Ólíkindatól.

Stefán Karl Stefánsson er eitthvert mesta ólíkindatól að hæfileikum, bæði andlegum og líkamlegum, sem ég hef kynnst. Margir minnast frábærrar frammistöðu hans og Hilmis Snæs Guðnasonar í leikriti í Þjóðleikhúsinu, sem ég man ekki lengur hvað hét en ég hef einnig kynnst hæfileikum hans á ýmsum öðrum sviðum.

Um meira en þrjátíu ára skeið hef ég staðið fyrir tilvist svonefnds Stjörnuliðs og þar hefur spilað lunginn úr þekktustu leikurum, skemmtikröftum, stjórnmálamönnum, fjölmiðlamönnum og íþróttamönnum þjóðarinnar.

Stefán Karl fór tvisvar með liðinu á pollamótið í Vestmannaeyjum, en auk hans var og er Magnús Schevning ómissandi fyrir þetta lið.

Stefán heillaði alla strákana upp úr skónum sem Glanni glæpur á fótboltaskóm og brilleraði í leikjunum, sem við lékum.

En hann lét ekki þar við sitja. Með okkur fóru oft lyftingakappar á borð við Jón Pál Sigmarsson og Magnús Ver og þótt ég muni ekki hver lyftingakappinn var í þessari ferð, var það eftirminnilegt þegar hann gerði mikla lyftingaraflraun og skoraði á einhvern fullorðinn meðal áhorfenda að leika það eftir.

Enginn gaf sig fram en þá kom bara Glanni glæpur og lék allt eftir lyftingameistaranum svo að menn trúðu ekki sínum eigin augum!

Maðurinn er ekki einhamur! Hann er til dæmis ótrúlega góð eftirherma þótt leynt hafi farið. Þess vegna kemur mér ekki á óvart þótt hann heilli Bandaríkjamenn upp úr skónum. Svona menn fæðast ekki nema á margra áratuga fresti.


mbl.is Stefán Karl vekur athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Voru Íslendingar heppnir að vera fyrstir?

Þessi spurning kom í hugann í bankahruninu þegar ég velti vöngum yfir óláni Íslendinga, sem tróðust fyrst undir í flóttanum undan hinum alþjóðlega eldi kreppunnar og voru því meðal fyrstu þjóða til að leita til IMF.

Svarið við spurningunni felst í því hvort það muni verða til góðs eða ills að hafa fengið sömu mönnum peninga í hendur og klúðruðu öllu og komu málum í óefni í upphafi.


mbl.is Botni kreppunnar ekki náð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

14% kjósenda án þingfylgis?

Ýmislegt athyglisvert kemur út úr skoðankönnun Fréttablaðsins fyrir utan fylgisleysi ríkisstjórnar sem hefur gumað af sjálfri sér daglega vikum saman í fjölmiðlum.

Helmingur Samfylkingar styður ekki ríkisstjórnina.

Tæp 14% aðspurðra falla í þrjá minnstu fylgisflokkana, og þeirra á meðal er Framsókn með aðeins 6,3% og er þó í stjórnarandstöðu. 4,3% styðja Frjálslynda flokkinn, sem ekki virðst heldur græða á því að vera í stjórnarandstöðu og næði ekki inn manni vegna þess að tilskilið er að framboð fái minnst 5% á landsvísu til að fá þingmann.   

Ef þessi 14% myndu skiptast jafnt á milli þessara þriggja myndi þetta fylgi, sem samsvarar um 25 þúsund kjósendum ekki fá neina þingmenn vegna þess að tilskilið er að framboð fái minnst 5% á landsvísu til að fá þingmenn. Glæsilegt lýðræði það? 

Efstu menn á listum Sjálfstæðismanna, Samfylkingar og VG þurfa ekki að hafa áhyggjur af stöðu sinni því að kjósendur eiga ekkert val um þá í kjörklefanum, heldur geta aðeins refsað fótgönguliðum neðar á listunum sem sveiflast út og inn á kosninganótt.

Sigmundur Ernir Rúnarsson sagði á borgarafundi að ráðamenn gætu gert og sagt hvað sem er því að kjósendur létu þá komast upp með það. Þetta er ekki alls kostar rétt. Kjósendur eiga enga möguleika í kjörklefunum til að hagga við þeim.

Undantekningar í síðustu kosningum voru Jón Sigurðsson og Jónína Bjartmarz vegna slæmrar útkomu Framsóknar á höfuðborgarsvæðinu.

En efstu menn á listum Sjálfstæðisflokksins, til dæmis í Reykjavík, hafa ekki þurft að hafa áhyggjur af stöðu sinni í 79 ár frá stofnun flokksins og þess vegna hafa kjósendur fyrir löngu gefist upp og láta þá komast upp með hvað sem er.

Það er sáraauðvelt að breyta þessu öllu, sem að ofan er sagt, en stóru flokkarnir hverju sinni mega ekki heyra það nefnt.  


mbl.is 31,6% stuðningur við stjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin fórnar sér fyrir þjóðina!

Hversu oft hefur það ekki verið krafa að stjórnmálamenn, sem mistekst, víki og aðrir, sem höfðu rétt fyrir sér, taki við? Og viðbrögðin hafa oftast verið hin sömu: Þráast hefur verið við að víkja. Þetta er skiljanlegt en oft mjög bagalegt þegar menn geta ekki hugsað sér að missa völd, áhrif og stöðu.

En nú bregður svo við að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir snýr þessu alveg við. Hún telur að það myndi henta Samfylkingunni afar vel ef hún féllist á kosningar í vor og afsalaði völdum sínum í hendur kjósenda en hins vegar ætli flokkurinn að fara þá leið sem hentar honum verr, sem sé að hanga áfram við völd vegna þess að hagsmunir flokksins víki fyrir hagsmunum þjóðarinnar.

Samfylkingin ætlar sem sé að fórna sér fyrir þjóðina með því að hanga á völdunum! Ég er áreiðanlega ekki sá eini sem segi við Ingibjörgu: "Kanntu annan!"


Áfallastjórnunin að byrja. Hjálpin ókomin.

Ingibjörg Sólrún einblínir á þann þátt áfallastjórnunar sem snýr að föllnum bönkum. Orðaval hennar er lýsandi,- í hennar huga er verið að stjórna áföllunum en ekki að veita áfallahjálp. Um hver mánaðamót í vetur munu þúsundir verða atvinnulausar og hundruð fyrirtækja komast í þrot.

Ef við notum orðið áfallastjórnun er hún rétt að byrja, en lítið fer fyrir raunhæfri áfallahjálp, sem gæti falist í mörgum aðgerðum sem ekki eru uppi á borðinu hjá áfallastjórnendunum.

Á Íslandi var kreppa á fjórða áratugnum og þá sáu stjórnvöld að ekki dugði að lengja í hengingarólunum og láta höfuðstóla skulda vaða upp og eignabreytingar fyrirtækja skekkjast svo að þau færu í þrot af því einu saman.

Ráðamenn reyndu að hjálpa nauðstöddum með svonefndnum kreppulánasjóði. Gunnar Tómasson hagfræðingur hefur lagt til svipaðar aðgerðir nú.

Í kreppunni var genginu haldið föstu alveg fram til 1939. Það var vond aðgerð í sjálfu sér og skóp kerfi hafta og tollmúra, en nú gæti jafnvel verra verið á næstu grösum ef krónan verður látin fljóta, - afsakið, - sökkva, þannig að fyrirtækin fara á hausinn bara út af því.

Nú þarf áfallahjálp, ekki áfallastjórnun.


mbl.is Áfallastjórnuninni lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eldarnir og þeir sem tróðust fyrst undir.

Fyrir nokkru líkti ég Íslandi við lítið hús í húsaröð milli sambyggðra skýjakljúfa. Í öllum væri starfsemi með miklum eldsmat og brunavörnum áfátt en ástandið hvergi verra en í íslenska húsinu. Þegar eldur kæmi síðan upp í ameríska skýjakljúfnumn og breiddist út í hin húsin, fuðraði minnsta húsið fyrst upp í miklum sprengingum.

Og eins og í eldsvoða træðust þeir fyrst undir á flóttanum út úr húsunum, sem minnstir væru.

Það logar enn eldur í breska skýjakljúfnum og glæringarnar hafa fokið yfir öll húsin í hverfinu og kveikt í þeim. Hvergi hefur eldurinn verið slökktur þótt slökkvistarf sé á fullu. Þess vegna veit enginn hver endalokin verða í þessum eldi í Kaupinhafn fjármálaheimsins.


mbl.is Bretland sömu leið og Ísland?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Roosevelt-Churchill-Obama, glapræði?

Stjórnarsinnar segja að það sé glapræði að kjósa næsta vor, átta mánuðum eftir hrun bankanna. Jæja?

Var það glapræði hjá Bretum að setja Chamberlain af og koma Churchill til valda átta mánuðum hefur að seinni heimsstyrjöldin hófst? Churchill hafði varað við stefnu Breta gagnvart Hitler og barist gegn henni í fimm ár og hafði rétt fyrir sér

Var það glapræði hjá Bandaríkjamönnum að skipta um flokk í ríkisstjórn og kjósa Roosevelt árið eftir að kreppan mikla hófst?

Er það glapræði hjá þeim að skipta um flokk í ríkisstjórn og kjósa Obama nánast á meðan versta kreppa í átta áratugi er að dynja yfir?

Ætli glapræðið felist ekki í því að láta sem ekkert sé og hafa þá áfram við völd, sem höfðu rangt fyrir sér í stað þess að fela þeim völd sem höfðu rétt fyrir sér allan tímann?

 


mbl.is Kosningar væru glapræði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dauðahaldið í eftirlaunaósómann.

Með ólíkindum er hvílíku dauðahaldi ráðamenn halda í eftirlaunaósómann. Til þess að reyna að fela þetta spila þeir út launalækkun sinni, sem út af fyrir sig er allt gott að segja um. En á hinn bóginn er ekki annað að sjá en að breytingar á eftirlaunafrumvarpinu miði að því að halda eftir sem mestu af þeim siðlausu hlunnindum sem eftir sem áður verða límdar við topp valdapýramídans ef þetta nær í gegn.

Það eru fimm ár síðan eftirlaunaósóminn var keyrður á methraða í gegn á Alþingi, á nokkrum dagstundum. Krafa hins venjulega kjósanda hlýtur að vera einföld. Dragið þessa mismunun alla til baka á sama methraða!

Það er búið að taka fimm ár að fá þetta fólk til að gera eitthvað í málinu og 20 mánuði til þess að komast sérstaklega að niðurstöðu sem er engan vegin boðleg.


mbl.is Óska eftir launalækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert vetrarhlé náttúruspjallanna.

Var að koma til Akureyrar frá Kárahnjúkum á leið suður með gamla skrjóðinn sem ég hef notað til að draga Örkina. Því hefur verið frestað, hugsanlega til næsta sumars, að drekkja sjö ferkílómetrum fagurs lands undir Kelduárlón.

Það lón og Hraunaveita öll, með fjórum stíflum, þar af tveimur meðal þeirra stærstu á landinu, auk sjö kílómetra löngum jarðgöngum, mun ekki framleiða eitt einasta kílóvatt vegna þess að hlýnun loftslags gerir óþarfa þessa veitu með drekkingu lands og uppþurrkun fjölda fossa.

Sigling Arkarinnar frestast þar með.

En þar með verður ekki hlé á náttúruspjöllum fyrir álverin. Ég fór fyrir rælni upp að Leirhnjúki og viti menn, - er ekki verið þar á fullu skammt frá Leirhnjúki og ferðamannaplaninu við hann að bora borholu, þá fyrstu af mörgum sem á að bora í norður frá þessari borholu í landi, sem hallar á móti Leirhnjúki og nefnist Vítismór.

Þar með er hafin eyðilegging svæðis, sem tekur sjálfri Öskju fram að verðmæti sem staður, þar sem geimfarar vilja æfa sig og hægt er að sýna sköpun jarðar betur en á nokkrum öðrum stað á jörðinni.

Svörin sem ég fæ eru þau að á skipulagi hreppsins sé þetta skilgreint iðnaðarsvæði. Ekki minnist ég þess að mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram. Hafi svo verið er það hörmulegt hneyksli og skömm og farið leynt.

Ég hef farið margar ferðir um þetta svæði í sumar til að taka ljósmyndir og kvikmyndir fyrir heimildarkvikmynd um svæðið, eina af fimm myndum sem ég hef í smíðum vegna hernaðar vélaherdeilda stóriðjunnar gegn náttúrgersemum Íslands.

Myndin um Gjástykki-Leirhnjúk er fremst í forgangsröðinni en hvernig ég ætla að klára þessar myndir veit ég ekki. Nógir peningar eru til til að halda vélaherdeildunum gangandi en engir til að veita upplýsingar um hernaðinn gegn landinu.


Fyrirboðinn.

DeCODE ævintýrið var nokkurs konar fyrirboði þess sem hefur gerst undanfarna mánuði. "Tær snilld" voru orðin sem voru notuð yfir það allt, líkt og Icesafe reikningana síðar meir. Vísindastarf Kára Stefánssonar stendur fyrir sínu en hin "tæra snilld" fjármálagrunnsins hefur kostað margan mikið fé. Og á tímabili var ætlunin að ríkið ábyrgðist þetta allt.

mbl.is Gengi bréfa deCODE aldrei lægra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband