Sagnir um svipað áður.

Utanríkisráðherra Indlands er ekki einn um það að hafa gert mistök við flutning ræðu.

Hér á árum áður varð presti einum í Reykjavík á í messunni í bókstaflegri merkingu þegar hann hóf að lesa ranga líkræðu í miðri athöfn. Þetta uppgötvaðist í tíma og var leiðrétt, svo að hægt væri ljúka athöfninni.

Ágæta sögu heyrði ég eitt sinn af ræðuhaldi í Sovétríkjunum sálugu, svohljóðandi. 

Leonid Breznef hafði jafnan lesið um tveggja klukkstunda ræðu í upphafi flokksþings Kommúnistaflokksins og nýr aðstoðarmaður í ráðuneytinu benti honum á að reyna mætti að flytja styttri ræðu með sama árangri. 

Breznef tók manninn á orðinu, lét honum í té helstu atriðin sem þyrftu að koma fram í ræðunni, og fól honum að skrifa hana. Breznef var orðinn aldraður og varð feginn af fá þessa hjálp. 

Hann flutti síðan 40 mínútna ræðu og var fagnað meira en dæmi voru um áður. Ætlaði lófatakinu aldrei að linna.

Eftir ræðuflutninginn gekk hann til ræðuskrifarans og þakkaði honum fyrir frábæra ræðu sem hefði verið afburða vel skrifuð og fengið einstaklega góðar viðtökur. 

"Ég þakka", sagði ræðuskrifarinn, "og veit að ræðan var góð. Það var nú samt sem áður alveg óþarfi að lesa hana tvisvar."


mbl.is Las vitlausa ræðu í þrjár mínútur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Að lifa og elska.."

Árum saman ríkti nokkur tregða hér á landi við að taka upp dag elskenda, Valentínusardaginn vegna þess að hann væri erlendur en ekki íslenskur og við ættum ekki að er að apa eftir Ameríkönum.

Við ættum fremur að rækta hina íslensku daga, svo sem sumardaginn fyrsta. 

Fréttir dagsins sýna okkur að Valentínusardagurinn er orðinn viðurkenndur um allan heim og skipta þjóðerni, þjóðmenning eða trúarbrögð ekki máli í því sambandi. 

Allir helstu hátíðisdagar okkar eru komnir til okkar frá útlöndum. Bráðum koma bolludagur, sprengidagur og öskudagur sem eru allir komnir til Íslands með kaþóskum sið sem nefnist fasta. 

Páskar, uppstigningardagur, hvítasunna og aðventa, öll þessi fyrirbæri eru komin frá útlöndum. Líka 1. maí. 

Eftir sem áður eigum við að leggja rækt við gömlu mánuðina, þorrann með bóndadeginum, góuna með konudeginum og fyrsta vetrardag.  Einnig dag þjóðarinnar, dag íslenskrar tungu og dag íslenskrar náttúru. 

Þennan dag fyrir réttum 50 árum hittumst við Helga Jóhannsdóttir í fyrsta sinn og eigum nú 28 afkomendur. Við höfum upp á hann árlega síðan þótt við vissum ekki fyrstu 30 áriin að þetta væri Valentínusardagurinn. 

Í tilefni þessa lagði ég lagið "Að lifa og elska" á eldhúsborðið í morgun og það er viðeigandi í lok dags elskendanna að enda blogg dagsins með texta lagsins, sem ég set kannski síðar inn á tónlistarspilarann minn. 

 

AÐ LIFA OG ELSKA.  (Með sínu lagi) 

 

Þetta´er dagurinn okkar, sem eigum við nú, 

þegar örlögin réðust og ást, von og trú 

urðu vegvísar okkar á ævinnar braut

gegnum unað og mótbyr í gleði og þraut. 

 

Þú varðst hamingjusólin og heilladís mín

og ég hefði´ekki orðið að neinu án þín. 

Ég í fögnuði þakka þegar faðmar þú mig

að hafa fengið að lifa og elska þig. 

 

Og til síðasta dags, ár og síð hverja stund

þá mun sindra björt minning um elskenda fund. 

Ég við ferðalok þakka, - straumur fer þá um mig,  

:,: að hafa fengið að lifa og elska þig:,: 


mbl.is Kysstust í meira en 32 tíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný morðtækni.

 Með tilkomu bloggheima og netheima hefur skapast tækni til nýrrar tegundar af morðum, þ. e. mannorðsmorðum, sem oft eru þar að auki í skjóli nafnleyndar.

Lúkasarmálið svonefnda og upplognar sakirnar í því er svo svæsið mál, að sagan af Gróu á Leiti bliknar í samanburðinum.

Það óhuganlegasta við svona uppspuna er það, að oft er hann smásmugulega nákvæmur. Tilgangurinn með því er að gera lygarnar sem allra sennilegastar.

Fólk hugsar: Þetta hlýtur að vera satt. Annars væri vitnisburðurinn ekki svona nákvæmur.

Ég get nefnt hliðstætt dæmi þar sem rógberinn vísaði ofan á allt í opinberar skýrslur, sem fólk gæti sjálft kynnt sér til að sannreyna hinn ótrúlega stóra og grófa áburð hans. 

Lygar þess manns voru svo sannfærandi, að enginn hafði fyrir því að kynna sér hinar opinberu skýrslur, - það óraði engan fyrir því hve ósvífinn rógberinn var. 


mbl.is Ummæli dæmd dauð og ómerk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Liggur samt áfram í Blönduósbæ.

Eitt meginatriðið, sem vill gleymast varðandi hugmyndir um 14 km styttri leið "framhjá Blönduósi" er það að eftir sem áður myndi hringvegurinn liggja á 3ja kílómetra kafla um land Blönduósbæjar. Blönduósingar myndu einfaldlega færa þjónustufyritæki sín að nýju brúnni í Langadal.

Bærinn Fagranes í Langadal, sem nefndur er í frétt á mbl.is, er í Blönduósbæ og sömuleiðis þrír næstu bæir sunnan við hann, sem liggja við hringveginn, Hvammur, Skriðuland og Móberg. 

Í lófa lagið er að gera svipað þarna og þegar nýr Suðurlandsvegur var á sínum tíma lagður "framhjá Hellu" um nýja brú. Þeim sem hlut áttu að máli, var veittur stuðningur til þess að reisa ný þjónustufyrirtæki við nýju brúna í stað þeirra gömlu inni í þorpinu. 

Í dag myndi engum detti í hug að þjónustufyrirtækin, sem þarna risu, hefðu frekar átt að vera "inni í þorpinu" við gömlu brúna. 

Að vísu var mun skemmra á milli nýju brúarinnar og þeirrar gömlu á Hellu en yrði milli þeirra brúa sem um er rætt í landi Blönduósbæjar. 

En munurinn er sá að nú eiga allir bíla og vegir eru ósambærilega miklu betri en þá var.

Hringvegurinn hefur áður verið styttur við Blönduós fyrir tæpri hálfri öld.

Þá var nýr vegur lagður beint yfir á nýja brú í stað þess að taka krók niður í gamla þjónustukjarnann við ströndina. 

Að sjálfsögðu færðust helstu þjónustufyrirtækin þá til og byggð fór líka að skapast hinum megin við ána.

Auk þessarar hagkvæmustu styttingar vegar, sem möguleg er á Íslandi, má nefna, að með því að fara þvert frá Stóru-Giljá yfir í miðjan Langadal, losna menn við einn versta illiviðrakaflann á hringveginum að vetrarlagi, en hann er á nóverandi hringvegi í utanverðum Langadal og veldur árlega vandræðum fyrir vegfarander í norðanstórhríðum. 

Þegar ég var í sveit í Hvammi fyrir 60 árum og horfði úr fjallinu fyrir ofan bæinn yfir til Stóru-Giljár undraðist ég það af hverju vegurinn lægi ekki þessa beinu leið og það yfir eitt besta vaðið, sem til er á Blöndu. 

Undrun mín hefur síðan vaxið með hverju árinu. 

Þess má að lokum geta að brú þarna yrði miðja vegu á milli núverandi brúa á Blöndu og myndi verða samgöngubót innan héraðs. 

Það er ekkert mál fyrir þá, sem ættu heima á Blönduósi, að fara í 10 mínútna akstri til vinnu við nýjan þjónustustað hjá brúnni yfir Mjósyndi við Fagranes. 

Skoðun mín á þessu máli er alveg í samræmi við skoðun mína á Reykjavíkurflugvelli. 

Staðsetning flugvallar í Reykjavík er ekki frekar einkamál okkar Reykvíkinga en lega hringvegarins í landi Blönduósbæjar. 


mbl.is Vilja stytta hringveginn um 14 km
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótlætið skapar meistarann.

Eiður Smári Guðjohnsen hefur hlotið nokkurn veginn eins mikla viðurkenningu og knattspyrnumaður getur óskað sér. Spilaði um helstu titla í knattspyrnuheiminum með liði, sem hefur oft verið talið besta knattspyrnufélag heims. 

En lífið í hinum harða heimi vinsælustu íþróttar heims er ekki alltaf dans á rósum og það hefur Eiður Smári fengið að reyna. Undanfarin misseri hafa verið mögur hjá honum og heppnin hefur ekki verið með honum. 

Sumir myndu hafa látið sér nægja að ylja sér við forna frægð, en Eiður gerir það ekki, þótt á móti blási. 

Það leiðir hugann að þeim, sem lengst ná á þessu sviði og öðrum.

Sagan geymir mörg nöfn afburða íþróttamanna, sem áttu mikilli velgengni að fagna. Hjá mörgum þeirra virtist ferillinn dans á rósum og til hafa verið þeir sem sýndu mikla útsjónarsemi varðandi það "að hætta á toppnum" eins og það er kallað. 

Oft var það vegna þess að þeir voru þeirrar gerðar að þola ekki að tapa eða eiga of erfiða daga. 

Aðrir urðu fyrir því óláni að lifa sjálfa sig, ef svo mátti segja, halda alltof lengi áfram og skaðast jafnvel á því. 

Rocky Marciano var í hópi hinna fyrrnefndu. Hann hætti á toppnum 1955 og skildi eftir sig skarð og nokkurs konar ládeyðu í þungavigtinni, sem entist í fimm ár. Fyrir bragðið er hann eini heimsmeistarinn í þungavigtarsögunni sem aldrei tapaði á atvinnumannsferli sínum, heldur hætti með tölurnar 49-0. 

Muhammad Ali er dæmi um þá síðarnefndu, sem gafst ekki upp, þótt við mikið mótlæti væri að stríða, heldur stóð upp úr striganum og endaði með því að afreka það ómögulega, að verða aftur heimsmeistari sjö árum eftir að hann var sviptur titlinum vegna hetjulegrar hugsjónabaráttu. 

Endurheimtin varð einhver eftirminnilegasti og dramatískasti íþróttaviðburður sögunnar, "The rumble in the jungle" því að Ali þurfti að fást við George Foreman, hnefaleikara sem var talinn þvílíkur yfirburðamaður, að hann væri algerlega ósigrandi. 

Sport illustrated og fleiri virtir aðilar völdu Ali sem íþróttamann síðustu aldar, ekki vegna þess að hann hefði verið ósigrandi, heldur vegna þess hvernig tók mótlæti, sem flestir venjulegir menn hefðu látið buga sig. 

Þannig eru sannir meistarar. Þeir sanna sig ekki þegar allt leikur í lyndi heldur skapar mótlætið meistarann. 

Í lokin elskað Ali þó mótlætið um of og hefði átt að hætta árið 1976 og losna þannig við nokkra bardaga þar sem hann var barinn hræðilega, einkum í bardaganum við Ernie Shavers, höggþyngsta mann hnefaleikasögunnar.

Já, það getur verið erfiðara að hætta á réttum tíma heldur en að komast á toppinn. 

 

 

 

 


mbl.is Hughes: Eiður einn af okkar betri leikmönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rifjar upp minningar frá rallinu 1981.

Varmaland í Svíþjóð og landslagið þar skipar sérstakan sess í huga mér eftir ævintýrið sem við bræðurnir, Jón og ég, áttum þar í heimsmeistarakeppninni í ralli 1981.

Nú eru liðin rétt 30 ár frá þessari miklu upplifun sem endaði á þann undraverða hátt að við komumst í mark og vorum í miðjum hópi 130 bíla, sem hófu keppni. Síðan liðu næstum því 30 ár þangað til Íslendingum tókst næst að komast í mark í ralli, sem er liður í heimsmeistarkeppninni.

Og nú er hægt að segja að það sé ekki sama Jón og séra Jón, ef marka má fréttina af því að einn snjallasti rallökumaður heims, Norðmaðurinn Petter Solberg, hafi verið sviptur ökuréttindum fyrir hraðakstur á síðustu ferjuleiðinni. 

Þetta gerðu Svíarnir ekki við sinn mann 1981.

Á einni ferjuleiðinni áleiðis að sérstakri sérleið, sem rudd var á ísi á ánni Klarelfi, þeysti heimamaðurinn Per Eklund fram úr okkur á öðru hundraðinu, að verða of seinn til að mæta í rásmark sérleiðarinnar. 

Lögregla var þarna, en leit fyrir einskæra tilviljun í aðra átt, þegar þjóðhetja Varmlendinga braut hressilega af sér. 

Sérleiðin sú arna varð mest uppörvandi sérleið keppninnar. Hún var rudd nokkrum klukkustundum áður en keppt var á henni, þannig að allir keppendur stóðu jafnt að vígi á henni. 

Okkur tókst að komast í 25. sæti á leiðinni, ef ég man rétt, og vorum bara bærilega ánægðir með það miðað við það að þarna voru aðeins allra bestu ökumenn heims. 

En enn þann dag í dag heyri ég í huganum drunurnar í Porche-bíl Per Eklunds, þegar hann þrusaði fram úr okkur á bæjargötunni í Arvika og sænsku löggurnar sneru sér og horfðu eitthvað annað á meðan!

 


mbl.is Hirvonen sigraði í Svíþjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hálfrar aldar þróun.

Í hálfa öld hefur ákveðið ferli fest sig í sessi varðandi virkjanaframkvæmdir á Íslandi og hefur nú þróast í ákveðið horf, sem svínvirkar.

1. Byrjað er að tala um virkjanir á viðkomandi svæði, þar sem margt skortir, svo sem vegi, rafmagn, símasamband og aðstöðu fyrir ferðamenn. Smám saman fara þeir, sem málið skiptir, að taka afstöðu til þess hvort það eigi að byggja framangreind mannvirki upp hvað sem virkjunum líði eða hvort hægt verði að "spara" með því að draga samgöngu- og fjarskiptabætur og sjá til hvort Landsvirkjun bjóði það ekki allt fram ókeypis ef hún fær að virkja. 

2. Virkjunaraðilinn býður fram þessar framkvæmdir sem meðlag með virkjunarframkvæmdunum. 

3. Vegagerð, símafyrirtæki og ferðaþjónustufyrirtæki halda að sér höndum þangað til virkjað er og Landsvirkjun efnir loforð sín. 

Þetta hefur gerst aftur og aftur í hálfa öld og smám saman eru allir orðnir meðvirkir í þessu ferli. Meira að segja er uppsetning símasambands á miðju Suðurlandi látin bíða nógu lengi til þess að Landsvirkjun geti boðið fram að sjá um það. 

Og það er gengið enn lengra eins og leiksvið Kröfluelda í Gjástykki og við Leirhnjúki er dæmi um. 

Vandrataðri leið að einu af einstæðustu náttúruundrum heims er lokað með keðju og síðan skrifað um það í blöð að enginn viti um það og þess vegna sé það einskis virði. 

Starfshópur um gildi svæða fyrir ferðaþjónustu kemst að þeirri niðurstöðu að svæðið sé lítils virði fyrir ferðaþjónustu af því að umferð þangað hafi verið svo lítil fram að þessu!

Smám saman skapast gamla ástandið: Það verður engin leið að opna aðgengi að þessu svæði nema Landsvirkjun geri það um leið og hún eyðileggur náttúrugildi þess! 

Nokkrir stórfossar í Efri-Þjórsá á stærð við Gullfoss eru taldir lítils virði fyrir ferðaþjónustu vegna þess að þeir hafi verið svo óaðgengilegir að þeir séu nær óþekktir. 

Eina leiðin til þess að "opna aðgengi" að svæðinu sé að virkja fossana og eyða þeim! 


mbl.is Segi mútur og skrifa mútur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er fjórðungur meirihluti?

Stóru fyrirsagnirnar í fjölmiðlum í dag er mikil andstaða þjóðarinnar við stjórnlagaþing, ef marka má það að andstöðunni er slegið upp í fyrirsögnum, eins og sést af fyrirsögninni við fréttina sem þessi pistill er tengdur við.

Bæði á bloggi og í máli manna í dag er talað um að sárafáir hafi kosið þessi 25 og talað um að sá, sem síðastur fór inn, hafi fengið aðeins 300 atkvæði og við mig er sagt að ég hafi þessi tala hjá mér hafi verið aðeins 2400. 

Þeir, sem þetta viðmið nota, telja aðeins þau atkvæði sem viðkomandi fengu í 1. sæti af 25.

Þeir meta einskis hvað mig varðar þau 22 þúsund atkvæði í sæti 2-25 sem mér voru greidd. Þessi 22 þúsund voru væntanlega á móti því að ég yrði kjörinn!

Mér má svo sem vera sama persónulega hvað mig varðar, en hvað um vilja þessara 22 þúsunda, sem þau létu í ljósi? 

Og síðan er það fylgið á bak við þá persónu sem var síðust inn. Um sjö þúsund kjósendur settu nafn hennar á kjörseðilinn sem tákn þess að þeir vildu að hún sæti á stjórnlagaþingi. 

Það er talsverður munur á tölunni 300 sem ég veit ekki hvernig í ósköpunum er fundin út, og 7000. 

 

 

 


mbl.is Fjórðungur vill ekki stjórnlagaþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grípandi lag!

Meginstaf lagsions "Aftur heim" söng eitt allra laga í hausnum á mér eftir að ég heyrði lögin, sem kepptu það kvöld. Það er stærsti kostur lagsins en getur líka verið ókostur, því að þá er hætta á því að maður fái leið á því.

En í lokakeppni Evróvision verður þetta kostur, því að fjöldi laganna er svo mikill, og þetta lag,"Aftur heim" verður líkast til nokkuð ólíkt öðrum lögum sem verður flutt í Dusseldorf. 

Að minnsta kosti heyrist mér að bæði í Noregi og Svíþjóð gangi yfir frekar einhæfur smekkur varðandi það hvað séu "góð Evróvisionlög" og í keppninni í Svíþjóð, sem ég heyrði fyrir hreina tilviljun, var þessi einhæfni áberandi í nær öllum lögunum og mér fannst hennar gæta líka hér heima í nokkrum laganna. 

Í hitteðfyrra greip norska lagið mig svo gersamlega við fyrstu hlustun að ég féll algerlega fyrir því frá þeirri stund. 

Hvort "Aftur heim" getur notið þess hve grípandi það er, er hins vegar allsendis óvíst. 

Ef einhvern tíma hefði verið grundvöllur fyrir lagi sem byggði á heimsfrægð eldgossins í Eyjafjallajökli var það nú. Eftir ár verður sá möguleiki að mestu liðinn hjá. Flutningur lagsins "Eldgos" var áhrifamikill í kvöld en Magni og Jógvan eru dæmi um söngvara sem geta gert söngvakeppni að söngvarakeppni. 


mbl.is „Aftur heim“ sigraði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stolt Íslands.

Það þótti ekki öllum sjálfgefið fyrir tuttugu árum að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna. Þau höfðu verið hluti af Sovétríkjunum í hálfa öld og Gorbasjof hikaði ekki við að senda hermenn og skriðdreka á vettvang þegar íbúar þessara ríkja gáfu til kynna að þeir vildu brjótast undan okinu.

Margir óttuðust reiði og áhrif stórveldisins og þjóðir heims tvístigu því í þessu máli. 

En einn stjórnmálamaður virtist ekki í vafa á þessum tíma um það hvað bæri að gera; Jón Baldvin Hannibalsson, utanríkisráðherra Íslands, og blés á úrtöluraddirnar. 

Mörgum sýndist hann vera að leggja til aðgerð, sem væri áhættusöm, en reynslan sýndi, að stöðumat hans var hárrétt og fyrir bragðið leikur sérstakur ljómi um nafn Íslands í Eystrasaltslöndunum. 

Á þeim tímum sem orðstír okkar hefur laskast mjög er dýrmætt að eiga atvik í sögu landsins okkar sem ljómi mun leika um á meðan land byggist. 


mbl.is Afhjúpaði minningarskjöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband