Heppilegt fyrir járnblendiverksmiðjuna.

Slæmu fréttirnar frá Reyðarfirði eru sprenginginn og eldsvoðinn í álverinu og hugsanlega gríðarlegt tjón sem þar hefur orðið. Vonandi skemmist þó álið ekki í kerjunum.

Fátt er þó svo með öllu illt að ei boði gott fyrir einhvert.  Þessi eldsvoði kemur nefnilega á heppilegasta tíma fyrir járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga þar sem svo mikill reyk lagði frá verksmiðjunni að skyggni var lélegt á þjóðveginum.  Skýringin var bilun í hreinsibúnaði.

Nokkur ár eru síðan að starfsmaður við verksmiðjuna sem fyrir alla muni vildi alls ekki láta nafns síns getið, enda starfið í veði, greindi mér frá því að hreinsibúnaður verksmiðjunnar væri ónýtt drasl. 

Skömmu seinna gerðist það að þegar ég átti leið framhjá verksmiðjunni á bjartri nótt gaus þar upp mikill reykur sem kaffærði stórt svæði við verksmiðjuna. 

Ég tók auðvitað myndir sem birtust í sjónvarpsfréttum og fékk það fljótlega framan í mig að mér væri svo illa við verksmiðjuna að ég vekti um nætur til þess að ná svona myndum og koma höggi á hana! 

Ástandið þarna minnir mig á gamla vísu sem hljóðaði svona: "Svona gengur það, - svona er það, - allir vita það, en enginn sér það. 

Eftir myndbirtinguna heyrði ég ýmislegt frá nágrönnunum, sem minnti mig á þennan texta. 

Óhætt er að segja að mikil heppni hvílir yfir járnblendiverksmiðjunni, og skal það tekið fram að ég hef ekkert á móti henni, - tilvist hennar var afgreidd fyrir mörgum áratugum. 

Öll athyglin beinist nú að Reyðarfirði og ónýta draslið á Grundartanga fær að vera áfram í friði, eigendum verksmiðjunnar til mikillar ánægju, því að auðvitað kostar peninga að hafa svona búnað almennilegan. 


mbl.is Eldurinn slökktur í álverinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En skilja álverin nokkra orku eftir?

Alcoa og kínverskt álfyrirtæki eru efst á forgangslista varðandi orku á Norðausturlandi. Aðeins er búið að tryggja innan við þriðjung þeirrar orku sem þau muni þurfa ef þau eiga að ná þeirri stærð, sem eigendur þeirra telja nauðsynlega til þess að rekstur þeirra verði viðunandi.

Svipað er varðandi álverið í Helguvík. Það er efst á forgangslista hér syðra og ekki búið að finna orku fyrir það.

Hvar eiga þá minni fyrirtæki, sem eru neðar á forgangsröðunarlistanum, að fá orkuna.

Vísa til nýjustu pistla minna hér á mbl.is og á eyjan.is um þessi mál.  


mbl.is Netþjónabú boðin velkomin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sýra í andlitið?

Lilja Mósesdóttir minntist á ýmislegt í Kastljósviðtali í kvöld, meðal annars það að skipulagsmál og skortur á orku hamli framgangi Helguvíkurálvers, alveg burtséð frá skoðunum VG í því efni.

Það munaði nokkrum klukkustundum að hún hefði getað greint frá máli, sem ég hef haft ávæning af síðustu misseri en ekki fengið staðfestingu á fyrr en nú, en þýðir einfaldlega það að langur, langur vegur er frá því að fyrir hendi séu þau 650 megavött af orku, sem Alcoa þarf fyrir 340 tonna álver sitt á Bakka. 

Þetta sést í frétt á visir.is með afar jákvæðri fyrirsögn um það að Landsvirkjun ætli að fjárfesta 1,5 milljörðum króna í rannsóknir vegna orkuöflunar á Norðausturlandi. Búið að eyða 9 milljörðum og ætlunin að fara í 10,5. 

Bravó! Hrópa þá flestir. Allt fyrir álverið! Þetta er á fullri ferð.

En þegar fréttin er lesin nánar kemur þveröfugt í ljós sem líkja má við það að menn fái sýru í andlitið. 

Yfirleitt blogga ég ekki um það sama á blogginu hér og á eyjan.is en geri undantekningu í þetta sinn og vísa í ítarlegri pistil minn þar. 

Gróf niðurstaða fréttarinnar á visir.is er þessi: Í stað 150 megavatta við Þeystareyki og 150 megavatta við Kröflu, samtals allt að 300 megavött, eru nú í hendi 45 megavött við Þeystareyki og 50-60 megavött við Kröflu ef hægt verður að ráða við sýruvandamál í borholunum þar, sem enn hefur ekki fengist lausan á! 

Með öðrum orðum: Í stað allt upp í  300 megavött er nú verið að tala um allt niður í 45 megavött! 

Þetta má nú kalla að fá sýru í andlitið. 


mbl.is Segist styðja ríkisstjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju fóru ekki fleiri Þrengslin í dag ?

TF-FRÚ stendur enn á túni rétt við Hvolsvöll hjá Jóni Loga bónda. Mér leist ekkert á veðrið og þótt hún sé ágætlega bundin ákvað ég upp úr hádeginu í dag að skjótast austur til að vera nálægur ef þetta ætlaði að verða mun verra en spáð var.

Flaparnir á vélinni eru stilltir þannig að þeir frjósi ekki fastir við vænginn ef frystir eftir rigningu, en í svona stillingu fá vængirnir meiri lyftikraft en ella, en það getur munað um slíkt ef bálhvasst er. 

Flugvélar eru nú hannaðar til þess að lyftast þegar loftstraumur leikur hratt um þær. 

Ég tók með mér varahluti, sem mér voru gefnir í Súkkujeppa sem er bilaður við Selfoss til að skutla þeim austur í leiðinni. 

Ég fór Þrengslin og yfir Óseyrarbrú en ekki um Hveragerði. Ástæðan var einföld: Veðrið er miklu skaplegra og hættuminna í Þrengslunum og niðri við ströndina en undir Ingólfsfjalli í hvassri norðanátt og þetta munar aðeins tíu mínútum í akstri. 

Nánast engin umferð var á þessari leið og það sagði mér að fólk virðist alveg tilbúið til að hætta eigum sínum og taka áhættu á meiðslum fyrir 10 mínútna töf. Jafnvel aðeins nokkurra mínútna töf, því að það getur verið tafsamt að aka þar sem fárviðri geysar. 

Í mínu tilfelli var töfin þegar upp var staðíð engin því að þegar ég kom austur var orðið ljóst, sem ég hafði reyndar reiknað með, þótt ég hefði varann á, að FRÚ-in stóð á skaplegasta svæðinu á Suðurlandi, miðað við vindáttina. 

Ég fór því aðeins á Ljónsstaði sunnan Selfoss þar sem Súkkan er og síðan til baka og sparaði nokkrar mínútur við það. 

Og nú spyr ég: Af hverju fóru ekki fleiri Þrengslin í dag? Í útvarpi var síbylja um að byljótt væri undir fjöllum. Þurfti að þylja líka upp nöfn fjallanna? 


mbl.is Tveir bílar fuku út af vegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju ekki fyrr?

"Hefnd fyrir Evrópumálin."  Athyglisverð fyrirsögn vegna hjásetu þremenninganna í VG  sem setja má spurningarmerki við og velta fyrir sér.

Í fyrirsögninni felst að vegna þess að VG sé á móti aðild að ESB en þingmennirnir þrír hafi á sínum tíma neyðst til að samþykkja umsóknarferlið, sem leiðir af tilgreindri umsókn í stjórnarsáttmála, hafi þótt tilefni til þess að láta þetta atriði ráða við atkvæðagreiðslu um allt annað mál sem nokkurs konar "hefnd". 

Ég á erfitt með að ímynda mér að svona sé í pottinn búið, - á erfitt með að trúa því að ábyrgir alþingismenn hugsi svona. 

Förum aðeins yfir ferlið. Í stjórnarsáttmála stjórnarinnar voru tvö atriði sem þremenningarnir tilgreina meðal höfuðástæðna þess að þeir grípa til þess einstæða ráðs að styðja ekki fjárlagafrumvarp eigin ríkisstjórnar, - frumvarp sem samkvæmt lögum, hefðum og eðli máls hefur algera sérstöðu hjá hverri ríkisstjórn. 

Tvær vinstri stjórnir sprungu á sínum tíma út af því að augljóst var að ekki var samstaða var fjárlagafrumvörp, í árslok 1958 og svo aftur haustið 1979.

Þessi tvö atriði sem nú eru tilgreind eru annars vegar sú stefna að halda sig innan ramma AGS og hinsvegar umsókn um aðild að ESB.

Bæði þessi mál voru á dagskrá í upphafi núverandi ríkisstjórnarsamstarfs eins og stjórnarsáttmálinn bar merki um.

En þá vaknar spurningin af hverju þremenningarnir sátu ekki hjá strax þegar stjórnin var mynduð úr því að slík grundvallaratriði voru þeim ekki að skapi. 

Hvers vegna ákváðu þau að bíða og sjá hvernig mál þróuðust og ákváðu nú að skerast úr leik? 

Það er rétt hjá Lilju Mósesdóttur að eitt af því sem stuðlaði að skertu valdi Alþingis og veikluðu lýðræði í aðdraganda Hrunsins var hið svonefnda foringjaræði og ofríki framkvæmdavaldsins gegn löggjafarvaldinu. 

En af frásögn hennar af skammvinnri setu hennar í starfshópi vegna fjárlagafrumvarpsins er svo að sjá að aðrir í þeim hópi hafi verið nokkuð samstíga í að vera henni ósammála. 

Lilja túlkar það sem afleiðingu af "foringjaræði" og vænir þar með aðra í hópnum um þýlyndi við forystufólk stjórnarflokkanna. 

En var það svo?  Það er erfitt að standa utan við þann hóp og reyna að svara því. 

Starfshópurinn sýnist einmitt hafa sýnt viðleitni foringjanna til þess að þingið tæki vaxandi þátt í gerð fjárlaganna og þegar Lilja segir sig síðan úr hópnum finnst sumum að hún eigi erfitt með að kvarta yfir því að hafa ekki verið boðið að vera með í ráðum. 

Hennar svar er að hópurinn hafi ekki viljað láta vinna útreikninga á þeirri útfærslu, sem hún vldi bjóða upp á, og við höfum ekki heyrt svör frá hópnum, hvers vegna svona fór. 

Ef við tökum handboltaleik sem hliðstæðu, létu þremenningarnir greinilega til leiðast á sínum tíma að spila í liði á leikvelli Alþingis þar sem skipt var í tvö lið, stjórn og stjórnarandstöðu, og samþykkt var fyrirfram ákveðin leikaðferð með ákveðinn leikstjórnanda. 

Það sem gerðist í gær jafngilti því að vegna óánægju með leikaðferiðina væri hætt að spila inni á vellinum og sest á bekk á hliðarlínunni og spilað á hvorugt markið í trausti þess að eftir sem áður væri liðsheildin inni á nógu sterk til þess að halda í við mótherjana. 

Gefa um það yfirlýsingar að þegar þeim líkaði við spilamennskuna kæmu þau inn á og myndu sjá til þess að lið þeirra kæmist hjá ósigri. 

Lilja vísar til þroskans hjá nágrannaþjóðunum sem geta haft minnihlutastjórnir sem komast að samkomulagi við nógu marga úr meirihlutanum til þess að geta komið fram málum. 

Rétt er það að þetta getur gengið upp og væri æskilegast að það væri alltaf þannig, en það getur líka farið á þann veg sem er til dæmis í Ísrael, þar sem örfáir þingmenn á jaðrinum geta haft áhrif á stjórnarstefnuna langt umfram hlutfallslegt fylgi sitt. 

Það hefur áður gerst að stjórnameirihluti hefur orðið valtur hér á landi vegna sérálits stjórnarþingmanns. Það gerðist í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens þegar Guðrúnu Helgadóttur greindi á við stjórnina i svonefndu Gervasoni-máli, en Gervasoni þessi var landflótta útlendingur hér á landi. 

Stjórnin slapp fyrir horn enda hefði orðið fáheyrt ef stjórn hefði sprungið út af slíku máli. 

Fimm sjálfstæðisþingmenn ákváðu í upphafi ferils Nýsköpunarstjórnarinnar haustið 1944 að styðja ekki þá stjórn. Hún hafði þó nægan meirihluta og þegar frá leið komu þessir þingmenn inn í myndina. 

Kannski hefði verið betra að þremenningarnir í VG hefðu staðið þannig að málum. 

Í stjórnmálum eins og svo víðar í lífinu, standa menn oft frammi fyrir tveimur kostum. 

Þingmenn núverandi stjórnarflokka vita að kostirnir eru skýrir, einn nokkuð augljós, en þrír aðrir kostir hugsanlegar afleiðingar af því að velja ekki kost 1. 

1. Núverandi stjórn sitji áfram. Annars í meginatriðum um eftirfarandi kosti að ræða: 

2. Ný stjórn verði mynduð og óhjákvæmilegt að Sjálfstæðisflokkurinn eigi aðild að henni. Stjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks myndi strax fá nafnið Nýja Hrunstjórnin. Styrkur VG sem heildar hefur veiklast og gerir stjórnarmyndum með þeim flokki erfiðari en ella, auk þess sem slík stjórn yrði að vera þriggja flokka stjórn. Þjóðstjórn er varla í spilunum því að vantraust almennings gagnvart Alþingi sem heild er mikið. 

3. Stjórnarkreppa og mynduð utanþingsstjórn. Fæli í sér uppgjöf Alþingis sem þingið getur illa látið á sig sannast ofan á það sem gengið hefur á undanfarin ár. 

4. Stjórnarkreppa og kosningar. Mikið óvissuspil og alltaf erfitt fyrir sitjandi stjórn sem á í erfiðleikum. 

Þegar þingmenn stjórnarflokkanna líta á þessa kosti er hætt við að mikið þurfi til, til þess að þeir leggi í að láta núverandi stjórn falla. 

Þetta virðist stefna í að valið verði kostur 1 og ákveðið áhættuspil sem felst í því að með því að veikla stjórnarmeirihlutann er hættan á stjórnarslitum aukin. 

Á hinn bóginn myndi sá stjórnarmeirihluti sem samþykkti þó fjárlögin taka mikla áhættu með því að sundrast frekar en orðið er og láta stjórnina falla. 

Ástandið býður upp á áhættuspil sem vandasamt er að spila og óvissuþættirnir virðast einfaldlega of margir og stórir til þess að í bili verði stjórnarslit, hvað sem síðar verður. 

 

 


mbl.is Hefnd fyrir Evrópumálin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meira af þessu !

Við Íslendingar höfum fram að þessu reynt að vinna okkur í álit og fá út á það heiður, viðskiptavild og fjármuni með því að staðhæfa að við séum í fararbroddi þjóða heims í umhverfismálum. Látið er í það skína að að baki þessu búi hugsjónaeldur okkar og fórnfýsi. 

Fráleitt er að halda fram hinu síðastnefnda varðandi hugsjónirnar. Við hófum að gera hitaveitur, fyrst fyrir Reykjavík um miðja síðustu öld og síðan um allt land þegar olíukreppa skall á síðar á öldinni eingöngu af því það það borgaði sig peningalega, var bæði ódýrara en innflutt eldsneyti og sparaði okkur gjaldeyrisútlát. 

Að öðru leyti erum við enn á hælunum varðandi umhverfismál því að skelfileg skammsýni hefur ráðið för á öðrum sviðum umhverfismála. 

Við höfum komið okkur upp mest mengandi bílaflota í okkar heimshluta, staðið að stórum virkjunum sem standast ekki þær fullyrðingar okkar að þær séu sjálfbærar og hafið mikla herferð á hendur mesta verðmæti landsins, sem er einstæð náttúra þess.

Metanbílar Selecta eru gleðilegt dæmi um það að einhvers staðar glytti í bestu blöndu, sem hugsanleg er, það er blöndu af skynsemi, framsýnig og hugsjónum. 

Það ber að fagna þessu og þakka það, þótt þetta sé hins vegar svo grátlega lítið miðað við viðfangsefnið sem við blasir að snúa við á braut kæruleysis og skammtímagræðgi. 

Meira af metan-bílum! Meira af þessu! 


mbl.is Umhverfisvænn bílafloti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Máttur listarinnar.

Það kann að sýnast skrýtin fyrirsögn á pistli um blaðaljósmyndara að nefna orðið list í því samhengi.

En engum, sem hefur kynnt sér verk ljósmyndarans Ragnars Axelssonar dylst að langt er síðan að þar væri bara á ferðinni venjulegur blaðaljósmyndari í gerð heimilda í formi ljósmynda, heldur miklu fremur listamaður í hæsta gæðaflokki. 

Ég hef unnið nógu lengi með Raxa til að geta sagt að aðeins maður með mikla listræna hæfileika geti náð jafn langt á sínu sviði og hann. 

Hann hefur þar að auki verið afar fundvís á verðug viðfangsefni, en slíkt er ekki öllum gefið. 

Grænlandsmyndir hans eru eitt þýðingarmesta framlag listamanns á heimsvísu til umræðu um áhrif mannsins á umhverfi sitt og þar með lífsskilyrði sín. 

Þótt Grænlandsmyndirnar veki síðari árin mesta athygli á heimsvísu má ekki gleymast hlutverk RAXa í að kynna okkar eigið land og þjóð.

Og þá má ekki gleyma því að hann hefur líka sinnt Færeyingum afar vel og með því að samtvinna kjör og umhverfi þessara þriggja þjóða, Færeyinga, Íslendinga og Grænlendinga í verkum sínum og viðfangsefnum hefur Rax verið sér á parti.

Þetta er mikils virði því að á undarlegan hátt höfum við Íslendingar lengi vanrækt sambandið við þessar tvær nágrannaþjóðir sem næst okkur búa. 

Listamenn, svo sem tónlistarmenn, rithöfundar og skáld, geta stundum haft meiri áhrif en stjórnmálamenn.

Þess vegna eru menn eins og Rax mikilvægir.  

 


mbl.is Grænlandsmyndir Rax í Stern
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tæpur þingmeirihluti.

Þótt stjórnarandstaðan hafi setið hjá í samræmi við hefð við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins vekur það athygli að þrír þingmenn VG skipa sér á bekk með henni.

Fjárlagafrumvarpið skipar sérstakan sess hjá Alþingi. Þetta er eina frumvarpið sem þinginu er skylt að afgreiða á hverju ári. 

Ríkisstjórn, sem ekki getur komið fjárlagafrumvarpi í gegn, er því fallin. 

Tölurnar 32 með og 31 sem sitja hjá eru því sláandi og sýna, að ef Þráinn Bertelsson hefði ekki gengið til til liðs við ríkisstjórnina hefðu tölurnar verið 31 með og 32 sem sátu hjá. 

32 þingmenn þurfa að styðja ríkisstjórn svo að tryggt sé að hún falli ekki. Því stendur stjórnin tæpt og hefur slíkt ekki gerst síðan í upphafi setu ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar 1988. 


mbl.is Fjárlagafrumvarpið samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki á móti.

Fyrirsagnir frétta eiga helst að vera réttar. Hið rétta er, ef marka má útvarpsfréttir af þessu máli, að þrír þingmenn VG styðja ekki fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar en eru heldur ekki á móti því.

Kórrétt fyrirsögn fréttar um þetta er einfaldlega: Lilja, Atli og Ásmundur styðja ekki fjárlögin, -  eða -  Lilja, Atli og Ásmundur sitja hjá. 

Það hefur hins vegar ekki áður gerst í þingsögunni að stjórnarþingmenn hafi ekki stutt fjárlagafrumvarpið og það telja þau greinilega nóg til þess að láta það koma sem skýrast fram að þau séu óánægð með það. 

Þess ber að geta að fjárlagafrumvarpið er og hefur verið sér á parti í lögum og venjum þingsins. 

Þetta er eina lagafrumvarpið sem er beinlínis skylt að leggja fram og á meðan þingið var tvær deildir nægði að samþykkja frumvarpið í sameinuðu þingi. 

Það er hefð fyrir því að stjórnarandstöðuþingmenn sitji hjá við afgreiðslu frumvarpsins og að því leyti til eru þremenningarnir í VG komin í sömu aðstöðu og stjórnarandstaðan í þessu máli. 

Fyrirsögnin hefði því getað verið þessi: Lilja, Atli og Ásmundur á bekk með stjórnarandstöðunni. 

Það breytir því hins vegar ekki að þau sátu hjá, - voru ekki á móti. 


mbl.is Lilja, Atli og Ásmundur á móti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þetta reddast."

Ef allt væri með felldu væri ekki verið að fjalla um það örfáum dögum fyrir áramót að rekstur stofnunar eins og Sólheima verði tryggður.

Mjög lengi hefur verið vitað að að um þessi áramót yrði breyting á starfsumhverfi svona stofnana og því einkennilegt að svona mál sé á þessu stigi núna.

En þetta er ekki einsdæmi í félagslega kerfinu heldur gerast svona hlutir og hafa gerst mjög oft.

Oftast gerist þetta þannig að ýmist stefnir í fyrirsjáanlega breytingu á rekstri eða að yfirvöld gefa í skyn að slík breyting sé yfirvofandi. Síðan líður og bíður og það myndast óvissuástand líkt og í kjaradeilu þar sem samningar eru að renna út og líið sem ekkert er að gerast. 

Fátt verður um svör þegar eftir er leitað, heldur virðist ríkja hinn gamli íslenski hugsunarháttur: Þetta fer einhvern veginn, þetta reddast.

Þegar málið er komið á það stig, fær það í raun á sig einkenni kjaradeilu, - þar sem málsaðilar eru vinnuveitendur og launþegar, sem eru þá fyrst og fremst komnir í kunnuglegar skotgrafir slíkra mála, og hagsmunir þeirra, sem þjónustunnar eiga að njóta, eru ekki lengur aðalatriðið í atburðarásinni, heldur hagsmunir vinnuveitenda og launþega. 

Ýmis ummæli, sem í slíku ástandi falla í hita leiksins, orka þá tvímælis og eru engum til framdráttar.

Höfuðástæða þess, að mál fara í þetta far er sú, hve lengi dregst að ganga frá öllum hnútum, en það fyrirbæri virðist vera frekar regla en undantekning hér á landi. 

 


mbl.is Áframhaldandi þjónusta tryggð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband