In dubio pro reo.

Þessi fjögur latnesku orð eru eitt af grundvallarhugtökum réttarfars. Þau þýða, að leiki vafi á einhverju atriði skal hann túlkaður ákærða í hag.

Einnig er það kennt að gefi lagatexti ástæðu til að efast um túlkun hans, eigi að athuga eðli máls, umræður um það á þingi og í nefndarálitum og jafnvel að beita svonefndri lögjöfnun. 

Erfitt er að sjá hvernig hægt er að efast um að Geir H. Haarde hafi haft stöðu ákærðs manns eftir að það var fyrsta frétt í öllum fjölmiðlum og aðalumræðuefnið næstu daga að hann yrði fyrsti í íslenski ráðherrann sem dreginn yrði fyrir Landsdóm. 

Ofangreind orð hafa ekkert með það að gera hver sé málstaður Geirs varðandi sakarefnið, heldur aðeins það að benda á helstu sjónarmið, sem íhuga verði þegar hann fer fram á að sér sé skipaður verjandi "svo fljótt sem verða má" svo vitnað sé í texta laganna um Landsdóm. 

 


mbl.is Átelur vinnubrögð landsdóms
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað um sjálfstæðisflokkinn?

Gaman er að sjá lýsingu Einars K. Guðfinnssonar á VG og það að að þeim flokki sé stýrt þannig að ákveðnum fjölda þingmanna sé leyft að blása í ESB-málinu, svo framarlega sem það trufli ekki foyrustu flokksins.

Þetta er fróðleg lýsing, því að ekki verður betur séð en að hún eigi jafnvel enn frekar við foyrstu Sjálfstæðisflokksins og vinnubrögð þar á bæ. 

Samkvæmt skilningi Einars á því hvernig skoðanaskiptum sé stjórnað í stjórnmálaflokkum er ákveðnum áhrifamönnum í Sjálfstæðisflokknum, sem eru meðmæltir samningumm við ESB leyft að blása svo framarlega sem það trufli ekki forystu flokksins. 

Sjálfstæðisflokkurinn er nefnilega enn meira klofinn en VG í ESB-málinu og raunar er ekki fullur einhugur í neinum flokki um þetta mál sem hefur klofið íslensk stjórnmálaöfl í herðar niður um árabil. 

 


mbl.is Segir VG vera ESB-flokk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögmál Kissingers um skæruhernað.

Hernaðurinn í Afganistan og í Vietnam á sínum tíma er að því leyti til svipaður, að þar hafa skæruliðar barist við hefðbundinn her.

Þegar Henry Kissinger, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, íhugaði ástæðuna fyrir því að voldugasta herveldi heims tapaði fyrir skæruliðum fátækrar þjóðar, kom hann niðurstöðunni fyrir í tveimur setningum, sem segja allt: 

Skæruliðaher, sem tapar ekki stríði, vinnur það. 

Hefðbundinn her, sem vinnur ekki stríð, tapar því.  

Með öðrum orðum: Ef hefðbundinn her getur ekki upprætt skæruliðaher að fullu, tapar hann stríðinu, sama hve margar einstakar orrustur hann vinnur og hversu stór hann er eða heldur vel styrkleika sínum.

Skæriliðaherinn getur hins vegar leyft sér að tapa eins mörgum einstökum orrustum og verða vill án þess að tapa stríðinu, svo framarlega sem hann er ekki upprættur. 

Þetta er öðruvísi þegar tveir hefðbundnir herir berjast hvor við annan, því oftast er það svo að takist öðrum þeirra aða vinna nógu stóran sigur í meginorrustu, vinnur hann stríðið sjálfkrafa. 


mbl.is Áætlun um lok stríðsreksturs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meðaltöl eru vafasöm.

Til eru staðir á hverasvæðum á Íslandi þar sem renna hlið við hlið sjóðheitir lækir og ískaldir.  Segjum að tveir lækir renni hlið við hlið og er annar 70 stiga heitur en hinn 4 stig.

Meðaltalið er 37 stig og samkvæmt því ætti að vera óhætt og meira að segja mjög þægilegt að vaða berfættur út í þá báða. 

Annað dæmi. 

Í fjölskyldu einni eru tveir ríkir menn, sem eiga 250 milljónir hvor, en átta í fjölskyldunni eru öreigar. Meðaltal eigna á hvern meðlim eru 50 milljónir og samkvæmt því hafa allir það gott, líka allir öreigarnir.

Í annarri fjölskyldu á hver meðlimur 17 milljónir. 

Ef borin eru saman meðaltöl eigna í ofangreindum fjölskyldum eru eignirnar í fyrri fjölskyldunni þrisvar sinnum meiri á mann en í síðari fjölskyldunni og kjör fólksins þrefalt betri. 

Ég ólst upp í fjölskyldu þar sem aðstæður voru þannig að þegar fjölskyldufaðrinn var 22ja ára var hann kominn með þrjá syni á framfæri.  Síðar eignaðist hann þrjár dætur.

Þegar við bættist að hann var alveg sérstaklega fjörmikill og ungur í anda var kannski ekki furða þótt við bræðurnir segðum stundum þegar við vorum spurðir um fjölskylduhagi: "Pabbi er elstur af okkur bræðrunum." 

Eða: "Við erum sjö, og svo er mamma." 

Að beita einhverri meðaltalsreglu á þessa fjölskyldu var því útí hött og svipað má áreiðanlega segja um flestar fjölskyldur sem betur fer. 

 

 


mbl.is Elsta systkinið gáfaðast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétta leiðin í kreppunni.

Þjóðir, sem lent haf í kreppu eins og við Íslendingar, hafa reynt að nota ýmis ráð við að vinna bug á henni. Í fljótu bragði kann að virðast sem það að draga allt saman, hverju nafni sem nefnist, sé eina leiðin en svo er þó ekki.

Aðrar þjóðir hafa haft lærdóma af því að nota mismunandi aðferðir við að komast upp úr kreppunni og eitt af því sem best hefur reynst er að efla hvers konar menntun, einkum þeirra, sem eru atvinnulausir.

Kosturinn við slíka "fjárfestingu" er sá að hann nýtist í framtíðinni.

Hér á landi er landlægt að einblína á stóriðju- og virkjanaframkvæmdir sem þjóðráð. 

Þar er á tvennt að líta.

1. Þau störf sem sköpuð eru til framtíðar er dýrustu störf sem mögulegt er að skapa jafnvel þótt öll orka landsins verði sett í álver munu aðeins um 2% vinnaflsins fá vinnu á þann hátt.

2. Þótt einhver þúsund fái atvinnu við framkvæmdir við að reisa álver og virkjanir verða sömu þúsundirnar atvinnulausar aftur þegar framkvæmdum lýkur.  Ég hef kallað þetta "skómigustefnu" vegna þess hve skammsýn hún er.  


mbl.is „Við erum hætt að bíða“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hreint með ólíkindum.

Hvað er hálka í marga daga á götum Reykjavíkur.  Á því hálfa ári sem líður frá miðjum október til miðs apríl eru þetta þegar klukkustundirnar eru taldar saman líklega um tveir dagar af 180.

Þegar naglarnir komu til sögu fyrir tæpri hálfri öld voru þeir bylting. 

Síðan hefur orðið önnur bylting í gerð dekkja með frábæru mynstri og í harðkorna- og loftbóludekkjum, sem gerir það að verkum að þeir dagar á ári, þar sem negld dekk eru betri, eru, þegar klukkustundurnar eru lagðar saman, kannski hálfur dagur. 

Hér byggi ég á mörgum tilraunum sem gerðar hafa verið erlendis við aðstæður sem fyllilega eru sambærilegar aðstæðum hér heima. 

Negldu dekkin rífa tjöruna upp úr götunum svo hún úðast yfir allt og veldur óþarfa sleipu auk þess sem þau eru aðalorsök svifryks og þess að varasöm vatnsfyllt hjólför myndast í malbikinu. 

Úðinn sest á framrúður og gerir útsýni verra. Allir jöklafarar vita, að brýn nauðsyn er að þvo þessa nagladekkjatjöru af dekkjum jöklajeppa ef þeir eiga að fá fullt grip þegar komið er út fyrir hina tjöru þöktu vegi. 

Þrátt fyrir þetta sér maður og heyrir rök fyrir nagladekkjum sem voru gild fyrir hálfri öld en eru löngu fallin úr gildi. Þetta er hreint með ólíkindum, og þó, því að hliðstæðar bábiljur, byggðar á löngu úreltum forsendum má heyra fyrir ýmsu öðru hjá sömu þjóðinni og keypti á annan tug fótanuddtækja á sinni tið til þess eins að láta þau liggja í geymslu eða fara á haugana. 


mbl.is Fleiri á nagladekkjum í ár en í fyrra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"KISS" - "Keep It Simple, Stupid!" (9365)

"Neyðin kennir naktri konu að spinna" og "KISS!" - "Keep It Simple, Stupid!" eru dæmi um orðtök sem lýsa ákveðnu fyrirbæri hugvitssemi og sparnaðar.

Mörg dæmi má nefna um það þegar þessi tvö máltæki hefur mátt nota um ákveðin fyrirbæri varðandi uppfinningar og framfarir eins og við verðum vitni að um þessar mundir. 

"Sandpappinn", frumlegasta hugmyndin í Snilldarlausnum Marels, og tugmilljóna sparnaður á Landsspítalanum með notkun einfaldari tækja og varnings, eru dæmi um þetta. 

Á kreppuárunum milli 1930 og 1940 urðu stórstígar framfarir í gerð bíla og flugvéla sem miðuðu að því að nýta eldsneyti sem best. 

Snillngurinn Alec Issigonis rissaði fyrstu teikninguna af Mini upp á munnþurrku (serviettu) í kvöldverðarboði  þegar menn ræddu um ráð til að bregðast við fyrstu olíukreppunni 1956. 

Ég hef aldrei fengið eins vel greitt fyrir fyrstu gerð dægurlagatexta og fyrir textann "Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott." Sá texti var gerður í krísuástandi.

Svavar Gests hringdi í mig og sagðist vera fyrir mistök með engan texta í höndunum við lag, sem búið væri að spila inn og Elllý og Vilhjálmur ættu að syngja.

Hann sárbað mig um að gera texta við það áður en hann yrði að fara úr stúdíóinu, en það þýddi að ég hefði aðeins um 20 mínútur til umráða.

Í fyrstu harðneitaði ég og fannst þetta fáránlegt og ómögulegt.

Svavar spyrði hvort ég kynni lagið.

Jú, ég kunni það. "Þá ert þú eini maðurinn sem getur þó reynt" sagði hann. "Ég sárbið þig."  

Ég ákvað að slá til þótt mér sýndist þetta næsta vonlaust. 

Á þessum tíma var ég með barnafjölskyldu með ungum börnum og næðið lítið þá stundina og ég fór því niður í geymslukompu í kjallaranum og lokaði að mér um leið og ég velti fyrir mér góðu fréttunum og slæmu fréttunum.

Slæmu fréttirnar voru þær að hafa enga hugmynd um hvað textinn ætti að fjalla um og vera að reyna að gera eitthvað í flýti sem væri ómögulegt eða endaði með einhverri hrákasmíð.

Góðu fréttirnar voru þær að ef ég gæti þetta, fengi ég langhæsta tímakaup, sem ég hefði nokkru sinni fengið fyrir að gera texta og að fátt væri svo með öllu illt, að ei boðaði gott.

Um leið og ég hugsaði þetta nánast hrópaði ég upp yfir mig: "Auðvitað! Þarna er komið yrkisefnið: Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott!  Og þar með varð textinn til á mettíma fyrir metkaup. 

 

P. S. 

Þess má geta að alla tíð hafa laun fyrir gerð dægurlagatexta verið ömurlega lág hér á landi.  "Metkaupið" var því svosem ekkert sérstaklega hátt. 


mbl.is Snilldarlausnin var pappakassi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðbrögð ráðherra við ógn við réttarríkið.

Það kann að virðast á skjön að settir séu auknir fjármunir í dómskerfið á sama tíma sem dregið er úr brýnni þjónustu í heilbrigðisstofnunum.

En munurinn á þessu tvennu er þó sá að verkefni dómskerfisins hafa stóraukist svo að til vandræða horfir. 

Ekki vegur það minna að ógn steðjar að réttarríkinu og réttarörygginu og slíkt getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar í för með sér. "Ef vér slítum í sundur lögin þá slítum vér og í sundur friðinn" var sagt forðum.

Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari skrifaði fróðlega blaðagrein um daginn um þann ágalla sem felst í því að hæstaréttardómarar séu of fáir og verkefni hæstaréttar of víðfeðm og rökstuddi hvernig slíkt getur skapað réttaróvissu. 

Í andrúmslofti sem er lævi blandið og órói liggur í loftinu varðar miklu að dómskerfið valdi verkefni sínu. 

Ef ég næ kjöri á Stjórnlagaþing (9365) mun ég beita mér fyrir því að dómsmálin verði skoðuð alvarlega, ekki til að flækja mál eða gera stjórnarskrána of flókna, heldur til að skapa ramma fyrir hugsanlegar umbætur, svo sem þeim að setja á fót þriðja dómstigið. 


mbl.is Dómurum fjölgað tímabundið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flestir vilja hann og flestir vilja hann ekki.

Það er alveg dásamlegt að samkvæmt skoðanakönnun skuli flestir ekki vilja Sjálfstæðisflokkinn í stjórn á sama tíma sem flokkurinn á langmest fylgi í nýjustu skoðanakönnunum.

Ég nota orðið dásamlegt því að í þessu efni því að á yfirborðinu er þetta svo dæmigert Ragnars Reykáss heilkenni.  

Sjálfstæðisflokkurinn nýtur nú nánast þess fylgis sem hann naut á velmektarárum sínum á lýðveldistímanum þegar hann var í ríkisstjórn í fimm áratugi af sex. 

Ef sams konar skoðanakannanir hefðu verið gerðar á þessum tíma og nú, hefðu vafalaust langflestir ekki viljað flokkinn í stjórn alveg eins og nú. 

Þetta segir sína sögu um ríginn á milli hinna flokkanna. Þegar á hólminn var komið var Sjálfstæðisflokkurinn alltaf í þeirri aðstöðu að geta kippt einum þeirra uppí til sín. 


mbl.is Flestir vilja ekki Sjálfstæðisflokkinn í stjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samtvinnaðir sóknarmöguleikar.

Sá frami og viðurkenning sem íslenskum vísindamönnum hefur hlotnast með birtingu greinar þeirra í einhverju virtasta vísindatímariti heims er dæmi um þann margfalda ávinning sem Íslendingar geta haft af einstæðri náttúru landsins.

Ávinningurinn og sóknarfærin eru fólgin í tveimur meginatriðum.  Annars vegar hin einstæða náttúra og hins vegar mannauðurinn. 

Samanlagt getur verið um að ræða virði, sem meta má á þúsundir milljarða króna, ef menn vilja endilega dæma allt á mælistiku peninga. 

Mannauðurinn getur blómstrað á svo mörgum sviðum. Hjá vísindamönnum sem helga sig rannsóknum á náttúrunni, vísindamönnum og kunnáttumönnum, sem geta haslað sér völl erlendis sem brautryðjendur í nýtingu náttúruauðlinda, fjölmenntaðs fólks sem vinnur fyrir ferðaþjónustuna og listamanna á mörgum sviðum, sem geta skapað dýrmæt listaverk, varpað ljóma á þjóðina og aukið heiður hennar og álit, sem meta má til gríðarlegra fjárhæða í viðskiptavild fyrir þá sem vilja mæla alla hluti á stiku peningarlegra verðmæta. 

Við sjáum, að aðeins einu stykki íslensku eldfjalli hefur tekist að koma Íslandi betur á kortið um allan heim en leiðtogafundurinn, einvígi aldarinnar, Nóbelskáldið og fleiri hliðstæð atriði hafa gert síðustu áratugina.

Þetta skapar samtvinnaða sóknarmöguleika upp úr öldudalnum eftir Hrunið. 


mbl.is Rannsökuðu Eyjafjallajökul
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband