ESB og Samfylkingin klofin og talar bæði eins og hún sé í stjórn og stjórnarandstöðu. Í stjórnarandstöðunni eru loga smærri flokkarnir Framsókn og Frjálslyndir í illdeilum og VG er úti á vinstri kantinum á sama tíma sem 80% kjósenda er í raun nálægt miðjunni.

Líklega myndi þjóðstjórn litlu breyta nema innan hennar yrðu í bland við stjórnmálamennina fagfólk utan flokka, sem hefur haft rétt fyrir sér allan tímann og hefur burði til að taka þátt í endurreisninni.

Þegar knattspyrnulið tapar illa æ ofan í æ og missir alla tiltrú er skipt um fyrirliða og þjálfara og gerðar breytingar á liðinu. Með því er ekki sagt að menn hafi gerst brotlegir við lög, einungis að menn sem kunna betri leikaðferð eru teknir inn á. Ég á erfitt með að sjá hvernig menn ætla sér að komast hjá þessu á tímum þar sem hver einasti kjósandi er minntur daglega á þessi mál þegar hann tekur upp veski sitt.

Bandaríkjamenn áttu ekki í vandræðum með að vera í hörku kosningabaráttu á sama tíma og setja þurfti neyðarlög. Frambjóðendurnir lögðu þar hönd á plóg og sýndu pólitískan þroska sem oft virðist skorta hér á landi.


mbl.is Afstaða Kristins tekin fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljós í myrkrinu.

Stofnun Auðlindar og ekki síður nöfn fólksins, sem standa að henni, er mér gleðiefni. Þetta er ljós í því myrkri sem íslenskur þjóð gengur nú í gegnum og stofnar dýrmætustu auðlindum landsins í meiri hættu en nokkru sinni fyrr vegna þeirrar skammsýni og örvæntingarfullrar ásóknar í verðmæti, sem taka á frá afkomendum okkar.

Auðlindin mesta er einstæð náttúra landsins, eitt af helstu undrum veraldar, sem okkur ber að varðveita fyrir mannkyn allt.

1. desember 1918 var þjóðin í öldudal síðustu stóru drepsóttarinnar, hafíss og kreppu, sem fór dýpra árið áður en nokkur önnur á 20. öldinni. Þá var fullveldið ljós í myrkrinu og í hönd fór áratugur batnandi hags og framfara.

Það fer vel á því að á 90 ára afmæli fullveldisins kvikni enn ein samtökin sem nú spretta upp í grósku áhugasamtaka á rústum hins gamla Íslands spillingar og græðgi sem víkur vonandi fyrir nýju Íslandi, þar sem vikið verður burtu því tillitsleysi gegn komandi kynslóðum sem viðgengist hefur.


mbl.is Ný samtök um náttúruvernd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar liggja mörkin?

Þegar ég var dagskrárritari Sjónvarpsins var fluttur þar frægur þáttur með Halldóri Laxness, Jónasi Árnasyni, Matthíasi Johannessen og Gunnari Gunnarssyni. Eftir upptöku hans var þess krafist að þátturinn yrði tekinn upp aftur en Rúnar Gunnarsson, upptökustjóri og Laxness sjálfur lögðust gegn því. Þátturinn var því sýndur.

Vegna starfa míns komst ég síðar að því að þátturinn hafði verið þurrkaður út en vissi að hljóðupptaka hans yrði geymd í heldur lengri tíma. Sú spurning kom upp í huga mér að "hirða" hljóðupptökuna þegar ætti að farga henni, þ. e. að gerast "litli sjónvarpsmaðurinn". Af því varð ekki og ég harma það alla tíð.

Í staðinn lagði ég fræga ræðu Laxness á minnið og get enn flutt hana utanbókar. Hef gert það í Kastljósi en þar vantar samt eina setningu. En eitt varð mér ljóst: Að samvisku minnar vegna mætti það aldrei gerast aftur að ómetanleg verðmæti færu forgörðum á þennan hátt. Þetta var í eina skipti á ferli manns aldarinnar sem hann tók á honum stóra sínum á eftirminnilegan hátt. Í mínum huga hafði "litli sjónvarpsmaðurinn" brugðist.

1999 var hafin mikil herferð fyrir því að ég yrði rekinn, en rannsókn á vegum útvarpsráðs hreinsaði mig af þessum áburði. Áfram héldu samt árásir í blöðum og á fundum útvarpsráðs og Halldór Ásgrímsson tók mig á beinið. Að lokum gat ég ekki haldið áfram þeirri sjálfsritskoðun sem af þessu leiddi og hætti.

Svona sjálfsritskoðun beinist ekki aðeins að manni sjálfum heldur líka að heiðri vinnustaðarins og starfsfélaga sem maður vill ekki koma í bobba.

20. desember 2001 tók ég viðtal við Siv Friðleifsdóttur þar sem kom í ljós að hún skildi ekki helsta lögmálið sem þessi úrskurður hlaut að byggjast á. Vegna takmarkaðs tíma sem ég hafði komst þessi hluti viðtalsins ekki að og ég lagði ekki í að berjast fyrir birtingu hans síðar því að þá hefði ég gert allt vitlaust og verið sakaður um ofsóknir á hendur Framsóknarflokknum og hugsanlega öll fréttastofan.

Minnugur atviksins frá 1970 ákvað ég samt að greina frá þessum kafla viðtalsins í bókinni "Kárahnjúkar - með og á móti", sem kom út 2004.

Ofangreint vil ég upplýsa til að útskýra stöðu G. Péturs Matthíassonar í því máli sem er komið upp varðandi upptöku af viðtali við Geir H. Haarde, búti sem aldrei var birt.

Ég sé á blogginu að menn hafa horn í síðu G. Péturs fyrir að birta ekki viðtalið strax en ef einhver ætti að skilja aðstöðu hans þá er það ég.

Þegar viðtölin við Geir og Siv voru tekin voru þau bæði þess meðvitandi að sjónvarpsupptökuvél var í gangi. G. Pétur hefði þess vegna getað endað viðtalið þar sem það var komið og birt það eins og það stóð þá. En hann kaus að halda friðinn og taka öðruvísi viðtal.

Siv bað mig um að hætta þegar ég spurði hana grundvallarspurningar og hún skynjaði hvaða steypa svar hennar var. Hún fór fram á að ég gæfi henni umhugsunartíma og tæki spurninguna og svarið aftur.

Ég gerði það að sjálfsögðu og kvaðst gefa henni allan þann tima sem hún teldi sig þurfa. En þegar við byrjuðum aftur kom sama steypan á ný því að hún vissi ekki betur. Í framtíðinni munu menn staðnæmast við þetta og undrast á hvaða forsendum Kárahnjúkavirkjun var metin af sjálfum umhverfisráðherra Íslands. En þá verðum við öll sjálfsagt dauð.


mbl.is Krafa um að viðtali við Geir verði skilað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofurvald "fjárfesta".

Fjárfestar svonefndir kollsteyptu þjóðarbúinu í haust. Þessi öfl hafa verið iðin við kolann allt frá því að íslensk stjórnvöld auglýstu orku landsins til útsölu á alþjóðlegum markaði árið 1995.

"Fjárfestar" ákváðu að í stað hóflega stórs 120 þúsund tonna álvers í Reyðarfirði skyldi reist 346 þúsund tonna álver með margfalt meiri umhverfisspjöllum. Þjóðinni var þar með boðið í veislu. "Sjáið þið ekki veisluna, drengir?" urðu fleyg orð fjármálaráðherrans.

Þrætt var fyrir þau endanlegu áform að reisa 360 og 340 þúsund tonna álver í Helguvík og á Bakka og sagt að 240-250 þúsund tonna álver myndu nægja.

Það var gert til að koma íslenskum stjórnvöldum á spenann og teygja þau svo langt að ekki yrði aftur snúið.

Nú koma fjárfestarnir og segja að ekkert geti orðið úr álverunum nema þau verði stækkuð. Samtals er viðbótin um 200 þúsund tonn af áli á ári sem krefjast munu allt að 350 megavatta orku til viðbótar við þau rúmlega 400 megavött sem upphaflega var sagt að myndu nægja.

Íslenskum stjórnvöldum, (sem Þórunn Sveinbjarnardóttir lýsti svo vel á borgararfundinum í Háskólabíói í gær með því að segja að Íslendingar hefðu reynst fullfærir um það sjálfir að rústa náttúru landsins,) er stillt upp við vegg sem þau hafa reist sjálf með skefjalausri þjónkun sinni við útlend stóriðjufyrirtæki og innlenda verktaka.

Álfurstarnir krefjast þess að miklu skárri orkunotendum, netþjónabúunum, verði rutt í burtu.

Stjórnvöld eru viljalaus verkfæri erlendra gróðaafla sem markvisst vinna að því að ná öllum orkuauðlindum Íslands undir sig og gefa skít í það þótt Íslendingar fórni mestu auðæfum landsins sem felast í einstæðri náttúru.

Hrun fjármálakerfisins í haust var bara forsmekkurinn af því sem stefnt er að, að Íslendingar verði leiksoppar ofureflis erlendra og innlendra fjárgróðamanna sem er nokk sama um það þótt Íslendingum sé steypt í smán og niðurlægingu.

Þeim er skítsama um þótt þessar 300 þúsund hræður verði ofurseld erlendu valdi um aldur og ævi.


mbl.is Orkuöflun í mikilli óvissu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

70% þjóðarinnar eru ekki þjóðin!

1500 manns sem komu á stærsta innanhúss mótmælafund sem ég man eftir eru ekki þjóðin að mati oddvita ríkisstjórnarinnar. Þó voru þessir 1500 manns áreiðanlega fulltrúar þeirra 70% þjóðarinnar sem samkvæmt skoðanakönnun treysta ekki ríkisstjórninni.

Oddvitar ríkisstjórnarinnar virðast álíta að þau 30% þjóðarinnar, sem styðja ríkisstjórnina, séu frekar þjóðin en hin 70% sem ekki styðja hana. Nema að þjóðin sé ekki til í þeirra huga heldur misnotað hugtak frá dögum Þjóðviljans sáluga.

Fyrir utan vantraustið sem fundurinn túlkaði voru það komandi gjaldþrot heimila sem var meginstef þessa fundar. Ljóst er að "umfangsmiklar aðgerðir" sem ríkisstjórnin kallar svo er aðeins lenging á hengingarólinni og geri stjórnvöld ekki meira, hvernig svo sem þeim framlögum úr ríkissjóði verður háttað, er ekki von á góðu.

Fjármálaráðherrann sagði að ef taka ætti peninga úr ríkissjóði til að lina vandræði heimilanna yrði að minnka opinber framlög til annars í staðinn. Einn fundarmanna nefndi í því sambandi að varla ættu þær fjárhæðir að vefjast fyrir mönnum sem nýlega hefðu eytt margfalt stærri upphæðum í bjarganir fyrir fjármálamennina.

Þetta sama viðfangsefni var eitt meginatriðið í málflutningi forsetaframbjóðendanna í Bandaríkjunum í haust. Þeir sögðu að það yrði að bjarga Wall Street til að hægt yrði að bjarga "Main street" þ. e. lánamöguleikum litlu fyrirtækjanna, sem skapa 90% af þjóðarframleiðslu Bandaríkjamanna.

John McCain sagði að vísu að hin tröllauknu ríkisframlög til auðjöfranna í Wall Street ættu ekki að fara í að halda uppi áframhaldandi bruðli og lúxusi þeirra, - að kennarar og iðnaðarmenn ættu ekki að borga fyrir þá lúxusþoturnar og þyrlurnar.

En líklega verður þetta svipað í báðum löndunum að þeir sem betur mega sín hafi betri möguleika til að sleppa en hinn venjulegi borgari.


mbl.is „Þetta er þjóðin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vantraust þarf ekki að kalla á kosningar strax.

Ég er þeirrar skoðunar að ríkisstjórnin njóti ekki nægs traust meðal þjóðarinnar og að það séu ýmsir möguleikar á að skipta út ráðherrum og mynda stjórn með blöndu þingmönnum og fagaðilum sem hafa haft rétt fyrir sér undanfarin ár. Síðan ætti að kjósa næsta vor þegar komist hefði verið í gegnum brýnustu verkefnin sem brenna á þjóðinni nú.  

Þótt vantraust sé samþykkt á ríkisstjórn þarf það ekki að kalla á kosningar umsvifalaust. Kannski hefði stjórnarandstaðan aðeins átt að leggja fram tillögu um vantraust en ekki um þingrof nú strax um áramót. Tillaga um þingrof hefði getað beðið fram yfir áramót eða þá að krafist hefði verið þingrofs eigi síðar en í marslok.

Sem dæmi um eina af frægustu vantrausttillögu sögunnar má nefna að í maí 1940 þegar Bretar stóðu á kafi í miðri heimsstyrjöld var borin fram vantrausttillaga á ríkisstjórn Chamberlains. Hún var felld með 282 atkvæðum gegn 200 en 33 þingmenn sem áður höfðu stutt stjórnina, greiddu tillögunni atkvæði.

Það nægði til þess að Chambarlain gerði sér grein fyrir því að það fjaraði undan trausti á honum, enda hafði stefna hans beðið skipbrot.

Winston Churchill, sem var í ríkisstjórn Chamberlains, en hafði í fimm ár andæft gegn stefnu hans í utanríkismálum, var falin stjórnarforysta í þjóðstjórn.

Svona afgreiddu Bretar málið á þann besta hátt sem mögulegur var í stöðunni.


mbl.is Kristinn andvígur vantrausti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinir ósnertanlegu.

Kostulegt er að heyra umræðurnar á Alþingi sem fram fer á þeim nótum að eingöngu sé um það að ræða að skipta um þingmenn í ráðherrastólum. Ekki virðist nokkrum detta það í hug að kallaðir verði þeir til ráðherradóms, sem hafa haft rétt fyrir sér allan tímann um ranga efnahagsstefnu.

Þessir menn eru margir hverjir utan flokka og utan þings en ekkert mælir gegn því, hvorki að lögum né í praxis, að þeir verði fengnir til verka, til dæmis í ríkissstjórn sem væri skipuð bæði stjórnmálamönnum og sérfræðingum. Í Bandaríkjunum hika menn ekki við slíkt og heldur ekki við það að kalla til menn frá stjórnarandstöðu.

Sigmundur Ernir Rúnarsson sagði á borgarafundi að ráðamenn kæmust upp með hvað sem væri vegna þess að kjósendur létu þá komast upp með það. Þetta er rangt hvað snertir meirihluta þingmanna, sem ég vil kalla "hina ósnertanlegu", eru efstir á listum stóru flokkanna og þurfa aldrei að hafa áhyggjur af því persónulega hvað kjósendurnir gera í kjörklefanum. Í 79 ár hafa til dæmis efstu menn á lista Sjálfstæðisflokksins ekki þurft að hafa áhyggjur af stöðu sinni.

Það þarf að afnema þetta ólýðræðislega fyrirkomulag og það er auðvelt að gera það með einfaldri breytingu á kosningalögum, sem hægt er að samþykkja fyrir næstu kosningar og láta það taka gildi þá. Breytingarnar gætu falist í tvennu og byggt á reynslu margra þjóða.

1.
Persónukjör gildi algerlega í kjörklefanum. Flokkarnir geti að vísu sýnt á kjörseðlinum sína röðun, en aðeins
krossar eða töluleg röðun kjósendanna sjálfra ráði um röðun á lista.

2.
Afnám 5% þröskuldsins í atkvæðafylgi eða lækkun hans niður í 2-3%. Sem dæmi um það hve þetta er
ólýðræðislegt má nefna að þótt allir 7 þúsund fundarmenn á Austurvelli kysu nýtt framboð, sem þeir stæðu að, fengju þeir ekki þá 2-3 þingmenn sem væru í samræmi við fylgi slíks framboðs.
kjörinn þingmann, ekki þá 2-3 þingmenn sem þeir hefðu fylgi til.


mbl.is Önnum kafin við björgunarstörf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðaratkvæði um málið.

Hjá íslenkum stjórnmálamönnum ríkir einkennileg hræðsla við þjóðaratkvæðagreiðslur um helstu mál. Tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúkavirkjun í tengslum við alþingiskosningar var felld 2003 á þeim forsendum að málið væri "of stórt" og myndi skyggja á smærri mál í kosningunum!

Þeir sem guma mest af lýðræðisást sinni hafa reynst andvígastir besta birtingarformi þess, beinni atkvæðagreiðslu. Hvað er svona voðalegt við það að greiða þjóðaratkvæði um það hvort við eigum að sækja um aðild að ESB? Jú, kannski það í huga andstæðinga viðræðna að þrátt fyrir minnkandi stuðning við aðildarumsókn eru samt 60% kjósenda fylgjandi viðræðum.

Eftir ítarlegar rökræður er ekkert víst um afdrif málsins í þjóðaratkvæðagreiðslu og ef svarið yrði jákvætt, yrði hvort eð er að greiða þjóðaratkvæði um útkomuna. Um slíka útkomu veit enginn með vissu nú þótt margir vitni í orð embættismanna í Brussel um að Ísland fái enga "sérmeðferð".

Þessir embættismenn eru varkárir, því að þeir hafa ekki pólitískt umboð til að ganga lengra í ummælum sínum.

Þeir hafa áreiðanlega sagt það sama áður en Malta og fleiri ríki gengu til samninga og fengu þrátt fyrir svona ummæli embættismannanna "sérmeðferð" í málum sem gáfu þeim algera sérstöðu meðal ESB-ríkjanna.

Sem dæmi um eina slíka sérstöðu Íslands má nefna hugmyndir um útblástursskatt á flugumferð. Í því máli hefur Ísland algera sérstöðu vegna þess að það er eina landið í Evrópu sem á ekki aðra raunhæfa möguleika á skjótum samgöngum en flugið.

Sjávarútvegurinn hefur líka sérstöðu, ekki hvað síst vegna þess að meginstofn veiða okkar er úr fiskistofnun þar sem við höfum einir verið við veiðar í 30 ár og því ekki erlend hefð fyrir veiðum líkt og á fiskimiðunum við strendur Evrópu.

Um landbúnaðinn gætu gilt reglur ESB um "sérmeðferð" jaðarbyggða og stuðning við þær. En enginn veit það fyrr en eftir viðræður hvort þar fengist framgengt samningsmarkmiðum okkar á viðunandi hátt fyrir okkur.

Eins og nú háttar til komast Íslendingar ekki að samningaborði um sérstöðumál eins og flugið og höfum við þó tekið upp Evrópurétt í einu og öllu í íslenskum flugmálum án þess að hafa getað haft nokkur áhrif á það innan ESB.

Vel þarf að sjá fyrir því að auðlindir Íslands verði í höndum þjóðarinnar en hættan á því að við misssum þær er mjög mikil, hvort sem við erum innan eða utan ESB. Ef öll orka landsins verður látin ganga til stóriðju mun það eyðileggja mestu verðmætin, einstæða náttúru, og einnig er hætta á að erlend stórfyrirtæki, jafnvel aðeins eitt þeirra á borð við Rio Tinto eignist allar auðlindirnar beint eða óbent.


mbl.is Minnkandi áhugi á ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breyttar aðstæður breyta hugmyndum.

Í allri dýrkuninni á bruðli og óhófi, sem tröllreið íslensku samfélagi á þeim tíma sem fjármálaráðherrann mælti hin fleygu orð á þingi: "Drengir, sjáið þið ekki veisluna?" var búið að bannfæra allar hugmyndir um það að ofurlaunaliðið tæki þátt í sameiginlegum rekstri ríkisins í samræmi við ofurgetu sína.

Árum saman blasti þessi hugsunarháttur við í tímaritum landsmanna með greinum um það sem einstaklingar voru að gera í lífsgæða- og peningakapphlaupinu: "Sjáið lúxusbílana og sumarhúsin!" með litríkum frásögnum sem birtust lýðnum til eftirbreytni í dýrlegri og æskilegri eftirsókn eftir glysi og glaumi.

Sú var tíð að Þorvaldur Guðmundsson í Síld og fiski var árum saman hæsti skattgreiðandi í Reykjavík þótt margir þættust vita að aðrir ættu að skila meira en hann til samfélagsins en notuðu klæki til að koma sér undan því.

Þorvaldur sagðist vera stoltur af því að geta látið gott leiða af velgengni sinni, sem byggðist frá upphafi á þrotlausri vinnu og elju þessa einstæða manns. Vonandi verða einhverjir nú til að endurmeta stöðu þeirra sem geta lagt til samfélagsins en flýja ekki með auð sinn til skattaparadísa erlendis.

Eitt sinn bað fjölmiðill mig og konu mína um að segja frá brúðkaupi okkar hjóna. Þá hafði þessi fjömiðill verið með hvern þáttinn af öðrum þar sem lýst var í smáatriðum dýrum brúðkaupsgjöfum, brúðkaupsferðum og miklum glæsileik brúðkaupanna.

Ekkert varð af frásögn okkar því að við höfðum engu slíku til að dreifa. Við giftum okkur í kyrrþei ein með presti okkar, séra Emil Björnssyni og skorti því allan glæsileik lista yfir dýrar brúðkaupsgjafir og mikilfenglegt brúðkaup og brúðkaupsferð. Slíkt "seldi ekki" í fjölmiðlunum þá.

Við erum nú samt búin að vera gift í bráðum 47 ár og eignast sjö börn og tuttugu barnabörn. Stundum sýnist mér að ending hjónabanda fari ekki eftir því hve mörgum milljónum króna var eytt í herlegheitin.


mbl.is Darling sagður íhuga hátekjuskatt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frumkvæðinu snúið við.

Margir minnast deilna fyrir aldarfjórðungi um eldflaugar í Evrópu þar sem vesturveldin töldu að frumkvæðið um skammdrægar eldflaugar kæmi frá Rússum og flaugarnar í Vestur-Evrópu ættu að vera andsvar við því.

Að undanförnu hefur frumkvæðið komið frá Bandaríkjunum og Rússar vilja bregðast við því. Vonandi tekst Obama að koma á sátt um þessi varnarmál í Evrópu og hindra eldflaugakapphlaup sem dregur álfuna að nýju inn í miðju átaka.


mbl.is Biðja Obama að hætta við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband