15.11.2009 | 14:19
Áfram á sömu braut !
Fyrir einu og hálfu ári hefði verið óhugsandi að halda Þjóðfund á borð við þann sem hann var haldinn í gær.

Á þeim tíma og raunar næsta ár á undan því, þegar allt snerist um að græða sem mesta peninga, ímyndaða að stærstum hluta, hefði verið óhugsandi að umhverfismál hefðu lent í einu af efstu sætum málaflokkanna sem ræddir voru.
Fyrir einu og hálfu ári hefði eitthvað annað orð en heiðarleiki lent í efsta sæti yfir þau gildi sem þjóðin mæti mest.
Fyrirfram óttaðist ég að svona fundur gæti ekki haldið þröngri tímaáætlun og að á hverju níu manna borði yrði hægt að koma frá sér 20 orða ályktun um stefnu þjóðarinnar til framtíðar.
Meirihluti fundarfólks var ekki vant fundarstörfum af þessu tagi.

En hvort tveggja tókst með glæsibrag í gær og fundarstörfin voru á undan áætlun ef eitthvað var án þess að neitt skorti á að skila viðfangsefnunum á viðunandi hátt.
En þá spyrja menn: Er ekki flest af því sem kom út úr fundinum marklaust orðagjálfur?
Vissu allir hvað orðin og setningarnar merktu sem frá fundinum komu?
Ég vil nefna eitt algegnasta dæmið um þetta.
Á tveimur borðum, sem ég starfaði, reyndist það erfiðast að átta sig á hvað tískuorðið "sjálfbærni" þýddi.
Gallinn við þetta íslenska orð er sá að í hugum Íslendinga nær þetta orð yfir miklu víðara svið en enska hugtakið "sustainable developement".
Sama er að segja þótt orðinu "þróun" sé bætt við. Íslendingar virðast almenn leggja miklu víðari merkingu í þetta hugtak en aðrar þjóðir og rugla þessu saman við það að þjóðin sé sjálfri sér nóg á öllum sviðum eins og kostur er og þurfi ekki að flytja inn vörur og hugmyndir.
Orðið "sustainable" þýðir að eitthvað sé varanlegt og geti gengið áfram þannig að kynslóðir framtíðarinnar séu ekki rændar fyrirbærinu, og "developement" sem er samheiti sem nær yfir starfsemi, framkvæmdir, nýtingu.
Þetta er mjög bagalegt því að í umræðu í því alþjóðlega samfélagi sem við Íslendingar erum hluti af verður svona að að vera á hreinu.
Á ráðstefnunni í Ríó 1992 gengust Íslendingar við því ásamt öðrum þjóðum að hafa "sustainable developement" í heiðri og var þetta þýtt sem sjálfbær þróun.
Fólkið, sem sat við borðin, sem ég sat við, speglaði þverskurð þjóðarinnar. Á báðum borðunum reyndist óhjákvæmlegt að fara í gegnum það hvað orðið sjálfbærni merkti og hvað væri meint með orðunum "sjálfbær þróun."
Mjög algengt virtist að fólk tengdi orðið við sjálfsþurftabúskap og þetta heyrði maður að væri svipað um allan salinn.
Eftir þennan þjóðfund verður unnið úr ályktunum og niðurstöðum fólksins og þá kemur þetta vandamál aftur upp. Hvað meinti fólkið við viðkomandi borð raunverulega þegar það lagði áherslu á sjálfbærni?
Þetta atriði, skortur á upplýsingu og þekkingu er eitt af fjölmörgum, sem svona fundur leiðir í ljós.
Það er ekki fólkinu í salnum að kenna heldur þeim sviðum og stofnunum þjóðfélagsins sem eiga að sjá um að dreifa þekkingu og halda uppi umræðu.
Orðtakið "sjálfbær þróun" er skilgreint svona: "Sjálfbær þróun er þróun sem tryggir að komandi kynslóðir geti valið sér þá þróun sem þær kjósa."
Þetta þýðir að við eigum að forðast að taka fram fyrir hendurnar á komandi kynslóðum, til dæmis að forðast aðgerðir, starfsemi eða nýtingu sem hafa neikvæðar og óafturkræfar afleiðingar fyrir kynslóðir framtíðarinnar.
Þjóðfundurinn í gær markar vonandi upphaf aukinnar og skilvirkari lýðræðislegrar þátttöku og áhrifa almennings í þjóðlífi og stjórnmálum.
Ef rétt verður á haldið getur hann farið inn í sögubækurnar sem stórmerkur atburður.
Ef neðri myndin er stækkuð eins og hægt er að gera með því að smella tvívegis á hana, sjást raðir af gulum miðum, en á hverjum þeirra stendur hugmynd um gildi og takmörk, sem hver maður við borðið hefur sett á hann.
Þarna er búið að flokka miðana í málefnaflokka og fullrúarnir eru að gefa þremur miðum atkvæði sitt og síðar þeim þremur málaflokkum atkvæði sem þeir telja mikilvægasta.
![]() |
Fólk logandi af áhuga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
15.11.2009 | 06:45
Í annað sinn á stuttum tíma.
Það eru ekki nema nokkrar vikur síðan við hjónin, Helga og ég, sáum loftstein splundrast þegar við voru að koma um miðnætti norðan úr landi og vorum stödd yst við Hvalfjörð.
Í kvöld sáum við svipað á leið um Flóaveg fyrir austan Selfoss og í sömu átt.
En það var fleira að sjá. Á leið frá árshátíð Jöklarannsóknarfélags Íslands í Þórsmörk fylltu Norðurljós hálfan himininn og í logninu og heiðríkjunni í Þórsmörk ljómaði himininn af stjörnudýrð sinni.
Þessu missa höfuðborgar oft af vegna hinnar miklu rafbirtu sem fyllir loftið yfir borginni.
Þegar Iðunn, dóttir okkar, og Friðrik Sigurðsson tengdasonur okkar, voru kennarar í Vík í Mýrdal hér um árið var það eitt hið minnisstæðasta frá dvöl þeirra þar að sjá ásamt börnum sínum slíka sjón, sem þau voru rænd þann tíma sem þau ólust upp í Reykjavík.
![]() |
Loftsteinn sprakk á austurhimni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.11.2009 | 12:42
Tímamótafundur.
Þótt Þjóðfundurinn sé aðeins hálfnaður sýnist mér ljóst eftir að hafa starfað þar sem fulltrúi á einu af borðunum í salnum, að þetta sé tímamótasamkoma, hvað sem út úr henni kemur, því að hugsunin á bak við fundinn hefur gengið svo vel upp fyrir hádegi, að það eitt réttlætir þennan fund.
Er skemmst frá því að segja að vinnan á þessu borði sem ég hef setið við, hjá fólki, sem kemur úr öllum áttum, hefur verið alveg einstaklega árangursrík, skemmtileg og gefandi.
Kerfið, sem unnið er eftir, tryggir að byrjað sé með algerlega autt blað og að allar hugmyndirnar komi ótruflaðar og beint frá þátttakendum að þeirra eigin frumkvæði.
Þær eru síðan teknar til flokkunar og meðferðar og að lokum afgreiddar með atkvæðagreiðslu og samantekt, en samt liggja öll frumgögnin fyrir áfram til úrvinnslu.
Fyrir hádegi kláraðist 20 orða yfirlýsing um framtíðarsýn sem náðist í algerri einingu og sátt og er ekki moðsuða, heldur með hreina og klára merkingu án þess að nokkrar ræður væru haldnar, enda var jafnræði þátttakenda tryggt.
Tímamótafundur, hvernig sem fer !
![]() |
Þjóðfundur hafinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
14.11.2009 | 08:50
Hve mörg megavött framleiðir Björk?
Björk framleiðir ekkert megavatt fyrir Ísland. Ekki heldur Gullfoss eða Dettifoss.
Bítlarnir framleiddu heldur ekkert megavatt fyrir Breta og þaðan af síður Presley fyrir Bandaríkjamenn.
Ekki komu mörg tonn út úr Halldóri Laxness og ekki skapa handritin krónu í útflutningi.
Gullfoss skapar heldur ekki neinn gjaldeyri. Ferðamenn mega horfa á hann án þess að borga neitt fyrir það.
Samkvæmt landlægum skilningi Íslendinga er allt ofangreint einskis virði vegna þess að það er ekki hægt að vigta eða mæla beint ávinninginn af tilvist þeirra.
Samt kom Eva Joly til Íslands meðal annars af því að Björk var Íslendingur. Tilvist ofangreindra fyrirbrigða hefur nefnilega mikla þýðingu fyrir komu ferðamanna hingað og fyrir ímynd og viðskiptavild lands og þjóðar.
Á 18. öld þurfti Árni Magnússon á stundum að rífa skinnpjötlur af klæðalitlu fólki, af því að þær voru hluti af handritum sem voru ekki til neins nýt að mati hins aðþrengda fólks nema til að nota þær í hlífðarfatnað.
Sagt var jafnvel að glorsoltið fólk legði sér handritin til munns. Á erfiðustu öldum íslensku þjóðarinnar barðist hún fyrir lífi sínu og þá var sagt að "bókvitið yrði ekki í askana látið."
Ef gaf til fiskjar var farið á sjó umsvifalaust og ef það þornaði, varð að heyja strax og það hratt.
Þjóðin komst af við illan leik með því að temja sér þennan hugsunarhátt. Hún neyddist til að höggva hrís og beita land, sem ekki þoldi beit, af því að hún gat ekki horft fram á við.
"Neyttu á meðan á nefinu stendur" var það sem gilti.
Þrátt fyrir kreppu er ekki með nokkru móti hægt að jafna ástandinu núna við þá tíma þegar þjóðin hrundi niður úr hungri og drepsóttum og tamdi sér hugsunarhátt sem ameríkanar lýsa með setningunni "take the money and run!"
Það er sá hugsunarháttur, sem margir vilja nú að öllu ráði á Íslandi.
Hann getur orðið skaðlegur þegar fram í sækir og gengið er á hlut milljóna Íslendinga sem eiga eftir að lífa í þessu landi.
Á Þjóðfundi sem ég er að fara á núna, verður vonandi rætt um endurmat á þeim gildum, sem þessi þjjóð þarf að hafa í bráð og lengd.
![]() |
Vonaðist til að hitta Björk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.11.2009 | 19:27
Þangað til allt í einu...
Ein helstu rök sem notuð eru fyrir því að virkja allan virkjanlegan jarðvarma landsins eru þau að reynslan af þeim virkjunum sem komnar eru að þær dragi að sér ferðafólk og opni aðgengi að svæðum sem áður hefðu verið óaðgengilegri.
Þannig sagði forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur að megð virkjun jarðhitans í Kerlingarfjöllum yrði opnað svæði sem hefur verið óaðgengilegt til þess, þangað lægi þá malbikaður heilsársvegur og þar yrði nægt rafmagn og þægindi fyrir ferðafólk.
Forstjórinn setti þess röksem fram sem algilda og hún myndi þá væntanlega gilda líka að Fjallabaki, í Öskju, Gjástykki, við Leirhnjúk og í Kverkfjöllum.
Þessi þróun kann að ganga upp í einhver ákveðinn tíma á ákveðnum virkjanasvæðum en með þessu er þó gengið gegn því sem er aðalástæða þeirra sem koma til Íslands, en það er að hér sé að finna það sem er svo sjaldgæft, ósnortin, einstæð og stórbrotin náttúra.
Ef röksemd forstjóra Orkuveitunnar væri algild væri fyrir löngu búið að virkja allan hinn gífurlega jarðvarma og vatnsorku sem finnst í Yellowstone og gera þar blá lón, gul lón, græn og rauð.
Ein milljón manna kemur langa leið yfir þveran hnöttinn til þess að skoða ósnortinn jarðvarmann og vatnsföllin í Yellowstone og mun halda áfram að koma þangað á þeim forsendum að þetta sé ósnortin náttúra, vegna þess að við Íslendingar erum tilbúnir til að fórna enn merkilegri náttúruverðmætum til að skaffa Bandarkjamönnum orku.
Enn á eftir að bæta miklu við virkjanirnar á Hellisheiði og Bitruvirkjun verður aðeins örfáa kílómetra frá Hveragerði enda eru bæjarbúar þar andvígir Bitruvirkjun en valta á yfir þá í þessum efnum í skjóli þess, að svæðið fellur undir Ölfushrepp þar sem megnið af íbúunum býr í 15 kílómetra fjarlægð frá virkjunarsvæðinu.
Rétt er að geta þess að loftgæði í Reykjavík standast nú þegar í 40 daga á hverju ári ekki lágmörk Kaliforníuríkis í Bandaríkjunum.
![]() |
Brennisteinsvetni innan marka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
13.11.2009 | 19:02
Smá"moli": Núll ára gamalt barn.
Ég á stundum erfitt með að stilla mig eins og vinur minn Eiður Guðnason, þegar málleysur og rökleysur dynja eins skæðadrífa yfir landslýð. Eiður er með sína málfarsmola og ég skýt einum hér inn: Í fréttum Stöðvar tvö á þessu föstudagskvöldi var þetta sagt: "Fleiri veikjast nú en áður af svínaflensu á aldrinum núll til níu ára."
Þetta er dæmigert þurrt kansellí- eða stærðfræðimál. Um aldir hefur það nægt þjóðinni að segja einfaldlega: "Börn yngri en níu ára."
Börn eru eins árs, tveggja ára, þriggja ára o. s. frv. en varla núll ára.
Næsta skref er að breyta textanum þegar kvikmyndir "eru kynntar og segja ekki: Bönnuð innan sextán ára, heldur "bönnuð börnum á aldrinum núll til sextán ára."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.11.2009 | 12:26
Sómaslagsmál, léttar nauðganir ?
Stundum er komist óheppilega að orði og skringilega þegar rætt er um það, sem er fyrir sumum þáttur í hversdagslegum viðfangsefnum.
Þannig var komist þannig að orði í frétt af ölvun, ólátum og átökum í Reykjavík í nótt að það hefði verið "sæmilegur erill" hjá lögreglunni.
Orðið "sæmilegur" er eitthvað sem ekki er skömm að heldur sómi. "Sæmilegur afli" er afli fiskiskips sem er nógu mikill til þess að hann sé ekki til skammar.
Næsta stig notkunar orðsins "sæmilegur" varðandi það sem miður fer að næturlagi gæti verið að viðkomandi laugardagskvöld hafi verið "sæmileg" slagsmál eða jafnvel sómaslagsmál.
Ég minnist þess eitt sinn þegar tekið var svonefnt "lögreglutékk" að morgni á fréttavakt í Sjónvarpinu sagði varðstjórinn að þetta hefði verið róleg nótt, bara svona "slagsmál, smá pústrar og léttar nauðganir."
Þetta var að sjálfsögðu ekki haft eftir, vegna þess að varðstjóranum var vorkunn þótt hann skrikaði aðeins á tungunni, því að helgina áður höfðu menn stórslasast í slagsmálum og alvarlegar nauðganir átt sér stað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.11.2009 | 18:45
Enn eitt "eitthvað annað."

Ef samningar næðust um uppsetningu samsetningarverksmiðju rafbíla hér á landi myndi það skapa hundruð starfa og þessi starfsemi yrði góð fyrir ímynd landsins og þarmeð viðskiptavild.
Það yrði mikið fagnaðarefni. Þó er rétt fagna ekki of snemma, því að vinnuafl í heimalandi rafbílsikns er ódýrt.
Listinn lengist sífellt yfir "eitthvað annað" sem hægt væri að nota orku okkar í á þægilegan hátt í takt við örugga og yfirvegaða virkjanastefnu þar sem ekki er flanað að neinu.
En vegna þess að enginn þessara aðila, sem falla undir "eitthvað annað" kaupir alla fáanlega orku heilla landshluta í heilu lagi er þeim í raun skákað aftur fyrir álverin, sem eiga hug ráðandi afla allan.
![]() |
Indverskir rafbílar hugsanlega settir saman hér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
12.11.2009 | 14:34
Albert skoraði svona mörk.
Það er líklega rétt að markið sem skorað var á upphafssekúndum leiks í Sádi-Arabíu sé heimsmet.
En á sínum tíma veit ég að Albert Guðmundsson skoraði á þennan hátt, ekki á upphafssekúndum viðkomandi leikja, en síðar í þeim.
Og Albert skoraði nokkur mörk af þessu tagi. Hann sagði mér að alla sína tíð, líka þegar hann léki góðgerðarleiki með Stjörnuliðinu mínu, væri hann ávallt með augun á öllum leikvellinum, ekki bara svæðinu næst sér.
Hann fylgdist sérstaklega með markverði og varnarmönnum andstæðinganna, jafnvel þótt hann sjálfur væri ekki kominn nálægt vítateig þeirra.
Í nokkur skipti hefði hann nýtt sér það að markvörðurinn uggði ekki að sér, og hefði skorað nokkur svona mörk, jafnvel frá eigin vallarhelmingi.
Já, Albert var magnaður knattspyrnumaður og ég hef áður greint frá tveimur snilldarmörkum hans í saman leiknum í leik Vals og erlends liðs á Melavellinum eftir að Albert kom heim úr frægðarútrás sinni, fyrsti íslenski atvinnumaðurinn.
![]() |
Skoraði eftir 2 sekúndur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.11.2009 | 13:18
Og álverasöngurinn hækkar.
Söngurinn "gef oss í dag vort daglega álver" er sunginn áfram og hljómaði nú síðast í fréttum útvarpsins í hádeginu.
Fundin var enn ný ástæða til þess að keyra upp stóriðjustefnuna.
Fullyrt að sem mestar álversframkvæmdir væru forsenda fyrir því að hægt verði að hífa sig upp úr ruslflokki í lánshæfismati.
Fyrirtækið sem búið er að kollsigla sig með óhæfilegum og rándýrum lántökum vegna stóriðjustefnunnar á samkvæmt þessu enga leið út úr vandanum nema að bæta í á þessu sviði svo að því geti liðið vel.
Minnir á afréttara fyrir fíkil.
Þetta er líkt því þegar maður, sem er kalt á fótunum, ákveður að pissa i skó sína. Á því augnabliki sem ylurinn berst um fæturna er kuldavandinn leystur. Forsendan fyrir þeirri lausn var að pissa í skóinn.
Æðibunu, óðagots- og örvæntingarstefnan sem keyrð er áfram hér er miðuð við að horfa rétt fram fyrir nefið á sér án þess að íhuga hvað gerist þegar afleiðingar skómigunnar koma fram.
Já, vel á minnst, - kannski er það ekki vitlaust heiti á stóriðjustefnunni, skómigustefna.
Ekkert er skeytt um þær afleiðingar til lengri tíma litið sem það mun hafa að ráðstafa náttúruverðmætum og orkulindum þjóðarinnar til þeirra sem bruðla mest með þær og valda mestu tjóni.
![]() |
Lánshæfi OR í ruslflokki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)