21.2.2009 | 21:42
Gáttaður á sérfræðingunum - og þó.
Ég verð að segja það þótt ég teljist leikmaður á sviðið fjármálalífs heimsins er ég gáttaður á því að helstu sérfræðingar á því sviði séu gáttaðir á stærð og alvarleika heimskreppunnar.
Kreppan 1930-40 breiddist út frá Bandaríkjunum og hafði gríðarleg áhrif í flestum löndum heims, en auðvitað langmest í þeim löndum sem voru tengdust alþjóðlegu fjármálakerfi þess tíma og heimsviðskiptum.
Núna eru miklu fleiri lönd tengd saman í fjármálakerfi heimsins en var 1930 og á margfalt stærri veg. Þess vegna er eðliegt að kreppan núna verði jafnvel síst minni, enda þótt öflugri ráðum og samræmdari sé hægt að breyta en fyrir tæpum áttatíu árum.
Þótt það þekktist að einstakar þjóðir gætu með öflugum ráðstöfunum alræðiststjórnar stytt kreppuna á sinni tíð, eins og til dæmis Þjóðverjar frá 1934-1939, var það ekki einhlítt.
Ég las til dæmis í fyrra merkilega bók um nasismann og stríð þar sem leidd eru mjög öflug rök að því að sú aðferð Hitlers að vinna bug á kreppunni og atvinnuleysinu með mestu hernaðaruppbyggingu sögunnar gat ekki gengið nema um skammt árabil. Þetta byggðist á ábyrgðarlausum lántökum og fjárfestingum sem gátu ekki staðist á friðartímum til frambúðar. 1937 rak Hitler fjármálaráðherra sinn og fór einn sínu fram eftir það.
En frá upphafi var ljóst að Hitler stefndi ekki að friðartímum, heldur var þetta meðvituð og kaldrifjuð áætlun sem byggðist á stríði sem forsendu og takmarki.
Hrun var óhjákvæmilegt nema að hinn nýi herbúnaður yrði notaður í stríði eigi síðar en 1940 til þess að ná undir Þjóðverja auðlindum og vinnuafli annarra þjóða svo að hægt væri að uppfylla tvö skilyrði hervæðingarinnar, -annars vegar að vopnin yrður notuð og hins vegar að tryggja að hægt væri að borga fyrir hana.
Efnahagslega var heimsstyrjöldin 1939-45 því þegar fyrirsjáanleg eftir að þessi þensla hafði staðið í nokkur ár. Churchill sá hana fyrir í árslok 1935 án þess að geta fært á það pottþéttar sönnur og hann talaði fyrir daufum eyrum, rétt eins og ýmsir sérfræðingar töluðu um íslensku þensluna þegar árið 2006.
Gunnar Tómasson sagði mér, þegar ég hitti hann um daginn, að því miður yrði Obama að leita til séfræðinga sem væru fastir í hinum úreltu og röngu hagfræðikennisetningum sem lýstu frekar trúarbrögðum en vísindum.
Kannski ætti ég því ekki að vera gáttaður á þessum ráðgjöfum. Það er eðlilegt að þeir skilji niðursveifnuna ekkert betur en uppsveifluna á sínum tíma sem þeir trúðu á eins og guðspjöll.
![]() |
Jafnvel sérfræðingar eru gáttaðir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
21.2.2009 | 21:17
Vel að þessu komin.
Á sínum tíma gat ég ekki orða bundist hér á blogginu þegar Þóra Kristín brilleraði í einni af snilldarfréttum sínum á mbl.is. Það gleður mig því mikið að hún skuli hampa þessum verðlaunum.
Ekki er síðra að minn góði vinur RAX skuli vera verðlaunaður ásamt sínum samverkamanni fyrir verk, sem ég vissi vel af nánum kynni við það flókna og víðfeðma verkefni sem íslenskir virkjanakostir eru.
![]() |
Þóra Kristín blaðamaður ársins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.2.2009 | 13:05
Áhættufíknin í forgang í hvalveiðum og loðnuveiðum?
Greinilegt er að margt er óljóst um stöðu loðnunnar nú um stundir. Áhættufíknin sem olli græðgisvæðingunni og hruninu mikla hefur ekki horfið eins og sést best á því að það þykir allt í lagi að setja meira en þriggja milljarða viðskipti með fisk í uppnám með því að heimila hvalveiðar sem gefa aðeins atvinnu í nokkra mánuði og ekki nema brot af þessum fisksölutekjum.
Ég minnist þess ævinlega með hrolli þegar allir helstu aflaskipstjórar loðnuflotans sendu áskorun til sjávarútvegsráðherra, sem mig minnir að þá hafi verið Matthías Bjarnason, þar sem harðlega var mótmælt stöðvun loðnuveiðanna þegar veiðiflotinn elti hana vestur með Suðurlandi í áttina vestur á Faxaflóa.
Skipstjórarnir fullyrtu að enn væri loðna í hundraða þúsunda tonna tali á miðunum.
Síðar kom í ljós að þrátt fyrir stöðvunina lá við nærri að hinir veiðiglöðu skipstjórar hefðu klárað loðnuna upp til agna.
Þótt það kunni að vera að allt í lagi sé að ganga til verks gagnvart loðnunni núna sýnist mér bara alltof mikil óvissa ríkja til þess að taka hana þá áhættu, sem nú virðist í tísku að taka á öllum sviðum vegna slæms ástands.
Og menn virðast reiðubúnir til að taka gríðarlega áhættu gagnvart afleiðingum hvalveiðanna að ekki sé minnst á kröfu Framsóknarmanna og annarra um að sækja nú harðar fram í stóriðjuframkvæmdum en nokkru sinni fyrr.
![]() |
Loðnukvóta strax |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
20.2.2009 | 14:16
Munið þið eftir "fíkniefnalausu Íslandi árið 2000" ?
Ég er mikill áhugamaður um aukið öryggi í umferð og hef barist fyrir notkun bílbelta í meira en 30 ár. Ég er líka bindindismaður og vil ekki sjá fíkniefni, hvorki áfengi né dóp. En þegar lagt var upp með það fyrir rúmum áratug að stefnt yrði að fíkniefnalausu Íslandi árið 2000 (gott ef það var ekki Framsóknarflokkurinn sem gerði það) fannst mér það grátbroslegur barnaskapur.
Það þýðir ekki að það sé ekki hægt að stórfækka banaslysum í umferðinni þannig að þau verði brot af því sem nú er. Þar má ná miklum árangri með forvarnarstarfi, eftirliti og almannavilja. Minna má á, að nú líður hvert árið af öðru án banaslyss í flugvélum hér á landi.
En mér finnst það barnaskapur að halda að hægt sé að útrýma banaslysum frekar en öðrum slysum á sama tíma og nú á að skera niður útgjöld til forvarna við trog vegna kreppunnar. Reynum að setja okkur raunhæf markmið.
![]() |
Banaslysum í umferðinni verði útrýmt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
20.2.2009 | 14:05
Tilefni til uppstokkunar á orkuvinnslunni.
Þegar ég vann að umræðuþætti um Kröfluvirkjun 1978 komst ég að því að þær aðferðir, sem Guðmundur Pálmason hafði lagt til að hafðar væru við að nýta háhitasvæði, höfðu verið settar til hliðar og vaðið áfram í orkuvinnslunni á Kröfusvæðinu í trássi við þær. Það var hið raunverulega Kröfluhneyksli en féll í skuggan af meintu hneyksli í samskiptum við Mitsubishi sem aldrei var sannað neitt misjafnt um.
Á þessum tíma var vaðið áfram á ofurhraða í virkjun Kröflu vegna áherslu þingmannanna fyrir norðan á að alls ekki mætti fá þangað rafmagn um "hundinn að sunnan" eins og hugsanleg raflína norður var kölluð. Upphaflega höfðu menn ætlað að æða áfram í raforkuöflun nyrðra með ótrúlega stórkarlalegum fyrirætlunum um svonefnda Gljúfurversvirkjun, sem mývetnksir bændir stöðuðu með dínamitsprengingu við Miðkvísl.
Síðustu ár hefur verið vaðið hraðar áfram í virkjun háhitasvæða en nokkru sinni fyrr, þvert ofan í þá stefnu sem Guðmundur Pálmason lagði upp með á sínum tíma og gegn aðvörunum reyndra manna á borð við Jóhannes Zoega, fyrrum hitaveitustjóra í Reykjavík.
Þegar lesin eru verk og ummæli Braga Árnasonar, Sveinbjörns Björnssonar, Stefáns Arnórssonar og Gríms Björnssonar blasir við að með núverandi tækni endist jarðvarmninn á Reykjanesskaganum aðeins í um hálfa öld.
Samkvæmt ágiskunum í ritum Braga Árnasonar mætti nýta svæðið frá Nesjavöllum út að Reykjanestá á endurnýjanlegan og sjálfbæran hátt með því að virkja aðeins þriðjung af því afli sem nú á að pumpa upp úr þessum svæðum.
Það mætti gera á á tvo mismunandi vegu: Annars vegar þann að virkja aðeins þriðjung svæðanna í einu, fimmtíu ár í senn, en Bragi giskar á að það taki 2x50 ár, eða öld fyrir svæðin að jafna sig eftir oftöku á borð við þá sem nú er.
Hins vegar mætti hugsa sér að taka aðeins þriðjung þeirrar orku sem nú er pumpað upp úr svæðunum þannig að geti öll verið í stöðugum rekstri á sjálfbæran hátt til framtíðar.
Í stað risaálvers ætti núað staldra við og fá í staðinn fyrirtæki sem nota miklu minni orku með engri mengun og betur launuðum störfum.
Oftökustefnan í virkjununum er af sama toga og ofvöxtur bankakerfisins var á sínum tíma, byggð á skammtímagræðgi og tillitsleysi gagnvart komandi kynslóðum. Áframhald á sömu braut lyga um endurnýjanlega orku er ekki bara skammarleg fyrir þjóðina heldur mun hún koma okkur í koll fyrr eða síðar. Nú er lag til að standa að þessu eins og menn.
![]() |
Álver í Helguvík í óvissu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.2.2009 | 00:47
Bjóðum bara lægra lægsta verð, ekki satt?
Þegar efnahagssamdráttur áranna 1991-95 skemmdi fyrir fyrirætlunum um álver á Keilisnesi sáu íslenskir ráðamenn þess tíma leið út úr því.
Þeir létu bara gera glæsilegan bækling sem Andri Snær Magnasson afhjúpaði áratug síðar á eftirminnilegan hátt. Bæklingur þessi var sendur til allra stóriðjufyrirtækja sem líkleg þóttu til að falla fyrir efni hans, sem var ómótstæðilegt: "Lægsta orkuverð og sveigjanlegt mat á umhverfisáhrifum sem engar áhyggjur þarf að hafa af."
Þetta var pottþétt og hreif. Á Íslandi var tryggt að ekki þyrfti að gefa seljendunum, íslensku þjóðinni, upp orkuverðið. Það varð að koma álver, hvað sem það kostaði.
Dæmi um það hve skefjalaus og alger krafan var um álver var að samkvæmt Keilisnes-áætluninni átti álverið að rísa hér syðra en aðeins örfáir að fá framtíðarvinnu við Fljótsdalsvirkjun fyrir austan.
Það skipti Austfirðinga engu máli þá. Aðalatriðið var að fá virkjanaframkvæmdir í nokkur ár sem myndu gefa tímabundin atvinnutækifæri, hækka fasteignaverð nógu mikið til að fólk eystra losnaði úr átthagafjötrum, gæti selt hús sín og flutt suður.
En víkjum aftur til aldamótanna. Stóriðjuáformin voru gerð aðlaðandi með loforðum um umhverfisvæna, endurnýjanlega og hreina orku, sem hægt væri að auglýsa um allan heim til að gefa álverum á Íslandi ómótstæðilegan gæðastimpil með tilheyrandi viðskiptavild, sem hægt var að meta til mikils fjár.
Tryggt var að allir æðstu ráðamenn þjóðarinnar myndu nýta hvern einasta fund eða ráðstefnu um málin til að gylla þetta fyrir umheiminum.
Engu skipti þótt staðreyndin væri sú að mestöll orkan, sem í boði væri á Reykjanesskaganum entist aðeins í nokkra áratugi og væri miðuð að meðaltali við 50 ára endingu, sumt styttra, sumt lengra. Þeirri staðreynd yrði drekkt í skálaglamri kokkteilboða og víðtækri auglýsingaherferð um forystu Íslendinga í sjálfbærri þróun.
Fyrst yrði því lofað að álverin í Helguvík og á Bakka þyrftu aðeins að verða 240 þúsund tonn til að standast hagkvæmniskröfur. Þegar búið væri að komast það langt að ekki yrði aftur snúið, myndin talan hækka um 100 þúsund tonn.
Þess vegna heldur Helguvíkurverkefnið áfram að vera álitlegur kostur í augum álfyrirtækjanna. Íslendingar liggja nú afvelta í afleiðingum eigin gróðafíknar og munu lækka orkuverðið eins og þurfa þykir og sætta sig við stærra álver eftir pöntun álfurstanna.
Jón Gunnarsson og aðrir þingmenn kjördæmisins munu hrópa því hærra á framkvæmdir sem minni líkur verði á að þær verði að veruleika. Við verðum að fá álverið, sama hvað það kostar, sama hvað það verður stórt, sama hvað miklu af náttúruverðmætum verður fórnað, sama hvað álverðið verður lágt, sama hve miklu verður að ljúga um hina endurnýjanlegu orku !
Hægt verður að lækka orkuverðið niður í það óendanlega án þess að það vitnist. Það er viðskiptaleyndarmál hvort eð er og því verður aldrei breytt. Tryggt verður að ekki sé hægt að mynda ríkisstjórn á Íslandi nema annar hvor eða helst báðir mestu stóriðjuflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur eða Framsókn verði með úrslitavald í þessum málum þótt Samfylking eða VG sé að forminu til með ráðuneytin sem þetta heyrir undir.
Þetta er svo skothelt !
![]() |
Tap Century 898,3 milljónir dala |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
19.2.2009 | 14:45
"Alltaf er nú munur að fara í hreint."
Náungi einn sem ég hitti fyrir nokkrum dögum hitti naglann á höfuðið þegar hann sagði að Framsókn minnti sig á kerlinguna, sem ætlaði að hífa sig upp úr skítnum, dubba sig flotta upp og fara á ball þar sem átti að slá í gegn og verða stelpan sem færi heim með sætasta stráknum eftir ballið.
Kerlingin byrjaði á því að fara úr nærbuxunum, sneri þeim úthverfum, fór í þær aftur og sagði: "Alltaf er nú munur að fara í hreint."
![]() |
Segir sig úr Framsóknarflokknum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.2.2009 | 12:12
Dæmi um "eitthvað annað".
CCP er gott dæmi um það sem stóðiðjusinnar hafa kallað í lítillækkandi og háðslegum tóni "eitthvað annað" þegar þeir hafa haldið því fram að ekkert annað en stóriðja og stórkarlalegur verksmiðjuiðnaður geti bjargað atvinnumálum þjóðarinnar. Varaþingmaður Frjálslynda flokksins talar háðslega um það að ekki sé hægt að lifa af grasi og káli.
Viðmælandi minn einn sagði við mig að við yrðum að halda áfram að virkja alla orku Íslands fyrir álver. "Stefna þín leiðir til þess að við förum aftur inn í torfkofana", sagði hann. "Það er bara um tvennt að velja, fjallagrös eða ál."
Engu breytti fyrir honum þótt ég benti honum á við framleiddum þegar fimm sinnum meiri raforku en við þyrftum til eigin nota og því væri vandséð hvernig við færum aftur inn í rafmagnslausa torfkofa þótt við færum ekki hans leið sem myndi enda með því að við framleiddum tíu sinnum meiri raforku en við þyrftum til eigin nota og útveguðum samt ekki nema 2% af vinnuafli landsins atvinnu.
Fiskveiðar og landbúnaður eru mjög lítill hluti af þjóðarframleiðslu Dana og þeir eiga engar orkulindir né hráefni. Danska þjóðin, 5,4 milljónir manna eða átján sinnum fleira fólk en Íslendingar verður því að lifa af "einhverju öðru" og er með einhver bestu lífskjör í heimi.
Danir eiga nær enga skóga en húsgagnaframleiðsla þeirra tekur fram stærstu atvinnuvegum á Íslandi. Þótt Danir lifi nær eingöngu á "einhverju öðru" eru þeir ekki á leið inn í torfkofa eða á hungurgöngu út á jóskar heiðar til að bíta gras. Danskur stjórnmálamaður, sem vildi láta reisa kjarnorkuver til að knýja álver myndi ekki eiga mikla möguleika á að fá hljómgrunn.
![]() |
CCP með flesta starfsmenn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
19.2.2009 | 10:08
Hvert orð er dýrt.
Hvert orð, sem sagt er og túlka má sem íslenska stjórnarstefnu getur verið dýrt, jafnvel hægt að meta það upp á hundruð milljarða.
Það er merkilegt að tveir af reyndustu og sjóuðustu stjórnmálamönnum þjóðarinnar, fjandvinirnir Davíð Oddsson og Ólafur Ragnar Grímsson, skyldu lenda í þeirri gryfju að orð þeirra yllu titringi og skaða erlendis þegar við þurfum síst á slíku að halda.
Í blaðamennsku er það ein af fyrstu reglunum, sem menn læra, að ef einhver vafi leikur á því að staðhæfing sé fullkomlega rétt eða geti misskilist, sé skást að sleppa henni alveg.
"Við borgum ekki", hin margspilaða setning Davíðs Oddssonar í ljósvakamiðlum heimsins, varð dýrasta setning Íslandssögunnar, og seint hefði maður trúað því að nokkurn vegin sama setning, "við borgum ekki", yrði aftur margtugginn í fjölmiðlum erlendis, en nú úr munni forseta vors.
Í báðum tilfellum máttu sjóaðir stjórnmálamenn vita að í hraða fjölmiðlaumhverfisins myndu útskýringar eftir á, þar sem reynt yrði að draga í land eða saka blaðamenn um að taka ummælin út úr samhengi, hrökkva skammt.
Ég hef áður á þessum vettvangi lýst því hve góður fulltrúi þjóðarinnar forsetinn hefur verið á erlendri grund lengst af ferils síns. Vandséð að annar Íslendingur hefði getað sinnt því betur.
En nú sýna skoðanakannanir vel að traust þjóðarinnar á honum hefur hrapað og að framundan er erfiður róður hjá honum við að endurheimta það. Einkum benda nýjustu upplýsingar til þess að dæmalaus ræða hans yfir sendiherrum erlendra ríkja í boði í danska sendiráðinu hafi verið slæm mistök.
Ég hef gagnrýnt aðra fyrir óskynsamlegt og hrokafullt tal gagnvart umheiminum og hið sama á við forsetann og aðra í þeim efnum.
![]() |
Forsetaviðtal olli skjálfta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.2.2009 | 00:52
Hinar "séríslensku aðstæður".
"Séríslenskar aðstæður" hafa verið eftirlætisorð margra til að réttlæta hluti sem fá að hafa sinn gang hér á landi þótt slíkt þekkist ekki í öðrum löndum.
Dæmi: Á þeim tíma sem ég fjallaði hvað mest um rökin fyrir því að lögleiða notkun bílbelta linnti ekki háværum röddum um "séríslenskar aðstæður" sem gerðu beltin ekki aðeins óþörf hér á landi heldur beinlínis skaðleg.
Þingmenn voru svo hræddir við þetta að þeir leyfðu þá undantekningu frá lögunum að fólk mætti aka um bröttustu og hættulegustu fjallvegina eins og til dæmis Ólafsfjarðarmúla til þess að það gæti kastað sér út úr bílunum ef þeir færu út af veginum og yltu !
Alveg var horft framhjá því að flest banaslys vegna bílbeltaleysis verða vegna þess að fólk kastast út úr bílunum.
Að lokum gerðist síðan hörmulegt slys Ólafsfjarðarmegin þegar bíll fór þar útaf og valt og af hlaust banaslys af því að fólkið var ekki í bílbeltum en auðséð var á bílflakinu, sem var ótrúlega heillegt, að bílbeltanotkun hefði í því tilfelli eins og að meðaltali fimm sinnum á ári hér á landi árlega, bjargað mannslífum.
Ég rökræddi þetta mál mikið við ýmsa, til dæmis einn vin minn fyrir norðan, sem hélt stíft fram hinum "séríslensku aðstæðum." Hann var í karlakór sem fór síðar í söngferð til Noregs og kom þaðan alveg hissa á því að hinar "séríslensku aðstæður" voru algengari þar í landi en á Íslandi og engin undantekning gerð þar á bílbeltanotkuninni !
Nú eru þrjátíu ár síðan ég hóf að fjalla um bílbeltanotkunina í Vísi og í Sjónvarpinu og á þeim tíma hafa um það bil 150 manns farist í bílslysum á Íslandi vegna þess að ekki voru notuð bílbelti.
Og "séríslenskar aðstæður" virðast nú ráða aldeilis óskammfeilinni lagasetningu, rétt fyrir stjórnarskipti.
Í öllum löndum í kringum okkur er það gild regla og viðurkennd, þótt ekki sé það beinlínis lögbundið, að ráðherrar, sem eru við það að láta af störfum, binda ekki hendur eftirmanna sinna með því að setja lög um mikilvæg málefni, sem kunna að vera á skjön við það sem vitað er að eftirmennirnir muni gera. Ráðmenn sem eru á síðasta snúningi á embættistíð sinni eru kallaðir "lame duck", lamaðar endur.
Ákvörðun á borð við þá sem Einar K. Guðfinnsson tók nokkrum dögum fyrir stjórnarskipti þegar fyrirséð var að hann yrði ekki áfram ráðherra yrði bæði talin stangast á við ríkjandi hefðir í öðrum löndum og gjörsamlega siðlaus að auki.
En hér ríkja "séríslenskar aðstæður", með "séríslensku siðferði". "Löglegt en siðlaust"var einhvern tíma sagt og það á vel við nú.
Nú liggur fyrir frumvarp um persónukjör, byggt á því sem reynst hefur best í því efni erlendis.
En Sjálfstæðisflokkurinn leggst hatrammlega á móti því og ber fyrir sig tímaskorti þótt mánuður sé til þingloka. Líklega gilda "séríslenskar aðstæður" í þessu máli eins og svo mörgum öðrum sem bregða þarf fæti fyrir.
![]() |
Kvalræði sjávarútvegsráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)