"Finnska leiðin" - tvær leiðir.

Þegar ég hóf að ræða opinberlega það sem kalla mátti "finnsku leiðina" átti ég við þá hlið endurreisnarinnar eftir kreppuna í Finnlandi sem laut að því að hætta við stórvirkjun og stóriðju og einbeita kröftunum að þekkingariðnaði og ferðaþjónustu. Í Lapplandi var 50% atvinnuleysi en þar tókst að koma þeim hluta Finnlands á þann stall að fleiri ferðamenn koma þangað nú yfir vetrarmánuðina eina en allt árið hér á Íslandi.

Á Austurvelli í dag var hins vegar í ræðu beðið um að gjalda varhug við "finnsku leiðinni." Þar var átt við hin hrikalegu mistök og ranglæti á félagslega sviðinu sem hafði skelfilegar afleiðingar fyrir fjölda fólks.

Ekki dettur mér í hug að mæla með þessari hlið þeirra rástafana sem Finnar gripu til. Að því leyti getum við lært af biturri reynslu þeirra og lært af henni til sem víti til varnaðar.

En við getum líka lært af þeirri góðu reynslu sem fólst í því að beisla hugvit, menntun og frumkvæði í þekkingariðnaði frekar en að fara út í stórkarlalegar stórvirkjanir og stóriðju. Það er sú "finnska leið" sem ég er að tala um, - ekki sú "finnska leið" sem fólst í stórkostlegu félagslegu ranglæti.


mbl.is Kjörumhverfi fyrir spillingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefðbundin viðbrögð í lýðræðisríki.

Allt frá dögum Gandhis og síðar Martin Lúthers Kings hefur þróast ákveðið form þeirra þátttöku borgaranna í lýðræðinu að koma saman og mótmæla því sem fólk telur þarft að tjá sig um. Þetta er orðin hefð í öðrum löndum en hér á landi virðist einhver feimni við að nýta þennan sjálfsagða rétt og láta fulltrúana í fulltrúalýðræðinu vita af því hvað er að gerast í hugum fólks á fleiri stundum en rétt meðan kjörseðill er látinn detta í kassa.

Það er ekki gott fyrir Íslendinga út á við ef fólk, sem telur sig illa leikið, mótmælir aðeins erlendis. Ef ekki er hreyft samskonar andmælum hér landi styrkir það þá ímynd Íslendinga, sem sjá mátti spilaða æ ofan í æ í sjónvarpsfréttum erlendis, að íslenska þjóðin væri samansafn skúrka sem borguðu ekki, stæðu ekki við skuldbindingar sínar.

Útlendingar mega vel vit af reiðinni og óánægjunni sem sýður á þúsundum Íslendinga sem eru grátt leiknir.


mbl.is Sameinast gegn Kaupþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvær aðferðir.

Þegar menn búa yfir óþægilegri vitneskju eða eiga erfitt um svör getur það endað á tvo vegu. Annars vegar að fara undan í flæmingi og komast hjá því að tala af sér eða upplýsa um hinn vonda sannleika - eða, - ljúga. Ég geri mér grein fyrir því að íslenskir ráðamenn hafa átt erfitt með að svara áleitnum spurningum að undanförnu en lygar þeirra hafa skemmt mikið fyrir þeim.

Ég minnist viðtals í sjónvarpshúsinu gamla sem tekið var fyrir þremur áratugum við íslenskan forsætisráðherra um mjög viðkvæmt, þýðingarmikið og yfrirgripsmikið mál. Ráðherrann hafði á þessum árum alltaf ráðgjafa með sér til að segja til um frammistöðuna.

Ég horfði á upptökuna á þessu viðtali og þegar því var lokið gekk ráðherrann sveittur til ráðgjafans, sem hafði horft á viðtalið afsíðis og spurði hann: "Slapp ég ekki nokkurn veginn? Ég sagði ekkert, var það?" Rágjafinn kinkaði kolli og báðir voru ánægðir.

Margir af bestu samstarfsmönnum mínum hafa horfið frá fréttamennsku og gerst upplýsingarfulltrúar fyrir miklu hærra kaup. Þeir, sem ég hef þekkt, hafa staðið sig vel og staðið fagmannlega að störfum sínum

En almennt séð geta tvær slæmar hliðar geta verið á því þegar það er orðið algengt að fréttamenn og blaðamenn streymi út af fjölmiðlunum í störf fjölmiðlafulltrúa: Í fyrsta lagi atgervisflóttinn og í öðru lagi það, að ef þetta er orðið mjög algengt getur það myndað hvata fyrir blaða- og fréttamenn til þess að haga sér þannig í starfi hjá fjölmiðlum að þeir eigi möguleika að verða upplýsingarfulltrúar hjá voldugum öflum, sem vilja hafa áhrif á fjölmiðlun.

Upplýsingarfulltrúar útskýra oft starfsaðferðir sínar með því að líkja henni við störf lögfræðinga sem verði jú að vinna eins vel og þeir geta fyrir skjólstæðinga sína, jafnvel þótt það séu hinir verstu misyndismenn.

Ég spurði einu sinni Örn Clausen hvernig hann færi að því að verja svona marga stórafbrotamenn, sem virtust sækjast eftir því að fá hann til að verja sig. Hann svaraði: "Ég geng hreint til verks í upphafi og segi við þá: Ég skal verja þig með klóm og kjafti að uppfylltu einu grundvallarskilyrði: Þú verður að trúa mér fyrir sannleikanum því að ég mun aldrei bera lygar á borð fyrir dómarana. Gerðu þetta svikalaust og láttu mig síðan um restina."

Mér skilst að Örn hafi varið svo marga stórkrimma vegna þess hve vel honum tókst að útskýra málstað þeirra eftir að hann vissi nákvæmlega hvernig í pottinn var búið og byggði vörnina á staðreyndum en ekki lygum.

Þetta mættu margir hafa í huga.


mbl.is Rekin fyrir að segja ekki ósatt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sálfræðilegt úrlausnarefni.

Skondnar uppákomur hafa orðið við söluturna borgarinnar síðan ég eignaðist minnsta bíl landsins, Fiat 500, fyrir þremur árum. Í söluskálunum eru yfirleitt tvö söluuop og ef bíll er við seinna opið, ekur næsti bíll í röðinni upp að fyrra opinu og fær annað hvort afgreiðslu þar eða bíður við það þar til búið er að afgreiða bílinn sem var á undan.

Fiatinn er með hægri handar stýri og þótt hann sé svo mjór að hægt sé að teygja sig út um vinstri gluggann er þægilegra og eðlilegra að bakka bílnum að afgreiðsluopunum og versla í gegnum bílstjóragluggann.

Vegna þess hvað bíllinn er lítill, verður oft bil á milli hans og bílsins á undan og þá er afar títt, að þeir sem koma inn á eftir mér, aka meðfram bíl mínum og þrengja sér á ská á milli mín og bílsins fyrir framan og komast þannig fram fyrir mig í röðinni.

Í fleiri en eitt skipti hefur þetta endurtekið sig á þann hátt að ég hef á endanum orðið að gefast upp og aka í burtu, nú síðast í dag. Hið skonda við þetta er að ef ég er á hinum Fiatinum mínum, sem er með vinstri handar stýri, gerist þetta aldrei.

Þetta vekur ýmsar spurningar um ástæður þessarar hegðunar.

1. Fáfræði. Þessir bílstjórar vita ekki að hægt sé að bakka bílum og halda því að ég sé á leið til baka í röðinni, á móti umferðinni.

2. Þeir telja að stórir og dýrir bílar eiga að hafa forgang við söluop fram yfir vesæla aumingjabíla.

3. Vegna þess að bil er á milli míns bíls og hins næsta fyrir framan þegar ég bíð við fyrra opið til að vera á réttum stað ef afgreiðsla býðst í því, sé rétt að þrengja sér á ská inn í þetta bil og nýta það.

4. Biðraðamenning er þessum bílstjórum framandi.

Andúð á Bretum og hægri handar stýrum getur ekki haft áhrif, þetta hefur verið svona alveg frá því að ég fékk bílinn.

Gaman væri að heyra hvaða sálfræðilega skýringu fólk hefur á þessari skondnu hegðun við söluopin.


Lítil saga utan af landi.

Þessa sögu heyrði ég í fyrra. Í bekk einum i grunnskóla í sjávarþorpi á Vestfjörðum spurði barnakennari bekkinn: "Hvað er það dýrmætasta sem Ísland á." Það kom löng þögn en svo rétti lítil stúlka aftarlega í bekknum upp höndina. Svarið hennar kom um leið og kennarinn endurtók spurninguna: "Hvað er það dýrmætasta sem Ísland á?"  "Pólverjarnir" svaraði stúlkan.

Bragð er að þá barnið finnur. Um allt Ísland hefur mátt sjá það undanfarin ár, að atvinnulífið hefði stöðvast ef Pólverjanna hefði ekki notið við.


mbl.is Pólverjar munu lána Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvert fór sumt af fénu og eignunum?

Eftir því sem lengri tími líður verður erfiðara að festa hendur á öllum þeim hræringum sem skekið hafa íslenskt efnahagslíf og þjóðlíf undanfarna mánuði. Ég nefni dæmi: Suður á Grikklandi var íslensk fjölskylda við ströndina að snæðingi og virti fyrir sér risastóra lúxusnekkju sem bar af öllum skipum þar.

Þegar þjónninn spurði hvaðan þau væri og þau sögðust vera Íslendingar, sagði hann umsvifalaust: Þið hljótið að vera ríkasta þjóð í heimi því að Íslendingurinn sem á þessa flottustu lúxussnekkju hér um slóðir virðist hafa ótrúlegt fé undir höndum til að kaupa nánast hvað sem er og vaða í peningum.

Það eru áreiðanlega fleiri en 20-30 Íslendingar sem stóðu í efnahagssvallinu og hafa komið fé og eignum undan. Sýnist stoða lítið fyrir ráðamenn og þjóðina að særa þess menn til að koma með fenginn heim til Íslands enda fennir fljótt í flóttasporin á meðan nauðsynlegar rannsóknar dragast á langinn. Líklega verður aldrei hægt að þefa uppi ýmislegt sem fór til Cayman-eyja eða annarra slíkra "paradísa." .


mbl.is Valtýr rannsakar ekki starfsemi bankanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn eitt stríðið sem enginn vildi.

Sagan geymir styrjaldir sem hófust án þess að nokkur vildi það. Deila Íslendinga og Breta virðist gott dæmi um það. Allt fram að 3. október draga Bretar lappirnar við að koma Icesave reikningunum undir breska lögsögu og átta sig engan veginn á alvöru málsins, enda virðast Íslendingar tregir til að játa hana til fulls.

Þá fyrst, og hugsanlega of seint, átta bresk stjórnvöld sig á því að mun skárri kostur sé að láta skaðabætur vegna tapsins lenda á öllum breskum skattborgurum i heild og verða þar með lítil upphæð hjá hverjum og einum heldur en að 300 þúsund innlánseigendur geri allt vitlaust vegna taps síns.

Boð eru látin berast til Íslendinga um að landa þessu með flýtimeðferð á fimm dögum. Sjálfur yfirmaður breska fjármálaeftirlitsins er kallaður út yfir helgi til að vinna að þessu. En íslensk yfirvöld klúðra tækifærinu og Darling fjármálaráðherra verður æfur yfir skilningsleysi þeirra þegar hann reynir í viðtalinu fræga við Árna Mathiesen að koma honum í skilning um hve hroðalegar afleiðingar þetta muni hafa fyrir orðspor og hagi Íslendinga.

Í kjölfarið sjá hundruð milljóna sjónvarpsáhorfenda erlendis margspiluð ummæli seðlabankastjóra Íslands: "Við borgum ekki" og orðspori Íslands, heiðri og viðskiptavild er sturtað niður í klósettið. Eins og þetta var spilað í erlendu sjónvarpi jafngilti þetta striðsyfirlýsingu þótt því væri ætlað að sefa íslenska sjónvarpsáhorfendur.

Nú er deilan orðin að stríði sem stefnir í það að verða miklu harðara og alvarlegra en menn óraði fyrir. Hún gæti stigmagnast á óviðráðanlegan hátt eins og kjarnorkustríð. Það væri hörmulegt. Klúðrið dagana 3.- 7. október má ekki endurtaka sig.

Nokkurra daga atburðarás leiddi til fyrri heimsstyrjaldarinnar, styrjaldar sem góður vilji hefði geta komið í veg fyrir, - en menn misstu stjórn á atburðarásinni. Það og atburðarásin 3. - 7. október s.l. er víti til varnaðar.


mbl.is Uggandi um afgreiðslu umsóknar hjá IMF
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Getur einhver vís maður svarað mér fávísum?

Einhvern tíma var notað orðtakið að spyrja eins og fávís kona en nú ætla ég að spyrja eins og fávís maður í framhaldi af viðtali við formann VR í Kastljósi í kvöld:

Er hugsanlegt að á stjórnarfundi í fyrirtæki komi það fram að stærstu hluthafarnir í fyrirtækinu stilli stjórninni upp við vegg með tveimur kostum: 1. Annað hvort seljum við allir á einu bretti bréfin okkar í fyrirtækinu og þá fer það í þrot eða: 2. Persónulegar ábyrgðir okkar vegna skulda okkar við fyrirtækið verði felldar niður.

Ég gat ekki betur skilið en að formaður VR segði í kvöld að um þessa tvo afarkosti hefði verið að ræða og að hinn síðari hefði verið skárri, - sem sé þetta gamla góða; -  tilboð sem ekki var hægt að hafna. 

Formaðurinn sagði að Kaupþing hefði staðið traustum fótum í september en samt hefði verið rætt um stórfellda sölu hlutabréfa og þar með keyrslu fyrirtækisins í þrot.

Þetta kemur ekki heim og saman í mínum huga og þá vaknar spurning hins fávísa manns sem gott væri að einhver mér miklu vísari um hin mörgu hýbýli föður míns á fjármálahimni gæti svarað. Það er spurningin sem ég setti fram í upphafi þessa pistils. 

Ég vil ekki að spurning mín sé tekin sem dylgjur heldur sem fræðilegt álitaefni.  


mbl.is Hugsanlegt brot gegn hegningarlögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það sem fer á loft kemur aftur niður.

What goes up must come down. Á íslensku: Það sem fer á loft kemur aftur niður. Síðust ár hefur legið fyrir að nýbyggingar á Íslandi hafa verið langt umfram þörf. Líklega verður niðurstaðan sú nú þegar kreppan fer að sýna klærnar að byggt hafi verið umframhúsnæði sem ekki verði þörf á fyrr en eftir 15-20 ár.

Samt hélt byggingaæðið áfram þótt allir hefðu mátt vita að afleiðingin yrði óhjákvæmilega samdráttur, jafnvel þótt engin kreppa hefði komið til.

Eitthvað af þessu byggingaræði virðist lifa góðu lífi enn ef marka má eftirsókn bæjaryfirvalda í Kópavogi að virða að vettugi andmæli íbúa gegn því að byggðar verði sjö hæða íbúðablokkir þar sem áður var reiknað með fjögurra hæða blokkum.

Byggingaframkvæmdagleðin hefði mátt vera minni og jafnari. En kannski átti stóran þátt í því að erlend aðföng fengustu á afsláttarverði vegna hás gengis krónunnar.  

 


mbl.is Um 70% samdráttur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hægt að stórminnka notkunina.

Ég ek á ónegldum dekkjum allt árið en á 23ja ára gamlan nær verðlausan smájeppa, Suzuki Fox ´85 (minnsta jöklajeppa landsins) sem ég get gripið til ef ég þarf að fara yfir Hellisheiði eða lengra á vit snævar og ófærðar.

Í fyrravetur þurfti ég að aka frá Bergen til Osló yfir miðhálendi Noregs á flughálum vegum á ónegldum dekkjum. Þau voru frábær og ég trúði því varla hve vel þau gripu, nánast eins og negld dekk eða harðkornadekk. 

Þörf fyrir negld dekk hér á höfuðborgarsvæðinu skapast aðeins fáar klukkustundir á hverjum vetri. Góð, óslitin, ónegld dekk nægja. En salt veldur líka miklu tjóni á bílum, sem þarf að minnka.

Tillögur mínar til úrbóta eru þessar:

Þeir borgi sem valda tjóni, tekið gjald af þeim sem nota negld dekk.  

Markviss söltun, aðeins við aðstæður þegar hennar er þörf og samstundis þegar hálka myndast. (Salt-slökkvilið)

Afsláttur á opinberum gjöldum á ónegld vetardekk en aukagjald á naglana. 

Komið upp stórri þvottastöð innan húss þar sem fólk getur þvegið saltið neðan af bílum sínum frítt þótt frost sé úti.

Niðurfelling gjalda á ryðvarnarefnum. (Myndi hafa lagt þetta til, jafnvel þótt bróðir minn ætti ekki ryðvarnarstöð)     


mbl.is Notkun nagladekkja kostar sitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband